Horfum á tækifærin í nýsköpun og sjálfbærni

Þorkell Sigurlaugsson (Mynd: VB/HAG).

Hagkerfið hér á landi er mjög auðlindadrifið. Frá miðri síðustu öld hafa aðallega verið tveir megindrifkraftar hagvaxtar, annars vegar auðlindir sjávar og hins vegar orka fallvatna og jarðvarma. Það var ekki fyrr en í byrjun þessarar aldar og þá einkum eftir bankahrun að ný auðlind bættist við af fullum þunga, náttúrufegurð Íslands, og í tengslum við það að einhverju marki menning landsins, sem lagði grunn að öflugri ferðaþjónustu. Farsælt stjórnmálaástand lengst af og svo hugvitsamleg þróun þessara atvinnugreina og dugnaður landsmanna hefur skipt verulegu máli.

Nú eiga allar þessar auðlindir undir högg að sækja á sama tíma. Tekjuöflun dregst saman og jafnvel bregst alveg eins og í ferðaþjónustu. Sjávarútvegur líður fyrir tekjusamdrátt erlendis og almennt ekki sívaxandi afla og verðmætavöxt. Landsvirkjun verður einnig fyrir höggi vegna lægri tekna af stóriðju. Þótt þetta komi vonandi sem mest til baka er nýsköpun í þessum greinum og ekki síður nýsköpun með nýrri atvinnustarfsemi mikilvægur þáttur í þeirri endurreisn sem fram undan er.

Sjálfbærni er leiðarljósið

Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á nýsköpun í atvinnulífinu í öllum greinum. Útflutnings- og markaðsráð og Íslandsstofa, sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs, hafa mótað stefnu í útflutningsáherslum þar sem sjálfbærni er leiðarljósið. Aðrir þættir sem koma sterkt inn í þessa mynd eru nýsköpun, náttúra og síðast en ekki síst fólkið í landinu.1

Þessar áherslur snúa að sex þáttum:

  • Orka og grænar lausnir
  • Hugvit, nýsköpun og tækni
  • Listir og skapandi greinar
  • Ferðaþjónusta
  • Sjávarútvegur
  • Sérhæfð matvæli og náttúruafurðir

Áhersla er á hagvöxt og verðmætasköpun, sem byggir á auknum útflutningstekjum, þar sem nýsköpun og sjálfbærni skiptir höfuðmáli. Nýsköpun getur snúist um markaðsstarf, að byggja upp sterk vörumerki, gæði afurða, framleiðni í framleiðslu, að nýta auðlindir með arðbærri hætti og bæta menntun, svo nokkur dæmi séu nefnd. Síðast en ekki síst þarf að nýta hugvitið betur.

Hugvitið er sjálfbærast allra auðlinda

Hugvit verður drifkraftur framfara á 21. öldinni á sama hátt og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var drifkraftur framfara á Íslandi á 20. öldinni. Fjórða iðnbyltingin er hafin og framundan eru tækniframfarir sem munu hafa mikil áhrif.

Kosturinn við hugvitið er að það þarf ekki að spara það og það minnkar ekki heldur eykst við notkun. Hugvit býr til nýja þekkingu, stuðlar að nýsköpun og laðar til landsins innflytjendur sem hafa áhuga á að setjast að og starfa í menningar- og velferðarsamfélagi.

Þegar ráðist er í nýsköpun sem tengist hugviti og skapandi greinum verða áföllin lítil í samanburði við atvinnuleysi nú á tímum COVID-kreppu. Fyrir Íslendinga er þetta sérlega mikilvægt vegna þess hve vægi auðlindanotkunar er mikið í sjávarútvegi, orkunýtingu og ferðaþjónustu.

Auka þarf fjölbreytni og færa áherslur í menntun, atvinnuþróun og nýsköpun í greinar sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni. Fjórða iðnbyltingin tengist sjálfvirknivæðingu á fjölmörgum sviðum – gervigreind, nýjum öflugum upplýsingakerfum, líftækni, breytingum í fjölmiðlun og viðskiptaháttum. Vægi efnislegra eigna minnkar á sama tíma og óefnislegar eignar verða verðmætari. Óefnislegar eignir er hægt að nýta án þess að verðmæti rýrni við notkun og hægt er að nýta þær á mörgum stöðum á sama tíma. Gott dæmi um þetta er þau verðmæti sem Facebook, Google og Amazon hafa skapað eigendum sínum og eru endalaus dæmi um slíkt um allan heim, einnig hér á landi.

