„Í ágjöf skiptir máli að menn andi með nefinu“ – Viðtal við Sigríði Andersen

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. (Mynd: HAG)

Sigríður Á. Andersen hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra frá því í janúar 2017. Fyrst í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og nú í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins. Á þessum tæpum tveimur árum hefur ýmislegt á dagana drifið þar sem miklu hefur skipt að standa í lappirnar eins og fram kemur hér í viðtali við Þjóðmál, þar sem farið er yfir landsréttarmálið, jafnfréttismál, umhverfismál og margt fleira.

Aðspurð segir Sigríður að samstarfið í ríkisstjórn gangi vel. Flokkarnir þrír séu ábyrgir í samstarfinu og ákveðnir í að láta það ganga enda með skýran stjórnarsáttmála til grundvallar.

„Þetta er vinnusöm ríkisstjórn, hver ráðherra sinnir sínum verkefnum af heilum hug,“ segir Sigríður.

„Vissulega eiga sér stað málamiðlanir enda flokkarnir um margt ólíkir. Við vissum það í upphafi að enginn næði öllu sínu fram í þessu, líkt og jafnan er í ríkisstjórnarsamstarfi en kannski aðeins meira núna þegar það eru þrír flokkar í samstarfinu. En menn eru að reka þjóðfélag og umhugað um að láta það ganga. Við erum um leið með breiðan hóp þingmanna á þinginu. Allir hafa þar sínar skoðanir og hugmyndir og eru ófeimnir við að koma þeim á framfæri.“

Gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar halda því fram að hún sé verklaus og nokkurs konar „status quo“ ríkisstjórn, þ.e. að samstarfið gangi út á óbreytt ástand í sem flestum málum. Hvernig horfir það við þér?

„Mér hefur ekki fundist það,“ segir Sigríður.

„Nýsamþykkt fjárlög eru til dæmis til marks um áherslur ríkisstjórnarinnar um að styrkja grunnstoðir og velferð. Við erum vissulega að auka útgjöldin og það orkar yfirleitt tvímælis frá okkar bæjardyrum séð, þ.e. okkar sjálfstæðismanna. En við erum þó sammála um að láta þá þessu auknu útgjöld renna til tiltekinna málaflokka og reyna þá að draga úr útgjöldum á öðrum sviðum. Það eru hins vegar allir mjög faglegir í sínum verkum og taka á hlutum af stillingu og yfirvegun. Og það er nú það sem hefur vantað í stjórnmálin á liðnum árum.“

Sigríður var ein af stofnendum vefritsins andriki.is. Í 20 ár hélt vefurinn úti daglegum skrifum um stjórnmál þar sem frjálshyggja var meginstefið. Margir frjálshyggjumenn líta því hvað helst til Sigríðar sem helsta málsvara frjálshyggjunnar innan ríkisstjórnarinnar. Það verður því ekki hjá því komist að spyrja hana hvernig það gangi í samstarfi við flokk eins og Vinstri græna.

„Ég, eins og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, er auðvitað hugsi yfir þeirri miklu útgjaldaaukningu sem orðið hefur. Ég hef það að leiðarljósi hér í dómsmálaráðuneytinu, að farið sé vel farið með fé skattgreiðenda og reynt að stemma stigu við stjórnlausri stækkun undirstofnana ráðuneytisins,“ segir Sigríður en bætir við að þeir málaflokkar sem heyra undir dómsmálaráðuneytið séu flestir þess eðlis að það ríkir nokkuð þverpólitísk samstaða um að tryggja starfsemi þeirra. Undir ráðuneytið heyri flestar þær stofnanir sem myndu tilheyra lágmarksríki, ef svo má að orði komast.

„Ég tel að ríkið eigi að draga sig út úr verkefnum og þjónustu sem aðrir geta sinnt. Síðan er líka ákveðin þjónusta sem ríkið þarf að veita og þar eigum við að reyna að bæta þjónustuna eins og hægt er,“ segir Sigríður.

