Það er orðið nokkuð langt síðan jákvæðar fréttir hafa borist frá Venesúela. Nafn þessa eitt sinn ríkasta lands Suður-Ameríku kemst nú aðeins í fréttir þegar aðþrengdir borgarar efna til mótmæla gegn stjórnlyndu yfirvaldi sem sífellt þokast nær alræði. Hungur og sjúkdómar hrjá fólkið og er nú talið að um 70-80% þjóðarinnar lifi undir fátæktarmörkum. Gjaldeyrishöft, gengisfellingar og minnkandi kaupmáttur eru í veldisvexti og samkvæmt nýjustu fréttum voru lágmarkslaun á mánuði $1,61 miðað við markaðsgengi (30. apríl) en verða eflaust lægri þegar þessi grein birtist á prenti. Rétt eins og 40% launahækkunin sem opinberir starfsmenn fengu í árslok 2017. Hún skilaði $2,02 á mánuði, en að auki fá þeir matarmiða að upphæð 549.000 bolívara, sem svarar til $4,46, og mega því prísa sig sæla. Fólk leitar á ruslahaugum eftir matarleifum sem hrökkva af borðum þeirra sem enn eiga fyrir mat en meira en helmingur þjóðarinnar leggst svangur til svefns á kvöldin. Svona virkar nú sósíalisminn í reynd.
Fjölmiðlar á Vesturlöndum hafa, þar til nýlega, lítið fjallað um ástandið í Venesúela og sjaldnast um orsök þess að svona er nú komið fyrir þessu ríka landi. Fálæti fjölmiðla ræðst meðal annars af því að lengst af hafa vinstrimenn á Vesturlöndum litið til sósíalísku „tilraunarinnar“, sem nú hefur staðið í 19 ár í Venesúela, sem fyrirmyndar í kafaldi kapítalismans. Gleymdar eru hörmungar mannfólks í Sovétríkjunum, Kampútseu og Kína, en vegna þessa hafa menn eins og Jeremy Corbyn í Bretlandi, Bernie Sanders í Bandaríkjunum og Gunnar Smári á Íslandi átt auðvelt með að predika sinn sósíalíska boðskap. Hollywood og fræga fólkið hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja. Stórstjörnur eins og Oliver Stone, Sean Penn, Michael Moore og erkimótmælandinn Noam Chomsky hafa hampað Hugo Chavez og dásamað dýrðina í landi hans.
Og vegna fálætis fjölmiðlanna hafa kröfur um sósíalískan lífsstíl á Vesturlöndum gerst sífellt háværari. Ungt fólk blæs á sögur úr kalda stríðinu og mannfórnir kommúnismans. Í þeirra huga er kommagrýlan bara uppfinning hinna ofurríku til að halda þeim niðri. Unga fólkið lítur hins vegar hýru auga til loforða gömlu kommanna um „valdið til fólksins“.
Hér heima heyrum við bergmál þessarar hugmyndafræði í tillögum Pírata um borgaralaun og kröfugerð Sósíalistaflokksins. En kenningin gengur ekki upp. Þó ekki væri fyrir annað en að alltaf þarf einhver að borga. Þá þarf að beita þvingunum og eignaupptöku og þegar þvinganir duga ekki þá ofbeldi og fangelsun. Vesturlönd eru enn sem komið er ekki komin á þann stað.
Sósíalískar stjórnir hafa tilhneigingu til að falla innan frá, oft með blóðugri byltingu fólksins sem orðið hefur fyrir barðinu á óskhyggju draumóramanna. En þrátt fyrir öll fordæmin rísa sífellt nýjar kynslóðir sem ólmar vilja ganga þennan veg. Ef dæma má af málflutningi sem nú virðist eiga hljómgrunn innan verkalýðshreifingarinnar á Íslandi er Karl gamli Marx enn við fulla heilsu. Jafnvel höfuðvígi kapítalismans, Bandaríkin, liggur nú undir ágjöf, þar sem nýleg könnun Victims of Communism Memorial Foundation sýndi að meirihluti aldamótakynslóðarinnar (44%) segist frekar vilja búa í sósíalísku samfélagi en kapítalísku (42%) og 7% telja kommúníska stjórnskipan fullkomlega ásættanlega.