Þessar óefnislegu eignir þarf að verðmeta eins og aðrar eignir og til þess þarf oft að skrá einkaleyfi og vernda þannig hugverkið alþjóðlega ef ekki á að stela hugverkinu eins og fasteignum.

Fjölmörg tækifæri á sviði heilbrigðis- og líftæknimála

Þekking Íslendinga hefur verið mikil í tengslum við heilbrigðismál, rekstur og rannsóknir hjá Landspítala, innan ýmissa heilbrigðisstofnana og hjá sjálfstætt starfandi fyrirtækjum á þessu sviði. Síðast en ekki síst má nefna fyrirtæki á sviði erfðatækni og lyfjaþróunar.

Litið hefur verið á heilbrigðis- og velferðarmál sem byrði og kostnað á fjárlögum. Fram undan virðist vera nánast óstöðvandi þörf fyrir aukin útgjöld en aukin tækniþekking, m.a. þróun stafrænna miðla og fjórða iðnbyltingin, getur lækkað kostnað og aukið hagkvæmni í þessum geira.

Á síðustu misserum hefur greinarhöfundur ásamt Hans Guttormi Þormar, Hannesi Ottóssyni og fleirum, meðal annars Samtökum iðnaðarins og og Íslandsstofu, kannað möguleika á stofnun líf- og heilbrigðistækniklasa sem gæti stuðlað að aukinni nýtingu tækifæra sem við höfum á þessu sviði. Oft hefur þetta verið rætt og skoðað í gegnum árin en lítið orðið um formlegan samstarfsvettvang. Þekking Íslendinga hefur verið mikil í tengslum við heilbrigðismenntun og rekstur Landspítala og fleiri heilbrigðisstofnana og síðan fyrirtækja á sviði erfðatækni og lyfjaþróunar. Smæð landsins, góð menntun starfsfólks í heilbrigðisvísindum víða um heim og sterk alþjóðleg tengsl skapa einnig fjölmörg tækifæri.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, hefur bent á nokkur dæmi um ný viðhorf sem hafa komið upp í tengslum við COVID-baráttuna. Sett var upp COVID-göngudeildarþjónusta og í raun var um fjargöngudeildarþjónustu að ræða. Einnig hefur heimsóknabann aðstandenda kallað á möguleika á fjarfundabúnaði fyrir inniliggjandi sjúklinga og fyrir eldri borgara á hjúkrunarheimilum.

Sjá má fyrir sér fjölskyldumiðstöðvar á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum tengdar fjarfundabúnaði. Fyrir framan okkur eru stórkostleg tækifæri til atvinnusköpunar og útflutningstekna fyrir samfélagið þegar horft er til vandamála heimsins og tækniþróunar á þessu sviði. Heilbrigðismál snúast ekki eingöngu um velferð og heilbrigði heldur einnig tækifæri til verðmætasköpunar og hagvaxtar.

Um þessi verkefni getur heilbrigðis- og líftækniklasi snúist. Að auka samstarf, byggja upp sterkara tengslanet og vera suðupottur nýrra verkefna og fyrirtækja. Þetta hefur tekist vel með sjávarklasa og tækifæri bláa hagkerfisins, þar sem Þór Sigfússon hefur lyft grettistaki. Ef skilgreina má heilbrigðis- og líftækni sem rauða og græna hagkerfið eru ekki síður tækifæri þar en í bláa hagkerfinu. Sjávargeirinn, orkugeirinn, ferðageirinn og fjármálageirinn eru með sína klasa, en með sambærilegu samstarfi má styrkja verulega stöðu heilbrigðis- og líftæknimála á þessu sviði. Útflutnings- og markaðsráð mat aukin útflutningstækifæri á þessu sviði einna mest af öllum greinum næsta áratuginn. Óplægður akur sem tími er kominn til að nýta.

Nefna má nokkur dæmi um verkefni og fyrirtæki sem hafa verið í þróun á þessu sviði og sum náð umtalsverðum árangri. Ég nefni hér aðeins örfá dæmi og vona að nokkuð rétt sé farið með upplýsingar um þessi félög og biðst þá velvirðingar ef einhverra ónákvæmni gætir.

