Meinbugir veiðigjalds

Skip í Reykjavíkurhöfn. Í grundvallaratriðum felur veiðigjald í sér skatt sem lagður er á eigendur íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar á nytjastofnum sjávar. Þrátt fyrir að veiðigjald sé gjald að nafninu til er um skatt að ræða. (Mynd: VB/HAG).

Skattlagning á sjávarútveg hefur í áratugi verið umdeilt pólitískt málefni. Með tímanum hafa stríðandi fylkingar á Alþingi, og meira að segja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að því er virðist, sæst á að sjávarútvegur eigi að greiða gjald til ríkisins fyrir nýtingu Íslandsmiða. Hin pólitíska umræða í dag snýr því fyrst og fremst að útfærslu og fjárhæð veiðigjalds fremur en tilvist þess og þjóðhagslegrar hagkvæmni slíkrar skattlagningar. Sitt sýnist hverjum um ágæti þeirrar þróunar en hér er lagt mat á gildandi lög um veiðigjald og ýmsa galla við útreikning gjaldsins sem vert er að taka til endurskoðunar svo að veiðigjaldið sé sanngjarnara og nái betur tilætlan sinni, að taka mið af afkomu í sjávarútvegi.

Höfundur telur ekki að svo stöddu tilefni til þess að leggjast í heildarendurskoðun á því hvernig staðið er að skattlagningu á þeim sem nýta fiskveiðiauðlindina. Ýmsar tillögur hafa verið lagðar fram í þeim efnum, eins og t.d. að útgerðir greiði einfaldlega hærri tekjuskatt eða að tiltekið hlutfall aflaheimilda renni til ríkisins á hverju ári og séu í kjölfarið settar á uppboð. Vandamálið við að breyta núverandi fyrirkomulagi á skattlagningu er að pólitísk áhætta af slíku er mikil.

Margar tillögur kunna að koma fram og óvíst er hver niðurstaðan af þeirri umræðu yrði, með tilheyrandi óvissu fyrir rekstrarskilyrði sjávarútvegs. Það er komin reynsla á gildandi fyrirkomulag sem tryggir ákveðinn fyrirsjáanleika. Líklega er því betra að sníða vankantana af því kerfi sem er við lýði í dag en að hefja vegferð sem er óvíst hvar endar.

Gjald sem er í raun skattur

Þótt umræða um veiðigjald á Íslandi eigi sér langa sögu, alveg aftur til sjöunda áratugar síðustu aldar, er veiðigjaldið tiltölulega nýtt af nálinni. Veiðigjald kom fyrst í lög árið 2002 eftir umtalsverðar rökræður í íslensku samfélagi. Síðan þá hefur veiðigjaldið tekið talsverðum breytingum og ekki er útlit fyrir að þeim ljúki á næstu misserum.

Í grundvallaratriðum felur veiðigjald í sér skatt sem lagður er á eigendur íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar á nytjastofnum sjávar. Þrátt fyrir að veiðigjald sé gjald að nafninu til er um skatt að ræða, eins og Hæstiréttur hefur staðfest í Hrd. 28 janúar 2016 (461/2015) (Halldór fiskvinnsla) og Hrd. 23. mars 2017 (213/2016) (Vinnslustöðin).

Veiðigjald hefur tvö lögfest markmið, annars vegar að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og hins vegar að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem hlýst af nýtingu sjávarauðlinda.

Í því skyni innheimtir íslenska ríkið veiðigjald og notar til almenns reksturs síns. Í ljósi þess hefur verið umdeilt meðal lögspekinga hversu raunhæft inntak það hefur að vísa til þjóðarinnar, enda getur hún ekki átt neina eign nema fyrir atbeina ríkisvaldsins.

Hvernig virkar veiðigjald?

Útreikningur á veiðigjaldi er tiltölulega flókinn en má setja fram með eftirfarandi hætti:

  1. Reiknaður er stofn veiðigjalds fyrir botnfisk annars vegar og uppsjávarfisk hins vegar. Stofn veiðigjalds er í báðum tilvikum 33% af öllum hagnaði af veiðum botnfisks annars vegar og uppsjávarfisks hins vegar og 33% af tilteknu hlutfalli af hagnaði fiskvinnslu.
  2. Veiðigjaldsstofnunum er svo deilt niður á hverja og eina fisktegund í samræmi við afkomuígildi hennar. Afkomuígildi er mælikvarði á hversu arðbært er að veiða viðkomandi fisktegund miðað við þorsk. Þannig bera arðbærari fisktegundir hærra veiðigjald en þær sem eru minna arðbærar.