En íbúar Venesúela, sem nú hafa fengið smjörþefinn af dýrðinni, eru ekki lengur á þeirri skoðun. Árleg úttekt Heritagestofnunarinnar í fyrra setti vísitölu efnahagsfrelsis (Economic Freedom Index) í Venesúela í 179. sæti af 180 og vermir landið nú toppsætið í eymdarvísitölu (World Misery Index) Cato-stofnunarinnar, meðal annars vegna þess að á síðasta ári tapaði gjaldmiðill landsins, bolívarinn, 97% af verðgildi sínu. Afleiðingarnar láta heldur ekki á sér standa.
Blóðug barátta um matarbitann
Offramboð af fréttum af hungri í heiminum hefur gert marga lítt næma fyrir þeim hörmungum sem daglega eiga sér stað í stríðshrjáðum löndum. Hungruð börn með útþaninn kvið og flugur í hálfbrostnum augum hafa verið á dagskrá fjölmiðla nær linnulaust allt frá því að fyrsta sjónvarpstækið kom inn á íslensk heimili. Fólk kaupir sér örlitla sálarró með því að gefa einhverjar krónur til hjálparsamtaka í von um að peningarnir rati rétt og hörmungarnar hverfi.
Einhvern veginn bjóst þó enginn við að tiltölulega þróað land með langa sögu yrði hungurvofunni að bráð. Þetta gerðist þó í Venesúela fyrir tilstilli hugmyndafræði sem löngu hefur sýnt sig að vera óbrúkhæf. Kommúnismi, sú gamla vofa, undir nafninu Chavizmi, hefur á tæpum 20 árum náð að kalla þessar hörmungar yfir íbúa Venesúela. Fátæklingum, sem áður töldust um 20% þjóðarinnar, hefur nú fjölgað svo að nú teljast um 70% þjóðarinnar undir fátæktarmörkum. Fólk leitar í rusli að matarleifum og eru þeir sem enn eiga til hnífs og skeiðar beðnir að merkja sérstaklega poka sem ekki innihalda matvæli þannig að ekki þurfi að eyða tíma í að róta í þeim. Dagurinn fer í að leita að mat og finnist eitthvað gefa foreldrar börnunum fyrst og neyta sjálfir afganganna ef einhverjir eru.
Þrátt fyrir það eru þúsundir barna að deyja úr vannæringu. Börn eru skilin eftir á götunni, á munaðarleysingjahælum og góðgerðarstofnunum og er kaþólska kirkjan með móttökustöðvar í flestum héruðum landsins. Félagsmálastofnanir opinbera kerfisins eru að hruni komnar og hafa engin ráð til að verða sér úti um mat til að útdeila. Þeir sem búa við sjávarsíðuna og eru í aðstöðu til þess að renna fyrir fisk eru öfundsverðir því þeir geta fullkomnað matseðilinn með banönum og rótum. Ætar rætur eru grafnar úr jörð þar sem þær er að finna og sjónvarpsstöðvar eru með sérstaka þætti til að leiðbeina fólki að þekkja þær ætu frá þeim eitruðu. Ekki veitir af, því að fólk sem vant er að kaupa mat sinn í stórmörkuðum deyr nú unnvörpum af neyslu eitraðra róta.