„Þar vegur rafræn stjórnsýsla mjög þungt og ég hef beitt mér í þeim tilgangi að auka hana. Það er hægt að bæta og einfalda þjónustuna töluvert með því að gera hana í auknari mæli rafræna. Eitt af því sem við höfum unnið að eru rafrænar þinglýsingar sem verða bylting fyrir hinn almenna borgara og ég hef lagt fram frumvarp þess efnis í þinginu. Stefnt er að því að þinglýsingarferlið verði nánast sjálfkrafa og biðin eftir þinglýsingu skjala færi þá úr nokkrum vikum niður í nokkur sekúndubrot. Úr því að við getum skilað skattskýrslunni með þessum einfalda hætti þá á allt annað að vera hægt í þessu. Við erum komin langt í þessum málum á ýmsum sviðum, t.d. með vefsíðunni island.is sem menn eru farnir að nota í auknum mæli. Við eigum að halda áfram á þessari braut. Ef við ætlum á annað borð að veita opinbera þjónustu þá þurfum við að gera það með eins hagkvæmum og einföldum hætti og hægt er.“

Landsréttarmálið hefði alltaf orðið umdeilt

Eins og áður sagði hafa ýmis álitaefni, bæði stór og smá, skotið upp kollinum í ráðherratíð Sigríðar. Skipun dómara við Landsrétt stendur þar mögulega hæst. Hún varð til þess að borin var upp vantrauststillaga á Sigríði á Alþingi, sem þó var felld. Það má halda því fram að með því að samþykkja ekki óbreyttan lista hæfisnefndar, sem innihélt 15 nöfn fyrir þau 15 embætti dómara sem skipa átti við Landsrétt, hafi Sigríður farið gegn ríkjandi öflum í dómskerfinu. Hún tekur ekki sjálf svo sterkt til orða þegar hún er spurð um þessa þætti en er þó meira en tilbúin til þess að fara yfir þetta mál.

„Vilji löggjafans um það hvernig skipa átti í fyrsta sinn alla dómara við Landsrétt var skýr. Löggjafinn hafði tekið sérstaka ákvörðun með breytingu á lögum um dómstóla um að Alþingi skyldi koma að skipuninni með þeim hætti að samþykkja eða hafna tillögum ráðherra um umsækjendur um dómaraembætti,“ segir Sigríður.

„Ég þurfti því að vera í góðu samstarfi við þingið varðandi þetta, þar sem lögin lögðu nú í fyrsta sinn skyldu á ráðherra að leggja tillögu að skipun dómara við Landsrétt fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar. Þegar ég fékk tillögu hæfnisnefndar til skoðunar ásamt vinnugögnum nefndarinnar og andmæli annarra umsækjenda gegn tillögunni fannst mér blasa við að niðurstaða nefndarinnar, um að telja 15 umsækjendur um 15 embætti það mikið hæfari en aðra umsækjendur að það verðskuldaði að telja þá hæfasta í þeim skilningi að aðrir kæmu hreinlega ekki til greina, blasti við mér óeðlileg niðurstaða og í hæsta máta ósanngjörn gagnvart þeim umsækjendum sem bjuggu yfir langri og farsælli dómarareynslu. Það lá svo fyrir um leið og listi dómnefndarinnar var gerður opinber að hann yrði ekki samþykktur á Alþingi. Þetta fékk ég staðfest hjá formönnum flokka bæði í stjórn og stjórnarandstöðu á þeim tíma og nefndu menn þar helst kynjasjónarmiðin sem ástæðu. Um þetta hefur nú verið borið fyrir dómi. Ég rannsakaði málið á grundvelli sömu gagna og nefndin hafði til verksins sem og niðurstöðu hennar ásamt vel rökstuddum andmælum sumra umsækjenda. Ég lagði áherslu á dómarareynslu umsækjenda en nefndin hafði við sína vinnu í raun sleppt því að meta suma þætti dómarareynslunnar sem þó er kveðið á um í reglum að skuli gert.“

Við það bættust níu dómarar í hóp þeirra 15 umsækjenda sem nefndin hafði metið hæfasta. En við heildsætt mat tók Sigríður einnig mið af lögum um jafna stöðu karla og kvenna eins og henni bar að gera við þessar aðstæður eftir að búið var að afmarka þá sem töldust jafnhæfir til starfans. Að lokinni ítarlegri rannsókn gerði hún tillögu til Alþingis sem var samþykkt þar.

„Ég nefndi þetta með dómarareynsluna við nefndina en þá var mér gert ljóst að hún hefði ekki í hyggju að kvika frá sinni niðurstöðu um að akkúrat fimmtán teldust hæfastir af þeim sem höfðu sótt um, margir með reynslu sem kom á óvart að í raun litið var framhjá,“ segir Sigríður.

