Minna verður meira

Vonandi ber íslenskur sjávarútvegur gæfu til að fjárfesta af sama kappi og myndarskap í ímynd greinarinnar erlendis og gert hefur verið á undanförnum árum með fjárfestingum í veiðum og vinnslu (Mynd: VB/HAG).

Heiðar Kristín Helgadóttir

Til þess að standa undir núverandi lífsgæðum á Íslandi þarf að auka útflutningsverðmæti þjóðarbúsins um 1 milljarð á viku, samkvæmt opinberum áætlunum. Útflutningsgreinar okkar samanstanda helst af ferðaþjónustu, álframleiðslu og sjávarútvegi. Ferðaþjónustan hvarf sem kunnugt er nánast á augabragði og er framtíð hennar mjög óljós. Hinar tvær útflutningsgreinarnar sem eftir standa, áliðnaðurinn og sjávarútvegurinn, verða því að vera tveggja manna maki meðan ferðaþjónustan nær sér á strik aftur með skimunum og sóttkvíum og tilheyrandi flækjustigi og óvissu.

Áliðnaðurinn á Íslandi má hins vegar muna fífil sinn fegurri; verð á áli er í lágmarki og eigendur álversins í Straumsvík hafa nánast gefið það út að þeir séu tilbúnir að gefa hverjum sem er álverið ef viðkomandi tekur yfir raforkusamningana við Landsvirkjun. Mögulega er áliðnaðurinn á Íslandi eins við þekkjum hann að nálgast endastöð og því er ljóst að eins og svo oft áður þarf sjávarútvegurinn að standa undir stórum hluta verðmætasköpunar á Íslandi á næstu árum.

Árið 2019 námu útflutningsverðmæti sjávarafurða 260 milljörðum og á þar þorskurinn stærstan hlut, en hlutfall hans af heildarmagni er um 44%. Það má því færa sterk rök fyrir því að nú sem endranær eigum við mikið undir þorskinum. Þá er bara þrennt í stöðunni, við getum veitt meira, fengið hærra verð fyrir vöruna eða stóraukið fiskeldi. Nýleg ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir næsta fiskveiðiár kveður á um 6% lækkun á aflamarki þorsks í ljósi ástands þorskstofnsins og að ýsunni undanskilinni hafa nýliðunarvísitölur margra stofna eins og hlýra, gullkarfa og blálöngu verið lágar undanfarinn áratug. Áhrifa þessa er nú farið að gæta verulega í ráðgjöf stofnunarinnar en ástæða minnkandi nýliðunar er ekki þekkt. Það eru mjög vondar fréttir fyrir ofangreind markmið um aukinn útflutning til að standa undir lífsgæðum á Íslandi og því er ljóst að útflutningstekjur munu ekki aukast með auknum fiskveiðum.

Að sama skapi gengur uppbygging fiskeldis á Íslandi hægt og greinin er umdeild vegna umhverfisáhrifa. Þannig framleiddu Íslendingar aðeins 28 þúsund tonn af laxi árið 2019 á meðan Færeyingar framleiddu í kringum 100 þúsund tonn og Norðmenn um 1,3 milljónir tonna. Yfirlýst markmið Norðmanna er að framleiða 5 milljónir tonna af laxi fyrir árið 2030. Það skal ósagt látið hvort við erum að missa af lestinni í laxaframleiðslu en miðað við stöðu helstu keppinauta okkar á mörkuðum er á brattann að sækja fyrir Íslendinga í greininni.

Eftir stendur þá ein leið til að auka útflutningsverðmæti og það er að fá hærra verð fyrir vöruna. Villtur íslenskur þorskur er veiddur af hátæknivæddum togurum eða dagróðrarbátum, samkvæmt faglegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem tryggir sjálfbærni og endurnýjun stofnsins. Loks er hann verkaður þannig að nýting aflans er allt að 80-90% með hjálp háþróaðra sjálfvirkra vinnsluvéla sem margfalda gæði vörunnar og oftast tekst vel til að koma honum ferskum á áfangastað. Slík vara ætti með réttu að seljast sem lúxusvara á alþjóðlegum mörkuðum. Flestir próteingjafar sem neytendum bjóðast á stórum mörkuðum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum eru fjöldaframleiddar afurðir úr iðnaðarlandbúnaði eða stórtæku fiskeldi. Margar af þessum vörum eru seldar á mun hærra verði til neytenda en þessi hágæðavara, sem við ættum með réttu að bera meiri virðingu fyrir en svo að við sættum okkur við að losa okkur við hana í Boston, Bremerhaven eða Immingham í þeirri von að einhver vilji taka hana af okkur á kostnaðarverði til þess eins að koma henni í verð hjá einhverju fangelsi eða iðnaðarmötuneyti þar sem vonir og væntingar koma saman til að deyja.

