Þröstur hefur alltaf haft varan á sér þegar settar eru fram töfralausnir eða eins konar „fix-ídeur“ til að leysa vandamál. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, telur sig hafa lausn á vanda Sjálfstæðisflokksins – sem ekki hefur náð fyrri pólitískum styrk sínum. Styrmir telur nauðsynlegt að forysta flokksins verði kjörin í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal allra flokksbundinna sjálfstæðismanna.
Í pistli sem birtist 23. apríl á bloggsíðu sinni fjallar Styrmir um vandasamar ákvarðanir sem stjórnmálaflokkarnir standa frammi fyrir – jafnt þeir sem eru í stjórn og þeir sem eru í stjórnarandstöðu. Um Sjálfstæðisflokkinn skrifar Styrmir:
„Sjálfstæðisflokkurinn horfist í augu við þann veruleika að hann hefur sennilega misst með varanlegum hætti fyrri stöðu sína í íslenzkum stjórnmálum. Alla vega sýnir hann engin merki þess að hann ætli að bregðast við fylgistapi af þeirri stærðargráðu að algengt fylgi í kosningum var í kringum 37% og lægri tölur voru taldar ósigur. Nú eru fylgistölur í könnunum 20-27% og að því er virðist sýnist flokkurinn vera að byrja að sætta sig við það. Gerist það er leikurinn tapaður.
Hinn kosturinn er sá að taka róttækar ákvarðanir um breytingar með lýðræðisvæðingu flokksins á þann veg að forystusveit hans verði kjörin í allsherjarkosningu meðal allra flokksbundinna meðlima og meginstefna ákvörðuð með sama hætti.
Hafi núverandi forysta ekki kjark til að stíga þetta skref er ekki við miklu að búast.“
Þröstur, sem er dyggur lesandi bloggsíðu Styrmis, dregur í efa að tillaga ritstjórans fyrrverandi sé ein allsherjarlausn, en hana hefur Styrmir boðað í mörg ár. Styrmir er í raun ekki að leggja annað til en að Sjálfstæðisflokkurinn taki Samfylkinguna sér til fyrirmyndar en þar er formaður kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu flokksmanna. Ekki hefur það reynst gæfulegt: Samfylkingin er í sárum – tveir af hverjum þremur stuðningsmönnum flokksins hafa horfið líkt og dögg fyrir sólu. Að óbreyttu er Samfylkingin að breytast í smáflokk með þröngan hóp menntamanna sem öllu ráða.
En auðvitað er Þröstur gamaldags. Hann heldur enn að málefni skipti einhverju, að stefna í skattamálum, atvinnumálum, utanríkismálum, heilbrigðis- og tryggingamálum, ráði mestu um gengi flokka í kosningum, að trúverðugleiki forystumanna og kjörinna fulltrúa sé forsenda þess að kjósendur séu tilbúnir til að styðja viðkomandi flokk.