Í Venesúela heldur ríkið skrár yfir þá sem mega teljast fátækir og útdeilir matarpökkum til þeirra á u.þ.b. sex vikna fresti. Pakkarnir innihalda brýnustu nauðsynjar og eru seldir á $1. Jafnvel þessi litla upphæð er mörgum ofviða. Landbúnaður, sem áður annaði um 70% fæðuþörf landsmanna, skilar nú aðeins um 30%. Eftir stjórnarskrárbreytingar 2007 voru milljónir hektara lands, sem sagt var vannýtt, þjóðnýttar og afhentar til ábúðar landlausum. En vankunnátta og stöðug inngrip hins opinbera í framleiðsluna hafa aðeins gert illt verra. Er nú svo komið að alger upplausn er í landbúnaðargeiranum. Fólk fæst ekki lengur til að vinna þessa erfiðisvinnu sem skilar því engu og hefur ríkisstjórnin brugðið á það ráð að senda vinnuafl nauðugt út á akrana að viðlögðum hörðum refsingum. Jafnvel fangelsun. Verslanir eru rændar, landbúnaðarvélar og bústofn hverfur. Lögleysan sem ríkir í landinu hefur einnig haft alvarleg áhrif á flutninga með afurðir til borganna. Matvælaflutningar úr fjarlægum sveitum teljast nú til áhættustarfa. Hungraður almenningur og vopnaðir bófaflokkar ráðast á vöruflutningabíla með byssum, grjóti og naglaspýtum til að stöðva bílana svo komast megi yfir varninginn sem þeir flytja. Fjöldi bílstjóra hefur látið lífið í þessum árásum. Er svo komið að margir atvinnubílstjórar treysta sér ekki lengur til að stunda þessa vinnu. Aðrir þráast við – leggja lif sitt í hættu til að fæða fjölskylduna. Eftir fimm ár af sívaxandi kreppu er samfélagið að niðurlotum komið.
Talið er að yfir tvær milljónir manna hafi nú þegar flúið land í leit að lífi; flestir til nágrannalanda sem af veikum mætti takast nú á við innflytjendastrauminn. En hæfileiki mannsins til að lifa af sannar sig í Venesúela. Fólk lagar líf sitt að aðstæðum eins og hægt er og dagblöðin leggja heimilunum lið. Leiðbeiningadálkar gefa ýmiss konar ráð. Má þar sjá uppskriftir að „gómsætum“ súkkulaðikökum þar sem hveiti og jafnvel súkkulaði koma hvergi við sögu. Og venesúelskar húsmæður baka nú þjóðarréttinn arepas úr graskersmauki í stað hins hefðbundna maís. Sem kemur sér vel því maís er ekki lengur fáanlegur í landinu. Sannast hér hið fornkveðna að neyðin kennir naktri konu að spinna.
Og neyðin nær út fyrir mannheima. Hún kemur líka niður á dýrunum. Þessi heimatilbúni skortur hefur leitt af sér hörmungar í dýraríkinu. Hundar ráfa grindhoraðir um göturnar og keppa við mannfólkið um æta bita og dýrin í dýragörðunum svelta, þ.e. þau sem ekki hverfa að næturlagi ofan í potta landsmanna. Buffalóar, tapírar og fágæt villisvín eru eftirsótt enda holdmest en í raun er engin dýrategund örugg í Venesúela í dag.
Heilbrigðiskerfi í molum
Eins skelfilegt og það er fyrir fólk að horfa upp á hungur barna sinna er vitneskjan verri um að ástandið sé viðvarandi, enda veit fólk að langvarandi næringarskortur leiðir til alvarlegra örkumla, bæði andlegra og líkamlegra. Næringarskortur barna hefur spíralað síðan 2016.
Eins og gefur að skilja fara nýfædd börn verst út úr ástandinu. Læknar standa ráðþrota en reyna að gera sitt besta við óboðlegar aðstæður. Mörg börn sem lögð eru inn á spítala eiga ekki afturkvæmt til fjölskyldna sinna nema til greftrunar. Næringarskortur og ýmsar sýkingar valda því að margar konur geta ekki gefið brjóst. Börn kvenna sem þannig er ástatt fyrir eru nánast dauðadæmd frá fæðingu því að formúlumjólk er ófáanleg eða svo dýr að almenningur ræður ekki við að kaupa hana. Það kálfasull sem þeim er þá gefið dugar ekki til að koma þeim á legg. Þau veslast upp en lifi þau af er andlegur þroski þeirra verulega skertur.
Könnun gerð árið 2016 sýndi að 96% sjúkrahúsa landsins höfðu ekki yfir að ráða öllum þeim formúlumat sem talinn er nauðsynlegur og 63% sjúkrahúsanna gátu ekki boðið neinar formúlur. Opinberar tölur um næringarskort sem dánarorsök liggja heldur ekki fyrir, því að samkvæmt opinberri tilskipun er bannað er að greina frá dánarorsök af völdum næringarskorts. Fyrir algera tilviljun birtist í fyrra tengill á síðu heilbrigðisráðuneytisins þar sem sagði að 11.446 börn undir eins árs aldri hefðu látist á árinu 2016. Síðan gufaði þó snarlega upp og engar tölur um barnadauða hafa verið birtar síðan. Til að bæta gráu ofan á svart hafa yfirvöld enn fremur hafnað allri aðstoð erlendra hjálparstofnana enda væri það viðurkenning á að ekki væri allt í lagi í sósíalísku paradísinni.