Staðreyndin er sú að við höfum ekki borið gæfu til að standa vörð um mikilvægustu útflutningsvöru okkar þannig að aðrir sjái verðmæti hennar. Sjávarútvegurinn hefur til þessa byggt upp öflugt net af dreifiaðilum beggja vegna Atlantshafsins sem þekkja gæðin en hafa engan hag af því að halda uppi frekari sannindum gagnvart neytendum um þau verðmæti sem við erum að afhenda þeim.

Í nýlegri könnun sem Íslandsstofa lét framkvæma um viðhorf til Íslands og neytendavara héðan kemur fram að neytendur á erlendum mörkuðum sjá íslenskar vörur í jákvæðu ljósi og hefur sú tilfinning þeirra vaxið samhliða aukinni vitundarvakningu um Ísland sem ferðamannastað.

Þannig sögðust 26% svarenda könnunarinnar sjá íslenskar vörur í jákvæðu ljósi árið 2011 en árið 2019 var þetta hlutfall komið upp í 68%, eins og fram kom í viðtali við Daða Guðjónsson, verkefnastjóra á sviði viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu, í 200 mílum 7. febrúar síðastliðinn. Í þessu sama viðtali er haft eftir Daða að þekking neytenda á gæðum íslensks fisks fari minnkandi með hverri nýrri kynslóð og segir hann að „þróunin er mjög greinileg í Bretlandi þar sem meira en fjórðungur elstu svarenda nefnir Ísland sem upprunaland hágæða sjávarafurða, en hlutfallið lækkar svo jafnt og þétt með aldri og nefna aðeins 5% fólks á aldursbilinu 21-34 ára íslenskan fisk á meðan um 12% fólks í sama aldurshópi vita að Noregur framleiðir gæðafisk“. Vel að merkja er Bretland bæði í sögulegu samhengi og enn í dag sterkasti markaður okkar, samanber eftirfarandi yfirlit frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Mynd 1 – Skjáskot af radarinn.is/Utflutningur/Vidskiptalond.
Tíu stærstu viðskiptalönd Íslendinga með sjávarafurðir, miðað við verðmæti. Um 75% af útflutningsverðmæti sjávarafurða fóru til þessara tíu landa á árinu 2019. Jafnframt má sjá af hlutdeild annarra landa, sem var 25% á árinu 2019, að hlutdeild tíu stærstu hefur aukist töluvert á undanförnum árum. Bretland hefur verið og er stærsta viðskiptaland Íslendinga með sjávarafurðir, en þó er vægi þess markaðar ekki nærri eins mikið og það var á árum áður. (Heimild: Hagstofa Íslands).

Þessi niðurstaða veldur mér áhyggjum. En það sem veldur mér meiri áhyggjum er hvað þessi niðurstaða virðist hafa lítil áhrif á greinina eða umræður um hana almennt. Undanfarin fimm ár hefur greinin sjálf fjárfest í veiðum og vinnslu fyrir rúmlega 145 milljarða. Sem er vel, enda var til staðar uppsöfnuð þörf á að endurnýja fiskiskipaflotann. Ein helsta forsenda þess að gæði vörunnar viðhaldist og verði enn meiri er fjárfesting í tækniframförum sem fást með uppfærðum flota og framþróun í vinnslu. Þar að auki hafa þessar fjárfestingar mjög svo jákvæðar afleiðingar fyrir umhverfið og heildarímynd greinarinnar með minni olíunotkun og enn betri nýtingu aflans.

Á innlendum ráðstefnum tengdum sjávarútvegi og í orðræðu greinarinnar sjálfrar er þessum árangri óspart fagnað og ekki óalgengt að heilsíðuauglýsingar séu keyptar til að fagna því að nýtt skip sé sjósett. Það er ekkert athugavert við það, því þetta er sannarlega mikilvægur árangur. En það sem sárlega vantar er að greinin taki næsta skref og það skref kallar á álíka fjárfestingu, en ekki síður þekkingu sem þarf að sækja í aðrar greinar, eftirfylgni, eljusemi og endalausa vinnu sem hættir aldrei. Fjárfesting í markaðssetningu vörunnar og vinna við að koma neytendum í skilning um áhrifin sem þessi mikla fjárfesting í veiðum og vinnslu hefur á vöruna og gæði hennar er nánast engin.

