Vinnumarkaðslegur ómöguleiki

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Þegar Ísland fékk fullveldi fyrir 100 árum var lífsbaráttan umtalsvert erfiðara en nú. Það eru þó sjálfsagt ekki allir sem fæddust inn í iðnvætt upplýsingasamfélag sem gera sér fyllilega grein fyrir þeim lífskjarabata sem hefur orðið, en verg landsframleiðsla á mann hefur hvorki meira né minna en átjánfaldast síðan 1918 (sjá mynd 1).

Með öðrum orðum var fullveldinu fagnað í landi þar sem lífskjörin voru í takt við þau sem í dag má finna víða í Afríku sunnan Sahara eða í löndum eins og Vanúatú og Tajikistan. Landið þar sem 100 ára afmæli fullveldis er nú fagnað býr við einhver bestu lífskjör sem mannkyn hefur upplifað, bæði í samtímalegu en ekki síður sögulegu samhengi.

Það vilja allir há lægstu laun

Þessi árangur hefur náðst í hægum skrefum, því þó að lífskjörin hafi á mælikvarða vergrar landsframleiðslu átjánfaldast á 100 árum þýðir það einungis innan við 3% vöxt á ári. Góðir hlutir gerast hægt.

Kröfugerðir verkalýðshreyfingarinnar gera á hinn bóginn ráð fyrir því að góðir hlutir gerist strax. Því skal haldið til haga að það er skiljanleg krafa að laun og tekjur séu mannsæmandi og dugi til framfærslu. Aðstæður fólks eru misjafnar og því miður fara sumir halloka í samfélaginu og flest erum við sammála um að styðja við þá sem minnst mega sína. Enda snýst gagnrýni á kröfugerðir verkalýðshreyfingarinnar að litlu leyti um markmiðið. Gagnrýnin snýst um leiðina að markmiðinu, leið sem er ekki bara ólíkleg til þess að skila þeim árangri sem stefnt er að heldur líklegri til að beinlínis skerða lífskjör flestra Íslendinga.

Hvers vegna má ekki bara tvöfalda lægstu laun?

Því hefur verið töluvert haldið á lofti síðustu vikur að kröfugerðirnar snúist fyrst og fremst um að hækka lægstu launin nógu mikið en þó þannig að heildarlaun hækki ekki svo mikið að til verðbólguskots komi. Í sjálfu sér er sannleikskorn í því, þar sem kröfugerð VR virðist t.d. gera ráð fyrir því að regluleg laun hækki um ca. 7% á ári, sem virðist óraunhæft en er þó ekki alfarið fjarstæðukennt. Það hangir þó á tveimur geigvænlega stórum forsendum, sem brotna við minnsta þunga.

Í fyrsta lagi er einnig gert ráð fyrir styttingu vinnuvikunnar úr 40 í 35 vinnustundir og við það eitt er hækkun reglulegra meðallauna á vinnustund orðin nær 12% og hækkun þeirra sem lægstu launin hafa komin nær 17%. Starfsgreinasambandið gengur skrefi lengra og stefnir á 32 stunda vinnuviku sem þýðir 21% árlega launahækkun á vinnustund.

Í öðru lagi hefur reynsla síðustu ára og áratuga kennt okkur að það sama gildir um kýrnar í fjósinu og launahækkanir á vinnumarkaði. Þegar einn hækkar, þá hækka allir. Þetta ber launaþróun síðustu ára með sér þar sem áhersla hefur verið á krónutöluhækkanir og hlutfallslega meiri hækkun lægstu taxta sem ekki hefur skilað sér þegar á hólminn er komið þar sem launadreifing ASÍ (miðgildi í hlutfalli við lægstu laun) hefur lítið breyst frá 2013.

Ósamrýmanlegar kröfur á vinnumarkaði

Til að skilja hvers vegna hækkun ákveðinna hópa umfram aðra smitist upp eða niður launastigann þarf að hafa ýmislegt í huga. Eitt það veigamesta er gríðarlega fjölbreyttar og að mörgu leyti skiljanlegar kröfur hinna ýmsu aðila á vinnumarkaði. Kennarar glíma við atgervisflótta og vilja fá hærri laun – skiljanlega. Aðrir háskólamenntaðir, t.d. félagsmenn í BHM, vilja að menntun sé metin til launa þar sem fjárhagslegur ávinningur hefur minnkað um helming á einum áratug – skiljanlega. Fólk í vaktavinnu vill hærri laun því vaktavinna veldur miklu álagi – skiljanlega. Og svona mætti lengi telja. Erfitt er því að uppfylla kröfur og óskir allra, eins réttmætar og þær kunna að vera, þannig að sátt sé um að ákveðnir tekjuhópar eða stéttir hækki meira en aðrir. Reynslan af síðustu kjarasamningalotu bendir til þess að það sé hægara sagt en gert.