„Það eina sem ég gerði eftir mína ítarlegu skoðun á málinu var að fjölga í hópi jafnhæfra með því að líta til dómarareynslu og skipti svo út fjórum einstaklingum eins og menn þekkja, að loknu heildarmati. Þeir fjórir sem ég gerði tillögu um höfðu allir meiri dómarareynslu en þeir sem fóru út. Ég lagði þær tillögur mínar fyrir þingið og það ríkti mikil ánægja með þær í næstum sólarhring enda stefndi í að í fyrsta sinn væri jafn mikilvæg stofnun og dómstóll sett á laggirnar hér á landi með jöfnu hlutfalli kynja í viðeigandi embættum. En svo fóru þingmenn að fá símtölin þar sem í þá var togað og málið fór í hefðbundnar skotgrafir stjórnmálanna. Það var þó ekki þannig, eins og kom líka fram í þingsal við meðferð málsins, að þingmenn væru tilbúnir til að snúa aftur til upprunalegs lista dómnefndarinnar og samþykkja hann. Bara alls ekki.“

Sigríður segir að einnig hafi komið fram sjónarmið, á meðan á þessu stóð í þinginu, að hún ætti að fara fram á lagabreytingu til að fá meiri tíma til þess að vinna málið. „Það kom aldrei til greina af minni hálfu því ráðherra á að starfa eftir þeim lögum sem gilda þegar ákvörðun er tekin. Það hefði enda aldrei orðið friður um það á endanum að breyta reglunum í miðjum klíðum. Þetta var verkefni sem þurfti einfaldlega að klára,“ segir Sigríður.

„Ég hefði auðvitað getað lagt upphaflega lista dómnefndarinnar fyrir þingið og látið fella hann. Hvað hefði umsækjendum þótt um að vera felldir í atkvæðagreiðslu í þinginu? Þá hefði ég líka átt hættu á því að fá á mig skaðabótakröfur frá þeim umsækjendum sem höfðu skilað inn andmælum, mörgum hverjum vel rökstuddum og málefnalegum, við niðurstöðu dómnefndarinnar. Þannig að það er alveg sama hvað ég hefði gert, þetta hefði alltaf orðið mikið og umdeilt mál.“

Viljum ekki embættismannaræði

Þrátt fyrir það sem á undan er gengið, þá hefur grundvallarspurningunni ekki verið svarað. Hún er í raun, hver á að velja og skipa dómara við dómstóla landsins. Er það ekki enn óskýrt?

„Það er alveg ljóst að í þeim dómum sem hafa fallið og tengjast þessum málum, að dómstólarnir ætla sér ekkert að gera með skýrt lagaákvæði sem segir að Alþingi eigi að hafa aðkomu að málinu. Það er þó alveg skýrt að Alþingi átti lokaorðið í þessu,“ segir Sigríður.

„Lögin eru skýr um þetta. Ráðherra hefur skipunavaldið og Alþingi hefur aðkomu að skipuninni ef ráðherrann bregður út frá tillögum dómnefndar um hæfi umsækjenda um embætti dómara. Í tilfelli skipunar í Landsrétt var löggjafinn skýr með það að Alþingi ætti alltaf að koma að skipuninni með þeim hætti að samþykkja eða hafna tillögum ráðherrans, óháð því hvort þær væru þær sömu og hjá dómnefndinni eða ekki. Það er hins vegar alveg ljóst að í þeim dómum sem hafa fallið og tengjast skipun dómara að dómstólarnir meta léttvægt skýrt lagaákvæði sem kveður á um þessa aðkomu Alþingis að skipuninni. Við skipun í Landsrétt var alveg skýrt í lögum að Alþingi hefði lokaorðið.“

Sigríður segir að Alþingi ætti að láta sig varða þessa dóma því það sé alvarlegt löggjafinn geti ekki treyst því að lög sem sett eru til þess að tempra vald hinna tveggja greina ríkisvaldsins, eins og þessu tilviki, standist fyrir dómstólum.

„Það að dómstólar geti vikið einni greininni til hliðar líkt og gert hefur verið í dómum hvað þetta varðar undanfarið, gengur ekki upp. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé óhugsandi niðurstaða að andlitslausar og ábyrgðalausar stjórnsýslunefndir hafi skipunarvaldið í eina grein ríkisvaldsins. Við viljum búa við lýðræði en ekki embættismannaræði hér á landi,“ segir Sigríður.

Það eru samt einhverjir sem líta á það þannig, ekki satt?

„Ég hef ekki heyrt marga halda því fram en það má skilja dómana þannig að þannig eigi það að vera í raun, þ.e. að þingið hafi ekkert um þetta að segja. Svo sé alltaf hægt að gagnrýna ráðherra með tilvísun í matskennda reglu stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu þegar það liggur fyrir að frestur ráðherra til að rannsaka málið er það stuttur að í samræmi við eðlilega lögskýringahefð verði menn að túlka stærðargráðu rannsóknar í ljósi þess knappa tíma sem lögin skammta ráðherra,“ segir Sigríður.

