Ríkisvald og bankarekstur

Geir ÁgústssonGeir Ágústsson

Stjórnmálamenn telja sig gjarnan vita betur en aðrir hvað er öðrum fyrir bestu. Þess vegna vilja þeir að ríkisvaldið eigi banka – sem flesta og sem lengst.

Þetta er að hluta til skiljanleg afstaða. Ríkisvaldið veldur miklum usla með því að starfrækja seðlabanka, tryggja innistæður og framfylgja miklu lagasafni sem á að tryggja að ekkert fari úrskeiðis. Fæstir stjórnmálamenn gera sér hins vegar grein fyrir skaðsemi af miklum umsvifum ríkisvaldsins.

Þess vegna vilja þeir líka að ríkisvaldið eigi banka sem þeir geta þá notað til að draga að einhverju leyti úr skaðsemi ríkisafskiptanna. Banka má nota til að framleiða verðbólgu sem er t.d. hægt að nota til að lækka kaupmátt launa og styðja þannig við útflutningsfyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.

Á það hefur verið bent að á hinum svokölluðu aflandseyjum hafi lítið orðið vart við bankahrunið árið 2008. Þar þurfa bankar að keppa í trausti en ekki í því hver er bestur í samkvæmisdansinum við ríkisvaldið.

Nú er talar um að ríkisvaldið þurfi að eiga banka um mörg ókomin ár og ekkert er minnst á að draga ríkisvaldið úr framleiðslu peninga (með aðstoð og notkun viðskiptabankanna) eða breyta kerfinu sem hrundi svo eftirminnilega.

Má ekki þess í stað bara gefa landsmönnum bankana og um leið afnema innistæðutryggingar og koma ríkinu úr peningaframleiðslu og verðlagningu lánsfjár? Stjórnmálamenn eru margir hverjir vel gefnir einstaklingar en hefur reynslan sýnt að þeir kunni að stunda bankastarfsemi (Íbúðalánasjóður er hér augljóst dæmi)?