Enn meiri þjöppun á jafnri launadreifingu …

Annað sem varpar ljósi á ómöguleikann sem fellst í því að ákveðnir hópar hækki meira en aðrir, án nægilegrar sáttar, er hvernig launadreifingin er í raun. Miðað við fulla vinnu voru regluleg laun 80% landsmanna árið 2017 á fremur þröngu bili eða 339-895 þúsund krónur. Störf eru misjöfn og krefjast misjafnar færni rétt eins og afköst starfsfólks eru misjöfn. Því er eðlilegt að laun séu breytileg, þó að sjálfsögðu megi deila um hversu mikill sá breytileiki sé og ætti að vera. Í því samhengi má benda á að tekjujöfnuður á Íslandi er sá mesti hér á landi í Evrópu skv. Gini stuðlinum auk þess sem þeir tekjulægstu bera meira úr býtum hér á landi heldur en á hinum Norðurlöndunum (sjá mynd 2).

… og ennþá meiri þjöppun með skattabreytingum

Enn eitt atriði sem bendir til þess að kröfugerð verkalýðsfélaganna sem hafa komið fram séu óraunhæfar og ekki í takt við efnahagslegan raunveruleika, eru þær skattkerfisbreytingar sem lagðar eru til. Þær gera ráð fyrir skattfrelsi lægstu launa sem í dag gæti útfærst sem skattleysismörk við 300.000 krónur á mánuði með hækkun persónuafsláttar. Að óbreyttu þýðir það um 149 ma. kr. tekjutap ríkis og sveitarfélaga skv. svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi (543. mál á 149. löggjafarþingi). Slík upphæð samsvarar rekstri Landspítalans í á þriðja ár svo hækka þyrfti skattprósentur verulega á móti.

Samkvæmt athugunum Viðskiptaráðs, byggðum á gögnum frá Hagstofunni er ein sviðsmynd sú að hækka 1. skattþrep upp í 60,54% og 2. þrepið upp í 67,25% (sjá mynd 3). Það myndi þýða að hið opinbera tæki nærri tveimur af hverjum þremur krónum sem einstaklingar afla sér umfram lágmarkslaun. Ekki þarf mikla rannsóknarvinnu til að staðfesta að slíkir jaðarskattar þekkjast varla. Heyrst hafa hugmyndir um að setja þurfi hátekjuskatt á tekjur yfir 20 milljónum á ársgrundvelli eða álíka. Slíkt myndi skila ríkissjóði litlu meira en 5 milljörðum króna í tekjur á ári ef miðað er við 75% skatt.

Staðreyndin er sú að margfalt stærri hluti Íslendinga er í millitekjuhópum held en hátekjuhópum og því lenda byrðarnar óumflýjanlega á millitekjuhópum. Enn fremur má nefna að skattbyrðin er nú þegar nær öll á efri hluta tekjudreifingarinnar – þau 40% landsmanna sem höfðu hæstu tekjurnar eða 574 þúsund krónur á mánuði eða meira, greiddu um 82% af sköttum einstaklinga árið 2017.

Er algjör jöfnuður raunhæfur eða eftirsóknarverður?

Nú hefur verið tekið fram að ef kröfum um breytingar á skattkerfinu verði ekki mætt muni þurfa meiri launahækkanir og öfugt. Þó kemur fram í kröfugerð VR bæði krafa um krónutöluhækkanir sem nema 125.000 á mánuði upp allan launastigann og að lægstu laun verði skattfrjáls. Kröfugerð SGS orðar þetta öðruvísi og sumt í kröfunum virðist óljóst. Við vitum þó, eins og hér hefur verið rakið að kröfurnar eru miklar. Hvað ef gengið verður að kröfum um krónutöluhækkanir og skattleysismörk verða samtímis færð upp í 300 þúsund krónur?

Áhrif slíkrar sviðsmyndar er hægt að gera sér í hugarlund á mynd 4. Þar má annars vegar sjá ráðstöfunartekjur reglulegra launa fullvinnandi launafólks eftir tekjutíundum eins og þær eru áætlaðar í dag og hins vegar hvernig þær gætu litið út árið 2021 miðað við og 300.000 kr. skattleysismörk, án þess að ríkið verði fyrir tekjutapi.

