Karl Marx og marxismi tvö hundruð ára

Um manninn Karl Marx er aðeins hægt að segja að hann var fyrirlitlegur skálkur

Vofa gengur enn ljósum logum um heiminn, vofa Karls Marx. Maðurinn sem var faðir alræðiskommúnisma tuttugustu aldar, skrifaði leiðarvísi um alræðisríki byggt á grunni byltingar og fjöldamorða og átti hugmyndina að hörmulegri sósíalískri miðstýringu fæddist 5. maí 1818 í borginni Trier í Þýskalandi.

Þegar litið er yfir pólitíska og efnahagslega sviðið í löndum sem byggðu á hugmyndum Karls Marx, einkum síðustu hundrað árin, gæti maður haldið að nafn hans og arfleifð væri litin sömu haturs-, viðbjóðs- og fyrirlitningaraugum og nafn Adolfs Hitler, mannsins sem lagði grunninn að þýskum þjóðernissósíalisma (nasisma).

En þess í stað sjáum við nú, þegar við minnumst tvö hundruð ára afmælis Karls Marx, að hugmyndir hans halda áfram að hafa sín öfugsnúnu áhrif, þar á meðal í breyttri mynd „stjórnmálalegrar sjálfsmyndar“ ættbálkastefnu.

1. maí síðastliðinn birtist aðsend grein á ritstjórnarsíðu New York Times þar sem viðurkennt var að kommúnismi, eins og hann var framkvæmdur, hefði verið dálítið harkalegur; en sagt að það sem enn stæði eftir sem viðvarandi mikilvægi fyrir okkar tíma væri réttmæti „grundvallarkenninga Marx um að kapítalismi sé rekinn áfram af djúpstæðri stéttabaráttu þar sem valdamikli minnihlutinn hrifsar arðinn af vinnu stritandi meirihlutans“. Og að Marx „hefði lagt til mikilvægustu tólin til að grafa undan hugmyndafræðilegri kröfu kapítalisma um að verða allsráðandi“.

Sem sagt, að við getum endurskipulagt félagslega og efnahagslega kerfið til að skapa heim sem lýtur ekki arðráni kapítalismans.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, var viðstaddur hátíðahöld í tilefni tvö hundruð ára afmælis Marx í Þýskalandi. Skrifstofa Junckers sendi frá sér yfirlýsingu þar sem nærvera hans var rökstudd með því að þótt Marx væri nokkuð umdeildur, væri hann engu að síður „maður sem hefði sett mark sitt á þróun sögunnar“. Hið sama má vitaskuld segja um marga látna harðstjóra og boðbera alræðisstjórnar, en fáir þeirra hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að menn réttlæti að fæðingardögum þeirra sé fagnað

Á sama tíma sögðu evrópskir fjölmiðlar frá því að Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefði verið viðstaddur hátíðahöld í tilefni tvö hundruð ára afmælis Marx í Þýskalandi þar sem 18 feta bronsstytta af Marx var afhjúpuð. Hún var gjöf frá kínverska kommúnistaflokknum. Skrifstofa Junckers sendi frá sér yfirlýsingu þar sem nærvera hans var rökstudd með því að þótt Marx væri nokkuð umdeildur, væri hann engu að síður „maður sem hefði sett mark sitt á þróun sögunnar“. Hið sama má vitaskuld segja um marga látna harðstjóra og boðbera alræðisstjórnar, en fáir þeirra hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að menn réttlæti að fæðingardögum þeirra sé fagnað eða búnar til risastórar styttur af þeim.

Xi Jinping, forseti Kína, sagði í opinberri ræðu: „Í dag minnumst við Marx til að votta mesta hugsuði sögu mannkynsins virðingu okkar og einnig til að lýsa yfir staðfastri trú okkar á vísindalegt sannleiksgildi marxisma.“ Financial Times sagði frá því að sjónvarpsstöðvar og aðrir fjölmiðlar í Kína væru yfirfull af söngvum, sögum og heimildarmyndum um mikilvægi og þýðingu hugmynda og áhrifa Karls Marx og sérstakt mikilvægi þeirra fyrir hugmyndafræði kommúnísku kínversku þjóðarinnar.