Vert er að taka fram að um mikla einföldun á útreikningi veiðigjalds er að ræða en í grundvallaratriðum er gjaldið reiknað með framangreindum hætti. Hugrökkustu lesendurnir geta flett upp lögum nr. 74/2012 um veiðigjald og lesið ákvæði 7. til 9 vilji þeir lesa frumtextann.

Ófullnægjandi löggjöf frá fyrsta degi

Gildandi lög nr. 74/2012 um veiðigjald voru sett af ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Fljótlega eftir setningu laganna var komist að því að lögin voru ófullnægjandi sem grundvöllur fyrir skattlagningu og komu því þau aldrei almennilega til framkvæmda. Í stað þess að beita reiknireglum laganna var því veiðigjald ákveðið árlega með bráðabirgðaákvæði sem var skeytt við lögin.

Síðan þá hefur löggjafinn lagst í lagfæringar á lögunum, þær stærstu árið 2015 þegar reiknireglum laganna var breytt með öllu. Lögin eru því að ýmsu leyti pólitískur bútasaumur og bera þess enn merki. Fyrirhugað er að ráðherra muni leggja fram frumvarp á yfirstandandi þingi um breytingu á lögum um veiðigjald og hefur það þegar verið kynnt.

Fullyrða má með vissu að löggjafinn muni taka veiðigjaldið til ítarlegrar umfjöllunar á yfirstandandi þingi því að öllu óbreyttu munu lög um veiðigjald renna út 31. desember 2018. Án íhlutunar löggjafans verður því ekkert veiðigjald á næsta ári. Eflaust þætti sumum það fín niðurstaða en ólíklegt er að löggjafinn muni leyfa þeirri stöðu að koma upp. Líklegast mun hann nota tækifærið og leggja fram frumvarp um endurskoðun á lögunum,en nefnd þess efnis hefur verið að störfum síðastliðna mánuði.

Þessi staða, að sífellt þurfi að breyta lögum um veiðigjald og sníða vankanta af þeim, leiðir trúlega af því að um einstaklega flókna skattlagningu er að ræða, sem byggir á gífurlegu gagnamagni og útreikningi sem er umtalsvert flóknari en gengur og gerist í útreikningi skatta. Slík löggjöf er alltaf til þess fallin að kalla á lagfæringar og breytingar, enda þarf löggjöfin að taka mið af fólki og fyrirtækjum sem falla ekki alltaf vel inn í form laganna.

Útreikningur hagnaðar byggir á tveggja ára gömlum gögnum

Við útreikning á stofni veiðigjalds er byggt á gögnum um hagnað fiskvinnslu- og fiskveiðifyrirtækja sem eru tæplega tveggja ára gömul. Þannig var stofn veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 reiknaður út frá rekstrarupplýsingum í skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu frá árinu 2015.

Grundvallarhugsun sú sem liggur að baki gildandi lögum um veiðigjald er að veiðigjaldið taki mið af afkomu á fiskveiðum og í fiskvinnslu. Gildandi aðferð sem er notuð nú við útreikning á stofni veiðigjalds nær þessu markmiði illa, vegna þess að útreikningur á hagnaði aðila í greininni byggir á gögnum sem kunna að vera úrelt miðað við aðstæður. Til skýringar á þessu fyrirkomulagi vísast til töflu hér neðar.

Tímalína sem sýnir hvernig veiðigjald er reiknað.

Gallinn við það að byggja stofn veiðigjalds á tveggja ára gömlum gögnum verður mjög skýr þegar rekstrarskilyrði í sjávarútvegi breytast hratt milli ára til hins verra, t.d. vegna styrkingar á krónunni og launahækkana, en á fiskveiðiárinu 2017/2018 er það einmitt raunin. Árið 2015 var veiðigjaldið tiltölulega lágt og önnur skilyrði í greininni góð, sem leiddi til mikils hagnaðar í greininni. Það lagði svo grundvöllinn að háu veiðigjaldi árið 2017/2018, þegar rekstrarskilyrði í greininni höfðu orðið umtalsvert verri vegna hækkandi launakostnaðar og styrkingar á krónunni.