Fjárfestingarsjóðir og frumkvöðlafyrirtæki

Eitt af „tækjum“ fjármálamarkaðarins sem styðja við nýsköpun eru svokallaðir áhættufjármagnssjóðir (e. venture capital funds eða VC-sjóðir).

Þetta hefur verið kallað á íslensku „vísissjóðir“ og dæmi um slíkan sjóð er vísissjóðurinn Crowberry (crowberrycapital.com), sem er rekinn af rekstrarfélaginu Crowberry Capital GP í eigu þeirra Heklu Arnardóttur, Helgu Valfells og Jennýjar Ruthar Hrafnsdóttur. Crowberry I er 4 milljarða króna íslenskur vísissjóður, stofnaður árið 2017 með 10 ára líftíma. Hann er um 80% í eigu lífeyrissjóða. Nýfjárfestingatímabil sjóðsins er 5 ár og annar sjóður á þeirra vegum hugsanlega í farvatninu.

Crowberry fjárfestir í nýjum tæknifyrirtækjum á Norðurlöndum. Nýsköpun og tækni og það hugvit sem beitt er virða ekki landamæri heldur fylgja þekkingarklösum og verða oft til við samvinnu þeirra. Það sama á við um vísisfjárfesta; bestum árangri ná þeir sem starfa meðfram þeim bestu á heimsvísu og hafa metnað til þess að byggja upp stór alþjóðleg tæknifyrirtæki.

Sjóðurinn hefur nú fjárfest í 12 tæknifyrirtækjum og mun fjárfesta í 2-3 fyrirtækjum til viðbótar. Þar af eru 25% á sviði heilbrigðistækni, 25% í leikjaiðnaði og 17% í fjártækni. Annað er á hefðbundnari hugbúnaðar- og tæknilausnum fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Það er athyglisvert í þeim heimsfaraldri sem nú herjar að þessi fyrirtæki eru almennt ekki að verða fyrir neikvæðum áhrifum eða fækka starfsfólki, enda hafa stafrænar lausnir í heilbrigðistækni aldrei verið eins þarfar og nú og tölvuleikir eru svo sannarlega nýtt form afþreyingar sem styttir fólki stundir við núverandi aðstæður.

Hér er farið yfir nokkur af þeim fyrirtækjum sem hafa sprottið upp á undanförnum árum.

Kara Connect

Eitt af þeim fyrirtækjum sem Crowberry hefur fjárfest í er Kara Connect (karaconnect.com). Sérfræðingar í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu geta nýtt Kara Connect til að eiga í samskiptum við skjólstæðinga sína í gegnum myndfundi á netinu. Að auki færir Kara Connect sérfræðingum stafræna vinnustöð sem einfaldar allan rekstur bæði á netinu og í raunheimi.

Kara Connect hefur fimmtánfaldað fjölda nýrra viðskiptavina frá febrúar til mars á þessu ári, flestir þeirra eru erlendis og hefur fyrirtækið náð talsverðri fótfestu þar þrátt fyrir dræmari og erfiðan uppgang á Íslandi. Hefur framkvæmdastjórinn Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir m.a. flutt til útlanda þess vegna. Kara Connect er dæmi um félag sem hefur fengið styrki frá Rannís og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur fjárfest í félaginu.

Stjörnu-Oddi

Fyrirtækið Stjörnu-Oddi (star-oddi.com) framleiðir veirurannsóknarmæla fyrir dýr. Fyrirtækið hefur starfað í þessum rannsóknargeira síðan 1993, en áður í þróun farsíma. Í leitinni að bóluefni gegn COVID-19 er helst stuðst við rannsóknir á mörðum, enda öndunarfæri þeirra lík öndunarfærum manna. Hefur fyrirtækið vart undan að framleiða mæla til notkunar hjá erlendum ríkisstofnunum, lyfjafyrirtækjum, háskólum og rannsóknarstofnunum.

Í öndunarfærarannsóknum, eins og á COVID-19, eru helst stundaðar rannsóknir á mörðum. Samkvæmt lögum verða prófanir á dýrum að hafa átt sér stað áður en hægt er að prófa á fólki. Þessi litlu mælar eru settir í dýrin áður en þau eru sýkt með veiru. Með þessum mælum er hægt að fá tugþúsundir mælinga úr líkama dýrsins, svo sem hitastig, rafboð hjartans og fleira.

