Hver verður uppskera verkalýðshreyfingarinnar?

Gunnar Páll Pálsson, formaður Félags lykilmanna og fyrrverandi formaður VR.

Allir sem hafa sótt fundi stéttarfélaga í aðdraganda kjarasamninga vita að þar er sjaldan skortur á röddum sem vilja sækja miklar kjarabætur. Starfsgreinasambandið og verslunarmenn hafa nú farið fram á hækkun lágmarkslauna upp í 425 þúsund krónur, að skattleysismörk verði tvöfölduð, vinnutími styttur og að gert verði stór átak í að auka framboð á hagstæðu húsnæði svo eitthvað sé nefnt. Ef kröfurnar ná fram að ganga svarar það til um 50% hækkun lágmarkslauna. Nú þegar ný forysta verkalýðshreyfingarinnar boðar rótæka stéttabaráttu er líklegt að reynt verði til þrautar að ná fram þessum kröfum. Það stefnir því í átök á vinnumarkaði í byrjun árs 2019.

Skipta má sögu kjarasamninga síðustu 50 ára í grófum dráttum í tvennt. Fram undir 1990 má með vissri einföldun segja að það hafi verið sátt meðal stjórnmálamanna um að koma í veg fyrir atvinnuleysi þegar þrengdi að afkomu fyrirtækja og því var gengið reglulega fellt til að lækka raunlaun á Íslandi ef verð á fiskmörkuðum stóð ekki undir launakostnaði fyrirtækja. Verkalýðshreyfingin taldi á þessum árum að það væri hægt að skipta þjóðarkökunni jafnara og það væri sanngirnis mál að laun dygðu til framfærslu, svipað og við heyrum aftur í dag.

Hver var útkoman? Afrakstur kjarasamninga hvarf oft nánast á einni nóttu í verðbólgubáli í kjölfar gengisfellinga. Frá 1970 til 1990 hækkaði verðlag á Íslandi um ríflega þrjátíuþúsund prósent (31479% Heimild: Hagstofa) en kaupmáttur lítið. Árið 1990 var kaupmáttur dagvinnulauna verkakarla í Reykjavík t.d. 10% lakari en hann hafði verið 1955. (Heimild: vefur ASÍ)

Hvers vegna breyttust viðhorf verkalýðshreyfingarinnar upp úr 1990?

Með þjóðarsáttarsamningunum 1990 hófst nýtt tímabil á hinum almenna vinnumarkaði með hóflegri launahækkunum og lægri verðbólgu sem staðið hefur til þessa. Það voru fjölmargir samverkandi þættir sem réðu þeirri þróun. Með bættri þekkingu á þróun kaupmáttar varð mönnum smá saman ljóst að hækkun launa skilaði sér ekki alltaf í hærri kaupmætti.

Hagfræðingar höfðu verið ráðnir til verkalýðshreyfingarinnar og varð einn þeirra, Ásmundur Stefánsson, kosinn forseti ASÍ 1988. Síðan hefur annar hagfræðingur, Gylfi Arnbjörnsson, einnig setið sem forseti ASÍ.

Lykilþáttur í breyttum viðhorfum var aukning atvinnuleysis upp úr 1988, sem menn höfðu ekki upplifað síðan síldin hvarf 1969. Erfitt efnahagsumhverfi, samhliða því að mörg iðnfyrirtæki höfðu lagt upp laupana í kjölfar inngöngunnar í EFTA varð þess valdandi og ekki bætti úr skák aukning á atvinnuleysi við gjaldþrot Álafoss, Sambands Íslenskra Samvinnufélaga og fleiri fyrirtækja upp úr 1991.

Atvinnuleysi varð meira en menn höfðu áður séð og nálgaðist það sem var í kreppunni á millistríðsárunum. Sex ára samdráttar tímabil varði frá 1988 til 1994. Vissulega var ávallt áhersla á hækkun lægstu launa innan verkalýðshreyfingarinnar, en þau sjónarmið urðu meira áberandi að gæta þurfti að samkeppnisstöðu Íslands varðandi launa og framleiðslukostnað til að tryggja atvinnu.