Niðurstaðan er sú að laundreifing landsmanna myndi fletjast verulega út. Þeir sem eru í fullri vinnu og á lægstu laununum munu einungis hafa 25% lægri regluleg laun eftir skatta heldur en 8. tíundin. Þá bætist við tekjutenging bóta og annarra ráðstafana sem jafnar tekjurnar enn frekar. Í slíku umhverfi er því nær enginn fjárhagslegur hvati til þess að mennta sig, taka áhættu og stofna fyrirtæki, leggja sig sérstaklega fram eða ná framþróun í starfi. Það væri forvitnilegt ef aðilar verkalýðshreyfinganna væru í raun að setja sér það sem markmið.

„Bilaða platan“ segir satt

Verði gengið að ýtrustu kröfum verkalýðshreyfingarinnar eru því allar líkur á að þær smitist yfir á vinnumarkaðinn í heild sinni. Þar sem krafan er sú að laun á vinnustund hækki um fimmtung á ári er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir að heildarlaunakostnaður atvinnulífsins hækki um 10-20% á ári. Til að launahækkanir séu í samræmi við stöðugt verðlag og framleiðni, eða efnahagslegan veruleika, er svigrúmið aftur á móti frekar nær 4%. Eitthvað verður því undan að láta.

Í nýjum „Pakka“ Viðskiptaráðs, Hvað er til skiptanna?, er fjallað um svigrúm til launahækkana og þá valkosti sem fyrirtæki og þar með hagkerfið í heild stendur frammi fyrir. Þar kemur meðal annars fram að hlutfall launakostnaðar af landsframleiðslu á Íslandi sé það hæsta meðal þróaðra ríkja sem er skýr vísbending um að svigrúmið felist aðallega í því að stækka kökuna með aukinni verðmætasköpun og þannig meiri landsframleiðslu (sjá mynd 5). Þegar aftur á móti er útlit fyrir hægari gang í efnahagslífinu á næstu misserum segir það sig sjálft að svigrúmið er lítið.

Þrjár leiðir á krossgötum ósjálfbærra launahækkana

Í fyrrnefndum pakka Viðskiptaráðs er dæmisaga tekin af „litla fyrirtækinu hennar Önnu“ sem stendur frammi fyrir miklum launahækkunum. Í dæminu mun þetta litla fyrirtæki lenda í taprekstri ef ekki er gripið til aðgerða. Þar stendur Anna frammi fyrir þremur valkostum til að bregðast við. Hún getur hækkað verð, sagt upp starfsfólki eða tekið lán með von um að framundan sé betri tíð.

Þetta litla dæmi má segja að gildi fyrir efnahagslífið í heild. Ekkert verður til úr engu svo ef launahækkanir fara algjörlega úr böndunum eru þrjár leiðir sem hagkerfið getur farið. Í fyrsta lagi er það í gegnum hærra verð á vöru og þjónustu, eða verðbólgu sem við höfum reynt svo oft og þekkjum óþægilega vel af fyrri reynslu, sérstaklega á 8. og 9. áratugnum þegar verðbólga og laun hækkuðu á víxl. Í öðru lagi geta launahækkanir brotist fram í atvinnuleysi þar sem fyrirtæki hagræða og segja upp fólki. Loks er tæknilega séð hægt að komast framhjá því að hér verði atvinnuleysi og/eða verðbólga.

Hljómar það of gott til að vera satt? Það er vegna þess að það er of gott til að vera satt. Staðreyndin er sú að það geti orðið kallar á mikinn viðskiptahalla og þar með erlenda skuldsetningu. Sá ávinningur væri þá tekinn að láni erlendis frá og við vitum að alltaf kemur að skuldadögum. Stundum er því þó ranglega haldið fram að launahækkanir sem eru úr samræmi við efnahagslegan veruleika geti skilað raunverulegum ávinningi.

Í pakkanum „Hvað er til skiptanna?“ er því lýst ítarlega hvers vegna svo er. Í stuttu máli munu launahækkanir, án mikils atvinnuleysis og verðbólgu, auka kaupmátt landsmanna gríðarlega mikið. Framleiðslan í hagkerfinu á vöru og þjónustu vex þó miklu hægar þar sem framleiðni vex hægar svo í staðinn þarf að auka innflutning gríðarlega mikið.

