Karlar í krísu

Philip Zimbardo
Nikita Coulombe (meðhöfundur)
Man Disconnected
Útgefandi: Riders
Bandaríkin 2015, 352 bls.

Enginn skortur er á sannfærandi bókum fyrir þá sem ala í brjósti óljósa tilfinningu um að heimurinn fari ekki bara versnandi – heldur sé á hraðri leið til glötunar. Bók sálfræðiprófessorsins Philips Zimbardo Man Disconnected, sem hann skrifar í samstarfi við Nikita D. Coulombe, er sannarlega ein af þeim sem kynda duglega undir slíkan ótta.

Zimbardo, sem er prófessor emerítus við Stanford-háskóla, er þekktur fyrir sálfræðirannsóknir sínar og hefur einnig gefið út bækur fyrir hinn almenna lesanda þar sem rannsóknum í fræðigreininni eru gerð skil og þær settar í samfélagslegt samhengi. Þekktust þeirra er „Lucifer Effect“ sem segir frá þeirri grátlegu, en sannfærandi, vísindalegu tilgátu að jafnvel sómakærasta og hjartahlýjasta fólk geti við ákveðnar aðstæður umturnast til þess að fremja hin andstyggilegustu óhæfuverk. Frægasta undirstaða þeirrar kenningar er hin fræga og umdeilda „Stanford-tilraun“ sem Zimbardo hannaði og framkvæmdi árið 1971, þar sem sýnt var fram á að handahófskennd valdastaða tiltekinna nemenda gagnvart öðrum gat leitt af sér óskiljanlega breytingu á hegðun og grimmilega misnotkun á valdinu.

Í Man Disconnected, sem kom fyrst út árið 2015, er umfjöllunarefnið ólíkt. Þar greinir hann frá fjölmörgum vísbendingum um að karlkynið á Vesturlöndum sé í mikilli krísu. Zimbardo færir rök fyrir því að ýmsir samverkandi þættir stuðli að bágri stöðu karlmanna.

Vafalaust eru efni og efnistök höfunda ekki óumdeild og líklega mætti oftúlka eða mistúlka ýmsa þætti í greiningu þeirra þannig að hneykslan gæti valdið. En það segir ekki ýkja mikið, því líklega hefur það aldrei verið sannara að allt valdi tvímælis er gjört – eða öllu heldur sagt – er. En Zimbardo er kominn á níræðisaldur og telur sig tæpast hafa tíma til þess að tala tæpitungu. Hann heldur því fram fullum fetum að staða stórs hluta ungra karlmanna á Vesturlöndum sé þannig að líf þeirra sé að fara í handaskolum á flestum sviðum; hvort sem litið er til frammistöðu þeirra í menntakerfinu, í borgaralegu samfélagi, á atvinnumarkaði og meira að segja í svefnherberginu.

Fyrir þá sem hafa áhuga á samfélagsþróuninni og stjórnmálum hljóta áhyggjur Zimbardos að vekja ugg – því ekki þarf mikla þekkingu á veraldarsögunni til þess að skilja hversu hættulegt það getur reynst ef stórir hópar ungra karlmanna lifa í rótleysi og vonleysi. Það er helst huggun að finna í því að ef Zimbardo reynist hafa á réttu að standa um unga menn nú til dags er hæpið að þeir muni finna hjá sér nægilegt frumkvæði og þrótt til þess að framkalla sambærilega upplausn og eyðileggingu og slíkir hópar hafa áður gert í mannkynssögunni.

Skipulag bókarinnar er með þeim hætti að í fyrsta hluta hennar er krísunni lýst; í öðrum hluta (og þeim umfangsmesta) er fjallað um undirliggjandi ástæður hennar og í þeim þriðja eru lagðar fram ýmsar tillögur sem bókarhöfundar telja að geti spornað við þróuninni.

Einkenni

Í fyrsta hluta er sett fram ýmiss konar ískyggileg tölfræði um bága stöðu karlmanna; til dæmis slakur og versnandi námsárangur, stóraukin notkun á hegðunarlyfjum (svo sem rítalíni), aukin félagsleg einangrun stórra hópa, aukið þunglyndi og félagskvíði, og minnkandi áhugi þeirra á því að eignast kærustur, eiginkonur og börn.