Umræða um að ráðast þurfi í þessa vinnu hefur vissulega verið uppi og í nokkur ár hefur sameiginlegt markaðsátak greinarinnar verið alveg á næsta leiti. Þessi hægagangur fyllir mig ekki trausti um að greinin sjálf og við sem eigendur þessarar auðlindar skiljum mikilvægi þess að ráðast verði af sama krafti í þá vinnu og fjárfestingu sem þarf til að ná raunverulegum árangri á mörkuðum eins og gert hefur verið í tengslum við veiðar og vinnslu. Gott dæmi um þetta er sorgarsaga Icelandic-vörumerkisins sem var selt úr landi og hið opinbera endurheimti nýlega eftir áralanga misnotkun á því vörumerki á mörkuðum þar sem uppþíddur hvítur fiskur frá öllum heimshornum var seldur sem „íslenskur“ án þess að nokkur hreyfði við því andmælum. Að losa sig við vöru og skilja örlög hennar eftir í höndunum á þeim sem hafa engan hag af því að gera veg hennar sem mestan er ekki árangur miðað við allt sem við vitum og eigum að geta skilið.

Mynd 2 – Skjáskot af radarinn.is/Umhverfismal/Fjarfesting.
Fjárfesting í sjávarútvegi hefur verið mikil undanfarin fimm ár og í raun sú mesta frá því að lög um stjórn fiskveiða frá árinu 1990 tóku gildi. Það á bæði við um fjárfestingu í fiskveiðum og fiskvinnslu. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar nam nettó fjárfesting, það er fjárfesting að frádregnum seldum eignum, tæplega 23 milljörðum króna á árinu 2019. Skiptist hún nokkuð jafnt á milli fiskveiða og fiskvinnslu (Heimild: Hagstofa Íslands).

Sjálf er ég ekki alin upp við að lesa ársreikninga né að greina hagvaxtaspár. Móðir mín er húsmæðraskólagengin flugfreyja með gott lag á bókhaldi og faðir minn er þjóðlagasöngvari og blaðamaður. Mín upplifun af sjávarútveginum almennt og áhrifum hans á mitt daglega líf frá uppvexti hefur meira og minna verið lituð af ákveðinni tortryggni. Mér var gert að skilja hugtök eins og gjafakvóti, einkavinavæðing og helmingaskipti, en mér aldrei gert ljóst að lífsgæði á Íslandi standa og falla að miklu leyti með útflutningsverðmætunum sem sjávarútvegurinn skapar.

Það var raunar ekki fyrr en ég byrjaði að starfa við greinina að ég áttaði mig almennilega á því að svo margt af því góða sem við búum við og teljum sjálfsagt á Íslandi er undirorpið afkomu og ákvörðunum sem teknar eru í sjávarútvegi og í þeim ramma og regluverki sem löggjafinn setur greininni.

Ég held að ég sé ekki ein um þetta og ég held að það sé vandamál sem er stærra og skaðlegra fyrir samfélag okkar framtíð þess en faraldrar sem koma og fara. Án þess að hafa skilning á því hverju lífsgæði okkar byggja á og hvar stóru tækifærin til að auka þau enn frekar liggja verður erfitt fyrir okkur sem þjóð að ná vopnum okkar á ný þegar heimsfaraldrar og aðrar ófyrirséðar hamfarir snúa öllu á hvolf.

Það er skiljanlegt að umræðan um sjávarútveg snúist að miklu leyti um aðganginn að auðlindinni og hvernig greitt er fyrir hann; sú umræða mun væntanlega aldrei hætta. Í mínum huga er hins vegar jafn brýnt að ræða hvernig við sem þjóð getum aukið verðmætin sem við fáum fyrir auðlindina á erlendum mörkuðum, því það er þar sem þau verða á endanum til.

Nú þegar útlit er fyrir að halli ríkissjóðs á næstu tveimur árum verði allt að fimm hundruð milljarðar króna á sama tíma og Hafrannsóknastofnun leggur til að dregið verður úr nýtingu mikilvægustu nytjastofna okkar hefur aldrei verið mikilvægara að huga að markaðsstarfi erlendis.

Það verður hins vegar ekki gert með tímabundnu átaki á vegum opinberra aðila mældu í áhorfi á eitt og eitt myndband. Markaðsstarf erlendis er óhemju dýrt, flókið og felur aldrei í sér neina beina braut. Aðstæður breytast dag frá degi og það má aldrei sofna á verðinum.

Vonandi ber íslenskur sjávarútvegur gæfu til að fjárfesta af sama kappi og myndarskap í ímynd greinarinnar erlendis og gert hefur verið á undanförnum árum með fjárfestingum í veiðum og vinnslu. Þá er framtíðin björt, landsmönnum öllum til heilla.

Höfundur er meðstofnandi og framkvæmdastjóri Niceland Seafood.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.