Með inngöngu í EFTA og EES-samningnum má segja að heimurinn hafi minnkað – og Ísland var statt í miðri alþjóðavæðingunni. Markmið með aðild okkar að þessum alþjóðasamningum var, og er, að tryggja aðgang að erlendum mörkuðum fyrir okkar framleiðsluvörur til að afla gjaldeyris en jafnframt að stuðla að aukinni samkeppnishæfni okkar og Evrópu gagnvart öðrum efnahagssvæðum. Ef Íslenskt fyrirtæki kemur með betri lausnir stuðlar það að bættri samkeppnisstöðu evrópska efnahagssvæðisins. Við höfum e.t.v. ekki alveg fundið taktinn í þessari þróun, við viljum auka kaupmátt, hækka laun en jafnframt lækka verðlag. Þessi vandi sést best á fréttum undanfarið þar sem sagt var frá að leigufélag verkalýðshreyfingarinnar hyggst byggja hagkvæmar leiguíbúðir með því að kaupa einingahús frá Lettlandi og innréttingar frá IKEA, því það er ódýrara, en á sama tíma fara fram á mikla hækkun lægstu launa hér á landi svo íslenskur iðnaður verði ekki samkeppnisfær. Þeir útlendingar sem hingað koma starfa oft á þeim sviðum þar sem lægstu launin voru greidd. Erlent vinnuafl hefur hefur í miklu mæli sótt til Íslands í hærri laun en því býðst í sínu heima landi. EES-samningurinn heimilaði frjálsa för launafólks og er erlent vinnuafl nú yfir 13% af vinnumarkaði. Lágmarkslaun í Lettlandi eru 60 þúsund á mánuði, á Spáni um 107 þúsund og í Bretlandi um 205 þúsund. Verkalýðshreyfingin horfði þá í auknu mæli til þessarar staðreynda við mótun kröfugerða.

Á þessum tíma urðu einnig miklar tæknibreytingar. Með upptöku strikamerka og nýrra verslunarhátta varð um 20% fækkun starfa í verslun. Mikil fækkun starfsfólks varð einnig í sjávarútvegi og fiskvinnslu með tilkomu kvótakerfisins og nýrrar tækni svo einhver dæmi séu nefnd. Menntunarstig þjóðarinnar hefur einnig breyst hratt. Árið 1990 voru háskólamenntaðir um 11% af vinnumarkaði á Íslandi en eru nú um 37% og á sama tíma hefur hlutfall þeirra sem einungis hafa grunnmenntun fækkað í um 26%. Menntunarmál hafa orðið æ fyrirferðarmeiri í starfsemi stéttarfélaga sem leið til bættra kjara og til að tryggja samkeppnishæfni um störfin með alþjóðavæðingunni.

Breytingar á starfi stéttarfélaga

Þessar breytingar urðu til þess að verslunarmönnum og iðnaðarmönnum fjölgaði en verkafólki fækkaði hlutfallslega með tilheyrandi breytingu á valdahlutföllum innan ASÍ. Frá 1988 til 2018 hafa verslunarmenn og iðnaðarmenn átt forseta ASÍ og fókus færðist meira á markaðslaun en lægstu taxta.

Kauptaxtakerfið gaf víða eftir á almennum vinnumarkaði, en lifir þó einkum þar sem um er að ræða einn eða fáa vinnuveitendur og stóra samskonar hópa launþega. Hér á landi sjáum við kauptaxtakerfið ganga upp hjá kennurum, hjúkrunarfræðingum og flugmönnum svo tekin séu dæmi, þar sem starfsumhverfi og menntunarkröfur eru sambærilegar innan greina. Á almennum vinnumarkaði og smærri fyrirtækum er erfitt að útbúa launatöflur sem hentar öllum. Til dæmis eru félagsmenn VR um 29.000 og vinna hjá um 3.000 vinnuveitendum, þar sem störf eins og bókari, gjaldkeri eða sölumaður geta verið verulega frábrugðin frá einu fyrirtæki til annars. Við slíkar aðstæður höfðu erlendis þróast svokallaðir lágmarkslaunasamningar sem voru þá teknir upp hér. Í slíkum samningum eru tilgreind lágmarkslaun en að öðru leyti semja launamenn beint við sína vinnuveitendur í launaviðtölum. Hlutverk stéttarfélaga þessa fólks breytist frá því sem áður var og við bætist ný vídd við að efla fólk með þjálfun, upplýsingum og hvatningu. Þessar breytingar fela í sér að viðmið launagreiðslna færist frá endurgjaldi fyrir unninn vinnutíma til þess að greiða fyrir árangur eins og t.d. launakerfi sjómanna gerir.

