Á forsíðu Morgunblaðsins var sama morgun sumarið 1964 frétt um að til stæði að reisa álver í Straumsvík og að Bandaríkjamenn hygðust senda geimfara til tunglsins. Þetta var gríðarleg framkvæmd fyrir Ísland, ekkert síður en Bandaríkin, og stóð heima að í sama mánuði og álverið hóf framleiðslu steig Neil Armstrong fæti á tunglið. Svo brugðið sé á leik með þá myndlíkingu má með góðum vilja halda því fram að þetta hafi verið jafnstórt skref fyrir Íslendinga og Neil Armstrong.
Raunar æfðu bandarískir geimfarar fyrir tunglferðir í hrauninu á Íslandi, sem þykir líkjast landslaginu á tunglinu, þar á meðal téður Neil Armstrong. Hann var meðal annars við veiðar í Laxá í Mývatnssveit, en þótti ekkert sérlega fiskinn. Félagi hans Michael Collins, sem einnig var um borð í Apollo 11, fékk hins vegar tvo væna urriða á gedduspúna sem síðan rötuðu á safn á Íslandi.
Hagkvæmari orkunýting
Auðvitað var það risavaxið skref fyrir Íslendinga að reisa stærstu vatnsaflsvirkjun landsins við Búrfell samhliða því að álver reis í Straumsvík. Langtímasamningur við Alusuisse og uppbygging álversins í Straumsvík var forsendan fyrir stofnun Landsvirkjunar og þannig tókst íslenska ríkinu að fjármagna Búrfellsvirkjun. Það gaf Íslendingum kost á orkunýtingu sem ella hefði verið í smærri og óhagkvæmari skrefum. Öflugar vatnsaflsvirkjunar hafa tryggt heimilum á fámennri og harðbýlli eyju orku á lágu verði og íslenskum iðnaði samkeppnishæft verð.
Framleiðslugeta álversins í Straumsvík var í upphafi um 33 þúsund tonn á ári í 120 kerum. Í tímaritsauglýsingu frá árinu 1969 er lofað 350 störfum við álverið, en í dag vinna þar um 500 manns, þar af um 100 starfsmenn verktakafyrirtækja. Það sýnir vel hversu tækninni hefur fleygt fram að á sama tíma hefur framleiðsla álversins margfaldast og er komin yfir 200 þúsund tonn.
Alls eru rúm 850 þúsund tonn af áli framleidd á Íslandi í þremur álverum. Nú er álverið í Straumsvík orðið minnst álveranna en notar þó álíka mikið rafmagn og öll Mongólía, eða sem nemur almennri heimilisnotkun 1,5 milljóna manna í borginni Manchester í Bretlandi.
Stuðningur við frelsi í viðskiptum
Það er jafnan hollt þegar fjallað er um málefni samtímans að skoða þau í sögulegu ljósi. Eitt af því sem einkennt hefur þjóðmálaumræðu örríkis í Norður-Atlantshafi, sem um langt skeið var nýlenda erlendra smáþjóða, er óhjákvæmilega tortryggni í garð umheimsins.
Vonandi er farið að rofa til í þeim efnum og mögulega er það fylgifiskur þess að fólk á öllum aldri ferðast meira en áður, ungt fólk vinnur og menntar sig í meiri mæli utan landsteinanna og farsíminn sem sjaldnast er langt undan er vegabréf á stöðug ferðalög og samskipti við fólk um allan heim.
Þó eimir eftir af tortryggninni. Það sést meðal annars á könnun sem Gallup vann á vegum SA og Viðskiptaráðs í fyrrasumar, þar sem fram kemur að 30% þjóðarinnar eru neikvæð í garð fyrirtækja í erlendri eigu en einungis 6% í garð íslenskra fyrirtækja.