Skortur á almennum rekstrarvörum eins og hreinu vatni, sápu, sárabindum og nálum auk allflestra nauðsynlegra lyfja hrjáir líka sjúkrahúsin. Því eru sjúklingar útskrifaðir með langa lista af lyfjum sem þeir að sjálfsögðu geta ekki keypt, þar sem lyfin eru annars vegar ekki til eða þeir eiga ekki fyrir þeim. Blaðamenn New York Times fjölluðu um barnadauða í Venesúela í desember síðastliðnum eftir að hafa kynnt sér ástandið á fjölmörgum opinberum sjúkrahúsum í landinu. Það er hrollvekjandi lesning um martröðina sem þetta fólk lifir við – börnin og foreldrarnir jafnt sem starfsmenn sjúkrahúsanna.
Og hver vill svo sem fæða barn inn í þessa hörmulegu aðstæður? Konur eru skelfingu lostnar af ótta við að fæða enn eitt barnið inn í þennan ömurlega heim. Þær leita unnvörpum á heilsugæslustöðvar sem framkvæma ókeypis ófrjósemisaðgerðir. Tugir ef ekki hundruð slíkra aðgerða eru framkvæmdar í viku hverri enda eru smokkar og aðrar getnaðarvarnir ekki lengur fáanlegar í galtómum lyfjaverslununum. Leiðbeiningarsíður dagblaðanna reyna þó að gefa ráð, oftast með haldlitlum hindurvitnum sem gera aðeins illt verra.
Öll heilbrigðisþjónustan er í raun í lamasessi. Börn eru ekki bólusett og eru því auðveld bráð fyrir umgangspestir og barnasjúkdómar leggjast þyngra á þau vegna vannæringar. Lyf eru lúxusvara stjórnmálaelítunnar í kringum forsetann, Maduro, sýklalyf eru varla til og HIV-smitaðir fá ekki lengur lyf. Krabbameinssjúkir ekki heldur. Það komst í heimsfréttirnar síðastliðið haust þegar Maduro bauð lyfjafyrirtækjum demanta og gull upp í greiðslu fyrir lyf. Þegar svo er komið er land komið fram á bjargbrúnina. Skortur á gjaldeyri í þessu olíuríka landi og þvermóðskufull afneitun á ríkjandi ástandi er banvæn blanda.
En þótt Maduro neiti að viðurkenna að chavizmi sé að drepa þjóðina segja staðreyndirnar sína sögu.
Olían sem aldrei þverr
Venesúela situr á stærstu olíulindum í heimi og gæti því haldið allri þjóðinni í sæmilegum álnum ef ekki væri að markmið sósíalismans hefur aldrei verið velmegun þegnanna. Þrátt fyrir gulrótina um eilífa sælu öreiganna er takmark sósíalismans að hneppa alla í fjötra hugmyndafræði sem smyr eymdinni jafnt út.
Á meðan olíuverð var í hæstu hæðum í kringum aldamótin var Chavez heltekinn af að breiða út sína bolívarísku byltingu. Jú, hagur hinna fátækustu í landinu batnaði um skeið en peningarnir streymdu líka jafnharðan úr kassanum til kolleganna í löndunum í kring. Reyndar líka til Afríku og Palestínu, enda leit hann á sig sem sem eins konar frelsara allra „þjáðra manna“. Hann keypti sér velvild víða með olíuauðnum, sem færði honum viðurkenningu m.a. hjá Sameinuðu þjóðunum.
En þetta örlæti Chavez var þegar farið að láta á sjá löngu áður en heimsverð á olíu lækkaði. Þjóðnýting alls sem áður hafði verið í einkaeigu, þ.e. fyrirtækja í öllum greinum atvinnulífsins, og skortur á verkstjórn, viðhaldi og tæknikunnáttu gerðu svo það að verkum að þegar þrengdi að náði landið engri viðspyrnu. Leiðin hefur legið niður á við síðan þá og eykst hraði niðurlægingarinnar með hverju ári.