Ad hominem kemur aldrei í staðinn fyrir að gagnrýna hugmyndafræði einhvers fremur en að ráðast að einstaklingnum. En eins og sagnfræðingurinn Paul Johnson benti á í bók sinni Intellectuals (1988) er stundum gagnlegt að vita eitthvað um mann sem setti fram sérstakar hugmyndir þótt hugmyndirnar verði vitaskuld að meta í samræmi við verðleika þeirra.

Maðurinn Marx

Um manninn Karl Marx er aðeins hægt að segja að hann var fyrirlitlegur skálkur. Hann fæddist inn í millistéttarfjölskyldu í Rínarlöndum. Faðir hans var prússneskur embættismaður sem hafði snúist frá gyðingdómi til kristni til að sneiða hjá lagalegum hindrunum sem þá voru í gildi til að koma í veg fyrir að gyðingar gætu orðið ríkisstarfsmenn.

Marx stundaði háskólanám við Háskólann í Berlín og drakk í sig díalektíska nauðhyggju heimspekingsins Georgs Hegel, sem lést nokkrum árum áður en Marx hóf háskólanám. Hann lauk ekki prófi í Berlín en fékk doktorsnafnbót með því að ljúka námskeiði í eins konar bréfaskóla sem Háskólinn í Jena bauð upp á.

Hann varði miklum hluta tíma síns á yngri árum í að vinna fyrir sér sem rithöfundur og ritstjóri dagblaða og tímarita sem öll urðu skammlíf. Eftir að hann flutti til Parísar árið 1843 upphófst ævilöng vinátta og samstarf þeirra Friedrichs Engels, auðugs þýsks efnavöruframleiðanda og róttæks sósíalista. Afraksturinn var frægasta sameiginlega ritverk þeirra, Kommúnistaávarpið (1848).

Marx og fjölskylda hans settust að í London árið 1849 og hann bjó þar til dauðadags, en hann lést 14. mars 1883, sextíu og fjögurra ára að aldri.

Það var á þessum árum sem Marx stundaði rannsóknir og gaf út fyrsta bindið af fræðilegum ritgerðum sínum um Auðmagnið (1867), en Engels ritstýrði og gaf síðari tvö bindin út að honum látnum. Á heimili sínu á Englandi varði Marx miklu af tíma sínum í afskipti af róttækum sósíalískum stjórnmálum á meginlandi Evrópu, meðal annars með því að brugga launráð og eiga í útistöðum við marga aðra áberandi sósíalista.

Karl Marx var smásálarlegur, langrækinn og hefnigjarn maður sem hélt framhjá konu sinni með ráðskonu fjölskyldunnar, eignaðist með henni óskilgetið barn og neitaði að gangast við syni sínum. Framkomu hans var ábótavant og persónulegt hreinlæti hans hörmulegt. Sumar greinar hans sem blaðamanns New York Herald Tribune voru stolnar, þar sem Engels skrifaði þær en Marx birti þær í eigin nafni. Hann beitti svikum og rógburði gagnvart öðrum meðlimum sósíalistahreyfingarinnar til að ota sínum eigin pólitíska tota og reyndi að grafa undan áhrifum þeirra sem ögruðu tilraunum hans til að reyna að hafa áhrif á og ráða hugmyndum og stefnu margra evrópskra sósíalistahreyfinga. Viðhorf hans til Slava, Asíu- og Afríkubúa einkenndust af kynþáttahatri og hann velti sér upp úr and-gyðinglegum áróðri og biturð. Karl Marx var með öðrum orðum viðbjóðslegur, grimmur og valdasjúkur maður.

Örlög manns stjórnast af „sögunni“ og þjóðfélagslegri stöðu

Marx var sannfærður um að hann hefði uppgötvað hið óumflýjanlega „lögmál sögunnar“ sem leiddi til óhjákvæmilegs dauða kapítalisma og sigurs sósíalisma. Hann leit á öll uppþot, uppreisnir og byltingar sem áttu sér stað í Evrópu á meðan hann lifði sem fyrsta skrefið í átt að sameiginlegri paradís. Og í hvert sinn sem von hans brást leit hann á það sem sönnun þess að paradísin væri handan við hornið.