Þrátt fyrir tortryggni á erlent eignarhald er þjóðin frelsissinnuð í orði kveðnu; einungis 4,8% telja engan ávinning í frelsi í viðskiptum með vörur og þjónustu milli landa, að því er fram kemur í könnun sem Maskína vann fyrir SI í febrúar á þessu ári, og einungis 16,2% eru á móti frjálsu flæði fjármagns milli landa.
Ekkert breytist í 900 ár
Það felst ávinningur í frelsi í viðskiptum milli landa og ekki aðeins í orði kveðnu. Til þess að átta okkur á hvílík bylting uppbygging orkuiðnaðar á Íslandi var í efnahagslífi lítillar eyþjóðar er rétt að rifja upp söguna. Það getur verið upplýsandi að hverfa aftur til upphafsins.
Framþróunin var ör á Íslandi eftir að Norðmenn fluttust hingað búferlum á níundu öld og blönduðust að líkindum byggð írskra munka og fjölskyldna þeirra. Árið 974 bjuggu 70 þúsund manns á Íslandi, sem er ótrúlega há tala miðað við að einungis voru liðin hundrað ár frá landnámi. Ekki höfðu myndast þéttbýlisstaðir og útgerð var á róðrar- og seglbátum.
900 árum síðar hafði Íslendingum ekkert fjölgað, þeir voru enn 70 þúsund, ekki höfðu myndast þéttbýliskjarnar að ráði og útgerðin var enn á óvélknúnum bátum, róðrarbátum og seglbátum eða þilskipum. Það sem meira var; árið 1874 stunduðu Íslendingar enn að miklu leyti vöruskipti, enda hafði fyrsti bankinn ekki verið stofnaður, notkun peninga var takmörkuð og lán til fjárfestinga og nýsköpunar voru ófáanleg.
Ótrúlega fátt hafði breyst á 900 árum og lífskjör fólks höfðu heldur ekki breyst. Ísland var í raun harðbýlla 1874 og afkoma landsins stóð ekki undir því að brauðfæða fleiri íbúa. Stórfelldir fólksflutningar til Vesturheims náðu hámarki undir lok 19. aldar og enn var höggvið stórt skarð í íslensku þjóðina.
Erlend fjárfesting hvati framfara
Það má segja að um aldamótin 1900 byrji nútíminn að ryðja sér til rúms á Íslandi. Og merkilegt nokk, þá er það erlend fjárfesting sem kemur hreyfingu á hlutina. Það voru Norðmenn sem riðu á vaðið með hvalveiðar við strendur landsins og árið 1904 var fyrsti stóri bankinn á mælikvarða þess tíma, Íslandsbanki, stofnaður með dönsku og norsku hlutafé. Í kjölfar þess má segja að iðnbyltingin hafi borist til Íslands, hálfri annarri öld eftir að hún hafði umbylt þjóðfélögum Vesturlanda.
Aðgangur að erlendu lánsfé gerði Íslendingum kleift að vélvæða íslenska fiskiskipaflotann, kaupa til landsins botnvörpuskip og hagkvæma vélbáta, og hafði það aftur í för með sér að Íslendingar gátu nýtt hin gjöfulu fiskimið með hagkvæmum hætti í fyrsta skipti í sögunni. Það lagði aftur grunninn að aukinni hagsæld og uppbyggingu innviða samfélagsins.
Önnur bylting varð með hernámi Breta og Bandaríkjamanna í seinna stríði þegar gjaldeyrir streymdi til landsins með hernámsliðinu og útflutningur jókst mikið til stríðshrjáðra þjóða Evrópu. Svo fylgdi Marshall-aðstoðin í kjölfarið, sem gerði Íslendingum meðal annars kleift að fjármagna kaup á nýsköpunartogurunum, reisa tvær virkjanir við Írafoss og í Laxá í Aðaldal, reisa áburðarverksmiðju og ráðast í vél- og tæknivæðingu í fiskvinnslu og landbúnaði.