Má segja að 2015 hafi verið vendipunkturinn þegar ekki varð lengur við neitt ráðið. Verðbólga fór yfir 3.000% á síðasta ári og var spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ársbyrjun að líklega færi hún yfir 13.000% við lok árs 2018. Verðbólgan tók hins vegar stökk í mars og apríl og var komin í 17.968% í byrjun maí. Haldi fram sem horfir gæti verðbólgan verið komin í 100.000% við lok árs.
Það er því nokkuð bratt af Maduro að ætla að bjarga efnahag þjóðarinnar með því að selja túristum djús og djamm á sólríkum ströndum landsins. Strendurnar eru reyndar enn til staðar en túrista skortir áræði til að koma. Bandaríkin og ýmsar vestrænar þjóðir hafa varað ferðamenn við vegna ástandsins í landinu, en samkvæmt World Travel and Tourism-ráðinu er Venesúela í 131. sæti af 136 hvað varðar öryggi ferðamanna; með Pakistan, El Salvador og Jemen fyrir neðan, en Paragvæ, Úkraínu og Líbanon fyrir ofan. Ísland er í þriðja sæti. Glæpatíðnin er svo útbreidd að þeir sem enn eiga bíla brynverja þá og útbúa með skotheldum glerjum. Þurfi menn að ferðast landshluta milli fara þeir saman í bílalestum. Opinberar tölur eru fáséðar í Venesúela en þó tilkynnti innanríkisráðuneytið nýlega að 53 einstaklingar hefðu, að jafnaði, verið myrtir á degi hverjum á árinu 2017.
En sósíalistana á Vesturlöndum skortir ekki skýringar á óöldinni. Ken Livingstone, fv. borgarstjóri Lundúnaborgar (oftast nefndur Rauði Ken), lýsti því yfir á Talk Radio að ástandið í Venesúela mætti rekja til þess að Chavez hefði láðst að drepa óligarkana (viðskiptajöfrana) eftir valdatökuna 1999. Á þeim tíma hefðu um 200 fjölskyldur ráðið yfir 80% auðsins í landinu. Kommúnistar hafa tilhneigingu til að grípa til einfaldra lausna þegar eitthvað stendur í vegi fyrir framgangi hugmyndafræði þeirra. Ken Livingstone er engin undantekning. Réttlæting á slíkri morðöldu getur þó tæpast byggt á þessari yfirsjón Chavez, því að þeir sem eitthvað áttu hafa löngu flúið land og þeir sem nú eru drepnir eru flestir þeir sömu og róta í ruslinu eftir ætum bita við hlið morðingjanna.
Það mun því verða einhver bið þar til „ferðamennska [verður] olían sem aldrei þverr“, eins og ferðamálaráðherra Venesúela lét nýlega hafa eftir sér. Þeir sem baksa við að halda hótelrekstri gangandi eru ekki jafn bjartsýnir. Sífellt erfiðara er að fullnægja þörfum þeirra fáu viðskiptavina sem inn slæðast, en komum erlendra ferðamanna til landsins hefur fækkað um 80%. Nauðsynjavörur eins og klósettpappír og sápa eru nær ófáanlegar og allt sem ekki er naglfast er hirt af þeim sem þó nýta gistinguna. Handklæði, ljósaperur og kaffivélar hverfa enda ekki fáanleg lengur vegna skorts á gjaldeyri. Varahlutir fást ekki í sjónvarpstækin, sem flest eru frá „góðæristíma“ Chavez. Og þó svo að enn megi kveikja á einu og einu tæki á góðum degi er alls ekki sjálfgefið að rafveitan sé í stakk búin að afgreiða sína afurð. Í þeim efnum gildir nefnilega jafnræði; engir varahlutir, ekkert sjónvarp og ekkert rafmagn.