Stærsta áhyggjuefni Zimbardos tengist óhóflegri notkun unglingspilta og ungra karlmanna á tölvuleikjum og áhorf á auðfengið klámefni af internetinu. Þetta tvennt telur Zimbardo að geti hreinlega gert unga menn algjörlega óhæfa og áhugalausa um að taka út þann þroska sem nauðsynlegur er til þess að geta tekið þátt í samfélaginu. Þar að auki leiða bæði tölvuleikirnir og klámið til félagslegrar einangrunar, brenglaðrar sjálfsmyndar, truflaðs viðhorfs til kvenna og svo til alvarlegs þunglyndis og kvíða. Klámneysla er svo útbreidd meðal ungra karlmanna að reynst hefur ómögulegt að rannsaka með vísindalegum aðferðum áhrif hennar á unga menn. Ástæðan: Þegar leitað var að samanburðarhópi í stórum háskólum – ungum körlum sem ekki horfa á klám á netinu – finnast ekki nægilega margir. Reyndar fannst ekki einn einasti þegar leitað var í háskólanum í Montreal í Kanada; og enginn ástæða er til þess að ætla að skólapiltar í Quebec séu sólgnari í klám en gengur og gerist.

Zimbardo tiltekur auðvitað fleiri þætti en klám og tölvuleiki. Offita og hreyfingarleysi valda honum áhyggjum, en ekki síður lyfjanotkun – bæði af uppáskrifuðum lyfjum og ólöglegum.

Fyrsti hlutinn dregur því upp þá mynd af ungum karlmönnum á Vesturlöndum að þeir séu smám saman að breytast í metnaðarlaus dauðyfli – sem er reyndar ekki alls kostar nýstárlegar áhyggjur eldri kynslóða af þeim yngri.

Orsakir

Í öðrum hluta bókarinnar eru tilgreindar mögulegar ástæður þessarar þróunar. Sumar eru augljósar. Það ætti til dæmis ekki að koma neinum á óvart, sem eitt sinn hefur verið unglingspiltur, að ótakmarkað aðgengi að ókeypis klámefni gæti ruglað þá í ríminu.

En fleira kemur til að mati höfundanna. Þeir hafa áhyggjur af upplausn fjölskyldumynstursins; sífellt fleiri börn alist upp án föður og þeir feður sem þó eru til staðar séu að jafnaði ekki nægilega sterkar fyrirmyndir. Þá er aukinheldur útbreidd fyrirlitning á ýmsu sem áður töldust vera jákvæðir karlmannlegir eiginleikar; og sífelld niðurbæling á þörfum drengja; svo sem eins og að fá að hreyfa sig og fikta við áhættusama hluti.

Þess í stað eru foreldrar að jafnaði sáttari þegar drengirnir þeirra húka inni í skjóli frá veðrum og vindi fyrir framan meinlausa tölvuskjái – heldur en ef þeir eru að klifra upp á bílskúra, tálga til vopn – eða jafnvel bara að leika sér í íþróttum utan skilgreinds æfingaramma og eftirlits fullorðinna „fagaðila“. Skólakerfin fá líka sinn skammt af gagnrýni. Í þeim löndum sem höfundar hafa skoðað heyrir það til undantekninga að karlmenn kenni í grunnskólum, og er staðan líklega svipuð hérlendis. Að auki benda höfundarnir á að mikil verðbólga hafi orðið í einkunnagjöf á síðustu áratugum þótt ekkert bendi til þess að nemendur í dag séu snjallari eða betur undirbúnir en fyrri kynslóðir; þvert á móti.

Þetta telja höfundarnir að leiði til mjög óraunhæfra væntinga ungs fólks um lífið og tilveruna. Allir eru sagðir sérstakir og hæfileikaríkir að „eitthvað stórkostlegt“ bíði þeirra á fullorðinsárunum. Fyrir vikið virðist allt það sem fyrri kynslóðir töldu vera sómasamlegt líf verða að bragðdaufum vonbrigðum. Foreldar eiga vitaskuld þátt í að byggja slíkar óraunhæfar væntingar; enda má það kallast harðneskjulegt foreldri nú til dags sem ekki fullyrðir að barnið sitt sé snillingur ef því tekst skammlaust að slafra upp í sig graut úr skeið fyrir fermingu.