Samkvæmt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi munu tekjuskattur og veiðigjald nema tæplega 60% af hagnaði fiskveiðifyrirtækja á árinu 2018, sem er aukning um helming frá síðasta ári, á sama tíma og rekstrarskilyrði í greininni hafa versnað. Ljóst er að hjá sumum fyrirtækjum er hlutfall tekjuskatts og veiðigjalds minna en 58%, en hjá öðrum er það meira. Allt veltur það á því hversu hagkvæm hlutaðeigandi fyrirtæki eru, en því hagkvæmari sem þau eru í rekstri, þeim mun minna er hlutfall tekjuskatts og veiðigjalds af hagnaði þeirra. Svo kann í sumum tilfellum hlutfall tekjuskatts og veiðigjalds að vera meira en hagnaður, því greiða þarf veiðigjald án tillits til þess hvort hagnaður er til staðar. Ljóst er að slík skattlagning fellur illa að markmiðum veiðigjalds um að taka mið af afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi.

Notkun skýrslu Hagstofu Íslands sem grundvallar skattlagningar

Upplýsingar sem koma fram í skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu, um hagnað fiskveiði- og fiskvinnslufyrirtækja eru grundvöllur að útreikningi á stofni veiðigjalds. Skýrslan er að ýmsu leyti ófullnægjandi grundvöllur fyrir útreikning á stofni veiðigjalds.

Hagstofa Íslands byggir upplýsingar sínar í skýrslunni um hagnað fiskveiði- og fiskvinnslufyrirtækja á úrtaki en ekki öllum fyrirtækjum sem stunda veiðar og vinnslu. Gæti því reikniúrvinnslan orðið til þess að hagnaður fyrirtækjanna reiknist meiri eða minni en hann er í raun og veru, þar sem hagnaður er áætlaður svipaður fyrir þau fyrirtæki sem eru ekki í úrtakinu og eru meðtalin í heildarniðurstöðum. Úrtakið nær til um það bil 88% af veltu greinarinnar og telur Hagstofa Íslands heildaráhrifin af því „líklega ekki mikil“.

Í framkvæmd fyllir Hagstofan upp í þau 12% sem eftir eru með hagnaði meðaltalsfyrirtækis, sem fundið er út með því að reikna út meðaltal af veltu 88% greinarinnar. Þó má ætla að þau fyrirtæki sem hafa ekki opinberað upplýsingar um rekstur sinn séu yfirleitt lítil að stærð og þar af leiðandi líkast til óhagkvæmari í rekstri en stærri fyrirtæki, sem hafa meira bolmagn til fjárfestinga og eru því með aukna rekstrarhagkvæmni. Þá ályktun má draga því þau fyrirtæki sem eru ekki í úrtaki Hagstofu Íslands eru oft smærri fyrirtæki eða fyrirtæki sem ganga illa og skila ekki ársreikningi. Það eru því fyrirtæki sem hafa minni hagnað en stærri fyrirtækin sem eru líklega hluti af þeim 12% af veltu sem ekki eru hluti af úrtaki skýrslunnar. Það kann því að benda til þess að hagnaður í greininni sé ofreiknaður þótt óljóst sé hversu mikil skekkjan er.

Í öllu falli er ljóst að sá útreikningur á hagnaði sem lagður er til grundvallar stofns veiðigjalds er ekki fyllilega nákvæmur og endurspeglar ekki fullkomlega stöðu greinarinnar. Í framangreindu kemur fram helsti galli þess að nota skýrslu Hagstofunnar, Hagur veiða og vinnslu, sem grundvöll skattlagningar. Skýrslunni er nefnilega ætlað að vera úttekt á sjávarútvegi sem lýsir árferði í greininni, s.s. lýsandi skýrsla, en ekki nákvæm úttekt á tilteknum hagtölum með það að markmiði að leggja skatt á sjávarútveg.

Það mætti standa betur að útreikningi á hagnaði hjá fiskveiða- og fiskvinnslufyrirtækjum með það að markmiði að fá raunsannari mynd af hagnaði í greininni. Til þess að ná því fram mætti e.t.v. standa betur að gagnaöflun og reyna að tryggja að stofn til veiðigjalds taki mið af stærra úrtaki. Það væri til þess fallið að gera veiðigjaldsstofninn nákvæmari og sanngjarnari gagnvart gjaldendum.

