Læs en ekki skrifandi

Forritunarkennsla ætti að vera hluti af námi í grunnskólum. Hún eflir ýmsa mikilvæga þætti hjá börnum sem eru nauðsynlegir í nútíma samfélagi. Við verðum að undirbúa börnin fyrir framtíðina.

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík.

Forritun liggur að baki nær allri tækni nú til dags. Þannig eru smáforrit í símum og forrit í tölvum. Vefsíður, tölvuleikir og jafnvel umferðarljós eru forrituð. Forritun er samskiptamáti okkar við tölvur, sameiginlegt tungumál. Í grunninn snýst forritun um að leysa vandamál.

Í dag má segja að börn séu læs þegar kemur að tækni en ekki skrifandi. Flest börn eru einungis neytendur tækni en skapa ekkert sjálf. Þau kunna að nota tölvur til að spila tölvuleiki, horfa á kvikmyndir á Netflix eða til að skoða samfélagsmiðla. Fæst kunna að þróa sínar eigin hugmyndir með tölvunni. Forritun er eina málið sem tölvur skilja og til að geta tjáð sig við tölvurnar þurfa börnin að læra tungumálið þeirra.

Tölvur og vélmenni eru stór hluti af daglegu lífi og munu verða enn stærri hluti þegar fram líða stundir. Í raun er tæknin svo samtvinnuð lífi okkar í dag að fólk er hætt að átta sig á hvenær það er að notfæra sér tæknina. Því er mikilvægt að börn hafi grundvallarskilning á því hvernig þessi tæki virka.

Flest störf framtíðarinnar munu krefjast tæknilæsi og því mikilvægt að byggja upp færni hjá börnum áður en það verður of seint. Ísland eru tæknisinnuð þjóð og hefur alla burði til að vera leiðandi í fjórðu iðnbyltingunni og þeim áframhaldandi tækniframförum sem eru í vændum.

Ekki bara fyrir nörda

Forritun er ekki einungis fyrir þá sem ætla sér að verða tölvunarfræðingar eða forritarar. Ekki frekar en við ætlumst til að allir verði smiðir þó við kennum smíði í grunnskólum. Hæfni í forritun er til margs nýtileg. Rökhugsun og færni til að brjóta vandamál í minni leysanlegar einingar er eitthvað sem börn munu búa að um aldur og ævi óháð því hvaða veg þau kjósa að feta.

Þess utan eykst þörfin fyrir fólk sem kann að forrita og skilur forritun með hverjum deginum. Þannig er áætlað er að 65% starfa framtíðarinnar séu ekki til í dag og allar líkur eru á að flest þau nýju störf sem skapast verði tæknistörf. Forritun er ekki bara fyrir nörda eða sérfræðinga heldur eitthvað sem tengist nánast öllu í daglegu lífi. Því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að kynna hana fyrir börnum.

Ástæður til að kenna forritun

Forritun er læsi 21. aldarinnar. Börnin okkar eiga að kunna að lesa og skrifa. Þá er mikilvægt að breyta staðalímyndinni um að forritun sé bara fyrir nörda og drengi sem spila tölvuleiki. Forritun er fyrir alla. Það þarf sérstaklega að huga að því að kynna fagið fyrir stúlkum þar sem mikill meirihluti þeirra sem útskrifast úr tölvunarfræði í dag eru drengir. Það sem við viljum í raun kenna er forritunarleg hugsun (e. computational thinking) og kennir okkur að brjóta niður vandamál í minni auðleysanlegri einingar, að þekkja mynstur í vandamálum og að leysa eitt vandamál í einu. Þannig kennum við börnunum okkar að nálgast vandamál með skapandi og lausnamiðuðum hætti.

Forritun þjálfar okkur í þessum þankagangi. Kennd er rökhugsun sem nýtist hvar sem er. Um leið er okkur kennt að skilja samfélagið og hlut tækninnar í því. Skapaður er góður grunnur fyrir framtíðina þar sem stór hluti starfa mun sem fyrr segir reiða sig á tækni og tæknilæsi.

Forritun getur jafnframt þjálfað börn í þrautseigju. Þegar leysa þarf mörg lítil vandamál og koma með hverja lausnina á fætur annarri þarf að standast mótlæti þegar lausnin virkar ekki. Það gefur líka margfalt til baka þegar þeim tekst loksins að finna réttu lausnina.

Þá er forritun mun meira skapandi en margir gera sér grein fyrir og eykur því færni á því sviði. Það göfgar einstaklinginn mjög að skapa, byggir upp sjálfstraust og veitir áþreifanlegt virði. Auðvelt er nýta forritun í tengslum við aðrar skapandi greinar innan grunnskóla eins og í sjónlistum.

Horft til nágrannalanda

Forritun er kennd í flestum þeim löndum sem Íslendingar kjósa að bera sig saman við. Árið 2012 var Eistland fyrsta landið í Evrópu til að innleiða forritun í námskrá sína fyrir öll börn frá fyrsta skólastigi. Árið 2014 voru fimmtán þjóðir í Evrópu með forritun í námskrá og þar af níu sem kenna forritun frá fimm ára aldri. Þar má til dæmis nefna Eistland, Frakkland, Spán, England, Finnland og Pólland. Lönd sem hafa innleitt forritun á eldri skólastigum eru til dæmis Danmörk, Austurríki og Búlgaría. Svíþjóð bætti forritun á námskrána sína frá hausti 2018 og Norðmenn eru með það á stefnuskrá hjá sér.

