Mýtan um kerfisbreytingar

Einhver þarf að segja stopp við mestu vitleysunni í þeim sem sífellt tala í frösum um kerfisbreytingar en þora ekki að taka á alvöru málum.

Einn helsti frasi stjórnmála síðustu ára hefur verið sá að nauðsynlegt sé að fara í kerfisbreytingar. Þeir sem hafa sig hvað mest í frammi um slíkar breytingar eru þó í raun bara að boða sína eigin pólitísku hugsjón. Í sjálfu sér er ekkert rangt við það, en það þarf ekki að kalla það kerfisbreytingu. Engin ein stjórnmálaskoðun er það betri en önnur að hún réttlæti stórfellda kerfisbreytingu, jafnvel breytingar sem ekki er hægt að draga til baka.

Vinstristjórnin sem sat á árunum 2009-13 lagði af stað í heilmiklar kerfisbreytingar; sumar heppnuðust, aðrar ekki. Hún reyndi að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og hún reyndi að umbylta kvótakerfinu og stjórnarskránni. Sem betur fer gekk ekkert af þessu eftir. Henni tókst hins vegar að gera yfir hundrað breytingar á skattkerfinu, sem ýmist fólu í sér hækkun skatta eða upptöku nýrra skatta. Það má með vissum hætti kalla það kerfisbreytingu.

Á síðustu árum hafa sprottið upp stjórnmálaflokkar sem hafa talað sig hása um kerfisbreytingar. Þessi flokkar hafa t.a.m. haldið þeirri mýtu á lofti að hér sé nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni – og miða þá við tillögur hins svokallaða stjórnlagaráðs sem skipað var eftir að kosning í slíkt ráð hafði verið ógilt af Hæstarétti. Þeir stjórnsýslufræðingar sem RÚV leitar svo oft til, þegar það hentar, höfðu lítið út á þetta að setja.

Birgitta Jónsdóttir, fráfarandi þingmaður Pírata (en kandídat á ráðherralista þeirra), gekk svo langt um daginn að halda því fram að nauðsynlegt væri að fara í breytingar á stjórnarskránni til að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum til lengri tíma. Það er, sem betur fer, ekki víst að Íslendingar vilji til lengri tíma stjórnarskrá sem stöðvar lýðræðislegt ferli sem felur í sér að flokkar sækja umboð sitt til kjósenda. Það er aldrei svo að allir séu sáttir við niðurstöðu kosninga, en að ætla sér að breyta stjórnarskrá landsins vegna þeirrar óánægju er ekki bara barnalegt – það er beinlínis ógeðfellt. Og það er full ástæða til að berjast gegn slíku viðhorfi af fullri hörku.

Nú er rétt að taka fram að stjórnarskráin er ekki heilagt plagg og henni má vel breyta. Reyndar hefur henni verið breytt sjö sinnum frá lýðveldisstofnun og í þeim lotum hefur meira en helmingur ákveða hennar tekið breytingum. Og það sem meira er, sögulega séð hefur enginn flokkur jafn oft haft forgöngu um raunverulegar breytingar á stjórnarskránni en Sjálfstæðisflokkurinn.

***

Það að boða kerfisbreytingar er líka ákveðin afsökun fyrir aðgerðarleysi. Píratar hafa sem dæmi ítrekað borið fyrir tíma- og þekkingarleysi til að forðast það að taka afstöðu í málum. Alltaf geta þeir rætt um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá en í nær öllum öðrum tilvikum eru þeir ófærir um að taka ákvarðanir eða kynna sér mál til hlítar.
Viðreisn hefur orðið uppvís að því sama, en þó undir öðrum formerkjum. Þingmenn og ráðherrar flokksins nota ítrekað frasa eins frjálslyndi og kerfisbreytingar til að kasta ryki í augu almennings. Eina kerfisbreytingin sem þeim tókst að koma í gegn voru óskilvirk lög um jafnlaunavottun, þrátt fyrir að fjölmörg fyrirtæki hefðu nú þegar fengið jafnlaunavottun frá öðrum aðilum en ríkinu.

Sitjandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ósjaldan talað um mikilvægi þess að fara í kerfisbreytingar, þá sérstaklega þegar þörf er fyrir aðgerðir. Þegar sjómannaverkfallið stóð sem hæst talaði ráðherrann um mikilvægi þess að breyta kerfinu. Þegar vandi sauðfjárbænda varð öllum ljós varð ráðherra tíðrætt um að það þyrfti að breyta kerfinu. Að sjálfsögðu voru ekki gerðar neinar breytingar og svo virðist sem þetta hafi verið einhvers konar afsökun fyrir aðgerðarleysi. Nútímastjórnmál gefa færi á því að fela aðgerðarleysi í tali um kerfisbreytingar.

