Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra fjallar um landsréttarmálið, jafnréttismál, umhverfismál og fleira í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér heild sinni.
—
Því er gjarnan haldið fram að ráðherra sem fer gegn „kerfinu“ ef þannig má að orði komast, þ.e. fylgir ekki í blindni ráðleggingum og mati embættismanna, sé þar af leiðandi ófaglegur í sínum störfum. Þessu hefur verið haldið fram um Sigríði í landsréttarmálinu og skýtur upp kollinum í hvert sinn sem ráðherrar taka rökstuddar ákvarðanir eða móta stefnu í málaflokkum. Það er því tilefni til að spyrja Sigríði hvort hún telji það ófaglegt að fara ekki alltaf eftir ráðleggingum embættismanna.
„Veiting uppreist æru er gott dæmi um þetta,“ svarar Sigríður að bragði.
„Stjórnsýslan lagði að mér að veita manni sem dæmdur hafði verið fyrir kynferðisbrot gegn barni uppreist æru. Þegar ég fór að skoða það mál nefndi ég við sérfræðingana að mér þætti það ekki sjálfgefið þar sem löggjafinn hafði aðeins gert ráð fyrir heimild til að veita uppreist æru að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en ekki skyldu. Ég fékk þau svör að svona væri þetta, allir hefðu fengið uppreist æru sem uppfylltu skilyrðin og jafnvel fyrir verri brot en þessi. Ekki væri hægt að víkja frá fyrri framkvæmd í þessu. Ég kallaði því eftir ítarlegri skoðun á þessum málum og lýsti þeirri skoðun minni að ástæða væri til að endurskoða hegningarlögin að þessu leyti, þ.e. afnema úr lögum heimild til að veita uppreist æru.“
Þá segir Sigríður að miðað við umræðuna sem farið hafi af stað í samfélaginu um veitingu uppreist æru frá fyrri tíð hafi margir reynst sammála henni í því að það fyrirkomulag sem hafði ríkt þar til nú væri ekki ásættanlegt og þyrfti skoðunar við.
„Þarna spila þó stjórnsýslulögin hlutverk því þau kalla á það að sambærileg mál fái sambærilega meðferð, jafnræðisreglan. En þegar löggjafinn hefur kveðið skýrt á um að það þurfi að leggja mat á hluti í hvert og eitt sinn, þá getur það ekki verið þannig að öll mál séu sjálfkrafa afgreidd á grundvelli jafnræðisreglunnar,“ segir Sigríður.
„Á það benti ég og neitaði að skrifa undir þetta skjal. Ég taldi líka að það væri eðlilegt að löggjafinn tæki afstöðu til þess hvort hann vildi hafa þetta úrræði áfram inni. Ég hefði alveg treyst mér til þess að taka afstöðu til veitingar uppreist æru í hvert og eitt sinn en tel hins vegar ekki heppilegt að ráðherra sé að setja sig inn í hvert og eitt mál og ljóst að stjórnsýslan ætlaði sér ekki að gera það. Þá taldi ég farsælast að þingið tæki afstöðu til þess hvort afnema ætti þessa heimild úr lögum og þá kom í ljós eins og ég lagði til að menn vildu það. Nú er verið að laga löggjöfina að því.“
En varstu ófagleg að gera hlutina með þessum hætti?
„Nei, alls ekki. Með því að lögin kváðu einungis á um heimild til að veita ekki uppreist æru, en ekki skyldu, þá kallar það á mat stjórnvalds í hvert og eitt sinn. Stjórnsýslan má ekki valta yfir skýran vilja löggjafans. Við viljum búa við lýðræði en ekki skrifræði. Stjórnsýslan má ekki taka völdin af löggjafanum sem sækir sitt lýðræðislega umboð til kjósenda,“ segir Sigríður.
„Það er víða í lögum kveðið á um að stjórnvöld leggi mat á tiltekna þætti áður en ákvörðun er tekin. Þá hafa menn brugðið á það ráð að setja sér verklagsreglur sem taka á matshlutanum. Slíkar verklagsreglur mega hins vegar ekki koma í veg fyrir að raunverulegt mat sé lagt á mál áður en ákvörðun er tekin. Stjórnsýslan má ekki verða þannig að menn verði eins og vélmenni og afgreiði öll mál út af borðinu eftir verklagsreglum. Það verður að fara fram huglægt mat þar sem lögin gera ráð fyrir því og menn verða að hafa kjark til þess að taka raunverulega taka afstöðu.“
Í nýjasta hefti Þjóðmála má finna ítarlegt viðtal við Sigríði ásamt öðru góðu efni. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.