Gjaldeyristekjur Venesúela af ferðamennsku voru einn milljarður bandaríkjadala árið 2008. Nú óttast hóteleigendur að rekist erlendur ferðamaður inn gæti það orðið bæði honum og hótelinu dýrkeypt. Hafi vasar gestsins og veski ekki þegar verið tæmdir fyrir innritun eru allar líkur á að bófagengi bæjarins þefi upp gististað hans og ráðist til inngöngu. Eru dæmi um að grímuklæddir byssumenn ryðjist inn á hótel, hóti starfsmönnum og tæmi herbergi gesta af veraldlegum eigum. Er þá eins gott að ferðamaðurinn sé ekki inni þegar þessa „gesti“ ber að garði, því þá gæti líftóran líka horfið með góssinu. Ferðamönnum fyrirgefst að sækjast ekki eftir slíkum trakteringum.
Verðbólgan í landinu hefur líka haft sitt að segja fyrir áhuga ferðamanna. Gjaldeyrishöft og fast verðlag vöru hefur ýtt undir svartan markað og tvöfalt gengi. Þegar vigt kaupmannsins dugði ekki lengur til að verðleggja kjötflísarnar sem almenningur lét eftir sér að kaupa á hátíðisdögum neyddist Maduro til að skera þrjú núll aftan af bolívarnum. En verðbólgan æðir áfram og nú er svo komið að verðlag tvöfaldast hverja 17,5 daga að sögn Steve Hanke, hagfræðiprófessors við Johns Hopkins-háskólann í Baltimore. Veitingamenn og hóteleigendur hafa ekki undan að breyta verði á varningi og þjónustu. Máltíð sem í fyrra kostaði 35.000 bolívara kostaði í febrúar 750.000. Með fordrykk og víni getur slík máltíð farið í 1,5- 1,8 milljónir, sem er ígildi tveggja mánaða lágmarkslaun. Hér er ekki verið að tala um hvítar trufflur og gullduft á dýrustu beyglum í heimi heldur vinsælan smokkfiskrétt sem fá má á flestum veitingastöðum landsins.
Á opinberu gengi gerir slík máltíð sig, þegar þetta er skrifað, á 7½ milljón íslenskar og má ætla að venjulegur túristi þurfi að ræða við bankastjóra sinn áður en hann fjárfestir í herlegheitunum. Kaupi hann hins vegar bolívara sína á svörtum markaði kostar máltíðin innan við 2.000 krónur. Á meðan Maduro lætur sig dreyma um sjö stjarna hótel eiga veitingastaðir sífellt erfiðara með að afla vista. Matvæli berast ekki frá sveitunum og sjómenn kjósa frekar að selja afla sinn fyrir dollara á nærliggjandi eyjum en á heimamarkaði. Það er að vísu ólöglegt, en hvað gera menn ekki með fullt hús af hungruðum börnum.
Það blæs því ekki byrlega í ferðamálum landsins um þessar mundir og ekki hjálpar heldur að helmingur allra þeirra flugfélaga sem áður höfðu Venesúela á flugáætlun flýgur þangað ekki lengur. Fækkun farþega á eflaust stóran þátt í fækkuninni, en öryggismál, aðbúnaður á flugvöllum, viðhald og varahlutir hafa líka sitt að segja.
Venesúela frá lýðveldisstofnun
Frá lýðveldisstofnun 1830 og allt fram til 1958 var Venesúela stjórnað af harðstjórum (caudillo) með tilstyrk hervalds. Mikil ólga ríkti í landinu og voru uppreisnir, borgarastyrjaldir og stjórnarbyltingar tíðar. Lýðræði var komið á árið 1958 með kosningu miðjuflokksins Accion Democrática og Kristilega lýðræðisflokksins (COPEI Partido Popular). Stýrðu þessir flokkar landinu að mestu næstu 40 árin, frá 1958-1998. Þótt hér sé talað um miðjuflokka og kristilega lýðræðisflokka hallast flestir stjórnmálaflokkar í Venesúela meira og minna til vinstri. Það er því ágætt að hafa það bak við eyrað þegar horft er til þess ástands sem nú ríkir og þess sem tekið gæti við.