Bókhaldshagnaður sem grundvöllur veiðigjalds

Við útreikning á veiðigjaldsstofni er, eins og áður hefur komið fram, byggt á gögnum um hagnað í fiskvinnslu og fiskveiðum í skýrslu Hagstofunnar, Hagur veiða og vinnslu. Við útreikning á stofni veiðigjalds er lagður til grundvallar bókhaldshagnaður. Það fyrirkomulag að leggja bókhaldshagnað til grundvallar stofni veiðigjalds er bundið ákveðnum vanköntum. Þegar veiðigjald er reiknað af bókhaldshagnaði verður hluti af gjaldstofninum t.d. verðbreytinga- og eignauppfærslur. Þannig geta veiðigjöld hækkað eða lækkað marktækt milli ára vegna ákvörðunar fyrirtækja um að uppfæra verðmat á fiskiskipunum sínum. Að sama skapi eru lán útgerða oft í erlendri mynt, vegna þess að tekjur þeirra eru það líka, og því geta gengisbreytingar haft ýmist jákvæð eða neikvæð áhrif á bókhaldshagnað innan greinarinnar.

Til skýringar á þessum vangaveltum má nefna þá stöðu að ef fyrirtæki endurmetur flotann sinn og hann reynist 500 milljónum verðmætari en hann var við síðasta mat reiknast það inn í bókhaldið sem hagnaður. Afleiðing af því yrði hærra veiðigjald tveimur árum síðar á alla þá sem greiða veiðigjald, jafnvel smábátaeiganda á Raufarhöfn. Slíkar bókhaldsfærslur gefa bersýnilega ekki skýra mynd af afkomu í sjávarútvegi í samræmi við þá grunnhugsun sem er undirliggjandi við gildandi veiðigjald. Að sama skapi gæti verið rétt að undanskilja í útreikningum veiðigjalds söluhagnað og -tap þegar eignir eru seldar, virðisrýrnun aflaheimilda og leiðréttingar á lánum. Bókhaldshagnaður af þessu tagi er ekki hluti af reglulegri starfsemi útgerða.

Vinnsla um borð í fiskiskipum

Við útreikning á veiðigjaldi er byggt á öllum hagnaði fiskveiða og tilteknu hlutfalli hagnaðar fiskvinnslu. Þannig rennur allur hagnaður við veiðar inn í stofn veiðigjalds en aðeins hluti af hagnaði vinnslu telst til gjaldsins.

Í framkvæmd fellur allur hagnaður af vinnslu um borð í fiskiskipum veiðamegin í stofni veiðigjalds. Engu breytir þótt umtalsverður hluti af hagnaði skipanna sé í raun hagnaður af vinnslu en ekki veiðum. Þetta fyrirkomulag er letjandi fyrir eigendur fiskiskipa að fjárfesta í búnaði sem eykur verðmætasköpun í formi vinnslu um borð áður en í land er komið, því allur hagnaður af slíkri starfsemi rennur beint til stofns veiðigjaldsins, þrátt fyrir að ekki sé um veiðar að ræða.

Þá er ljóst að vinnsla um borð í fiskiskipi kann að skila meiri hagnaði en ella, enda er afurðin verðmætari þegar hún kemur í land. Oft er fiskurinn fullunninn og tilbúinn til útflutnings og því kann aflaverðmæti hans að vera allt annað en hjá óunnum fiski. Það er ákveðið innra ósamræmi í því að telja allan hagnað af vinnslu um borð í skipi til stofns veiðigjalds en einungis hluta af hagnaði við vinnslu í landi.

Hagnaður fiskvinnslu sem grundvöllur veiðigjalds á þá sem stunda fiskveiðar

Vert er að taka það til sérstakrar umhugsunar hvort það er rétt að telja hagnað af vinnslu fisks til stofns veiðigjalds sem lagður er á þá sem veiða fisk.

Lög um veiðigjald byggja á þeim grundvelli að gjaldið sé innheimt sem endurgjald fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni. Þetta kemur fram víðs vegar í lögskýringargögnum með frumvarpi að lögum um veiðigjald nr. 74/2012 og síðari breytingum á lögunum. Gildandi fyrirkomulag felur í sér að hagnaður í óskyldum rekstri, þ.e. vinnslu fisks, kemur til útreiknings á stofni veiðigjalds á þá sem veiða fisk. Í einhverjum tilvikum eru útgerðir og vinnslur reknar sem eitt fyrirtæki eða eru hluti af samstæðu, en það gildir um mikinn minnihluta þeirra sem greiða veiðigjald. Gildandi fyrirkomulag er því ekki ólíkt því ef hagnaður Mjólkursamsölunnar væri reiknaður til grundvallar skatti á mjólkurbændur eða ef hagnaður Sláturfélags Suðurlands kæmi til grundvallar skatti á kjötbændur.