Hjá Stjörnu-Odda starfa 23. Sigmar Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri og stofnandi félagsins, hefur af ótrúlegri eljusemi unnið að uppbyggingu þess. Sigmar telur að faraldurinn sem ríður nú yfir muni hafa mikil áhrif á sviði veirurannsókna, eins og fram kom í viðtali við hann í Fréttablaðinu nýlega. Þetta er líka að koma í ljós í allri þeirri vinnu sem Íslensk erfðagreining hefur komið að. Stuðningur Tækniþróunarsjóðs og skattaívilnanir vegna þróunarkostnaðar hafa komið sér vel fyrir Stjörnu-Odda.

3Z

3Z (3z.is) sprettur upp úr rannsóknarstofu Í Háskólanum í Reykjavík þar sem gerðar voru svefnrannsóknir. Notaðir voru fiskar í staðinn fyrir rottur eða mýs og í ferlinu voru smíðuð ýmis tæki, þróaður hugbúnaður og búnir til ferlar til að mæla mjög stóra hópa lítilla zebrafiska í einu. Þá vaknaði sú hugmynd hvort ekki væri hægt að nota þessa kraftmiklu ferla í skipulagða lyfjaleit.

Karl Ægir Karlsson, frumkvöðull og stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins 3Z, hefur lengi unnið að þessu verkefni en svo virðist sem nú séu tímamót í sögu 3Z, sem hefur undanfarið sótt fram í markaðssetningu og fengið góð viðbrögð lyfjafyrirtækja.

Þegar hafa verið þróuð sjúkdómalíkön í fiski sem líkja eftir Parkinson, MND, flogaveiki og svefntruflunum, og verið er að þróa fleiri sjúkdómamódel. Margir kostir eru við að nota fiska við þessar rannsóknir. Unnið er mjög þverfaglega og er mikilvægt að hafa sérfræðinga á mörgum sviðum. Vélaverkfræðingar, forritarar, erfðafræðingar, taugavísindamenn og sérfræðingar í markaðsmálum.

Fyrstu árin upp úr 2010 var félagið ekki með neina viðskiptavini heldur vann eingöngu að því að gera prófanir og safna gögnum. Árin 2015-2017 voru viðskiptavinir orðnir fjórir til fimm, en 2017 var byrjað að vinna fyrir japanskt lyfjafyrirtæki við rannsóknir á lyfjum við MND og það er stærsta verkefni fyrirtækisins núna.

Fyrirtækið hefði aldrei komist á koppinn ef ekki hefði verið fyrir góðan stuðning Háskólans í Reykjavík, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Tækniþróunarsjóðs og þeirra einkafjárfesta sem komu inn með þekkingu á ólíkum sviðum.

Kind.app

Kind.app (kind.app) er tiltölulega einfaldur hugbúnaður sem þróaður var í Svíþjóð og er notaður af sjúklingum sem samskiptatæki við lækna og með fjölmörgum gagnlegum upplýsingum fyrir sjúklinga með tiltekinn sjúkdóm. Kind.app hefur verið notað fyrir sjúklinga sem hafa farið í gegnum líffæraskipti, krabbameinssjúklinga, ófrískar konur og ýmsa sem þurfa að fara í gegnum ákveðið prógramm. Sjúklingurinn fær þá reglulega tilkynningar um ýmislegt eins og hvenær á að koma í skoðun, upplýsingar um mataræði, eyðublöð sem þarf að nota, myndir og myndbönd, örugg sjúkraskrárgögn o.fl.

Framkvæmdastjóri og einn eigenda fyrirtækisins, Charlotta Tönsgård, kom til Íslands á síðasta ári í tengslum við málþing landssamtakanna „Spítalinn okkar“ og kynnti appið og vakti það talsverða athygli. Crowberry Capital hefur fjárfest í fyrirtækinu, sem er í sókn inn á Evrópumarkað.

Sidekickhealth

Heilbrigðisfyrirtækið Sidekickhealth hefur í samstarfi við CCP og fleiri aðila þróað nýtt kerfi sem meðal annars gefur COVID-19 sjúklingum færi á að senda upplýsingar um líðan sína til yfirvalda. Kerfið verður tekið í notkun í þrepum hjá heilbrigðisyfirvöldum og gæti skipt miklu máli við að létta álagi af heilbrigðiskerfinu.