Á mynd 6 sem má sjá sviðsmynd með 15% almennum launahækkunum á ári í þrjú ár og að öðru leyti hagfelldri efnahagsþróun eins og tæplega 5% árlegum framleiðnivexti, sem er nær fordæmalaust yfir svo löng tímabil. Þar sem einkaneysla, samneysla og fjárfesting (sem saman kallast þjóðarútgjöld) aukast gríðarlega í takt við aukinn kaupmátt gefur viðskiptajöfnuður verulega eftir vegna innflutnings og snýst í viðskiptahalla og endar á svipuðum slóðum og á árunum fyrir fjármálkreppu, eða í -20% af landsframleiðslu. Slíkt kallar á gríðarmikla erlenda skuldsetningu þjóðarbúsins sem vandséð er að staðið verði undir til lengri tíma og skapar mikla áhættu fyrir fyrirtæki, ríki og almenning. Efast má stórlega um að verkalýðshreyfingin vilji ráðast í slíkar æfingar.

Ekki gera ekki neitt

Ofangreint kann að hljóma sem svo að ekki eigi að gera neitt til að bæta kjör landsmanna, þar á meðal þeirra lægst launuðu. Ekkert er eins fjarri sanni. Eins og áður segir snýst ágreiningurinn á vinnumarkaði miklu frekar um leiðir heldur en markmið. Til að bæta kjör landsmanna, þar með talið þeirra sem hafa lægstu kjörin, þarf að halda áfram þeirri vegferð sem hefur staðið yfir frá fullveldi og hefur átjánfaldað það sem er til skiptanna á hvern einstakling. Til þess þurfum við einkum stöðugt og gott rekstrarumhverfi fyrirtækja til að þau geti skapað örugg og góð störf. Ekki hvað síst þarf að leita leiða til að halda áfram að skapa nýjar útflutningsgreinar, sem eru grunnurinn að hagsæld á Íslandi. Viðskiptaráð og aðrir hafa bent á fjölda leiða, stórar sem smáar, til stefna að aukinni hagsæld sem er efni í margar greinar.

Hægt er að fara aðrar leiðir en þær sem auka beinlínis hagvöxt og horfa einnig á lífskjör í stærra samhengi. Til dæmis er hægt að auka sveigjanleika vinnutíma og ná þannig fram stórum hluta þess ávinnings sem stytting vinnuvikunnar myndi hafa í för með sér. Í framhaldinu er svo hægt að leita leiða til að stytta vinnuvikuna í skrefum, ef vilji er til þess meðal launþega. Einnig eru tækifæri fólgin í því að endurskoða almannatrygginga-, bóta- og tekjuskattkerfi, t.d. í takt við það sem hefur verið lagt upp af stjórnvöldum og samráðvettvangi um aukna hagsæld. Þannig geta kerfin bæði orðið sanngjarnari og skilvirkari.

Stærsta atriðið, sem allir eru sammála um að þurfi að leysa, er húsnæðisskortur sem hefur farið stigvaxandi síðustu ár og leitt til hærri kaup- og leiguverðs.

Til að leysa skortinn er lausnin ósköp einföld; Byggja þarf íbúðir, þó það skipti að sjálfsögðu máli hvernig það er gert. Eitt er víst að fjöldi íbúða verður ekki dregin upp úr launaumslögum og bótakerfum ríkissjóðs. Lausnin fellst í að leita leiða til að byggja hraðar og meira. Hafa skal þó í huga að í því felst jafnvægislist og offramboð getur orðið á íbúðum sem skapar önnur vandamál. Hægt hefur á fólksflutningum til landsins á sama tíma og íbúðafjárfesting fer enn vaxandi sem birtist í að um 2.100 íbúðir koma inn á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári skv. áætlun Samtaka iðnaðarins. Útlit er fyrir áframhald á þeirri þróun þar sem sjaldan hafa verið jafn margar íbúðir í byggingu á landinu og því kann að þurfa minni innspýtingu umfram það en virðist í fyrstu.

Við erum öll á sama báti

Það er ósk allra að kaupmáttur landsmanna sé sem mestur og að hér séu greidd há laun. Ekkert verður þó til úr engu og launin þurfa að endurspegla íslenskan veruleika. Ef þau gera það ekki tapar meginþorri landsmanna, ekki síst þeir tekjulægstu sem rannsóknir benda til að verði verst úti í verðbólguskoti. Ólíkt því sem reynt er að telja okkur trú um, að við eigum í stríði við hvort annað, þá erum við öll á sama báti í örhagkerfi langt úti á ballarhafi.

Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

 

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2018, í sérstökum greinaflokk um kjarasamninga og kjaramál. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.