Þetta hefur þær afleiðingar að virðisaukning sem verður til hjá fiskvinnslum hækkar stofn veiðigjalds á þá sem veiða fiskinn. Erfitt er að sjá hvernig það samræmist þeirri grundvallarhugmynd laganna að veiðigjald sé endurgjald fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni. Stofn veiðigjalds byggir í raun á hagnaði í atvinnugrein sem hefur ekkert með aðgang að fiskveiðiauðlindinni að gera vegna þess að fæstar útgerðir eiga vinnslu. Fiskvinnsla er atvinnugrein sem er afleidd af fiskveiðum og byggir hagnað sinn að mestu leyti á því að auka útflutningsverðmæti fisks. Það er m.a. gert með því að auka hagkvæmni í vinnslu og markaðssetja íslenskan fisk erlendis. Aukinn hagnaður í vinnslu hefur því ekki alltaf þær afleiðingar að hagnaður aukist hjá útgerðum og kann þetta því að leiða til aukinnar skattheimtu á útgerðir sem tekur ekki mið af afkomu þeirra. Þannig á sér stað form af samsköttun milli tveggja atvinnugreina sem er einsdæmi í skattlagningu á atvinnugrein.

Það væri til þess fallið að gera skattlagningu á útgerðir gagnsærri og skýrari að binda stofn veiðigjalds einungis við hagnað af fiskveiðum en ekki hagnað af fiskvinnslu. Við lagasetningu af því tagi þyrfti að huga að því að í sumum tilvikum fer vinnsla fisks fram innan skips og aðskilja þyrfti hagnað af slíkri vinnslu frá stofni veiðigjalds.

Breyting af þessu tagi þyrfti ekki að vera flókin og gæti falið í sér talsverða réttarbót. Slík breyting gæti haft í för með sér hvata fyrir aðila innan greinarinnar, sem eiga bæði útgerð og vinnslu, til þess að selja fiskinn til vinnslunnar á lágu verði svo að stofn veiðigjalds lækki. Reglur skattaréttarins um milliverðlagningu ættu þó að taka á slíkum brögðum. Enn fremur þyrfti að hafa í huga við slíka lagasetningu að stærstu einstöku greiðendur veiðigjalds eiga flestir líka vinnslu. Ef innheimta á jafnhátt veiðigjald og gert er í gildandi fyrirkomulagi þyrfti að hækka veiðigjald á útgerðir. Passa þyrfti að sú hækkun skaðaði ekki minni útgerðir um of.

Ónákvæmni útreiknings á arðbærni veiða (afkomuígildi)

Eins og að framan greinir er stofni veiðigjalds deilt niður á fisktegundir miðað við hversu arðbært er að veiða þær í hlutfalli við þorsk (afkomuígildi). Ákveðinn galli við þá aðferð að reikna út arðbærni við veiðar á hverri fisktegund fyrir sig er að aðferðin þarf töluvert mikið gagnamagn til þess að útreikningarnir taki mið af raunverulegri framlegð við veiðar á hverjum nytjastofni fyrir sig.

Þetta hefur þau áhrif að tegundir sem eru veiddar í litlu magni eru með óstöðugt veiðigjald, þ.e.a.s. það breytist með handahófskenndum hætti frá ári til árs, vegna þess að afkomustuðlarnir byggja á litlu og óstöðugu gagnamagni. Þetta á sérstaklega við um tegundir sem eru fyrst og fremst veiddar sem meðafli, eins og t.d. gulllax. Því meira sem nytjastofn er veiddur, þeim mun meira er gagnamagnið og þar af leiðandi útreikningurinn nákvæmari.

Í útreikningum afkomuígildisstuðla er allur afli meðhöndlaður eins, hvort sem hann er meðafli eða ekki, þ.e.a.s. allur afli er látinn bera kostnað af veiðiferð í hlutfalli af aflaverðmæti. Það hefur t.d. þær afleiðingar að tegundir sem eru afar verðmætar en eru veiddar í litlu magni, og þá fyrir tilviljun, eins og t.d. túnfiskur, eru nær alltaf með neikvæða afkomu.