Þriðja byltingin sem hér er nefnd til sögunnar varð á sjöunda áratugnum og enn var það vegna erlendrar fjárfestingar. Allir þekkja söguna af Búrfellsvirkjun. Skilyrði fyrir lánveitingu til Íslands fyrir þeirri risaframkvæmd var orkusölusamningur til langs tíma við álverið í Straumsvík. Gerð þeirrar virkjunar og bygging álversins í Straumsvík var stærsta skrefið sem stigið hafði verið í uppbyggingu iðnaðar hér á landi. Síðan þá hefur raforkukerfið byggst upp samhliða uppbyggingu stóriðju.
Það segir sína sögu um hversu mikilvæg hagnýting orkuauðlindarinnar og uppbygging stóriðju var fyrir efnahagslífið hér á landi að Ólafur Björnsson, hagfræðiprófessor og alþingismaður, skrifaði í grein í Morgunblaðinu þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 1969:
„Það er ekki álitamál, að í næstu framtíð hlýtur það að verða hlutverk iðnaðarins að taka við auknum fjölda vinnandi fólks hér á landi. En miklu máli skiptir, að áherzla verði þó lögð á iðnað, sem býður skilyrði fyrir hagnýtingu þekkingar á sviði nútíma tækni og skipulagningar, en það gerir umfram allt sá iðnaður, sem á okkar mælikvarða metinn telst til stóriðju. Með forgöngu þeirri, er núverandi ríkisstjórn hefir haft um áðurnefnd stóriðjufyrirtæki hefir því verið náð mikilvægum áfanga í þá átt að búa í haginn fyrir það, að Íslendingar geti notið svipaðra lífskjara og nágrannaþjóðir þeirra.“
Sveiflujafnandi áhrif fjölbreytts útflutnings
Óhætt er að segja að orð Ólafs hafi gengið eftir. Nefna má fleiri tilvik þar sem erlend fjárfesting í stóriðju reyndist veigamikil innspýting í íslenskt hagkerfi, svo sem stækkunina í Straumsvík og uppbyggingu Norðuráls á Grundartanga 1997 og 1998, byggingu Fjarðaáls á Reyðarfirði og 60 milljarða fjárfestingu í Straumsvík á árunum eftir hrun. En aðalatriðið er að erlend fjárfesting er það sem drifið hefur áfram efnahag landsins, aukið framleiðslugetu, styrkt þekkingargrunninn og myndað undirstöðu velferðar Íslendinga.
Slík fjárfesting kemur gjarnan inn á ný svið og leysir úr læðingi nýja krafta. Henni fylgir gjarnan verðmæt yfirfærsla þekkingar að utan, tengsl okkar við alþjóðlegt efnahagslíf styrkjast og sterkari stoðum er skotið undir efnahags-og útflutningsgrunn landsins.
Uppbygging orkuiðnaðar hafði líka aðra þýðingu fyrir íslenskt atvinnulíf. Svo vitnað sé til orða Ólafs Björnssonar í fyrrnefndri grein:
„Það sem einkennt hefur okkar þjóðarbúskap, ef borið er saman við nágrannalöndin, eru hinar miklu sveiflur, sem verða frá ári til árs í þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum, en þessar sveiflur stafa auðvitað af því, hve afkoma þjóðarbúsins er háð sjávarafla og breytilegu verði sjávarafurða á heimsmarkaðinum. Ef draga á úr slíkum sveiflum – og um það getur varla verið ágreiningur, að slíkt sé æskilegt – verðum við því að vera óháðari hinum síbreytilega sjávarafla, og sýnist það nærtækasta úrræðið að efla iðnað, sem nýtt geti íslenzkt hráefni og orkulindir.“
Þó að iðnaður sé stærsta stoðin í efnahagslífi þjóðarinnar hefur ný stoð bæst við gjaldeyrisöflunina, sem er ferðaþjónustan. Það eykur viðstöðuþrótt efnahagslífsins.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá 2009 segir að sveiflujafnandi áhrif á útflutningsverðmæti vegna álframleiðslu séu mun meiri en áður hafi verið talið. Enn fremur segir: „Almennt gildir sú regla að því fjölbreyttari sem útflutningur er því minni verða ófyrirséðar sveiflur á verðmæti hans.“
Alþjóðleg fyrirtæki mikilvæg klösum
Þegar rætt er um þjóðhagslegt mikilvægi álvera á Íslandi gleymist oft að taka með í reikninginn umsvif þeirra fyrir utan kaup á raforku og störfin sem skapast. Innlend útgjöld álvera námu alls um 80 milljörðum í fyrra, en það eru gjaldeyristekjur sem streyma inn í landið, og af því fóru rúmir 22 milljarðar í kaup á vörum og þjónustu af hundruðum fyrirtækja – er þá raforka undanskilin.