Sum lönd kenna forritun sem sér námsgrein en önnur, líkt og Finnar, kenna forritun frá sex ára aldri þvert á aðrar greinar. Danir kenna forritun tengda raungreinum, aðallega stærðfræði. Af þessu getum við lært. Það er til margra landa að líta þegar kemur að innleiðingu hér.

Staðan hérlendis

Forritun var fyrst nefnd í aðalnámskrá grunnskóla árið 1996. Í nýjustu útgáfunni, frá 2013, er vægi forritunar í raun minnkað og sett meiri áhersla á þekkingarleit á netinu og notkun forrita.

Árið 2015 var lögð fram tillaga um að koma forritun í aðalnámskrá en þau svör fengust að svo væri nú þegar. Sú er ekki raunin, eina sem aðalnámskrá grunnskóla hefur að segja um forritun er að við lok 10. bekkjar geti nemandi nýtt hugbúnað við forritun og miðlun þekkingar á fjölbreyttan og skapandi hátt. Það er því skólanna að túlka hversu mikla forritun skal kenna. Það veltur á áhuga og getu kennara hversu mikið forritun er tvinnuð inn í námsefnið.

Þá er það hlutverk stjórnmálamanna að búa svo um hnútana að allir kennarar geti sótt sér menntun og þau tæki og tól sem þarf til að koma forritun í kennslu.

Árið 2016 var farið af stað með verkefni sem fólst í því að gefa öllum börnum í 6. og 7. bekkjum grunnskóla forritanlegar smátölvur sem kallast micro:bit. Þetta var stærsta verkefni sem hefur verið ráðist í til að efla forritunarkennslu á Íslandi. Þetta var samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Menntamálastofnunar, RÚV og Samtaka iðnaðarins. Það gekk vel meðan á því stóð og voru tölvurnar afhentar um 9.000 nemendum. Verkefnið hefur því miður verið lagt af.

Þá var einstaklega sorglegt að sjá að í glænýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030 er ekki minnst einu orði á forritun – en lítillega rætt um eitthvað sem kallað er heildstæð nýting stafrænnar tækni.

Það er til ekki marks um mikla framsýni eða tilfinningu fyrir því hvernig samfélagið er að þróast. Það er ábyrgðarhluti þeirra sem hafa með mótun menntakerfisins að gera að búa þannig um að börnin okkar séu vel í stakk búin til þess að takast á við lífið þegar skólagöngu þeirra lýkur.

Margir skólar hafa tekið sig til og bætt forritun í sitt námsefni. Árskóli á Sauðárkróki er þar einna öflugastur. Þar er forritun kennd sem skyldufag á miðstigi og sem valfag á unglingastigi. Þar fá krakkarnir að forrita og leika sér með vélmennið Sphero. Sphero er búinn til sem kennslutól til að kenna börnum forritun og til að örva skapandi hugsun. Sphero er lítil kúla sem er hægt að forrita til að færa á milli staði og í Árskóla hefur hann til dæmis verið notaður til að endurgera senur úr bíómyndum og fleira skemmtilegt. Í Reykjavík hefur Hólabrekkuskóli gert tilraunir með forritunarkennslu frá 1. bekk og tvinnar forritun og aðra tækni nú við fleiri námsgreinar á miðstigi. Þar er tölvuleikurinn Minecraft til dæmis notaður til að kenna börnum forritun, stærðfræði, ensku og samfélagsfræðigreinar.

Helstu vandamál

Nýjungar kalla á óvissu og aðlögun, það er mikilvægt að hjálpa kennurum að tileinka sér nýtt efni og nýjar aðferðir. Það þarf að líta á forritun sem hluta af læsi og allir þurfa að laga sig að því. Með fjórðu iðnbyltingunni skapast mörg störf sem ekki eru til í dag, störf þar sem þarf að reiða sig á tæknilæsi og forritunarkunnáttu. Við verðum að undirbúa þau börn sem eru í skóla í dag undir það.

Kennarar verða að fá þá aðstoð sem þeir þurfa. Það þarf líka að hafa öfluga símenntun á sviðinu því tæknin tekur örum framförum og mikilvægt að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum. Grunnskólar verða líka að hafa aðgang að þeim tækjum og tólum sem nýtast við kennsluna.

Niðurstaða

Forritunarkennsla ætti að vera hluti af námi í grunnskólum. Hún eflir ýmsa mikilvæga þætti hjá börnum sem eru nauðsynlegir í nútíma samfélagi. Forritun og forritunarleg hugsun eykur færni í að leysa vandamál, rökhugsun og sköpunargáfu. Áætlað er að árið 2020 muni vanta 800.000 manns með tæknimenntun í Evrópu. Við verðum að undirbúa börnin fyrir framtíðina.

Við getum ekki beðið lengur, við verðum að byrja núna.

 

Höfundur er borgarfulltrúi í Reykjavík og hugbúnaðarverkfræðingur.

 

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

Viðbót frá ritstjórn: Á fundi borgarstjórnar þann 18. desember 2018 (eftir að Þjóðmál fór í prentun) var samþykkt tillaga Katrínar um að auka framboð á forritunarnámi og -kennslu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Sérstök áhersla verður lögð á að veita kennurum í grunnskólum Reykjavíkur rík tækifæri til starfsþróunar í forritunarkennslu í tengslum við innleiðingu menntastefnu Reykjavíkur.