Sparnaðarhugmynd fyrir ríkisvaldið

Geir ÁgústssonGeir Ágústsson

Fjöldi nefnda, starfshópa og verkefnastjórna innan hins opinbera er gríðarlegur. Að sumu leyti er það skiljanlegt. Þingmenn eru oft að fást við flókin mál sem erfitt er að taka afstöðu til og þá er auðvitað leitað ráðgjafar frá öðrum sem þekkja til. Stundum eru stjórnmálamenn með frestunaráráttu og ýta málum frá sér með því að setja þau í nefnd eins og sagt er. Þannig nefndir eru jafnvel ódýrari fyrir skattgreiðendur en að láta einhvern ráðherrann taka ákvörðun.

Þingmenn geta hins vegar nýtt sér nefndafyrirkomulagið með öðrum hætti. Þeir geta nýtt það sem innblástur í sparnaðaraðgerðir fyrir hið opinbera og vísbendingu um hvar megi einkavæða tiltekinn hluta ríkisrekstursins.

Þetta færi þannig fram að eitthvað mál kemur á borð hins opinbera, t.d. hvar eigi að reisa spítala, leggja veg, byggja skóla eða reisa virkjun. Ráðherra finnst málið erfitt viðureignar. Hann hugsar ósjálfrátt að best sé að stofna nefnd. Hann ættihins vegar að hugsa: Af hverju er ég, kjörinn fulltrúi, að eiga við svona tæknilegt úrlausnarefni? Af hverju eru einkaaðilar ekki að finna út úr þessu með viðskiptum, samningum, ráðgjöf sérfræðinga og kaupum og sölu á aðföngum, svo sem landi og nýtingarrétti?

Næsta spurning sem ætti að leita á ráðherra er: Hvernig kem ég þessu hvimleiða máli, sem færi yfirleitt beint í nefnd, af verkefnadagskrá hins opinbera og til einkaaðila?

Því höfum eitt á hreinu: Opinber rekstur er aldrei rétt verðlagður og minnir á mann að fálma út í loftið í dimmu herbergi í leit að stystu leið að dyrunum. Til að úthluta auðlindum, verðmætum og fé rétt (eða sem réttast) þarf að hlusta á skilaboð hagnaðar og taps af rekstri. Opinber rekstur býr ekki við slíkt rekstraraðhald. Nefndir leysa ekki það vandamál.

Þarf að stofna nefnd? Nei, það þarf að einkavæða.