Með auknum opnunartíma versluna og vexti í veitinga- og ferðamannaiðnaði fjölgaði verulega störfum utan hefðbundins dagvinnutíma. Þessi störf bættust í hóp starfa í atvinnugreinum með vinnu á kvöldin og um helgar til viðbótar við sjávarútveg, flutningaþjónustu, stóriðju, löggæslu, slökkvilið, heilbrigðiskerfi, sundlaugar, íþróttamannvirki, líkamsræktarstöðvar, leikhús, fjölmiðla, kvöldskóla o.s.frv.

Það má segja að kjarasamningar hafi verið sniðnir utan um þarfir kjarnafjölskyldunnar um að vinnu skuli lokið fyrir kvöldmat, en þjónustusamfélagið sem við búum í kallar stöðugt á fleiri störf utan hefðbundins dagvinnutíma. Sprenging varð í vinnu skólafólks með námi en jafnframt hefur verið hröð breyting á fjölskyldumynstri. Í dag eru einungis 17% heimila á Íslandi með svokallaða kjarnafjölskyldu þar sem eru tveir fullorðnir einstaklingar í sambúð með börn. Því hefur verið nægt framboð af fólki með frjálsari tíma sem vildi vinna á kvöldin og um helgar þegar álag var greitt á laun og margvíslegt fyrirkomulag verktöku er í boði. Neikvæður fylgifiskar alþjóðavæðingarinnar eru meira atvinnuóöryggi og aukinn hraði í atvinnulífinu. Rætt er um að sjúkdómsfaraldrar þessarar aldar verði félagslegir og sálrænir sjúkdómar sem séu afsprengi þessa óöryggis og hraða. Því breyttust verkefni stéttarfélaga og þættir eins og virðing, bæði á vinnustað og fyrir einkalífi, urðu meira áberandi.

Verkalýðshreyfingin stóð einnig frammi fyrir því upp úr 1990 að Alþjóðavinnumálastofnunin gerði athugasemd við framkvæmd forgangsákvæði kjarasamninga, eða svokallaðri skylduaðild að stéttarfélögum.

Síðan þá hefur fallið dómur hjá Mannréttindadómstólnum um svipað fyrirkomulag hjá dönsku kaupfélögunum sem leggur bann við slíku fyrirkomulagi. Til að bregðast við óvissri stöðu skylduaðildar juku stéttarfélög þjónustu sína og ýmis hlunnindi til að tryggja áframhaldandi almenna aðild að stéttarfélögum s.s. með fjölgun orlofshúsa og að niðurgreiða orlofskosti. Það leiddi einnig til þess að það þótti ekki lengur tillhlíðilegt að forustumenn væru áberandi í stjórnmálavafstri þar sem pólitískar skoðanir forustumanna færu ekki endilega saman við skoðanir allra félagsmanna, ólíkt því sem áður var. Áberandi flokkapólitík hvarf því úr verkalýðshreyfingunni þegar aldarmótin nálguðust. Um allan hin vestræna heim hefur stéttarfélagþátttaka farið minnkandi og er komin niður í 15-30% af þeim sem eru á almennum vinnumarkaði. Þar er verkalýðshreyfingin að jafnaði tengd stjórnmálaflokkum.

Nefndar eru nokkrar ástæður fyrir þessari þróun. Til dæmis að verkalýðshreyfingin hafi þegar unnið sína stóru sigra og málefni skorti sem breið samstaða er um. Alþjóðavæðingin valdi því að stéttarbaráttutæki verkalýðshreyfingarinnar bíti ekki eins og áður sökum þess að vinna/framleiðsla flyst til annarra landa ef laun hækka meira en í öðrum löndum. Hér er stéttarfélagsþátttaka enn um 80%, stéttarfélagþátttaka á Norðurlöndunum hefur að jafnaði verið há en fer minnkandi og fylgir þróuninni í öðrum V-Evrópulöndum.

