Lilja: Þurfum að gæta að íslenskum hagsmunum í EES samstarfinu

Lilja D. Alfreðsdóttir (Mynd: HAG).

Nú eru liðin tíu ár frá því að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Lesendum Þjóðmála er vel kunnugt um það ferli en allan þennan tíma, og lengra aftur, hefur verið deilt um það hvort Ísland eigi að gerast aðili að ESB og á síðustu misserum eru jafnvel uppi áhöld um það hvort við eigum yfir höfuð að vera hluti af EES-samstarfinu.

„EES-samstarfið, og fjórfrelsið sem því fylgir, hefur knúið fram margar góðar breytingar. Þetta er mikilvægasti alþjóðasamningur okkar og við þrífumst auðvitað á utanríkisverslun. Hagsæld hér á landi er grundvölluð á því að íslenskar vörur og þjónusta eigi greiðan aðgang að erlendum mörkuðum. Árið 2016 fóru um 80% af vörum okkar og þjónustu inn á EES-svæðið, þannig að samningurinn er mjög mikilvægur. Að sama skapi skulum við líka horfa til þess að 27% útflutnings okkar eru í Bandaríkjadölum og um 25% í evrum,“ segir Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins aðspurð um þessi mál í ítarlegu viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála.

„Það sem við þurfum þó að gera, og það brást varðandi þriðja orkupakkann, er að gæta þess nógu snemma í ferlinu að sækja um undanþágur frá þeim atriðum sem við teljum að eigi ekki heima hér á landi. Það er alþekkt í þessu samstarfi. Danir fengu undanþágur frá jarðakaupum og þeir eru í ESB. Við þurfum að vera vakandi yfir hagsmunagæslu á fyrri stigum. Við sem erum í stjórnmálum þurfum að taka það til okkar og standa okkar vakt. Vandinn sem við er að etja er heimatilbúinn.“

En er það ekki helst hlutverk embættismanna að gera það, til dæmis í utanríkisráðuneytinu?

„Jú, en það er líka hlutverk fagráðuneytanna og stjórnmálamanna. Ég þarf, sem ráðherra mennta- og menningarmála, að kalla inn á mitt borð upplýsingar um það hvaða breytingar eru í farvatninu. Ekki bara þennan þingvetur, heldur næstu tíu ár því þetta ferli byrjar mjög snemma,“ segir Lilja.

„Við þurfum að breyta því hvernig við hugsum og nálgumst þetta samstarf. Við þurfum að hafa á hreinu hvar hagsmunir okkar liggja og við þurfum að gæta þeirra vel. Ríki ganga út frá því að gæta hagsmuna borgara sinna og við eigum að sinna því. Við eigum auðvelt með menntastefnuna sem við höfum fjallað hér um, því það er innanríkismál sem ég hef kynnt mér vel og er með mikið af sérfræðingum í kringum mig. Það sem gerist hins vegar oft með EES-mál er að nefndir og stjórnmálamenn hafa ekki vaktað ferlið og þar af leiðandi ekki hugsað út í það hvaða áhrif það hefur á samfélagið til lengri tíma. Ég tel að farsælast sé fyrir þjóðir að annast sín eigin mál sjálf, sem er einkenni frjálsar þjóðar.“

Lilja segir að hagsæld Vesturlanda á 20. og 21. öldinni hafi grundvallast á þessari hugsun.

„Við lifum í samfélagi þjóða og við þurfum að bera gæfu til þess að leggja okkar að mörkum í alþjóðasamstarfi byggðu á okkar eigin þekkingu og sérstöðu, þar horfi ég til dæmis til umhverfismála og á Ísland sem leiðandi í sjálfbærri orkunýtingu. Kína horfir til að mynda til okkar á þessum vettvangi. Við eigum bæði að flytja út og inn þekkingu til að bæta samfélög,“ segir Lilja.

„Þjóðir horfa til sérstöðu hver annarrar. Ísland hefur mikla sérstöðu er varðar náttúruauðlindir, heilnæm matvæli, loftslag og landfræðilega stöðu. Við eigum að gæta að sérstöðunni en um leið nýta hana á sjálfbæran hátt. Vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar norðurskautsins aukast líkurnar á heilsársopnun siglingaleiða norðurskautsins. Þetta mun þýða minni kostnað fyrir verslun og viðskipti en um leið aukna umferð um þetta viðkvæma svæði. Vegna landfræðilegrar stöðu Íslands er sú mikla áhersla sem við leggjum á norðurskautsmál hárrétt. Vísindamálaráðherrar norðurskautaríkjanna funda reglulega og við munum halda næsta fund í samstarfi við Japan árið 2020. Áhugi Asíu á þessum málaflokki hefur stóraukist og Ísland á í samstarfi við þessi ríki á sviðum vísinda og menntamála. Nýverið hef ég undirritað samstarfssamninga vegna þessa og hvet ég ungt fólk til að sækja sér menntun á þetta svæði. Stóra breytan í alþjóðaviðskiptum verður Kína, en aldrei í mannkynssögunni höfum við séð jafnmarga rísa úr fátækt í millistétt á jafn skömmum tíma og þar.“

Evran var mistök

Hefur umræðan um aðild að ESB verið of einföld eða yfirborðskennd hér á landi?

