Adolf Hitler og Recep Tayyip Erdogan

Jón MagnússonJón Magnússon

Þann 31.október 1934 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli valdsstjórnarinnar gegn Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi og dæmdi hann í 200 króna sekt fyrir þá landráðasök, að hafa móðgað kanslara Þýskalands, Adolf Hitler með því að kalla hann blóðhund. Þáverandi dómsmálaráðherra höfðaði málið að kröfu þýskra stjórnvalda.

Þann 15. apríl 2016 ákvað Angela Merkel Þýskalandskanslari, að höfða mál á hendur grínistanum Jan Böhmerman að kröfu Tyrkneskra stjórnvalda fyrir að móðga forseta Tyrklands með því að segja að hann kúgaði minnihlutahópa, Kristið fólk og Kúrda.

Þann 26. September 2015 var ráðstefna í danska þinghúsinu í Kaupmannahöfn. Fjallað var um Múhameðsteikningarnar í Jótlandspóstinum og tjáningarfrelsið. Liðin voru 10 ár frá birtingu þeirra. Rithöfundurinn og blaðamaðurinn Henryk Broder flutti þar erindið „Say good bye to Europe“ Aðspurður eftir erindi Broder, hvernig mér hefði fundist það, svaraði ég, að þetta hefði nú verið meira svartagallsrausið. Í erindi sínu vék Broder að takmörkun tjáningarfrelsis í Evrópu sérstaklega þegar vikið væri að Íslam. Hann sagði m.a.

að Evrópa hefði framið sjálfsmorð á grundvelli hugmynda um frið, umburðarlyndi og fjölmenningu. Heigulsháttur og hugmyndafræðileg uppgjöf Evrópu væri í dularklæðum umburðarlyndis.

Þann 25.október 2015 sá ég að Broder hafði rétt fyrir sér. Þá virti Sjálfstæðisflokkurinn ekki tjáningarfrelsið og kom í veg fyrir málefnalega umræðu um málefni flóttamanna og hælisleitenda. Þegar flokkur sem kennir sig við einstaklingsfrelsis og einstaklingshyggju virðir ekki tjáningarfrelsið, þá stendur hann ekki lengur fyrir þær hugsjónir sem hann var stofnaður til að standa vörð um. Heigulsháttur og hugmyndafræðileg uppgjöf birtist þar í dularklæðum umburðarlyndis.

Angela Merkel hefur ákveðið, að ríkisstjórn Þýskalands skuli ráðast gegn tjáningarfrelsinu og ákæra listamann fyrir grín um Tacip Erdogan Tyrklandsforseta að ósk hans. Erdogan hefur fangelsað alla blaða- og fréttamenn Tyrklands, sem hafa vogað sér að gagnrýna hann og benda á staðreyndir um stjórnarfarið í Tyrklandi. Ákvörðun Merkel um að ríkið ákæri listamann að kröfu Erdogan er tekin, þrátt fyrir að Erdogan hafi sjálfur höfðað mál gegn listamanninum fyrir saksóknara í Mainz. Frægasti sonur Mainz erJohannes Gutenberg sem fann upp prentvélina, sem varð upphaf nútímalegrar tjáningar. Óneitanlega sérstæð tilviljun.

Það er dapurlegt, að svo skuli komið fyrir Kristilegum demókrötum í Þýskalandi, flokki Konrad Adenauer, sem nasistar sviptu embætti og komu í útlegð, skuli standa fyrir aðför að tjáningarfrelsinu. Á sama tíma fordæma Græningjar í Þýskalandi Merkel og segja að hún hefði átt að gera Erdogan það ljóst, að það sé tjáningarfrelsi í Þýskalandi og segja honum að virða tjáningarfrelsið heima hjá sér. Formaður Sósíaldemókrata í Þýskalandi fordæmir ákvörðunina, hún samrýmist ekki nútímalýðræði.

Flokkar hægra fólks í Evrópu stóðu vörð um tjáningarfrelsið þegar sótt var að frelsi og mannréttindum á grundvelli heildarhyggju kommúnismans. Nú er sótt að frelsi og mannréttindum á grundvelli heildarhyggju Íslam. Þá bregðast helstu flokkar hægra fólks í Þýskalandi og Íslandi. Málefnalegar umræðu um Íslam og málefni innflytjenda eru ekki heimilaðar og Kristilegi demókrataflokkurinn í Þýskalandi stendur fyrir pólitískri ákæru á hendur listamanni að kröfu blóðhundsins Tacip Erdogan Tyrklandsforseta. Hugmyndafræðileg uppgjöf stjórnenda þessara flokka er alger.

Fyrir tíu árum vísaði Anders Fogh Rassmusen þá forsætisráðherra Dana sendimönnum Íslam út, þegar þeir kröfðust þess að hann bannaði Múhameðsteikningarnar í Jótlandspóstinum og þeim yrði refsað sem bæru ábyrgð á gerð þeirra og útgáfu. Anders Fogh benti þessum kauðum á að í Danmörku væri tjáningarfrelsi og ríkisstjórnir legðu ekki hömlur á það.

Tjáningarfrelsið er mikilvægustu mannréttindi á hugmyndafræðilegu markaðstorgi lýðræðisþjóðfélaga. Reynt er að vega að því með margvíslegum hætti. Íslamistar og taglhnýtingar þeirra ákæra, fólk eins og Oriönu Fallaci, sem nú er látin, Mark Steyn, Geert Wilders o.fl. o.fl., sem staðið hafa fyrir málefnalegri umfjöllun um Íslam.

Ruglaðasti hópur stjórnmála- og háskólaelítunnar úthýsir málefnalegri umræðu m.a. með því að rugla hugtakið hatursumræða og banna eða útvísa umræðu um mikilvæg þjóðfélagsmál . Innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins skipar sérstakan lögreglufulltrúa, til að koma í veg fyrir málefnalega umræðu fari hún yfir þau geðþótta mörk sem þöggunarsinnar telja heimila.

Skoðanalögregla Reykjavíkurborgar lúsles skrif borgarstarfsmanna að næturþeli og veitir þeim tiltal að geðþótta.

Lýðræðissinnar hvar í flokki sem þeir standa verða að rísa upp gegn þeirri ógn sem sóknin gegn tjáningarfrelsinu er. Sókn sem vegur að mikilvægustu mannréttindum og lýðfrelsi. Það verður að gera á sama grundvelli og lýðræðissinnar brugðust við heimsyfirráðastefnu kommúnismans. Nú snýst málið um heimsyfirráðastefna öfga Íslam.