„Ég ítreka þó það sem ég sagði áður, að það er óhugsandi niðurstaða að þetta vald verði eftirlátið stjórnsýslunefndum. Í gegnum tíðina hefur oft komið upp sú umræða við skipanir dómara að ráðherra hafi þar einhver annarleg sjónarið að baki og í raun stjórnmálamenn allir ef því er að skipta. Eins og það sé enginn að vinna af heilindum sem er í stjórnmálum. Á sama tíma vita menn varla hverjir sitja í þessum stjórnsýslunefndum á hverjum tíma, hvaða hagsmuni þeir hafa eða tengsl sem gætu haft áhrif á störf þeirra. Í grunninn er þessi umræða þó mjög gamaldags og í raun úrelt. Flestir stjórnmálamenn leitast við að vera vandaðir í störfum sínum og það hefur enginn ráðherra af því einhvern hag að vinna ófaglega að málum, t.d. við skipun dómara. Hagmunir mínir í þessum málum fara saman við hagsmuni þjóðarinnar, þ.e. að í embætti dómara séu skipaðir einstaklingar sem eru hæfir og vandaðir í sínum verkum.“

Jafnréttisbaráttan er ekki stemningsmál

Þá að öðru. Það vakti athygli þegar Sigríður gerði launamun kynjanna að umtalsefni á fésbókarsíðu sinni á Kvennafrídaginn í október sl. Þar fjallaði hún um tölfræði Hagstofunnar um það mál eftir að hún varð þess áskynja að aðstandendur kvennafri.is höfðu dregið rangar ályktanir af þeim upplýsingum. Aðstandendur dagsins slógu því föstu að launamunur kynjanna markaðist af mun á meðalatvinnutekjum kvenna samanborið við tekjur karla þar sem ekki er tekið tillit til vinnu manna, vinnutíma, menntunar, reynslu, mannaforráða og annarra mælanlegra þátta og næmi því 26%. Sigríður benti á að þegar leiðrétt væri fyrir þessum mælanlegum þáttum væri launamunur kynjanna aðeins um 5% eins og fram kom í skýrslu Hagstofunnar. Þá væru ungar konur með hærri laun en ungir karlar í dag.

Þessi skrif Sigríðar ollu miklu fjaðrafoki á meðal aðstandenda kvennafri.is og annarra sem töldu að með þessu væri verið að vega að jafnréttisbaráttu kvenna. Þeir voru einnig margir, þar á meðal þingmenn, sem töldu að skrif Sigríðar um tölfræðigreiningu Hagstofunnar um launamun kynjanna væru óviðeigandi á sjálfum kvennafrídeginum.

„Ef það er einhver dagur þar sem þetta ætti að vera rætt opinskátt þá er það einmitt á þessum degi og konan sem ég er ætlar nú bara að leyfa sér að taka til máls sérstaklega á þessum degi. Menn hljóta að vilja fá fram það sem er tæknilega rétt inn í þessa mikilvægu umræðu,“ segir Sigríður.

„Ég hafði lítið kynnt mér dagskrá eða skipulag kvennafrídagsins fyrr en ég fékk senda ábendingu um þessa skýrslu Hagstofunnar sem ég vitnaði svo til í skrifum mínum. Þegar ég skoðaði vef kvennafrídagsins sá ég að þar voru dregnar allt aðrar ályktanir en lesa mátti úr skýrslu Hagstofunnar. Mér fannst aðstandendur kvennafri.is draga rangar ályktanir, til að skekkja umræðuna. Mér fannst þessi framsetning óboðleg. Ég á tvær dætur og mér finnst það ekki vera rétt skilaboð til ungra kvenna að sitja hjá og láta svona málflutning átölulausan. Ef maður spyr 10-12 ára gömul börn að því hvort að karlar og konur séu með sömu laun fyrir sömu vinnu, þá svara þau umsvifalaust neitandi enda hefur þeim verið kennt jafnvel í skólum að munurinn sé sláandi. Það kann að vera að einhverjum finnst þetta góð leið til að efla baráttuanda ungmenna en ég tel meiri hættu á að börn taki þessum skilaboðum sem náttúrulögmáli. Það er óþolandi að senda krakka út í lífið haldandi að þetta sé svona, að kjafta laun kvenna niður með þessum hætti.“

Sigríður segir að þessi skrif hennar hafi ekki þurft að koma neinum á óvart en hún hafi haldið þessari skoðun og staðreyndum á lofti í fjölda ára.