Sýn Marx á þjóðfélagið var sú að einstaklingurinn væri smættaður og kaffærður innan „þjóðfélagsstétta“ arðræningja og hinna arðrændu sem berðust upp á líf og dauða um yfirráð yfir framleiðslutækjunum. Manneskjur hefðu í raun ekki hæfni til að móta örlög sín og stjórna þeim. Skoðanir þínar, draumar, viðhorf og gildi hefðu enga þýðingu og skiptu engu máli. Horfur þínar og lífskjör væru háðar „þjóðfélagsstétt“. Þú værir bandingi og örlög þín réðust af því hvort þú ættir framleiðslutækin eða værir fórnarlamb sem ætti þau ekki og til að geta séð þér og fjölskyldu þinni farborða þyrftirðu að betla og skríða fyrir kapítalistunum til að fá aðgang að auðlindum og tækjum sem þessir arðræningjar áttu og krefjast hluta þess sem þú aflaðir með striti þínu. Gróði kapítalistans var sá hluti af vinnuframlagi verkafólks sem tekinn var af því á grunni handahófskenndrar og uppspunninnar hæfni fárra þjóðfélagsþegna til að ráðskast með aðra og fá þá til að vinna fyrir sig fyrir minna en fullt verðgildi þess sem vinnan skapaði.

Marx sagði að ríkisvaldið verði illa fenginn gróða fárra eignamanna – þessa eina prósents – gegn byltingu; viðhald kerfisins reiddi sig líka á þá kapítalista sem í krafti eignarhalds á fjölmiðlum og áhrifa í menntakerfinu heilaþvægju verkalýðinn, innrættu honum „falska samviskusemi“ og fengju hann til að telja arðránið „réttmætt“ og „eðlilegt“.

Sósíalistabylting og alræði

Allt illt tekur enda, fullvissaði Marx þá sem hlustuðu á hann, þegar óhjákvæmileg „framþróun“ atvinnuháttanna næði að því marki að frekari framfarir krefðust þess að hinu kapítalíska kerfi einkaeignar yrði kollvarpað og í staðinn kæmi „félagslegt kerfi“ framleiðsluhátta sem byggðist á sameign og yfirráðum „vinnuaflsins“.

Forveri þessa stigs yfirvofandi sósíalískrar byltingar væri vaxandi örbirgð vinnuaflsins þar sem kapítalistar skiptu því í meiri mæli út fyrir kostnaðarhagkvæmari vélar. Það leiddi til þess að verkafólkið yrði atvinnulaust og bæri æ minna úr býtum í samkeppninni um þau sífækkandi störf sem stæðu því til boða. Harðnandi samkeppni milli kapítalista ylli því að þeir óskilvirkustu yrðu gjaldþrota og bættust í hóp vaxandi „hers atvinnuleysingja“. Þetta fækkaði kapítalískum arðræningjum í æ minnkandi hópi fulltrúa stéttarinnar sem „ráðskaðist“ með sístækkandi hóp eignalausra „öreiga“.

Að lokum yrði arðránið óbærilegt og meðvitundin um ánauðina og kúgunina sem kapítalistar beittu tortímdi tálsýninni um „falska samviskusemi“ sem hefði orðið til þess að vinnuaflið sætti sig við hlutskipti sitt í lífinu. Tími byltingarinnar væri runninn upp, „Fjöldinn“ risi upp, kapítalistar væru sigraðir og eignir „fyrri eigenda teknar eignarnámi“.

En verkafólk, sem nú hefði brotist undan yfirráðum kapítalísku húsbændanna, væri ekki tilbúið að taka við frelsinu og stjórna framleiðslunni. Nei, Karl Marx staðhæfði að áður en þessi ríkisfangslausa alsæla arðránslausu kommúnistaparadísarinnar þar sem skortur væri úr sögunni rynni upp yrði að eiga sér stað sósíalískt umbreytingarskeið sem leiddi til „alræðis öreiganna“.