Víða hafa einnig komið fram ný lággjaldastéttarfélög sem standa utan heildarsamtaka og eru ótengd stjórnmálaflokkum sem bjóða takmarkaðri þjónustu gegn verulega lægra félagsgjaldi. Í dag er eitt stærsta stéttarfélag Danmerkur, Det faglige hus, slíkt félag. Við Íslendingar virðumst eiga heimsmetið í stéttarfélagsþátttöku, að minnsta kosti á almennum vinnumarkaði.

Nú skal sækja fram

Það er ljóst að orðið hafa tímamót hjá stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði og viðhorfum til kjarasamninga. Nýir forystumenn virðast horfa meira til viðhorfa sem voru ríkjandi fyrir gerð þjóðarsáttarsamninganna 1990 og eru um leið pólitískari. Stór hluti af kröfum snúa að stjórnvöldum en ekki atvinnurekendum. Krafist er myndarlegrar hækkunar skattleysismarka, aukins stuðnings stjórnvalda í húsnæðismálum, afnámi verðtryggingar og lækkun vaxta. Hótað er að beita verkfallsvopni ef Alþingi fari ekki að kröfum um breytingu á fjármálamakaði. Gagnvart atvinnurekendum er krafist verulegrar hækkun lágmarkslauna auk almennrar hækkunar.

Spurning er hvað veldur þessum viðhorfsbreytingum, því allt sem talið er hér að ofan sem forsenda þeirra sjónarmiða sem ríkt hafa í kjölfar þjóðarsáttarsamninga er í fullu gildi. Það má greina nokkra þætti sem hafa breyst og lesa má úr því sem kemur frá verkalýðshreyfingunni.

Í fyrsta lagi er ljóst að þúsundir heimila voru boðin upp eftir bankahrunið og enn fleiri lentu í fjárhagslegum þrengingum, sem hefur valdið reiði og vantrausti á stofnunum samfélagsins. Þá hafa ákvarðanir kjararáðs varðandi laun æðstu embættismanna ekki verið til að sefa reiði almennings. Loks hafa margir að búa við ótryggt leiguhúsnæði. Frá 2008 hefur þeim sem búa í leiguhúsnæði fjölgað út 22% í 30%.

Kröfugerðir stéttarfélaga sem hafa komið fram í haust um hækkun lágmarkslauna taka viðmið af hvað þurfi til að lifa í nútíma samfélagi. Út frá viðmiði um samkeppnishæfni starfa eða verðlags er mjög líklegt að kröfurnar séu það háar að erfiðlega muni ganga að klára kjarasamninga.

Út frá ummælum forustumanna stærstu stéttarfélaga og ASÍ er einnig ljóst að sótt verður fram af mikilli festu og að menn hafa þegar brennt brýrnar að baki sér.

Verulegar líkur eru að á endanum verði boðað til verkfalla. Ef verkföll verða langvinn þá munu margir félagsmenn stéttarfélaga sem ekki samsama sig við helstu kröfurnar, þeir sem eru á hærri launum og búa í eigin húsnæði spyrja sig hvort herkostnaðurinn sé of dýru verði keyptur. Verkföll eru að jafnaði mjög erfið félagslega. Í ljósi þess að það sem á sér stað úti í heimi virðist oft reka á fjörur okkar fyrr eða seinna, þá má fastlega búast við að þróunin hér á landi varðandi stéttarfélagsþátttöku verði í átt að því sem er annarstaðar í hinum vestræna heimi.

Það er spurning hvort risarnir í verkalýðshreyfingunni séu að kasta fjöreggi hreyfingarinnar full ógætilega á milli sín og að ef eitthvað fer úrskeiðis muni það skaða hreyfinguna alvarlega til framtíðar.

 

Höfundur er formaður Félags lykilmanna og fyrrverandi formaður VR.

 

Greinin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2018, í sérstökum greinaflokk um kjarasamninga og kjaramál. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.