„Já, við sjáum til dæmis að Viðreisn telur að við eigum að fara í Evrópusambandið af því að við þurfum stöðugri gjaldmiðil. Mér finnst umræðan ekki byggð á því hvað er sjálfbært fyrir íslenskt hagkerfi. Umræðan einkennist oft af fyrirsögnum og það vantar dýpt,“ segir Lilja.

„Færustu hagfræðingar veraldar færa fyrir því góð rök að evran hafi verið mistök fyrir þau hagkerfi þar sem samleitni hagsveifla er ekki nægjanleg. Ábatinn af þátttöku í sameiginlegu myntsvæði verður að vera meiri en kostnaðurinn. Barry Eichengreen nefnir að ábatinn sem fólginn er í því að lækka viðskiptakostnað vegna sameiginlegrar myntar sé lítill og hægt sé að kaupa varnir á gjaldeyrismörkuðum gegn slíku. Milton Friedman sagði á sínum tíma að slæm framkvæmd á peningastefnu væri til þess fallin að skaða hagkerfið og hagvaxtarmöguleika til framtíðar. Paul Krugman og Joseph Stiglitz eru á sama máli. Í mjög áhugaverðri bók eftir Ashoka Mody, Euro Tragedy, er rakið vel hvernig evran varð til í pólitískum hrossakaupum Frakka og Þjóðverja. Evran var draumur franska forsetans Pompidou og taldi hann að með stofnun hennar myndu Frakkar standa Þjóðverjum meira jafnfætis. Það verður svo ekki fyrr en í stjórnartíð Helmuts Kohl, kanslara Þýskalands, að evran verður að veruleika þvert á vilja þýska seðlabankans og fjármálaráðuneytisins. Ráðgjafar Kohl sáu að hann var harðákveðinn í þessu, þetta átti að vera arfleifð hans, en þá var hann bara beðinn um að sleppa Ítalíu, því að ríkisfjármálin þar myndu aldrei ráða við að vera á sameiginlegu myntsvæði. Það er mjög vandasamt að vera með sameiginlega mynt án þess að vera með sameiginlega stefnu í ríkisfjármálum og sameiginlega skuldabréfaútgáfu. Wolfgang Schäuble, forseti þýska þingsins og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir að draga megi í efa hvort þróun Evrópusambandsins sé á réttri leið, þar sem ekki var farið í að styðja við peningastefnuna þegar henni var hrint í framkvæmd. Nú sé það of seint og erfitt verði að sannfæra aðildarríki ESB um að setja á laggirnar pólitískt sambandsríki.“

Lilja segir að það sé ekki nóg að tala bara um stöðugan gjaldmiðil sem mælikvarða á lífsgæði.

„Við höfum nú upplifað eitt mesta hagvaxtarskeið sögunnar með uppbyggingu ferðaþjónustunnar, sem leitt hefur af sér mikið innflæði á gjaldeyri. Við höfum verið með hagvöxt upp á um 4% að meðaltali og þá vilja sumir að við séum á sama tíma með lágvaxtagjaldmiðil með neikvæða raunvexti. Við hefðum með þannig gjaldmiðil endað í óraunhæfum hagvexti og allt hefði farið úr böndunum,“ segir Lilja og vísar aftur til skrifa Milton Friedman.

„Nú er samdráttur en þá erum við með okkar peningastefnu, sem við gætum ekki ef við værum á evrusvæðinu. Hagsveiflur eru ekki samfelldar á milli Íslands og lykilhagkerfa í Evrópu. Því þurfum við að vera með sveigjanlegri mynt og þá peningastefnu sem tekur mið að því sem er að gerast hér. Við erum nú með stóran gjaldeyrisforða og hreina erlenda skuldastöðu upp á 21% af landsframleiðslu, sem er nýlunda í íslenskri hagsögu. Skilyrðin eru okkur hagfelld en hagkerfið er vissulega smátt og við erum alltaf viðkvæmari fyrir utanaðkomandi aðstæðum. Við þurfum alltaf að vera á tánum en ég fullyrði að við hefðum aldrei getað unnið með jafngóðum hætti úr fjármálahruninu ef við hefðum verið í ESB. Við getum líka horft á kenningar Mundell um hið hagkvæma myntsvæði. Ein forsendan fyrir því að það gangi upp er sveigjanlegur vinnumarkaður. Hann er það að einhverju leyti í Evrópu en þó ekki að fullu. Bara það að það eru mörg mismunandi tungumál í Evrópu hamlar því að vinnumarkaðurinn sé sveigjanlegur, ólíkt því sem gerist til dæmis í Bandaríkjunum þar sem það er minna mál að flytja á milli svæða í leit að nýjum tækifærum eða eftir því sem efnahagurinn blæs.“

Nánar er rætt við Lilju í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar er meðal annars fjallað um ríkisstjórnarsamstarfið, þann árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum á undanförnum árum, stöðu menntamála og margt fleira.

Viðtalið birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.