Ríkulegar olíulindir fundust í Venesúela í upphafi 20. aldar. Skilaði olían svo drjúgt í kassann að um miðjan fjórða áratuginn var Venesúela orðið stærsti framleiðandi olíu í SuðurAmeríku. Þótt mikið af þeim auði sem þar skapaðist fyndi sér farveg ofan í vasa stjórnmálamanna batnaði hagur landsmanna nokkuð og á áttunda áratugnum þegar olíuverð rauk upp úr öllu valdi vegna olíukreppunnar, í kjölfar Yom Kippurstríðsins, ákvað ríkisstjórn Carlos Andrés Péres að fara í stórátak til að bæta lífskjör. Ríflegur hluti olíutekna var þá látinn renna til uppbyggingar iðnaðar og var jafnframt gífurlegum fjármunum varið til velferðar- og menntamála. Sú aðgerð skilaði Venesúela í fyrsta sæti Suður-Ameríkuríkja.
En til að ná fullum tökum á olíuiðnaðinum, sem þó var að skila 50% hagnaðarins til ríkisins allt frá árinu 1943, þjóðnýtti Péres olíuvinnsluna. Einnig setti hann á verndartolla og jók niðurgreiðslur. Áttu þessar aðgerðir að auka atvinnutækifæri, hækka laun og vinna gegn fátæk. En verðhrun á olíu upp úr 1980 og einhæfur útflutningur (olía 95%) lék landið og ríkisstjórnina grátt. Fátækt jókst og skortur á nauðsynjum, verðbólga og óánægja með stjórnarhætti leiddi til þess að stjórnin hleypti aftur erlendum stórfyrirtækjum að olíuvinnslunni.
Misheppnuð tilraun hersins að stjórnarbyltingu var kveðin niður á tíunda áratugnum. Liðsforinginn Hugo Chavez var handtekinn og dæmdur í tveggja ára fangelsi. En jarðvegur hafði skapast fyrir enn róttækari pólitík en áður hafði verið rekin og þegar hann var laus úr fangelsi, studdur af hernum og blásnauðum almúganum, var tími popúliska kommúnistans Hugos Chavez kominn. Árið var 1999 og rússíbaninn rétt að rúlla af stað. Það má því með réttu halda því fram að olían hafi verið Venesúela bæði björgun og banabiti.
Stórkarlaleg kosningaloforð gáfu Hugo Chavez gríðarlegan meðbyr við upphaf stjórnartíðar hans. Hann fékk staðfesta nýja stjórnarskrá sem gaf honum vald yfir öllum þremur stoðum ríkisvaldsins og rétt til að stjórna með tilskipunum. Olían var notuð til að kaupa fylgispekt fátæklinganna sem tilbáðu hann og gera enn. Strax fór að bera á yfirgangi og eignaupptökum og árið 2002 var gerð stjórnarbylting með aðstoð hersins. Chavez var handtekinn en vegna ósamstöðu og skipulagsklúðurs uppreisnaraflanna var hann aftur sestur á forsetastólinn aðeins fjórum dögum síðar. Þrátt fyrir stöðuga ólgu, uppþot og fangelsanir náði stjórnarandstaðan aldrei vopnum sínum enda var Chavez slyngur að beita fyrir sig því valdi sem hann hafði sölsað undir sig. Chavez beitti sér fyrir „21. aldar sósíalisma“ eins og hann kallaði það, sem eins og 19. og 20. aldar sósíalismi fól í sér faglegt klúður á öllum sviðum, gjaldeyrishöft, þjóðnýtingu atvinnutækja og nær ótakmarkað vald. Það fékkst með nýrri stjórnarskrárbreytingu árið 2007 sem uppfyllti allar óskir hans að undanskildu afnámi takmarkana á kjörtímabil forseta og svo auðvitað eilífu lífi.
Chavez var alla tíð einlægur aðdáandi Fidels Castro Kúbubónda og átti í skjallbandalagi við hann allt til dauðadags. Í nafni marxískrar byltingar ætlaði hann sér stórt hlutverk við að sameina Suður-Ameríkulönd í eina efnahagslega heild sem staðið gæti sterk gegn Bandaríkjunum og ESB. Hann ætlaði sér að verða síðari tíma frelsishetjan Simón Bolívar og kenndi byltingu sína við hann. Chavez eyddi gífurlegum fjármunum í þetta gæluverkefni; studdi byltingarhópa vítt og breitt, m.a. FARC og Hamas.