Verkalýðurinn kynni að hafa losnað undan yfirráðum kapítalistanna en hugarfar hans, trúarbrögð og viðhorf drægju enn dám af hugsunarhætti kapítalista. Hann tryði enn á eiginhagsmunalega framkomu og persónulegan ágóða. Meðvitund hans hefði ekki verið „lyft“ upp á æðra stig ósérplæginnar sameignarstefnu þar sem hagsmunir hópsins hefðu forgang fram yfir eigingjarnar langanir einstaklingsins.

Það er skylda og ábyrgð „framvarðasveitar byltingarinnar“ – lesist sem Karls Marx, Friedrichs Engels og annarra réttþenkjandi hugsjónamanna – að aðhafast fyrir hönd verkalýðsins sem skilur ekki sanna hagsmuni sína og þarfir. Byltingarelítan þarf að sinna þeirri sögulega nauðsynlegu skyldu að „endurmennta“ fólkið og koma hugarfari þess upp á hærra stig sameignarhugsunarháttar; elítan verður að hrifsa stjórnartaumana, ná stjórn á nýja sósíalíska ríkinu og hanna og stjórna hinu nýja kerfi sósíalísks miðstýrðs áætlunarbúskapar; aga verður verkafólkið til að það vinni fyrir samfélagið í heild.

Á sama tíma verður framvarðasveit byltingarinnar að vera árvökul og verja sósíalíska samfélagið fyrir öllum tilraunum útlendra kapítalista og þeirra sem eftir eru af innlendum kapítalistum til að koma aftur á óréttlátu kerfi „launaþrælkunar“.

Ef þessir fyrrverandi kapítalistar og erfingjar þeirra neita að láta endurmennta sig verður að beita ofbeldi til að „útrýma“ þeim. Til að vernda verkafólk gegn því að láta tælast af kapítalískum hugmyndum verður nauðsynlegt að beita ritskoðun og sósíalískum áróðri og banna allar andsósíalískar hreyfingar og stjórnmálaflokka.

Harðstjórn og spilling við framkvæmd sósíalismans

Í nokkrum ritum Marx er því að finna það sniðmát harðstjórnar sem fylgt var, þróað áfram og gert enn harkalegra í öllum byltingum tuttugustu aldarinnar sem innblásnar voru af hugmyndum hans. Þetta hófst með Vladimír Lenín og bolsévikaflokki hans í Rússlandi árið 1917, síðan kom Maó formaður í Kína árið 1949, þá Ho Chi Minh í Víetnam árið 1954, sigur Fidels Castro á Kúbu árið 1959, yfirráð sandinista í Níkaragva sem hófust á níunda áratugnum og sigrar Hugo Chavez og Nicolas Maduro í Venesúela sem byrjuðu á tíunda áratugnum.

Að minnsta kosti 150 milljónir manna eru taldar hafa fallið fyrir hendi marxískra stjórna vítt og breitt um heiminn. Mikill meirihluta þessara fórnarlamba var óvopnað og saklaust fólk, karlar, konur og börn. Það var líflátið, því misþyrmt eða það látið svelta í hel.

Allar kommúnískar ríkisstjórnir tuttugustu aldarinnar reyndu eða tókst að koma á grimmu og alhliða alræði í landinu sem þær stjórnuðu. Áróðri, ritskoðun og innrætingu var miskunnarlaust beitt til að reyna að stjórna hugsun fólks, innprenta því „sósíalísk gildi“ og útmá smáborgaralegan og kapítalískan hugsunarhátt.

Sósíalísk miðstýring gerði sérhvern einstakling í paradís „verkalýðsins“ algjörlega háðan ríkinu um menntun, starf, húsnæði, tækifæri til að bæta fjárhagslega og félagslega stöðu sína og fríðindi sem ríkið útdeildi til þeirra sem það taldi sýna hollustu og undirgefni. Sósíalíska „stéttlausa samfélagið“ var í raun flókið stigveldiskerfi þjóðfélagsstöðu, starfa og áhrifavalds sem var háð stöðu einstaklingsins innan skriffinnskukerfis ríkisskipulags sem stýrði framleiðslunni, var atvinnuveitandi sérhvers borgara og ákvarðaði dreifingu alls þess sem risavaxin miðstýringarmaskínan gaf af sér.

