Það er athyglisvert að 10 árum eftir mestu efnahagsáföll íslenskrar hagsögu virðist sem fæstir hafi dregið réttan lærdóm af hruninu. Hávær umræða er um inngrip ríkisins í rekstur flugfélaga og starfshópar hafa verið skipaðir, sem hitta reglulega ráðherra, til að fara yfir stöðu mála. Það er látið að því liggja að skylda hvíli á hinu opinbera að grípa inn í.
Mikilvægasti lærdómur hrunsins var sá að ríkið á ekki að taka yfir skuldbindingar einkafyrirtækja. Álag á skuldir Íslands hækkaði gríðarlega þegar kynnt var að Glitnir yrði væntanlega tekinn yfir af íslenska ríkinu í september 2008. Sem betur fer varð ekkert úr því feigðarflani.
Það var Íslandi til happs að Seðlabanki Íslands var ekki lánveitandi til þrautavara, hann hafði ekki aðgang að erlendum gjaldeyri og gat því ekki með nokkru móti komið bönkunum til bjargar. Eins var íslenska ríkið aðþrengt og hafði engin tök á að grípa inn í. Það var lán í óláni.
Þegar horft er til baka á hvernig mismunandi lönd brugðust við fjármálakreppunni er ljóst að í þeim tilfellum þar sem aðgangur að alþjóðlegu fjármagni var fyrir hendi freistuðust embættis- og stjórnmálamenn til að velta vanda einkafyrirtækja yfir á almenning. Patrick Honohan, fyrrverandi seðlabankastjóri Írlands, hefur lýst því hvernig þeir ákváðu að „taka sénsinn“ með að lýsa yfir ríkisábyrgð á öllum innistæðum írskra banka. Það leiddi til þess að peningar hættu að flæða úr írska bankakerfinu og fjárstreymið snerist við. Því voru góð ráð dýr hjá öðrum Evrópulöndum, sem hvert af öðru ákváðu að fylgja þessu vafasama fordæmi, því ellegar stæðu þau frammi fyrir fjármagnsflótta. Eftir stendur evrópskt bankakerfi sem féll ekki en er gríðarlega stórt og veikburða og gnæfir yfir öll þök í áhættu. Íslendingar tóku hins vegar réttar ákvarðanir að þessu leyti, því þeir áttu ekki annarra úrkosta völ.
Þegar í harðbakkann slær þarf oft að taka sársaukafullar ákvarðanir sem til skamms tíma eru óvinsælar en eru skynsamlegar til lengri tíma. Stjórnmálamenn og embættismenn eru almennt ólíklegir til að taka slíkar ákvarðanir þegar fjármálakerfi verða fyrir áföllum, því afleiðingar áfallanna eru svo víðtækar. Ráðamenn hafa meiri hvata til að fresta vandanum en að taka á honum. Á þetta hefur Mervyn King, fyrrverandi seðlabankastjóri Bretlands, m.a. bent í umfjöllun sinni um fjármálakreppuna.
Hvað tapast við gjaldþrot
Strax í Verslunarskólanum hlaut ég fræðslu um gjaldþrot. Mér eru minnisstæð eftirfarandi ummæli kennarans, Friðriks Eysteinssonar:
Við gjaldþrot eru framleiðslutæki, starfsmenn og viðskiptavinir enn til staðar. Hins vegar glatast „stjórnunarhæfileikar“. Farið hefur fé betra. Það getur verið eina leiðin til að koma breytingum fram á stjórnun fyrirtækja að setja þau í þrot. En fyrst allt annað stendur eftir er opnað fyrir nýja stjórnendur með meiri hæfileika til að koma að málum. Það er jákvætt. Gjaldþrot eru því eðlileg í markaðshagkerfi og leið til þess að bæta stjórnun, sem aftur minnkar sóun, eykur verðmætasköpun og þar með lífsgæði.