En þrátt fyrir fjáraustur um alla Suður- Ameríku uppskar hann andstöðu í mörgum þessum ríkjum sem þótti afskipti hans af innanríkismálum þeirra full umfangsmikil. Olíuverð fór lækkandi undir lok stjórnartíðar hans og var þá aftur farið að gæta skorts á mat og öðrum nauðsynjavörum í landinu. Á sama tíma fór verðbólga vaxandi og fallandi heimsmarkaðsverð á olíu gerði skuldastöðu landsins ósjálfbæra auk þess sem verulega hafði dregið úr afkastagetu olíuframleiðslunnar vegna viðhaldsskorts og vankunnáttu þeirra sem við tóku eftir að Chavez rak erlenda sérfræðinga úr landi.
Við andlát Chavez tók strætóbílstjórinn Nicolás Maduro við stjórnartaumunum. Hann situr út kjörtímabil Chavez sem lýkur nú á þessu ári. Má segja að allt hafi farið á versta veg síðan Maduro tók við þótt fullyrða megi að búið sem hann tók við hafi verið á fallanda fæti. Áhrifanna af eyðslufylleríi Chavez fór þó ekki að gæta af alvöru fyrr en tveimur árum eftir dauða hans og situr því Maduro uppi með skömmina.
Í efnahagsþrengingum landsins hefur Maduro verið þungstígur og beitt þjóð sína miklu harðræði. Hafa menn t.d. verið fangelsaðir fyrir að neita að vinna þrælkunarvinnu á ökrum og í olíuvinnslunni fyrir þau smánarlaun sem þar eru í boði (nú $2,25 á mánuð).
Blóðug uppþot á síðustu misserum má rekja til ákvarðana Maduro um að afsetja þingið sem var honum andsnúið og skipa nýjan stjórnarskrárdómstól sem er honum undirgefinn. Lengi vissu menn ekki hvort staðið yrði við forsetakosningarnar sem samkvæmt stjórnarskrá á að halda í árslok. Maduro kom stjórnarandstöðunni á óvart þegar hann tilkynnti að þær yrðu haldnar í maí. Stjórnarandstaðan var óviðbúin og ofan á bættist að stjórnmálaflokkum (Hringborð Samstöðu um Lýðræði – MUD) var meinað að sammælast um frambjóðanda. Stjórnarandstaðan gat því aðeins teflt fram lítt þekktum frambjóðendum. 370 þúsund hermenn voru kvaddir til að hafa hemil á kjósendum ef nauðsyn krefði. Frambjóðandi var myrtur, aðrir bannfærðir og burðugir andstæðingar hnepptir í fangelsi. Kom á daginn að aðeins tveir buðu sig fram gegn Maduro. Leikur jafnvel grunur á að annar hafi bara verið málamyndaframbjóðandi hvers hlutverk hafi verið að láta líta svo út að um alvöru kosningar hafi verið að ræða.
Kosningarnar voru svo haldnar 20. maí og eins og við var að búast sigraði Maduro með „yfirburðum“. Fékk hann þó 1,3 milljónum atkvæðum færra en í kosningunum 2013, auk þess sem 54% hungraðra kjósenda létu sig hafa það að sitja heima þrátt fyrir loforð um matargjafir. Og ekki stóð á viðbrögðunum. Trump herti á refsiaðgerðum svo að Rússar og Kínverjar verða nú að kafa dýpra í vasa sína til að halda Venesúela á floti. Lima-klúbburinn, sem samanstendur af 14 Ameríkuríkjum, kallaði strax sendiherra sína heim og G7-iðnríkin fordæmdu kosningarnar „enda sýndu þær ekki lýðræðislegan vilja þjóðarinnar“. Kúba og El Salvador sendu heillaóskir.
Var haft eftir einum stjórnarandstæðingi að „ef eitthvað er verra en engar kosningar þá eru það kosningar undir stjórn Maduro“. Eflaust munu þær raddir heyrast að mistökin í Venesúela séu til komin vegna þess að framkvæmdin hafi verið röng. Það breytir því ekki að hvort sem við köllum þetta sósíalisma, kommúnisma eða Chavizma er hugmyndafræðin söm við sig sama hvaða nafni hún nefnist. Hungur og hörmungar fyrir fólkið.
Höfundur er lífeindafræðingur og bókmenntafræðingur.
– Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is.