Ekki var svo að hið miðstýrða áætlunarbúskaparkerfi kommúnískra samfélaga leiddi til sérstakrar velmegunar sem jafnaðist á við markaðshagkerfin handan járn- og bambustjaldanna sem aðskildu þá sem bjuggu í ríkjum undir stjórn marxista frá öðru fólki. Á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar höfðu austurrísku hagfræðingarnir Ludwig von Mises og Friedrich A. Hayek þegar sýnt rækilega fram á hvers vegna sósíalísk þjóðfélög sem beittu einberri miðstýringu leiddu til „skipulagðrar óreiðu“. Afnám einkaeignar á framleiðslutækjum, bann við markaðssamkeppni og skortur á verðlagskerfi sem gerði kleift að reikna út ágóða og tap og var forsenda þess að stýra hagkerfi allra þjóðfélaga á skynsamlegan hátt þýddi að sósíalísk kerfi sem lutu miðstýringu myndu leiða til fátæktar, sóunar og „órökréttrar“ notkunar á takmörkuðum auðlindum þeirra.

Þetta þýddi að sérhver einstaklingur í sósíalísku kerfi þurfti að hafa skyldleikatengsl eða vera í „stöðu“ innan kerfisins til að hafa minnstu möguleika á að verða sér úti um nauðsynjar, fríðindi og þau takmörkuðu þægindi sem í boði voru í landi þeirra vegna þess að fátt sem flokkaðist sem efnisleg gæði var hægt að fá (nema á útbreidda og rándýra svarta markaðnum) frá opinberu úthlutunarkerfi ríkisins, sem dreifði öllum vörum og þjónustu, án þess að njóta forréttinda, vera í hárri stöðu eða hafa völd.

Hugmyndir Marx leiða til alræðis og vænisýki

Sjálfrar hugmyndafræðinnar vegna blómstraði vænisýki í marxískum alræðisríkjum. Ef einstaklingar skipta ekki máli heldur aðeins staða þeirra innan þjóðfélagins; ef heimurinn er smættaður niður í baráttu upp á líf og dauða milli tveggja ósættanlegra þjóðfélagsstétta; ef hugmyndir og pólitísk heimspeki eru ekkert nema uppskrúfað málæði og áróður annarrar þjóðfélagsstéttarinnar sem ráðskast með hina; ef hver sá sem ekki er hluti af „öreigunum“ – undirokuðu verkalýðsstéttinni – eða aðhyllist ekki málstað sósíalísku byltingaraflanna, er skilgreindur sem „stéttaróvinur“ sem reynir að koma í veg fyrir eða hægja á hinni „sögulega“ óhjákvæmilegu skrúðgöngu í átt til sósíalisma eða kommúnisma; þá er sérhvert orð, sérhver hugmynd, sérhver aðgerð, sérhver viðburður sem ekki er talinn skref í átt að marxískri samyrkju hættuleg ógn við að árangur náist með sósíalísku byltingunni og við viðgang „upplýsts“ og „framfarasinnaðs“ alræðis þar sem það nær völdum.

„Árvekni“ gagnvart sífelldu „andbyltingar“- ráðabruggi, samsærum og tilraunum til að grafa undan árangri og framtíðarþróun sósíalísks ríkis er hið eilífa vígorð sérhvers dags – þar til lokasigur er unninn og heimurinn er allur samankominn í einu alþýðulýðveldi. Hvernig er hægt að viðhalda og vernda byltinguna ef vald kommúnistaflokksins er ekki óskorað og algilt – vegna þess að flokkurinn er framvarðasveit byltingarinnar sem Karl Marx kallaði eftir í nafni „alþýðunnar“.

Landamæri sósíalísks ríkis verða að vera lokuð svo að fólk með andsósíalískar hugmyndir og kapítalískan áróður komist ekki inn. Leynilögreglan verður ávallt að vera árvökul og á kreiki til að kveða niður innanlandsandstöðu við flokkinn og kerfið, og vald hennar til að fylgjast með öllu og öllum verður að vera ótakmarkað. Fjandmenn sósíalismans eru kænir og útsmognir þegar þeir brugga launráð sín gegn réttmætum málstað „alþýðunnar“.

Sósíalistaríkið er umkringt kapítalískum ríkjum sem bíða færis til að veikja það og kollvarpa kommúníska kerfinu. Tilvera og vaxandi styrkur slíks sósíalistaríkis sem byggt er á „lögmáli sögunnar“, sem Marx túlkaði á annan hátt en aðrir, er tákn þess að tími yfirráða kapítalista sé að renna sitt skeið.

Forsendurnar og rökin í hugmyndum Marx leiddu til kommúnísku alræðisríkja tuttugustu aldarinnar, ekki af misgáningi eða sökum einstæðra aðstæðna, heldur vegna þess hvernig Marx kaus að sjá heiminn og tengsl á milli manna. Rökin fyrir algjöru valdi kommúnistaflokka voru sprottin upp úr hugmyndinni um að hver sá sem ekki væri hlynntur flokknum væri andstæðingur „fólksins“ og hinnar óhjákvæmilegu framtíðar sem tæki við þegar sósíalisminn hefði sigrað. Þar sem fjandmenn voru alls staðar réttlætti þessi hugmyndafræðilega vænisýki sérhvert eftirlit, sérhverja handtöku, sérhverja yfirheyrslu og pyntingar, sérhverja aftöku til að útrýma stéttaróvini og sérhvern farmiða aðra leið í þrælabúðir þar sem andsósíalistar strituðu sér til ólífis við að byggja upp kerfið sem þeir voru andsnúnir. Í kommúnistaríkjum var þetta oft kallað „endurmenntun með vinnu“.

Þeir sem halda uppi vörnum og eru talsmenn þess að enn eigi að taka hugmyndir Marx „alvarlega“ kjósa að hunsa þetta eða fegra þann veruleika sem sósíalískir byltingarmenn sköpuðu og þvinguðu upp á hundruð milljóna manna í heiminum með skelfilegum afleiðingum.

Þeir segja að það sem enn standi sé gagnrýni Marx á nútíma kapítalískt samfélag. Þó hafa engar spár Marx um hvar, hvenær og hvernig sósíalismi kæmist á orðið að veruleika.

Sérhver þáttur í gagnrýni hans á kapítalisma eða markaðstengt samkeppnishagkerfi var rangur. Auður, ekki örbirgð, hefur fylgt frjálsu kapítalísku markaðskerfi, auður sem hefur lyft stórum hluta mannskyns úr fátækt til ótrúlegrar velmegunar til kommúnísku alræðisríkja tuttugustu aldarinnar og heldur áfram að gera það í mörgum heimshlutum. Einstaklingsfrelsi og borgararéttindi hafa aukist í takt við virðingu fyrir og viðhaldi eignarréttar og laga og réttar. Og upplifun fólks í þeim samfélögum á ekkert skylt við tálsýnina um heim klofinn í herðar niður vegna „stéttastríðs“ eins og þess sem Marx lýsti.

Já, höldum upp á að tvö hundruð ár séu liðin frá fæðingu Karls Marx. En notum þetta afmæli til að skoða manninn, hugmyndir hans og afleiðingar þeirra með opnum augum. Notum það til að muna og rifja upp þann skelfilega skaða sem tortímandi áhrif Karls Marx ollu mannkyninu.

Richard M. Ebeling er BB&T prófessor í siðfræði og forystu í frjálsu framtaki við The Citadel í Charleston í Suður-Karólínu. Hann var forseti Foundation for Economic Education (FEE) frá 2003-2008. Greinin birtist upphaflega á vef FEE en er hér birt í íslenskri þýðingu með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

– Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2018.