En það eru ekki bara slæmir ávanar og lélegt uppeldi sem stuðla að hnignun karlmanna á Vesturlöndum. Zimbardo og Coulombe vilja meina að ýmislegt í umhverfinu hafi ruglandi áhrif á kirtlastarfsemi líkamans og þar með á magn og gæði hormóna. Einkum eru það plastefnin sem hafa eyðileggjandi áhrif á þetta grunnkerfi líkamans og veldur því meðal annars að magn karlhormónsins virðist vera að minnka verulega. Þar sem hormónin stjórna svo miklu um líkamsstarfsemina, og einkum heilastarfsemina, gæti þessi þáttur verið sá illviðráðanlegasti. Zimbardo hættir sér líka inn á það jarðsprengjusvæði að velta fyrir sér hvort valdefling kvenna kunni að hafa neikvæð áhrif á möguleika karlmanna til þess að lifa fullnægðu lífi. Það finnst honum ekki, en bendir á að hraðar breytingar á hlutverkaskiptingu hafi áhrif; þótt lausnirnar á fylgikvillum þeirrar jákvæðu þróunar séu vitaskuld ekki fólgnar í að snúa aftur til feðraveldisins. Það sé hins vegar rétt að sýna því skilning að karlmenn þurfi að aðlagast breyttum heimi.

Lausnir

Þynnsti og þunnildislegasti hluti bókarinnar er því miður sá sem snýr að lausnum. Þær virðast ekki sannfærandi, enda eru vandamálin flókin. Þó er rétt að virða tilraunina til virðingar.

Lagt er til að stjórnvöld beiti sér fyrir að styrkja stöðu feðra með ýmsum hætti, til dæmis í forsjármálum, reyni að fjölga karlmönnum í kennarastétt, stuðli að hollara mataræði í skólum og auki kennslu í lífsleikni. Foreldrar eru hvattir til þess að fela drengjum meiri ábyrgð en veita þeim um leið meira frelsi, tala opinskátt um erfiða og vandræðalega hluti (eins og klám) og hjálpa drengjum að skipuleggja tíma sinn. Karlmönnum er uppálagt að hætta að horfa á klám og stilla tölvuleikjaspili í hóf, stunda íþróttir og útivist, temja sér góða siði eins og að búa um rúm – og leggja sig fram um að skilja konur betur og bera virðingu fyrir þeim.

Áhugaverðasta ábendingin að mínum dómi var til skemmtanageirans; en höfundarnir benda á að hlutverk karlmanna í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sé ekki síður en kvenna mengað af staðalmyndum. Í gamanþáttum eru feðurnir undantekningarlítið akfeitir aular sem einhvern veginn tókst að giftast atorkusömum þokkagyðjum – og í flestum kvikmyndum grundvallast virðing karlmanna á hæfileikum þeirra til þess að beita hugsunarlausu ofbeldi.

Hálftómt glas

Kannski má flokka Man Disconnected sem heimsósómaprédikun. Margt í henni virðist því marki brennt. En það er örugglega staðreynd að mörgum ungum karlmönnum líður ekki vel og þeir eiga erfitt með að fóta sig á ýmsum sviðum. Og það má líka teljast augljóst að sumt í umhverfi okkar, sem snertir innsta eðli mannanna, hefur tekið hröðum breytingum á undanförnum árum og áratugum – einkum með tækninni. Það er hollt og eðlilegt að velta fyrir sér hvaða áhrif þessar breytingar eru að hafa á samfélagið.

Áhyggjurnar eru sannarlega ekki nýjar. „Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?“ spurði Jónas Hallgrímsson sem stundum fann samtíma sínum allt til foráttu en sá fortíðina í dýrðarljóma.

Líklegast þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að ungir karlmenn á Vesturlöndum séu mikið öðruvísi en fyrri kynslóðir, þótt vandamálin virðist nýstárleg. Bókin opnar hins vegar augu lesandans fyrir áhrifum mikilla samfélagsbreytinga og vekur fjölmargar hollar spurningar um hvort stór hluti stráka og ungra manna sé jaðarsettari og einangraðri en almennt er viðurkennt. Að þeir séu jafnvel, í fleiri en einum skilningi, teknir úr sambandi.

Höfundur er sjálfstætt starfandi.

 

– Bókarýnin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2017.