Hjá hinu opinbera er málum því miður sjaldnast háttað á þennan veg. Þá er bara seilst lengra ofan í vasa almennings ef endar nást ekki saman í rekstri. Almenningur þolir takmarkað af slíkum rekstri án þess að lífskjörin hrynji.
Kristindómur án helvítis
Kyle Bass, fjárfestir í Texas, sem varð hvað frægastur fyrir að sjá fyrir hrun undirmálslána, segir að markaðshagkerfi án gjaldþrota sé eins og kristindómur án helvítis. Þá sé búið að taka í burtu hvatann til að standa sig, sem leiði af sér algera óreglu.
Annar mætur maður, Eugune Fama, hagfræðiprófessor í Chicago og nóbelsverðlaunahafi, er á sama máli og er algerlega mótfallinn því að ríkið gangist í ábyrgð fyrir fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki yfir höfuð. Hann segir að kapítalismi með ríkisábyrgð sé alger öfugþróun. Þessi vísdómur á jafnt við um gjaldþrot fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja á markaði.
Reynsla okkar Íslendinga við fall íslensku bankanna árið 2008 er sönnun þess. Allt tal um nauðsyn þess að hafa lánveitanda til þrautavara í fjármálakerfinu á ekki rétt á sér samkvæmt reynslu okkar Íslendinga. Ýmsir virðast þó við sama heygarðshornið, samanber skýrslu sem gerð var fyrir forsætisráðuneytið frá 5. júní um framtíð íslenskrar peningastefnu. Þar er því slegið upp sem forsendu að lánveitandi til þrautavara sé til staðar á íslenskum fjármálamarkaði.
Bankakerfið eftir hrun var nánast alfarið í eigu erlendra aðila. Hvað vit var í því að íslenskur almenningur gengist í ábyrgð fyrir slíkt kerfi? Enginn virtist spyrja sig þessarar einföldu en sjálfsögðu spurningar.
Svarið liggur í augum uppi ætli Íslendingar á annað borð að draga lærdóm af biturri reynslu sinni frá hruninu 2008. Í þróuðu lýðræðisríki á ekki að treysta á embættis- og stjórnmálamenn þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir undir gríðarlegri tímapressu. Við höfum tvö dæmi um afleitar ákvarðanir af þessu toga.
Icesave
Seðlabanki Íslands og stjórnvöld voru algerlega meðvirk með erlendum kröfuhöfum eftir hrun. Skömmin yfir efnahagsáfallinu og tapinu sem af því hlaust virtist draga íslensk stjórnvöld að þeirri niðurstöðu að semja um íslenska hagsmuni á forsendum kröfuhafa. Kaupa sig frá vandanum, nánast sama hvað það kostaði, og senda almenningi reikninginn.
Þar liggur einmitt munurinn á einkarekstri og opinberum. Einkaaðilar geta ekki sent reikninginn annað, þeir hafa því beina hagsmuni af því að berjast fyrir hverri krónu, en aðalsamningamaður ríkisins í Icesave-málinu, Svavar Gestsson, leyfði sér hins vegar að klára samninga með þeim orðum að hann „var leiður á að hafa þetta hangandi yfir sér“ og nennti ekki meir.
Ríkisstjórnin sem sat 2009-2013 undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur sinnti ekki hagsmunagæslu fyrir almenning í Icesavemálum. Embættismennirnir gerðu það ekki heldur. Það var ekki fyrr en almenningi var nóg boðið og InDefence tók til varnar fyrir íslenska hagsmuni að mál fóru að þokast í rétta átt. Vegna inngripa Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, fór Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá gafst almenningi færi á því að hafa vit fyrir kerfinu þrátt fyrir ótrúlegan hræðsluáróður frá stjórnvöldum, hagsmunasamtökum og háskólaprófessorum. Icesave-málið sýnir í hnotskurn að ekki er unnt að treysta embættis- og stjórnmálamönnum til að „bjarga kerfinu“.
