Hausthefti Þjóðmála er komið út

Hausthefti Þjóðmála er komið út og verður dreift til áskrifenda. Auk þess er tölublaðið selt í verslunum Pennans/Eymundsson.

Eins og áður er ritið fullt af áhugaverðu efni.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, fjallar um samkeppnishæfni Íslands, mikilvægi þess að stjórnvöld setji sér skýr markmið og fylgi þeim eftir.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins, fjallar um hugmynd sína að stofnun Stöðugleikasjóðs á Íslandi.

Björn Bjarnason, fv. ráðherra, skrifar Af vettvangi stjórnmálanna líkt og hann hefur gert frá upphafi útgáfunnar. Í grein sinni fjallar Björn um aðdraganda og eftirmál stjórnarslitanna.

Björn Jón Bragason,  doktorsnemi í lögfræði og sagnfræði, fjallar um þýsku þingkosningarnar, stefnu Kristilegra demókrata og hvað Sjálfstæðisflokkurinn getur lært af starfi flokksins.

Magnús Þór Hafsteinsson ritstjóri fjallar um niðurstöðu norsku kosninganna og stöðu Ernu Solberg sem forsætisráðherra.

Fjölnir fjallar um óbeit ungs fólks á kapítalismanum og það bil sem er að myndast á milli kynslóða á Vesturlöndum.

Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur fjallar með ítarlegum hætti um loftslagsmál, orkuskipti og tengdar fjárfestingar.

Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála, fjallar um háa skattheimtu og hinn kæfandi faðm ríkisins.

Harpa Júlíusdóttir, MA í viðskiptafræði, fjallar um þátttöku íslenskra fyrirtækja í United Nations Global Compact sem fjallar um samfélagslega ábyrgð.

Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur og uppgraftarstjóri á Landssímareitnum, fjallar um þær minjar sem þar hafa fundist og staðreyndir um rannsóknina, rannsóknarsvæðið og Víkurkirkjugarð.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, fjallar um heimsbikarmótið í skák.

Að venju er einnig fjallað nokkuð um bækur í ritinu.

  • Þórlindur Kjartansson fjallar um bókina Man Disconnected. Bókin fjallar um stöðu ungra karlmanna á Vesturlöndum sem einkennist af rótleysi og vonleysi á köflum.
  • Bókin Maður nýrra tíma, æviminningar Guðmundar H. Garðarssonar er væntanleg í haust. Birtur er kafli sem fjallar um samningaviðræðurnar í Ósló 1976 um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur.
  • Bókin Erlendur landshornalýður? Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi, 1853–1940 eftir Snorra G. Bergsson sagnfræðing er væntanleg í október. Birtur er kafli þar sem greint er frá dvalarleyfisumsóknum gyðinga til Íslands.