Það er því ekki tilviljun að myndast hefur álklasi utan um álframleiðslu á Íslandi, sem stendur saman af hundruðum fyrirtækja og stofnana. Klasi hefur verið skilgreindur af fræðimanninum Michael Porter sem „landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana… á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni en einnig í samvinnu.“
Í erindi sem Porter hélt á ráðstefnu um samkeppnishæfni Íslands í Háskólabíói árið 2006 sagði hann tvo þroskaða klasa til staðar á Íslandi, annars vegar orkuháðrar málmframleiðslu og hins vegar um sjávarafurðir. Porter hefur einmitt lagt áherslu á að til staðar séu öflug alþjóðleg fyrirtæki fyrir klasaþróun og samkeppnishæfni fyrirtækja í klasanum. Á þessum grunni var stofnað til formlegs klasaframtaks hér á landi í júní 2015 eftir nokkurn undirbúning þar sem lögðust á eitt hátt í 40 fyrirtæki og stofnanir um að styrkja umgjörðina um áliðnað á Íslandi, þar með talið þjónustu við álverin, áframvinnslu áls, rannsóknir og þróun, menntun og þjálfun, nýsköpunar- og sprotastarfsemi. Þá er einnig horft til öryggismála, endurvinnslu, loftslags- og umhverfismála, svo sem að leita tækifæra til að nýta þau hráefni sem til falla í framleiðsluferlinu.
Margt líkt með sjávarútvegi og stóriðju
Margt er líkt með útflutningsgreinunum sjávarútvegi og orkuiðnaði. Þó að stefnt sé að því að fullvinna afurðirnar eins mikið og hægt er hér á landi verður framleiðslan alltaf að uppistöðu til fyrir erlendan markað.
Ekki er útlit fyrir að afli aukist verulega við Íslandsstrendur og því hefur orkan og nýsköpunin beinst inn á við í sjávarútvegi – að fá meira út úr hverjum veiddum fiski. Það hefur haft þau áhrif að menn hafa gengið æ lengra í vöruþróun og nú er svo komið að nánast engu er hent úr þorskinum – allt er nýtt í hinar ýmsu afurðir og þar er flakið ekki verðmætast.
Þróunin hefur verið í sömu átt í álframleiðslu, þar sem magnið hefur verið stöðugt á síðustu árum og eina aukningin falist í að hleypa meiri straumi á kerin. En öll álverin hafa fjárfest í flóknari og virðismeiri afurðum og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.
Fyrirséð er að álverin muni halda áfram að þróa framleiðslu sína til að ýta undir meiri verðmætasköpun. Stöðugar fjárfestingar eru líka nauðsynlegar fyrir álver til að halda samkeppnishæfni, enda eru afurðirnar seldar á heimsmarkaði og samkeppnin mikil.
Fjölbreytt framleiðsla á Íslandi
Stærsta fjárfestingin á Íslandi frá því að kreppan skall á 2008 var í álverinu í Straumsvík, en hún nam 60 milljörðum og fólst í að auka afköst um 15 þúsund tonn, bæta hreinsimannvirki og stíga næsta skref í virðiskeðjunni – fara úr álbörrum yfir í málmblöndur í stöngum. Í upphafi stóð til að framleiðsluaukningin yrði 40 þúsund tonn og hefur álverið haldið því til haga að það hyggist leita leiða til þess að ná því takmarki á næstu árum.