Við útreikning á afkomuígildum er kostnaði fiskveiðitúrs deilt niður á nytjastofna sem voru veiddir í túrnum í hlutfalli við aflaverðmæti þeirra. Ef 30% af aflaverðmæti túrsins eru þorskur teljast þá 30% af kostnaði túrsins til þorsks. Í dæmi túnfisks er kostnaður við veiðar á honum oft ofreiknaður því aflaverðmæti túnfisksins er mikið og telst því óeðlilega stór hluti af kostnaði túrsins til túnfisks. Enn fremur er sjaldan, ef nokkurn tímann, farið í fisktveiðitúr með það að markmiði að veiða túnfisk og því er það með öllu handahófskennt hvort hann er veiddur. Það er því ljóst að miðað við gildandi reiknireglur er ómögulegt að reikna út afkomuígildi fyrir túnfisk sem tekur mið af raunverulegri framlegð við veiðar. Útreikningur á þeim tegundum sem eru nær einungis veiddar sem meðafli verða því aldrei lýsandi fyrir sóknarkostnað við að veiða þær tegundir. Aftur á móti eru afkomuígildi nákvæmari fyrir tegundir sem eru veiddar meira, sérstaklega ef margar veiðiferðir eru farnar þar sem einungis einn nytjastofn er veiddur. Í þeim tilfellum telst allur sóknarkostnaður veiðiferðarinnar til þess nytjastofns.

Til þess að leiðrétta þessa skekkju hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi m.a. lagt til að tegundir sem sæta ekki takmörkuðum veiðum beri ekki veiðigjald. Byggir þessi tillaga á því að fjárhagsleg áhrif hennar væru óveruleg á ríkissjóð en einfaldi mjög, flýti fyrir og bæti vinnu veiðigjaldsnefndar, því þá þarf ekki að reikna veiðigjald á jafnmargar tegundir. Á sama grundvelli hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lagt til að tegundir sem eru lítið veiddar en eru kvótasettar beri 2% veiðigjald af aflaverðmæti.

Byggir þetta á sömu hugsun, þ.e.a.s. að ekki sé bein sókn í þessar tegundir og því séu afkomuígildisstuðlar hlutaðeigandi tegunda handahófskenndir. Þetta myndi leiða til þess að veiðigjald á lítið veiddar tegundir lækkaði umtalsvert.

Sjávarútvegur þarf stöðugleika

Ljóst er að ýmislegt þarf að taka til endurskoðunar í lögum um veiðigjald. Hvað ýmis atriði varðar ná lögin ekki markmiði sínu um að taka mið af afkomu í sjávarútvegi, en nauðsynlegt er að slíkur útreikningur sé sem nákvæmastur, því annars getur sú staða komið upp að veiðigjaldið verði óhóflegt og ósanngjarnt.

Það væri mikil bót fyrir íslenskan sjávarútveg að fá stöðugleika varðandi skattlagningu á greininni, jafnvel þótt það þýði að skatturinn sé tiltölulega hár eins og raunin er í dag. Færa má öflug rök fyrir því að veiðigjald yfirstandandi fiskveiðiárs sé of hátt og er það m.a. bein afleiðing af ónákvæmni í útreikningi gjaldsins.

Í fjármagnsfrekum rekstri er stöðugleiki gulls ígildi og sífelld pólitísk afskipti af skattlagningu á greininni gera henni erfitt fyrir. Þess vegna er líklega besta leiðin að halda áfram að lagfæra núverandi fyrirkomulag við útreikning veiðigjalds í stað þess að leggjast í grundvallarbreytingar sem geta kallað á ófyrirsjáanlegar afleiðingar – sem svo kunna að kalla á enn frekari breytingar til ókominnar framtíðar. Út úr þeim vítahring er nauðsynlegt að losna, að gjaldtaka af sjávarútvegi sé eilíft þrætuepli stjórnmálamanna með tilheyrandi óvissu fyrir þá sem starfa í sjávarútvegi.

Höfundur er lögfræðingur og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Greinin byggir á nýútgefinni meistararitgerð höfundar sem fjallar um lög um veiðigjald.

 

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.