Já, skattgreiðandi

Úr myndinni Fast & Furious 8.Enginn vafi er á því að endurgreiðslukerfi kvikmynda hefur náð þeim tilgangi að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð á Íslandi ásamt því að færa okkur mjög verðmæta landkynningu. Hvort tveggja er mjög jákvætt. Við þurfum bara að vera meðvituð um hvað það kostar og ræða hlutina í samhengi.

Eftir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Meginstefið í bresku þáttunum Já, ráðherra er að embættismenn eru allir af vilja gerðir til að aðstoða ráðherrann og gera honum til hæfis, en þegar á hólminn er komið finna þeir útsmogna leið til að koma í veg fyrir að áform hans verði að veruleika. Heiti þáttanna er þannig kaldhæðni. „Já“ þýðir í raun „nei“.

Á vissan hátt eiga skattgreiðendur við svipað vandamál að glíma gagnvart okkur stjórnmálamönnum. Sárasjaldan er hægt að koma til móts við þá. Skattana má aldrei lækka. Í þenslu er það ekki skynsamlegt og í kreppu er það ekki hægt.

Stundum er nánast eins og verið sé að beita klækjum, eins og þegar tímabundnir skattar öðlast dularfullt framhaldslíf. Eitt kyndugasta dæmið var Þjóðarbókhlöðuskatturinn, sem lagður var á til að fjármagna byggingu bókhlöðunnar en var svo engu að síður innheimtur í u.þ.b. áratug eftir að hún var tekin í notkun. Hin hliðin á sama peningi er tímabundin útgjöld sem festast síðan í sessi án þess að renna sitt skeið á enda eins og til stóð. Hvort tveggja stuðlar að stöðugri útþenslu báknsins, sem er nógu mikið fyrir.

Segja má að lífseig útgjöld séu enn varhugaverðari en lífseigir skattar. Annars vegar vegna þess að almenningur verður almennt ekki eins mikið var við útgjöldin og skattana, veit varla af þeim og mótmælir þeim þess vegna síður en sköttunum. Hins vegar vegna þess að viðtakendur útgjaldanna munu að öllum líkindum berjast ötullega gegn niðurfellingu þeirra.

Átak: fyrra dæmi

Atvinnuleysi var ofarlega á baugi fyrir alþingiskosningarnar 1995. Framsóknarflokkurinn skapaði sér ákveðna sérstöðu með því að lofa því að skapa tólf þúsund störf til aldamóta. Eftir kosningar lét nýr viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins hendur standa fram úr ermum og stofnaði verkefnið „Átak til atvinnusköpunar“, væntanlega í því augnamiði að efna kosningaloforð flokksins um tólf þúsund ný störf til áramóta. Á vegum átaksins var tugum milljóna króna varið á hverju ári til að styrkja ýmis nýsköpunarverkefni og atvinnuskapandi framtak. Aðstoðarmaður ráðherrans varð stjórnarformaður verkefnisins.

Tíminn leið og aldamótaárið 2000 rann upp. Störfum fjölgaði um 14 þúsund, eða töluvert umfram þau 12 þúsund sem markið hafði verið sett á. (Látum liggja á milli hluta hverju eða hverjum það var að þakka.) Árið 2016 hafði störfum fjölgað um 34 þúsund til viðbótar. Alls hafa því orðið til um það bil 48 þúsund störf frá því að „Átaki til atvinnusköpunar“ var hleypt af stokkunum. Atvinnuleysi er hverfandi eins og kunnugt er. En þrátt fyrir það stendur átakið enn yfir. Á vegum þess er árlega úthlutað tæplega 70 milljónum króna til ýmissa verkefna.

Tekið skal fram að þetta er ekki eins fráleitt og það hljómar. Þegar verkefnið var stofnað var það meðal annars gert með því að splæsa saman ýmsum eldri styrkjum sem áður hafði verið útdeilt undir öðrum formerkjum. Ekki er sjálfgefið að þeir hefðu allir átt að falla niður með minnkandi atvinnuleysi, þótt draga mætti þá ályktun af hinu nýja heiti „Átaki til atvinnusköpunar“.

Á hinn bóginn þarf líka að horfa til þess að Tækniþróunarsjóður, sem er samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar, hefur verið efldur í millitíðinni, sem er afar jákvætt og á Ragnheiður Elín Árnadóttir þar heiður skilinn. Með eflingu sjóðsins og tilkomu nýrra styrkjaflokka á hans vegum er starfsemi hans farin að skarast töluvert við umrætt átak. Það er því ekki vegna þess að „Átak til atvinnusköpunar“ sé slæmt í eðli sínu sem ástæða er til að taka það til endurskoðunar, en sú endurskoðun er þó tímabær að mínu mati.

Átak: seinna dæmi

Eldgosið í Eyjafjallajökli í apríl 2010 dró tímabundið úr áhuga fólks á að ferðast til Íslands og óttuðust stjórnvöld og ferðaþjónustan að afleiðingin yrði hrun í íslenskri ferðaþjónustu. Stjórnvöld brugðust við með því að reiða fram 350 milljónir króna í sérstakt átak til að markaðssetja Ísland á árinu 2010 undir slagorðinu „Inspired by Iceland“. Flugfélög, Samtök ferðaþjónustunnar, Reykjavíkurborg og Íslandsstofa hétu framlögum upp á annað eins. Alls hafði átakið því úr 700 milljónum að spila, sem nýttar voru fram á vorið 2011.

Markmiðin náðust. Hruni í ferðaþjónustu var afstýrt. Í stað þess að ferðamönnum fækkaði um 20% á milli ára, eins og sagt er að hagsmunaaðilar hafi óttast, fjölgaði þeim um 0,2%, samkvæmt lokaskýrslu átaksins.

Nú er þess að geta að átakið var viðbót við hefðbundin framlög ríkisins til markaðssetningar ferðaþjónustunnar erlendis, sem námu 200 milljónum árið 2011. Þrátt fyrir það var ákveðið að gefa hinu sérstaka átaksverkefni framhaldslíf með eilítið breyttum áherslum. Sú ákvörðun var tekin í tengslum við gerð kjarasamninga og var þannig að einhverju leyti hluti af samkomulagi á vinnumarkaði. Haustið 2011 samdi ríkið þannig til þriggja ára um 300 milljóna króna árlegt framlag í markaðsstarf ferðaþjónustunnar, og því alls 900 milljónir, gegn jafnháu framlagi fyrirtækja og sveitarfélaga. Íslandsstofu var falin framkvæmd samningsins og var sú stofnun þar með komin með tvo samninga um markaðsstarf ferðaþjónustu; þennan og ofangreindan samning um hið hefðbundna framlag. Báðir gilda enn í dag þótt annar eigi sannarlega rætur í tímabundnu átaki.

Íslandsstofa vinnur öflugt starf í þágu ferðaþjónustunnar og landsins alls og vinna hennar hefur tvímælalaust skilað miklum árangri. Og hér er ekki kveðinn upp dómur um hið fullkomna fyrirkomulag. En ljóst er að samningarnir tveir skarast að verulegu leyti. Átak er átak og að mínu mati er ástæða til að endurmeta hversu skynsamlegt er að ríkið sé með tvo samninga um áþekka hluti.

Ég er ekki að fella neina palladóma hér heldur eingöngu vekja athygli á því að rætur þessarar sérkennilegu stöðu liggja í tregðu hins opinbera til að setja punkt aftan við tímabundin átaksverkefni. Og ég skil mjög vel af hverju sú tregða stafar. Ég finn fyrir henni sjálf.

Þekkjum við umfangið?

Ívilnanir stjórnvalda til stóriðju hafa gjarnan verið umdeildar. Umhverfisverndarsinnar hafa gagnrýnt þær fyrir að verðlauna mengun. Frjálshyggjumenn hafa gagnrýnt þær fyrir að fela í sér ríkisstuðning.

Ívilnanir til kvikmyndagerðar hafa ekki verið eins umdeildar. Mögulega hefur þar einhver áhrif að það virðist vera algengur misskilningur að um sé að ræða eftirgjöf á sköttum eða gjöldum. Svo er ekki. Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar eru bein endurgreiðsla á framleiðslukostnaði. Skattgreiðendur fá reikninginn fyrir einum fjórða af framleiðslukostnaði kvikmynda og sjónvarpsefnis sem fellur til á Íslandi, uppfylli efnið tiltekin skilyrði. Færa mætti rök fyrir að réttara væri að tala um „beingreiðslur til kvikmyndagerðar“ á sama hátt og talað er um beingreiðslur til bænda.

Í frumvarpi til laga um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við kísilver Thorsil í Helguvík kemur fram að ívilnanir ríkisins og Reykjanesbæjar, í formi afslátta af sköttum og gjöldum, séu metnar á samtals um 770 milljónir króna yfir 13 ára tímabil. Til samanburðar styrkti ríkið framleiðendur kvikmyndarinnar Fast and the Furious 8 um 509 milljónir króna árið 2016. Samanlagt fengu framleiðendur kvikmynda og sjónvarpsefnis 1.514 milljónir af kostnaði sínum endurgreiddan frá skattgreiðendum það ár, eða næstum tvisvar sinnum meira en áætlaðar ívilnanir ríkis og sveitarfélags til kísilvers Thorsil yfir 13 ára tímabil.

Enginn vafi er á því að endurgreiðslukerfi kvikmynda hefur náð þeim tilgangi að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð á Íslandi ásamt því að færa okkur mjög verðmæta landkynningu. Hvort tveggja er mjög jákvætt. Við þurfum bara að vera meðvituð um hvað það kostar og ræða hlutina í samhengi.

Klemman

Það er þekkt klemma að þegar stjórnvöld grípa til ráðstafana til að létta undir með einstæðum foreldrum kemur strax upp gagnrýni um að verið sé að „refsa fólki fyrir að vera í hjónabandi“. Af svipuðum toga er gagnrýni um að ríkið „refsi fólki fyrir að vinna“ með því að skerða bætur vegna atvinnutekna. Það sem kallað er refsing er hin hliðin á þeirri viðleitni að hjálpa þeim sem höllustum fæti standa og geta ekki unnið.

Ég skil vel að kröfur séu uppi um að draga úr skerðingum í hinum ýmsu kerfum. En á sama tíma verður að vera ljóst að það þýðir að minna verður til skiptanna fyrir þá einstaklinga sem standa veikast og þurfa á öryggisnetinu að halda. Sömu krónu er ekki eytt tvisvar.

Þá má líka geta þess að skilaboð geta verið misvísandi. Dæmi um það er að ein landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins árið 2015 sagði að ekki skyldi nota virðisaukaskattskerfið til að styðja einstakar atvinnugreinar (sem felur í sér að allar atvinnugreinar skuli bera sama virðisaukaskatt) en önnur ályktun sama landsfundar kvað á um að ekki mætti leggja auknar álögur á ferðaþjónustuna, sem auðveldlega má túlka sem andstöðu við að greinin yrði sett í almennt þrep virðisaukaskatts. Það varð enda raunin og voru þau áform lögð til hliðar í nýjum stjórnarsáttmála.

Hér er, enn og aftur, ekki kveðinn upp dómur um réttmæti hverrar kröfu fyrir sig heldur aðeins vakin athygli á því að það er ekki alltaf einfalt að átta sig á því hver hin raunverulega krafa er, því þær eiga það til að stangast á.

Stöndum saman um markmiðið

Þó að óskir okkar stangist stundum á erum við flest sammála um grundvallaratriðin. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að draga úr skattheimtu og hemja vöxtinn í útgjöldum ríkisins. Risaskref voru tekin nýlega í þeim efnum með afnámi vörugjalda og nánast allra tolla, þökk sé forystu Sjálfstæðisflokksins. Þetta er vanmetin aðgerð en hún var söguleg og bætti lífskjör til muna, sem og samkeppnishæfni fyrirtækja.

Það er ekki laust við að ég finni fyrir því úr mörgum áttum að ætlast sé til þess af mér sem ráðherra að ég freisti þess að auka útgjöld til málaflokka sem undir mig heyra sem allra mest. En Ísland er háskattaríki og við verðum að skapa skilyrði til að draga úr hlutfalli skattheimtu af landsframleiðslu. Við erum sammála um að skapa þarf atvinnulífinu samkeppnishæf skilyrði og þar getum við gert enn betur. Við þurfum að vinda ofan af tímabundnum skattahækkunum eins fljótt og auðið er. Og við eigum ekki að ætlast til þess af ríkinu að það viðhaldi tímabundnum átaksverkefnum út í hið óendanlega, þótt ýmsir kunni að verða ósáttir við að þeim sé hætt.

Höfundur er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

______________________________

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2018.

Hægt er að kaupa áskrift að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is