Hvað með hvalreka fyrir alla?

Geir ÁgústssonGeir Ágústsson

Af einhverjum ástæðum hafa yfirvöld beint eða óbeint lagt mikla áherslu á að á Íslandi sé framleitt mikið af afþreyingu. Já, afþreyingu sem hjálpar fólki að losna við frítímann sinn yfir einhverju áhorfi eða tölvuleikjaspilun.

Afþreyingariðnaðurinn á Íslandi nýtur endurgreiðslna, skattaívilnana og allskyns aðstoðar.

Á meðan sitja aðrir verðmætaskapandi aðilar eftir með fulla skattheimtu og þurfa jafnvel að eiga við flókið kerfi sem beinlínis hindrar verðmætasköpun þeirra.

Almennir skattgreiðendur fá heldur enga sérstaka afslætti eða endurgreiðslur.

Nei, það er talið mikilvægast að framleiða afþreyingu sem mætti í mörgum tilvikum kalla tímasóun.

Já, orðum þetta svona: Á Íslandi er ríkisvaldið duglegt að niðurgreiða eða styðja við tímasóun.

Vissulega er afþreyingariðnaðurinn mikilvægur og hann skilar líka gjaldeyri til Íslands og skapar mörg störf en ég spyr mig samt: Af hverju er afþreying svona gríðarlega mikilvæg að hún þurfi að njóta sérkjara á meðan aðrir þurfa að starfa í umhverfi himinhárrar skattheimtu þar sem hið opinbera flækist fyrir í hverju skrefi?