Uppgjör við kröfuhafa
Fyrir Íslendinga var engin ástæða til þess að vera hnípinn eða lítill í sér í samskiptum við kröfuhafa. Allir töpuðu við efnahagsáfallið.
Athyglisverðast var að langstærstur hluti kröfuhafa innleysti tap sitt á fyrstu tveimur árunum eftir hrun og hvarf á braut. Í staðinn komu sérhæfðir fjárfestar sem keyptu kröfu sínar með allt að 95% afslætti og heimtuðu svo að kröfurnar yrðu greiddar að fullu. Stjórnvöld sýndu þessum aðilum allt of mikla linkind og fórnuðu í raun hagsmunum íslensks almennings í þágu hrægammasjóða sem sérhæfa sig í því að ryðjast inn í kreppur og krefjast þess að fá margfalt greitt fyrir fjárfestingu sína. Aldrei átti að ljá máls á því að réttindi kröfuhafa yrðu meiri en íslensks almennings og fyrirtækja en á árunum fram að nauðasamningum var þó talað á þennan veg. Forgangskröfur voru nefndar til sögunnar og látið í það skína að erlendir kröfuhafar ættu frekara tilkall til gjaldeyris landsins en þegnar þess. Það var auðvitað rakalaus þvæla.
Í húfi voru gríðarlegar fjárhæðir. Þrotabú bankanna sátu á erlendum gjaldeyri sem nam yfir 130% af hagkerfinu. Eins áttu búin krónur fyrir yfir 60% af stærð hagkerfisins. Á sama tíma læstu stjórnvöld almenning og fyrirtæki innan gjaldeyrishafta og skilaskyldu á gjaldeyri. Hvaða rétt áttu kröfuhafar á að eignast gjaldeyri umfram Íslendinga?
Almenningur átti ekki annan kost en að treysta því að kjörnir fulltrúar á þingi gættu hagsmuna hans. Erlendir kröfuhafar stóðu ekki í þeim sporum. Þeir völdu þá leið að kaupa þjónustu allra ráðgjafa sem voru á lausu. Heildarumfang þrotabúa bankanna var yfir 3.000 milljarðar króna. Hrægammasjóðirnir eru gerðir upp á 15% vöxtum og því var fórnarkostnaður af því að vera fastur með fjármagn á Íslandi yfir 450 milljarðar á ári. Það var því hagkvæmt að verja tugum milljarða í ráðgjafa til þess að vinna að því kröfuhafarnir fengju fjármagnið sem fyrst í hendur. Hrægammasjóðirnir hafa leikið þennan leik oft áður: „Einfaldasta leiðin til að fá kerfið með sér er að kaupa það,“ er leiðarstef þeirra.
Embættis- og stjórnmálamenn fengu engan frið fyrir innlendum ráðgjöfum kröfuhafanna, þar sem hver skýrslan rak aðra og nýtt lögfræðiálit birtist í hverri viku. Allt var gert til að reyna að koma fjármagninu úr landi og hrifsa til sín þann takmarkaða gjaldeyri sem var til í landinu af borðinu, þannig að almenningur sæti eftir gjaldeyrislaus. Almannatenglar rituðu greinar í blöð og fengu málpípur eins og Vilhjálm Þorsteinsson, þáverandi gjaldkera Samfylkingar, til að rugla umræðuna. Fjöldi Íslendinga efnaðist vel á slíkum ráðgjafastörfum.
Staðan var einföld: Það átti enginn að hafa réttindi umfram aðra. Umræðan var hins vegar sveigð í þá átt, svipað og í Icesave, að við þyrftum að axla ábyrgð, kröfurnar væru forgangskröfur og að eina leiðin væri að afgreiða hrunið með digrum tékka með ríkisábyrgð til þess að geta haldið áfram. Ef þetta hefði orðið niðurstaðan væru lífskjör á Íslandi ekki nálæg því sem nú er og við værum ekki enn komin út úr kreppunni.
