Sumarhefti Þjóðmála er komið út

Sumarhefti Þjóðmála er komið út og hefur verið dreift til áskrifenda. Auk þess er tölublaðið selt í verslunum Pennans/Eymundsson.

Eins og áður er ritið fullt af áhugaverðu efni.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, fjallar í grein sinni, Í ljósi sögunnar, um stöðu efnahagsmála og hvaða lærdóm stjórnvöld geta dregið af reynslu fyrri ára.

Björn Bjarnason, fv. ráðherra, skrifar Af vettvangi stjórnmálanna líkt og hann hefur gert frá upphafi útgáfunnar. Í grein sinni fjallar Björn um breytt vinnubrögð á Alþingi, gerð fjármálaáætlunar, skipun dómara við Landsrétt og fleira.

Óli Björn Kárason, þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, fjallar um tíðar hótanir Pírata í stjórnmálaumræðunni og óþol þeirra fyrir andstæðum skoðunum.

Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur, skrifar um stöðu Brexit að afstöðnum kosningum í Bretlandi.

Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála, skrifar um ítarlega úttekt Oonagh Anne McDonald sem hrekur aftur mýtuna um nauðsyn þess að aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka til að koma í veg fyrir fjármálahrun.

Fjölnir, sem er nýr ritstjórnardálkur, fjallar um það hvernig ókjörnir embættismenn með ekkert lýðræðislegt umboð reyna ítrekað að taka völdin í landinu.

Þá er fjallað um stöðu Theresu May eftir kosningarnar í Bretlandi, ákvörðun Donald Trump um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu sem og viðbrögð hægri manna við ákvörðun Trump um að herða aftur á viðskiptabanninu við Kúbu.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fjallaði um þjóðaröryggismál í nýju ljósi á fundi hjá Varðberg í júní. Þjóðmál birtir meginefnið úr ávarpi Guðlaugs Þórs. Þá er einnig birtur útdráttur úr ræðu Jens Garðars Helgasonar, formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á aðalfundi samtakanna auk þess sem fjallað er um ávarp Rannveigar Rist, stjórnarformanns Samáls og forstjóra Ísal, á ársfundi Samáls.

Þá er fjallað um nokkrar bækur í ritinu. Björn Jón Bragason skrifar um bók Ants Oras, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum, sem kom upphaflega út árið 1948. Björn Bjarnason skrifar um bók Guðrúnar Guðlaugsdóttur, Í hörðum slag – Íslenskir blaðamenn II, þar sem fjallað er um störf blaðamanna á Íslandi. Sigurður Már Jónsson skrifar um bók Yeonmi Park, Með lífið að veði, sem kom út í íslenskri þýðingu í sumar. Loks er birt Kínverska sagan eftir Fréderic Bastiat í íslenskri þýðingu Geirs Ágústssonar.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda tölvupóst á netfangið askrift@thjodmal.is.