***

Þess má geta að á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar (2013-2016) var farið í heilmiklar kerfisbreytingar. Þeirra stærst var hin svokallaða leiðrétting (sama hvað mönnum kann að finnast um hana), búið var til kerfi þar sem einstaklingar gátu nýtt séreignarsparnað til að greiða inn á húsnæðislán og flýta þannig töluvert fyrir eignarmyndun, farið var í afnám vörugjalda og tolla, ríkisstofnunum var fækkað (t.a.m. var lögreglu- og sýslumannsembættum fækkað) og þannig mætti áfram telja.

Það hefði mátt ganga lengra á þessum árum, lækka skatta enn frekar, hagræða meira í rekstri ríkisins o.s.frv., en það er ekki hægt að halda því fram að ekki hafi verið farið í neinar kerfisbreytingar. Þess má geta að enginn af þeim flokkum sem tala hæst um kerfisbreytingar í dag hefur það að markmiði að lækka skatta, fækka ríkisstofnunum eða bæta hag almennings með öðrum hætti. Allt tal um kerfisbreytingar er á popúlískum nótum og snýr að því að festa stjórnmálaskoðanir þeirra sem um þær hafa hæst í sessi. Það má aldrei gerast.

***

En þá að öðru, en þó í samhengi við slæmar kerfisbreytingar. Nú hefur vinstrimeirihlutinn í Reykjavík samþykkt að borgarfulltrúum verði fjölgað um helming, úr 15 í 23. Hingað til hefur verið nógu erfitt að finna nefndir og önnur störf fyrir þá 15 sem nú sitja. Þegar núverandi meirihluti var myndaður var búin til sérstök nefnd, sem er með öllu tilgangslaus, til að borgarfulltrúi Pírata hefði eitthvað að gera á kjörtímabilinu.

Kostnaður við stjórnsýslu borgarinnar er nú þegar um fimm milljarðar króna á ári, þar af um þrír vegna miðlægrar stjórnsýslu. Þessi kostnaður á eftir að aukast um hundruð milljóna króna á ári hverju með átta borgarfulltrúum til viðbótar. Það er ekki aðeins vegna launakostnaðar og annars kostnaðar sem fylgir hverjum borgarfulltrúa. Miðlægum verkefnum á eftir að fjölga, til verða fleiri ráð og nefndir, utanlandsferðum á eftir að fjölga og þannig mætti áfram telja. Það er algjör barnaskapur að halda öðru fram. Það hefur enginn innan borgarstjórnar viðrað hugmyndir um að minnka kerfið í borginni.

Til upprifjunar er vert að taka fram að ný lög um sveitarstjórnir voru samþykkt í tíð vinstristjórnarinnar sem var við völd frá 2009-13, m.a. vegna þrýstings frá samflokksmönnum hennar í borgarstjórn. Það var því hjákátlegt að heyra meirihluta borgarstjórnar, þ.m.t. Dag B. Eggertsson borgarstjóra, bera því við að borgarstjórn væri einungis að fylgja lögum – svona eins og hún hefði bara ekkert með málið að gera.

Reykjavíkurborg er illa stödd fjárhagslega, skuldar mikið og nær ekki að sinna því hlutverki sem henni er ætlað. Fyrir utan hrokann og yfirlætið í borgarfulltrúum meirihlutans er almennur skortur á þjónustuvilja gagnvart íbúum borgarinnar. Báknið er mikið og kostnaðurinn við það er gífurlegur. Það lagast ekki með fleiri borgarfulltrúum, þvert á móti.
Það hafa gefist tækifæri til að snúa þessari vitleysu við. Sigríður Á. Andersen, sem þá var óbreyttur þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mælti í febrúar 2016 fyrir frumvarpi sem átti að afnema fjölgun borgarfulltrúa. Það fékk ekki afgreiðslu á þingi. Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, lagði fram sambærilegt frumvarp fyrr á þessu ári (sem fékk heldur ekki afgreiðslu) og til stóð að leggja fram aftur nú á haustþingi. Sjálfstæðisflokkurinn var eini flokkurinn sem studdi frumvarpið; aðrir flokkar voru fylgjandi því að stækka báknið í Reykjavík. Þeir flokkar sem hafa á síðustu árum notað frasa um sérhagsmuni sýndu það að orð þeirra hafa enga alvöru merkingu.

Viðreisn, Samfylkingin, Vinstri græn, Píratar og Framsóknarflokkurinn eru öll flokkar sem hafa hagsmuni af því að stækka báknið og fjölga borgarfulltrúum. Með því að setja sig upp á móti fyrrnefndum frumvörpum um afnám á fjölgun borgarfulltrúa, eins og þeir gerðu, gættu þeir eigin hagsmuna. Með öðrum orðum; í þessu tiltekna máli ákváðu allir þessir flokkar að stunda sérhagsmunagæslu á kostnað útsvarsgreiðenda í Reykjavík – sem fá reikninginn sendan síðar.

Frábær kerfisbreyting það.

Gísli Freyr Valdórsson