Í kosningum 2013 steig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fram og hampaði réttum hagsmunum en úrtölur embættismanna, hagfræðiprófessora og annarra voru sláandi. Sem betur fer hafði sjálfstraust aukist frá því að Icesave var hafnað og því var tekið til við að kanna hver raunverulega staðan væri. Hvaða gjaldeyrir væri í landinu og hvernig væri mögulega hægt að skipta honum svo að ekki væri brotið á rétti neins.
Ég skrifaði fjölmargar greinar á árunum 2012- 2016 um þessi mál og sagði að hreinlegast væri að setja föllnu bankana í þrot. Ekki ætti að taka fram fyrir hendurnar á löggjöfinni með því að íslenska ríkið færi í sérstaka nauðasamninga við þrotabúin. Eðlilegast væri að setja búin í þrot; láta mál fara sína hefðbundnu og lögbundnu leið.
Við þrotameðferð er öllum gjaldeyri skipt yfir í krónur og þar með mátti tryggja að kröfuhafar stæðu jafnfætis íslenskum almenningi. Allur gjaldeyrir yrði þá hjá Seðlabankanum, en almenningur og fyrirtæki voru skilaskyld, en slitabúin ekki. Ég keypti kröfur á föllnu bankana og fór með þær í héraðsdóm til að knýja bankana í þrot, enda væri fullreynt með slitastjórnir sem höfðu litlu áorkað í yfir fimm ár. Gjaldþrotaleiðin setti pressu á slitastjórnir og kröfuhafa, enda fór það svo að þau borguðu jafnan upp kröfurnar sem ég kom með í dómstóla, til að hindra efnislega meðferð málsins. Ég hvatti því lífeyrissjóði og aðra stóra kröfuhafa til að fylgja fordæmi mínu. Áður en til þess kom höfðu kröfuhafar gert nauðasamninga við ríkið.
Niðurstaðan varð að lokum viðunandi. Kröfuhafar skildu hátt í 700 milljarða króna eftir í landinu en högnuðust engu að síður vel flestir á viðskiptum sínum. Ísland gat greitt niður skuldir og valið beinu brautina. Við sluppum þarna með skrekkinn.
Lokaorð
Það er ótrúlegt, en tæpum þrjátíu árum eftir fall Berlínarmúrsins og algert hrun sósíalismans eru enn aðilar sem trúa því að mikil ríkisumsvif séu góð. Þeir hinir sömu vilja afgreiða fjármálakreppuna sem gekk yfir heimsbyggðina árið 2008 sem hrun kapítalismans. Veruleikinn er hins vegar sá að á síðustu 10 árum hefur yfir einn milljarður manna á heimsvísu færst úr lágstétt yfir í millistétt og á næsta áratug er því spáð að það verði tveir milljarðar sem færist upp á við – flestir þeirra í löndum sem áður studdust við sósíalisma. Heimurinn er því að taka stórstígum framförum, þrátt fyrir tímabundin áföll.
Ísland er mjög vel statt efnahagslega. Við núverandi aðstæður þegar rætt er um að ferðaþjónustan standi höllum fæti, 10 árum eftir efnahagshrunið, ber að líta til þessa. Innviðir ferðaþjónustunnar eru samgöngur. Þar ber Flugstöð Leifs Eiríkssonar hæst. Hún er ekki að fara neitt. Þar hefur verið biðlisti eftir lendingarleyfum í nokkur ár. Flug yfir Atlantshafið hefur aukist um 10% á hverju ári þótt hvergi sé verið að leggja nýja flugvelli, sem þýðir einfaldlega að eftirspurn eftir því að fljúga um Ísland eykst.
Lærum af sögunni. Lærum af hruninu á 10 ára afmæli þess. Treystum ekki á inngrip ríkisins. Förum að gildandi lögum og látum aga þeirra duga.
Höfundur er hagfræðingur.
– Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018, sem hluti af greinarflokk í tilefni þess að áratugur er liðinn frá falli bankanna. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.