Dagsdaglega þróar Sidekickhealth stafrænar heilbrigðismeðferðir, þar sem tækninni er beitt til þess að bæta meðferð sjúklinga með ýmsa langvinna sjúkdóma. Á mettíma þróaði Sidekick, í samvinnu við fjölmarga aðila, kerfi sem gefur COVID-19 sjúklingum færi á að senda upplýsingar um líðan sína í gegnum smáforrit, sem og vefgátt sem leyfir heilbrigðisstarfsfólki að meta hvernig sjúkdómurinn er að þróast. Einnig býður kerfið upp á bein samskipti milli sjúklings og heilbrigðisstarfsfólks. Greint var frá þessu í Fréttablaðinu 3. apríl síðastliðinn.2

NeckCare

Íslenska fyrirtækið NeckCare Holding ehf. selur veflægar greiningar og endurhæfingarlausnir á hreyfiskaða. Búnaðurinn frá Neck- Care er sá eini sinnar tegundar í heiminum og getur hann mælt hreyfingu á hálsi og baki með mikilli nákvæmni. NeckCare gerir sjúkraþjálfurum mögulegt að fylgjast með því hvort sjúklingar eru að sinna endurhæfingaráætlun, s.s. heimaæfingum sem sjúkraþjálfarinn setur þeim fyrir, auk þess sem mögulegt er að bjóða upp á fjarsjúkraþjálfun. Félagið hefur fengið styrk frá bandaríska flughernum. Um 80% af þeim flugmönnum sem hafa lokið störfum hjá bandaríska flughernum hafa hlotið krónískan hálsskaða sökum starfa sinna. Kim De Roy er einn af eigendum NeckCare Holding. Hann kom nýlega inn í eigendahóp fyrirtækisins, en áður starfaði hann sem forstöðumaður rannsókna og þróunar hjá Össuri. Þorsteinn Geirsson er einn eigenda og framkvæmdastjóri NeckCare. Nokkrum sinnum var fjallað ítarlega um þetta fyrirtæki í Viðskiptablaðinu.

Stöndum saman með sjálfbærni að leiðarljósi

Hér hafa verið nefnd örfá dæmi um fyrirtæki sem hafa þróað upplýsingakerfi, hugbúnað eða tækjabúnað sem tengist heilbrigðistækni, íslensku heilbrigðiskerfi eða íslenskum fjárfestum. Stærri fyrirtæki eins og Össur, Alvogen, Alvotech og Decode/Íslenska erfðagreiningu þekkja allir, en svo má nefna Genis, Kerecis, Niblegen, Nox Medica, Oculis, Orf líftækni, Oxymap, Mentis Cura, Zymetech og mörg fleiri sem ekki síður hefði verið gaman að fjalla um hér. Með samstarfsvettvang á borð við heilbrigðis- og líftækniklasa og jafnvel enn útvíkkaðri klasa nokkurs konar verkfræði og líftæknikjarna gætu fyrirtæki unnið saman og verið jarðvegur fyrir frekari grósku á þessu sviði. Tækifærin eru víða og þá sérstaklega til vaxtar erlendis og þar með aukinna útflutningstekna.

Fjölmörg dæmi eru um fyrirtæki sem hafa verið að spretta upp á undanförnum árum og eiga góða möguleika að vaxa og skapa miklar tekjur og atvinnu fyrir þúsundir Íslendinga innanlands og erlendis. Fjölbreytni í háskólastarfi hér á landi samhliða viðvarandi og vaxandi framhaldsmenntun og atvinnuþátttöku Íslendinga erlendis hefur aukið slagkraft atvinnulífs og vísindasamfélags.