Nú er sem sagt einungis háþróuð framleiðsla á stöngum í Straumsvík, fjölmörgum málmblöndum í mismunandi stærðum, alls hátt í 200 mismunandi vörutegundum, sem eru fullunnar til völsunar. Álið er notað í ýmsar sérhæfðar vörutegundir, svo sem plötur fyrir byggingariðnað, prentplötur, lyfja- og snyrtivöruumbúðir og bifreiðar.
Í steypuskála Norðuráls hefur verið þróuð framleiðsla á melmi, sem meðal annars er notað í bílaiðnað og byggir að mestu á íblöndun á kísil í álið til að ná fram breyttum eiginleikum. Þessi framleiðsla fer vel af stað og stefnir í að verða um 60 þúsund tonn á ári. Um leið er fjárfestingarverkefni í gangi, sem felst í að auka framleiðsluna í 350 þúsund tonn með straumaukningu. Heildarkostnaður við verkefnið er er á annan tug milljarða króna.
Alcoa Fjarðaál framleiðir 346.000 tonn af áli árlega, eða tæplega 950 tonn á sólarhring. Um fjórðungur framleiðslunnar er fullunnir álvírar fyrir háspennustrengi. Gert er ráð fyrir því að um 90.000 tonn af álvír verði send á erlenda markaði árlega. Fjarðaál framleiðir einnig gæðaál og álblöndur sem fara til frekari vinnslu á meginlandi Evrópu, m.a. til bílaframleiðslu.
Karlinn á tunglinu
Það er forvitnileg mynd í bók Phaidon sem nefnist Universe. Hún er af lítilli styttu úr áli sem liggur á yfirborði tunglsins. Það er eini karlinn á tunglinu. Listaverkið er eftir Van Hoeydonck og er til minningar um fallna geimfara. Því var komið fyrir á tunglinu í ferð Apollo 15 árið 1971, en fram að því höfðu 14 látist í geimnum.
Þeim sem lesið hafa sögu Jules Verne, Ferðin til tunglsins, þarf ekki að koma á óvart að styttan sé úr áli, enda er það málmurinn sem gerði mannkyninu kleift að víkka sjóndeildarhring sinn með geimferðum. Þar sem þessi pistill hófst á tunglferð er best að ljúka honum á orðum Verne, eða öllu heldur sögupersónunnar Barbicanes:
„Þessi verðmæti málmur er hvítur eins og silfur, óbrjótanlegur eins og gull, fastur fyrir eins og járn, samlagast öðrum efnum eins og brons og ber með sér léttleika glersins. Hann er auðmótanlegur og nóg er til af honum, enda uppistaðan í mestöllu grjóti; hann er þrisvar sinnum léttari en járn og virðist hafa verið skapaður í þeim skýra tilgangi að færa okkur efnivið í förina [til tunglsins].“
Léttleiki álsins er ekki aðeins mikilvægur jarðarbúum vegna notagildisins eða til að greiða fyrir tunglferðum. Létting samgöngutækja með álnotkun er einfaldasta leiðin til að draga úr brennslu eldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Það er rótin að vaxandi eftirspurn áls í heiminum að þannig koma bílaframleiðendur til móts við kröfur stjórnvalda og almennings um að draga úr losun.
Saga Verne af tunglferðinni var skrifuð árið 1867, rúmum hundrað árum áður en Armstrong steig fæti á tunglið. Engu að síður spáði hann rétt fyrir um þyngd geimflaugarinnar sem flutti geimfarana í Apollo 11 til tunglsins árið 1969. Hún var sex tonn – og auðvitað var hún úr áli eins og karlinn á tunglinu.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls.