Hvernig kaupin gerast (enn) á eyrinni

Um þessar mundir eru 40 ár frá útgáfu bókarinnar Hvernig kaupin gerast á eyrinni eftir Baldur Guðlaugsson. Í bókinni fjallar hann um aðferðir sem viðhafðar eru hér á landi við kaupdeilur og kjarasamninga sem hann lýsir svo:

„Skipulag kjaraviðræðna á Íslandi hefur verið lýst með þeim hætti að þar fáist of margir sjálfstæðir aðilar við að gefa út ávísanir á sömu verðmætin. Engin tilraun er gerð til þess að ná almennu samkomulagi um það hvað til skiptanna sé, að ekki sé minnst á í hvaða hlutföllum skipt skuli. Fjöldi samningsaðila og kjarasamninga er alltof mikill.“

Þetta eru, því miður, orð að sönnu fjórum áratugum eftir útgáfu bókarinnar.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Á Íslandi eru 85,5% launamanna í stéttarfélögum sem er langhæsta hlutfall í heiminum. Þátttakan er fimm sinnum meiri en að meðaltali í OECD ríkjunum og fjórum sinnum meiri en í ESB. Í flestum ríkjum nema Íslandi fer þátttaka launamanna í stéttarfélögum stöðugt minnkandi. Alþingi hefur tryggt verkalýðsfélögunum þessa sterku stöðu með margvíslegri löggjöf og ber þar hæst svokölluð starfskjaralög nr. 55/1980. Íslendingar slá einnig heimsmet þegar kemur að fjölda launamanna á bak við hvern kjarasamning. Þannig eru að meðaltali um 200 launamenn að baki hvers kjarasamnings á Íslandi og dæmi er um kjarasamning sem gildir fyrir aðeins einn starfsmann. Til samanburðar eru 9.000 launamenn á bakvið hvern kjarasamning í Finnlandi og 5.000 í Noregi. Á næstu mánuðum stendur fyrir dyrum endurnýjun 700 kjarasamninga hjá 150 stéttarfélögum. Niðurstaða hennar mun skipta sköpum um efnahagsþróun næstu ára.

Leiftursókn gegn batnandi lífskjörum gagnast engum

Kröfugerðir stærstu stéttarfélaga landsins eru komnar fram. Samtal á milli SA og launþegahreyfinga er hafið og þar eru mörg flókin úrlausnarefni undir. Niðurstaða viðræðnanna mun ráða miklu um þróun efnahagsmála á komandi árum. Um þetta umhverfi er fjallað í bókinni:

„Verkalýðshreyfingin hefur mikil áhrif hér á landi. Stefna hennar í kjaramálum skiptir sköpum að því er varðar stjórn efnahagsmála, og gömul og ný dæmi sýna að hreyfingin getur haft örlög ríkisstjórna í höndum sér. En verkalýðshreyfingin er ekki alfarið sterk, hún er hvort tveggja í senn sterk og veik, eins og Jón Sigurðsson, fv. forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, komst að orði. Sterk í þeim skilningi, að hún getur komið fram vilja sínum í kaupgjaldsmálum í heild. En veik í þeim skilningi, að hún hefur ekki megnað að móta skynsamlega, árangursríka og innbyrðis samræmda stefnu í launa- og efnahagsmálum.“

Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu frá ritun bókarinnar sem vísað er til í inngangi. Samfélagsmiðlar, breytt neyslumynstur og valröðun launamanna auk minni fylgispektar við stjórnmálaflokka hefur komið róti á margt sem áður var tregbreytanlegt. Tilfinning manna og hópa hefur jafnvel meira vægi en staðreyndir og það er enn meira áhyggjuefni að fleiri og fleiri skeyta í engu um staðreyndir og telja að mælanlegir þættir skipti yfir höfuð takmörkuðu máli. Það þarf útsjónarsemi og kraft til að andæfa þeirri sýn á þjóðfélagið.

Efnahagslegt samhengi kjarasamninga

Undanfarinn áratug hefur þjóðin lagt hart að sér við að endurheimta sterka stöðu heimila, fyrirtækja og þjóðarbúsins. Allir hafa lagst á árarnar og árangurinn er eftirtektarverður. Það er mikið í húfi á næstu misserum að glutra ekki niður þeim mikla árangri. Síðustu tvö ár hafa Samtök atvinnulífsins farið í hringferð um landið og efnt til samtals á opnum fundum við atvinnurekendur og launþega um stöðu efnahagslífsins og kjaraviðræður. Í þessari grein er leitast við að draga upp þá stóru mynd sem SA hafa gert að umtalsefni á fundum víða um land undanfarin tvö ár.

Dæmalaus árangur hefur náðst síðustu ár. Mikill hagvöxtur um langt skeið hefur skapað grundvöll fyrir launahækkunum sem hafa skilað kjarabótum til heimila. Atvinnuleysi er lítið, opinberar og almennar skuldir hafa verið greiddar niður og ríkisfjármálin hafa náð jafnvægi á ný. Ísland er skuldlaust og á nettó eignir í útlöndum. Prófsteinninn framundan er að viðhalda þeim árangri sem áunnist undanfarin ár. Það er engin skyndilausn í boði að þessu sinni.

Í því samhengi er mikilvægt að horfa til íslenskra hagtalna í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Hér að neðan eru fjögur atriði sem mikilvægt er að draga fram og einkenna íslenskan vinnumarkað um þessar mundir.

  1. Frá þjóðarsátt hafa laun í krónum ríflega fimmfaldast en verðlag þrefaldast

Þótt laun geti ávallt hækkað í krónum talið þá stjórnast kaupmáttur af framleiðnivexti í þjóðarbúinu. Á endanum leiðréttast launahækkanir umfram framleiðnivöxt með verðbólgu. Þetta sést skýrt þegar litið er nokkra áratugi til baka. Frá árinu 1990 hafa laun á Íslandi hækkað um 430% en verðlag um 204%. Það þýðir að raunverulegt verðmæti launa, kaupmáttur launa, jókst um 75%. Þetta tímabil einkenndist af mun meiri stöðugleika en áratugirnir á undan þegar hlutfallshækkanir launa og verðlags voru margfalt meiri.

Laun á Íslandi hafa hækkað þrefalt meira en annars staðar Norðurlöndunum á sama tímabili. Þrátt fyrir miklu meiri launahækkanir hefur kaupmáttur launa aukist álíka mikið og þar, en fórnarkostnaðurinn var mikill vegna verðbólgu, óstöðugleika og hárra vaxta. Undanfarin ár hafa þó verið einstök í þessu samhengi því þrátt fyrir miklar launahækkanir á íslenskum vinnumarkaði hefur ríkt verðstöðugleiki. Þannig eru laun nú um 35% hærri en í ársbyrjun 2015. Á sama tíma hækkaði verðlag um 10% og kaupmáttur jókst um 25%.

Mikill uppgangur í ferðaþjónustu jók verðmætasköpun og styrkti krónuna sem dró úr verðbólgu. Bætt viðskiptakjör, einkum lækkun olíuverðs, skapaði aukið rými til launahækkana. Oft vill gleymast að á tímabilinu lækkuðu stjórnvöld verðlag með afnámi vörugjalda og tolla. Tollar og vörugjöld verða bara afnumin einu sinni, eðli máls samkvæmt. Nú hafa gerólíkar aðstæður skapast, þar sem dregið hefur hratt úr fjölgun ferðamanna, krónan veikst og viðskiptakjör versnað. Forsendur hins mikla lífskjarabata undanfarinna ára hafa veikst og þau hljóta að hluta til að ganga til baka.

  1. Á Íslandi ríkir mikill jöfnuður

Gini-stuðull er viðurkenndur mælikvarði á ójöfnuð tekna. Stuðullinn er á bilinu 0-100 og táknar hátt gildi mikinn ójöfnuð. Hagstofa Íslands og OECD birta reglulega alþjóðlegan samanburð á stuðlinum sem er byggður á tekjum samkvæmt skattframtölum.

Á vef Hagstofu Íslands er nýjasti stuðullinn frá á árinu 2016 og var 24,1, en til samanburðar var hann 26,3 fyrir 10 árum. Vísbendingar eru um að tekjujöfnuður hafi aukist enn frekar á árinu 2017 þegar horft er til launaþróunar þess árs eftir tekjutíundum þar sem lægstu tekjutíundirnar hækkuðu umfram meðalhækkun launa. Tekjujöfnuður er því mikill og hefur aukist. Alþjóðlegur samanburður sýnir að tekjujöfnuður er hvergi meiri meðal OECD ríkja en á Íslandi.

Við samanburð eignajöfnuðar milli þjóða þarf að hafa í huga þætti eins og aldurssamsetningu og menntunarstig. Þannig geta ungar þjóðir með hátt menntunarstig búið við mikinn eignaójöfnuð þótt í framtíðinni megi gera ráð fyrir að slíkur ójöfnuður muni dragast saman. Vegna slíkra annmarka birta alþjóðastofnanirnar OECD og AGS ekki mælikvarða um eignaójöfnuð.

  1. Laun á Íslandi eru há

Í september birti Hagstofa Íslands tölur um laun og dreifingu þeirra. Árið 2017 voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 706.000 krónur á mánuði og miðgildi þeirra 618.000 krónur. Tæplega helmingur launamanna var með heildarlaun á bilinu 500 til 800 þúsund krónur. Þá voru tæplega 10% launamanna með heildarlaun undir 400 þúsund krónur og um 12% launamanna með heildarlaun yfir milljón krónur á mánuði.

Alþjóðlegur samanburður launa leiðir í ljós að meðallaun á Íslandi voru þau næst hæstu meðal OECD ríkja árið 2017 miðað við gengi krónunnar í desember 2018. Einungis í Sviss eru greidd hærri laun að meðaltali. Laun á Íslandi hafa ekki áður verið hærri í alþjóðlegum samanburði og er raungengi á mælikvarða launa annar mælikvarði á þá staðreynd. Raungengi á fyrra árshelmingi 2018 var hærra en nokkru sinni undanfarna tvo áratugi og hafði rúmlega tvöfaldast frá því það varð lægst árið 2009. Raungengi hefur lækkað nokkuð vegna veikingar gengis krónunnar á síðari hluta ársins en samt er raungengi enn afar hátt í sögulegum samanburði.

Lágmarkstekjutrygging kjarasamninga, þ.e. lágmarkslaun, er nú 300.000 krónur. Lágmarkslaun á Íslandi eru þau þriðju hæstu meðal OECD ríkja. Kaupmáttur launa samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar hækkaði um 25% frá fyrri hluta ársins 2015, þ.e. á gildistíma yfirstandandi kjarasamninga, en kaupmáttur lágmarkslauna hækkaði enn meira, eða um 30%.

Það er staðreynd að dýrt er að búa á Íslandi. En jafnvel þó launin séu umreiknuð með tilliti til verðlags eftir löndum þá fæst svipuð niðurstaða, þ.e. að kaupmáttarleiðrétt meðallaun á Íslandi eru þriðju hæst meðal OECD ríkja og lágmarkslaun fimmtu hæst. Þótt verðlag á Íslandi sé að meðaltali hærra en í flestum öðrum ríkjum er kaupmáttur launa íslensks launafólks einn sá mesti í heiminum.

  1. Hvergi rennur meiri virðisauki en til launaþega á Íslandi

Launahlutfall er mælikvarði á skiptingu verðmæta milli launafólks og fjármagns. Þegar laun hækka umfram verðmætasköpun hækkar launahlutfallið. Launahlutfallið hefur farið hækkandi undanfarin ár og var 63% árið 2017 samanborið við 56,6% árið 2011. Launahlutfallið á Íslandi er það hæsta meðal OECD ríkjanna.

Velferðin byggist á öflugum útflutningsgreinum

Lífskjör á Íslandi eru á meðal þeirra bestu í OECD. Ísland er hálaunaríki og hlutur launafólks í verðmætasköpuninni er hvergi hærri og tekjujöfnuður mestur. Verkalýðsfélög geta knúið fram krónutöluhækkanir launa með þvingunaraðgerðum en ef þær eru umfram verðmætasköpun í þjóðarbúinu leiðir það innan skamms til aukinnar verðbólgu. Til langs tíma skiptir hagvöxtur mestu máli um lífskjör almennings og hagfellt rekstrarumhverfi er forsenda bættra lífskjara.

Mikilvægt er að hafa hugfast að núverandi hagvaxtarskeið er einstakt. Átta ára samfellt hagvaxtarskeið er óvenju langt. Hagvöxturinn var byggði á útflutningsgreinum og óvenju mikil gengisstyrking krónunnar jók kaupmátt landsmanna verulega. Gjaldeyristekjur hafa staðið undir innlendir neyslu og engin þörf á erlendri skuldsetningu. Samfelldur viðskiptaafgangur síðustu ár og greiðsla erlendra skulda endurspegla sterka stöðu þjóðarbúsins. Nýjar tölur sýna að þjóðarbúið á 369 milljarða króna í hreinum erlendu eignum að frátöldum skuldum sem svarar til 13% af vergri landsframleiðslu.

Það eru blikur á lofti og hagvöxtur fer minnkandi. Aðlögunin er hröð og spár greiningaraðila um hagvöxt fara lækkandi. Væntingar heimila og fyrirtækja eru á niðurleið og krónan hefur veikst. Allt eru þetta merki um kólnandi hagkerfi.

Slök hagstjórn hefur undantekningarlítið leitt til efnahagsáfalla í kjölfar góðæra á Íslandi. Í lok síðari heimsstyrjaldarinnar var ríflegum gjaldeyrisforða glutrað niður á tveimur árum í miðstýrðar og misráðnar fjárfestingar. Meðfylgjandi samdráttur reyndist Íslendingum erfiður en Marshallaðstoðin og framkvæmdir Bandaríkjahers drógu landsmenn upp úr öldudalnum. Árið 1952 hófst efnahagsþensla á ný sem leiddi til mikillar i spennu á vinnumarkaði sem að lokum braust út í víðtækum sex vikna verkföllum árið 1955. Í kjölfarið dró úr hagvexti, ekki síst vegna minni sjávarafla og lakari viðskiptakjara.

Þegar Viðreisnarstjórnin tók við stjórnartaumunum árið 1960 var ráðist í róttækar aðgerðir til að rétta af samkeppnisstöðu landsins. Þær fólust m.a. í einföldun flókins fyrirkomulags gengismála, opinbert gengi krónunnar var fellt um 57% og lögbundin vísitölubinding launa afnumin. Þessar aðgerðir og afnám ýmissa hafta lögðu grunn að heilbrigðara efnahagsumhverfi í hátt við það sem ríkti á Vesturlöndum. Ekki leið þó langur tími uns vísitölubindingu var aftur komið á með „Júnísamkomulaginu“ svonefnda árið 1964. Þeir þríhliða kjarasamningar voru gerðir í mikilli efnahagsuppsveiflu, sem stafaði af margföldun verðmætis síldarafla, og samhliða var ráðist í einhverjar stærstu aðgerðir sem gerðar hafa verið í húsnæðismálum þjóðarinnar með byggingu Breiðholtsins. Á þessum árum hækkaði raungengi krónunnar mikið, enda gengi krónunnar fast á sama tíma og innlendur kostnaður hækkaði óðfluga, þannig að rekstrarskilyrði útflutningsgreina versnuðu til muna. Efnahagsuppsveiflan var byggð á einhæfum grunni síldveiða og í kjölfar þess að síldin hvarf árið 1967 var gengi krónunnar fellt um 50% og við tók við ein dýpsta efnahagslægð síðustu aldar.

Í upphafi áttunda áratugarins batnaði hagur landsmanna á ný. Í umhverfi bættra viðskiptakjara og aukins sjávarafla var vinnuvikan stytt með lögum um fjórar stundir í ársbyrjun 1972. Lagasetningin hækkaði launakostnað atvinnulífsins um 15% á augabragði sem, auk vísitölubindingar launa og ofþenslu í efnahagslífinu, hrinti af stað tugprósenta verðbólgu á örfáum misserum. Íslendingar voru því illa í stakk búnir til að bregðast við ytri áföllum. Þau létu þó ekki bíða eftir sér því haustið 1973 skall á olíukreppa, skömmu síðar hófst eldgos í Vestmannaeyjum og alþjóðlega fastgengiskerfið, sem kennt er við Bretton Woods, leið undir lok. Í kjölfarið var gengi krónunnar fellt um 50% með meðfylgjandi kjaraskerðingu.

Upp úr miðjum áttunda áratugnum stefndi efnahagslífið í sæmilegt jafnvægi og hagvöxtur glæddist eftir útfærslu landhelginnar. Sumarið 1977 voru gerðir svokallaðir „Sólstöðusamningar“ sem gerðu út um vonir manna um stöðugt verðlag og gengi krónunnar. Þessir kjarasamningar fólu í sér 25% launahækkanir og var gengið fellt ári síðar um 25%.

Áratugurinn sem á eftir fylgdi einkenndist af miklum launahækkunum, m.a. vegna verðtryggingar launa, mikilli verðbólgu og gengisfellingarnar fylgdu þeim eins og skugginn. Sem fyrr var hagvöxtur sveiflukenndur, í takt við viðskiptakjör, en á árunum 1984-1987 var mikill uppgangur vegna aflaaukningar í sjávarútvegi. Gengi krónunnar var haldið föstu, þrátt fyrir miklu meiri kostnaðarhækkanir en erlendis, og versnaði samkeppnisstaða atvinnulífsins verulega. Óhófleg bjartsýni ríkt á þessum árum og var ráðist í miklar fjárfestingar en eins og Sigurður Snævarr segir í bók sinni Hagsögu Íslands: „Þetta tímabil er eitt besta dæmið um hversu sterk bein þarf til að þola velgengni.“ Bókin var gefin út árið 1993 og hafa bæst a.m.k. tvö dæmi um þensluskeið sem staðfesta ályktun Sigurðar.

Árið 1986 gerðu aðilar almenna vinnumarkaðarins tilraun til þjóðarsáttar um stöðugleika í efnahagsmálum, en sú tilraun rann út í sandinn vegna kjarasamninga opinberra starfsmanna á vormánuðum 1987. Það ár var líka hið fræga skattlausa ár, sem olli ofþenslu og miklu launaskriði á vinnumarkaði, en á sama tíma versnaði afkoma sjávarútvegs verulega og gengisfelling varð ekki umflúin. Fátt jákvætt má segja um þetta tveggja áratuga linnulausa efnahagslega öldurót annað en að það skapaði grundvöll fyrir þjóðarsáttarsamningunum 1990. Slíkir samningar höfðu verið reyndir í tvígang á skömmum tíma en árið 1990 náðist sögulegur árangur með þríhliða samstarfi ASÍ og BSRB, samtaka atvinnurekenda og ríkisins.

Samstilling efnahagsstjórnar stjórnvalda og kjarastefnu á vinnumarkaði, á borð við þá sem gerðist í þjóðarsáttinni 1990, er þó fremur undantekning en regla hér á landi. Á síðari hluta tíunda áratugarins hófst mikil efnahagsuppsveifla, samhliða aukningu ríkisútgjalda og lækkun tekjuskatta einstaklinga. Upp úr aldamótunum var komið að nýju efnahagsáfalli þegar netbólan sprakk og gengi krónunnar féll um 20%. Í kjölfarið sigldu þensluárin 2004-2007, og afleiðingar þeirra, sem eru flestum í fersku minni. Lærdómur Sigurðar Snævarr af hagsögu Íslands er enn í fullu gildi: „Enn eitt einkenni efnahagsstjórnar á Íslandi er að allar ríkisstjórnir hafa haft slök „tök“ þegar vel hefur árað.“

Framtíðin er í okkar höndum

Lífskjör Íslendinga byggja á viðskiptum við útlönd og efnahagsleg velferð þjóðarinnar byggir á útflutningsgreinum. Ferðaþjónustan hefur á undanförnum árum skilað miklum verðmætum til þjóðarbúsins, ekki aðeins í formi gjaldeyristekna heldur einnig í fjölgun starfa og auknum skatttekjum hins opinbera. Þá hefur sjávarútvegurinn eflst svo um munar og er í fremstu röð í heiminum í veiðum og vinnslu.

Mikilvægt er að varðveita samkeppnishæfni þjóðarbúsins á komandi árum. Launabreytingar komandi kjarasamninga verða að endurspegla undirliggjandi verðmætasköpun atvinnulífsins. Ábyrgð aðila vinnumarkaðar er mikil.

Heilbrigð sýn á kjarasamningsviðræður milli Samtaka atvinnulífsins og launþegasamtaka ætti að byggjast á samstarfi sem tekur engan enda; leik í skilningi leikjafræði með óendanlega mörgum umferðum og minni leikmanna um alla leiki sem leiknir hafa verið í fortíð. Eins konar hjónaband aðila sem skal endast til eilífðar. Það er á þessum grunni sem norræn verkalýðshreyfing og atvinnurekendur hafa byggt upp farsælt samstarf.

Kjarasamningar fjalla um lífskjör fólks og um jákvæða þróun samfélagsins. Árangursríkar kjaraviðræður geta aldrei verið byggðar á upphrópunum annars viðsemjandans. Þær eru flókið úrlausnarefni sem hægt er að leysa með samstarfi sem byggist á heilindum og er grundvallað á réttu mati á stöðu hverju sinni, ásamt heilbrigðum metnaði til að ganga eins langt og hagkerfið leyfir hverju sinni. Eins og Sigurður Líndal, prófessor, skrifaði eitt sinn:

„Þegar meira er tekið en aflað er berast bakreikningarnir áður en varir. Og þá sé skemmtanin úti, því reynslan hafi margsinnis sýnt, að þeir sem hæst láti kunni engin ráð til lausnar þeim vanda.“

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

 

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2018, í sérstökum greinaflokk um kjarasamninga og kjaramál. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.