Nauðsynlegt er að tryggja komandi kynslóðum lífsgæði og spennandi störf svo að fólk kjósi áfram að búa og starfa á Íslandi. Þau störf verða að vera þokkalega vel launuð og ekki líklegt að það gerist nema að nokkru leyti í núverandi atvinnustarfsemi, sem er mjög auðlindadrifin og margar auðlindir takmarkaðar ef tryggja á sjálfbærni og varðveita náttúruna. Mikilvægt er að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem skapar verðmæti með útflutningi, hvort sem um er að ræða vörur eða þjónustu. Íslandsstofa tók sem dæmi að til að standa undir 3% hagvexti næstu 20 árin þarf íslenskt þjóðarbú að auka útflutning um 1.000 milljarða eða jafnt dreift um einn milljarð á viku. Og það er ekki sama hvernig það er gert. Langstærsti hluti þessarar aukningar verður að koma með nýrri nálgun og þá með nýsköpun í núverandi greinum og ekki síst í nýrri atvinnustarfsemi.

Nýsköpunarstefna Íslands

Í fyrra kynnti ríkisstjórnin nýsköpunarstefnu sína undir heitinu Nýsköpunarlandið Ísland. Stýrihópur með þátttöku allra þingflokka, hagsmunaaðila í atvinnulífinu, háskólasamfélagsins, frumkvöðla og fjárfesta lagði fram stefnuna en verkefnastjórn stýrði vinnunni.

Mikill skilningur og stuðningur Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur nýsköpunarráðherra og ríkisstjórnar við nýsköpun og frumkvöðlastarf hefur varðað leiðina til framtíðar. Eins og hún hefur sagt sjálf í viðtölum er nýsköpun ekki tískuorð eða einhver frasi heldur lykilforsenda í frekari framförum og verðmætasköpun. Dæmi um það hafa verið nefnd hér að framan en fram til þessa hefur gífurleg verðmætasköpun orðið í lykilatvinnugreinum eins og sjávarútvegi sem byggst hefur á nýsköpun í veiðireglum um nýtingu auðlindarinnar, í nýsköpun í veiðum, varðveislu og vinnslu sjávarafurða og í þeim tækjabúnaði sem nýttur hefur verið.

Í menntakerfin hefur einnig orðið þróun í þessa veru með t.d. nýsköpun í háskólastarfi, með opnun Háskólans í Reykjavík og enn áður Háskólans á Akureyri. Svo má nefna fyrirhugaðar breytingar á starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þar er sú leið farin að leggja stofnuna niður og færa verkefni hennar til annarra aðila, komast nær háskólasamfélaginu og fyrirtækjunum í landinu og sameina við aðra sambærilega starfsemi.3

Frumvarp um frumkvöðlasjóðinn Kríu með 2,5 milljarða króna ráðstöfunarfé er dæmi um aukna áherslu stjórnvalda á þessu sviði. Krían er sá fugl sem ferðast lengst frá landinu þegar hún fer í burtu, en kemur alltaf til baka. Hún er eldsnögg og á sífelldu iði og amstri og nafngiftin hæfir því öflugum frumkvöðlasjóði. Við þurfum fleiri en eina kríu því hún verpir ekki nema tveimur eggjum. Við þurfum miklu fleiri kríur og fleiri körfur til að setja eggin í. Það er verið að stíga alltof lítil skref á þessu sviði meðan tugir milljarða fara í „hefðbundndar” innviðafjárfestingar.

Heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í vísissjóðum verður einnig aukin þannig að þeir megi eiga allt að 35% í vísissjóði í stað 20%, sem mun vonandi hleypa enn meira súrefni í nýsköpunarstarfið. Þótt lífeyrissjóðir hafi tekið við sér að nokkru leyti, þá eiga þeir meira tækifæri í nýsköpunarverkefnum þar sem arðsemin verður síst minni, ef vel er haldið utan um fjárfestinguna. Það er því full ástæða til að horfa með bjartsýni til sjálfbærrar nýsköpunar á Íslandi að lokinni þeirri alheimskreppu sem kennd verður við COVID-19.

Kríurnar verpa vonandi mörgum eggjum

„Mjór er mikils vísir” eins og máltækið segir. Vísir merkir þar frjóangi eða spíra sbr. orðasambandið „vísir að e-u”. Vonandi mun þetta efla vísisfjárfestingar enn frekar og leggja grunn að öflugra umhverfi vísisfjárfestinga hér á Íslandi. Við fögnum Kríu og vonandi fer hún sem fyrst að verpa eggjum og klakið heppnist vel. Við þurfum margar kríur og mikilvægt verkefni er fram undan að styðja við þær auðlindir sem byggir á hugvitinu. Að hleypa meira súrefni þar inn ekki síður en í húsnæðismarkaðinn, ferðaþjónustuna eða aðrar greinar. Hugvitið er óþrjótandi auðlind. Þar býr meiri orka en í fallvötnunum og meiri verðmæti en í afla upp úr sjó, með fullri virðingu fyrir verðmætum þeirra auðlinda.

Höldum áfram auðlindum sem mest í okkar eigu

Hugvitið er oft verðmætast þegar það byggir á og styður samhliða við nýtingu náttúruauðlinda. Við eigum okkar náttúruauðlindir og eigum að halda þeim sem mest í eigu þjóðarinnar, hvort sem eru orkuauðlindir, auðlindir sjávar, vatna og vatnsfalla eða náttúruperlur víða um land.

Þegar horft er til laxeldis og laxveiða sem dæmi, þá er ástæða til að óttast það að veruleg verðmæti og ekki síður yfirráð yfir auðlindinni séu að hverfa. Flestir landsmenn þekkja það hvernig erlendur auðmaður kaupir upp hverja laxveiðiána á fætur annarri og er áreiðanlega ekki hættur þótt hann láti minna fyrir sér fara.

Annað dæmi sem er ekki jafn umtalað og það er að nánast allt laxeldi á Íslandi er í eigu Norðmanna, því er stjórnað af þeim og þeir selja afurðirnar undir sínum merkjum og hirða sölutekjurnar og arðinn. Þeir lána fyrirtækjunum á uppbyggingartíma á tiltölulega háum vöxtum, flytja sitt eigið fóður hingað til lands með eigin skipum og nýta ekki endilega öflugustu og dýrustu tæknina til að forðast sýkingar, úrgangslosun í hafið eða sleppingar á laxi úr eldiskvíum í sjó.

Byggðalögin verða háð erlendum öflugum fyrirtækjum á þessu sviði og þegar taka á upp auðlindagjöld eða takmarka svigrúm þeirra á einhvern hátt þá getur gerst það sama og þegar stóriðjufyrirtækin loka hvort sem það er PCC á Bakka eða álverið í Straumsvík. Lítil þorp á Vestfjörðum og Austfjörðum hafa dregið til sín vinnuafl, byggt upp atvinnu í kringum auðlind sem við eigum ekki, stjórnum ekki og höfum ekki byggt upp hugvit, þekkingu og rannsóknir í greininni. Blessunarlega höfum við haldið sjávarauðlindinni í okkar höndum. Íslendingar hafa stundum vanmetið mikilvægi þess að stunda meiri rannsóknir, þróun og fjárfestingu í fiskeldi og þróað öflugar umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir, eldisaðferðir, tækni, markaðsstarf og flutningatækni eins og gert hefur verið í sjávarútvegi.

Á sama tíma og notkun hugvitsins eykst í nýjum greinum þurfa Íslendingar að tryggja yfirráð yfir sínum náttúruauðlindum sem mest og verða ekki háð erlendum fyrirtækjum eða nýlenduherrum á 21. öldinni. Tímabil nýlenduherra á að vera liðið.

Til að halda í hugvitið þarf að skapa fyrirtækjunum samkeppnishæf skilyrði til að starfa hér á landi og stuðning til að vaxa og dafna. Engin landamæri, átthagafjötrar eða höft halda hugvitinu heima. Það þarf jarðveg, áburð, súrefni og umhyggju allt frá því að það er fræ í jörðu, síðan sproti og þar til það verður fullþroska og sjálfbært. Þar skiptir einstaklingsframtakið miklu máli, en líka stuðningur ríkisstjórnar og ríkisstofnana. Núverandi ríkisstjórn hefur stutt við þetta með nýsköpunarstefnu um Nýsköpunarlandið Ísland. En meira þarf til, það þarf þjóðarátak á þessu sviði.

Höfundur er viðskiptafræðingur og formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

Tilvísanir:

1. Sjá https://stefnumotun.islandsstofa.is/forsida/island-er-tengt-sjalfbaerni/
2. Sjá: https://www.frettabladid.is/frettir/throudu-kerfi-til-ad-fylgjast-med-covid-19-sjuklingum/
3. Sjá: https://www.stjornarradid.is/library/01–Frettatengt—myndir-og-skrar/ANR/Nyskopun/NSL%C3%8D1.pdf