„Ég fékk gagnrýni á mig fyrir að ræða þetta á þessum degi, þrátt fyrir að vera nú einmitt kona. Ég spyr hvort það sé þannig að bara sumar konur megi tjá sig um þessi mál á þessum degi, degi þar sem er fagnað m.a. áratugalangri baráttu kvenna fyrir því að rödd þeirra heyrist á öllum sviðum samfélagsins og að á þær sé hlustað,“ segir Sigríður.

„Einhverjum fannst kannski rangt af mér að draga svona úr stemningunni sem hafði verið byggð upp af aðstandendunum, en svona mál mega ekki vera bara einhver stemningsmál. Þessi barátta skiptir miklu máli hér á landi og enn meira máli í löndum sem eru ekki komin jafnt langt og við í jafnréttismálum. Þannig að ég ætla að leyfa mér að taka áfram þátt í þessari umræðu þegar mér hentar. Ef það þá hefur eitthvað upp á sig, því svo getur verið að það hafi ekkert upp á sig. það eru margir sem hafa gefist upp á því að taka þátt í þessari umræðu. Virtir tölfræðingar jafnvel verið færðir í kaf.“

En á það ekki við um svo margt í stjórnmálum eða þjóðfélagsumræðunni, það eru búnar til mýtur til að skapa ákveðna stemningu fyrir ákveðnum málum?

„Það eru auðvitað margir sem hafa hagsmuni af því að viðhalda áhyggjum fólks af ákveðnu misrétti. Það eru einnig margir sem starfa við það að leiðrétta misrétti og það hentar þeim auðvitað ekki ef það tekst að útrýma því og þeir verði óþarfir,“ segir Sigríður.

„Mér finnst þetta mikilvægt, því nú hafa verð sett lög um jafnlaunavottun. En það má á sama tíma spyrja sig, hvað á að votta? Það á að votta að það sé ekki munur á milli kynjanna, en þá þarf fyrst að finna út hvort það sé einhver munur. Það verður fróðlegt að sjá hvort að launamunurinn verði enginn þegar við fáum fram jafnlaunavottanir. Það gengur hins vegar ekki að menn noti sömu aðferðarfræði og var viðhöfð á Kvennafrídeginum. Menn verða að gera kröfu um faglegri framsetningu. Það er vissulega munur á launum kynjanna, en ég hef ítrekað bent á að það stafar ekki af skipulögðu misrétti, aðför eða samsæri gegn konum, heldur út af öðrum mælanlegum og ómælanlegum þáttum. Það eru aðrir samfélagslegir þættir sem hafa áhrif og við eigum að verja tíma okkar í ræða þá til að komast að rót vandans. Af hverju fara konur fyrr heim úr vinnu, af hverju eru þær að oftar að sækja börnin í skólann, af hverju eru þær frekar heima þegar börnin eru veik? Það þarf hver kona að eiga þetta við sjálfa sig. En þetta var mjög merkilegt, því þær sem stóðu að þessum kvennafrídegi vissu upp á sig sökina, þær vissu að það væri verið að draga rangar ályktanir og setja tölurnar fram með röngum hætti og viðurkennda það í kjölfarið á þessari umræðu – en sögðu um leið að þær ætluðu ekkert að gera í því. Þá veit ég ekki alveg hvernig við eigum að ræða þessi mál.“

Umhverfissinnar í afneitun

Talandi um meðferð á tölulegum upplýsingum. Þú dróst fram þær upplýsingar fyrir nokkrum árum að ekki væri allt sem sýndist varðandi losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum hér á landi. Um hvað fjallaði það mál?

„Þannig var að Össur Skarphéðinsson hafði árið 2014 spurt umhverfisráðherra um losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi og fengið skýr svör um hver losunin væri. Þegar ég rak augun í þetta svar sá ég að losunin frá framræsta landinu var að minnsta kosti tvöfalt meiri en losunin sem gefin var upp sem losun Íslands samkvæmt loftslagsbókhaldi í tengslum við Kyoto bókunina,“ segir Sigríður.

„Ég lagði því fram fyrirspurn til umhverfisráðherra árið 2015 um hver raunveruleg losun væri frá öllum þáttum en þá bar svo við að losunin frá framræsta landinu var ekki talin með í svarinu. Ég lagði þá fram tvær fyrirspurnir til viðbótar og fékk á endanum það svar að losunin frá framræsta landinu væri 72% en frá fólksbílum 4% en nær allar aðgerðir gegn losun höfðu fram til þess snúið að fólksbílum sem er auðvitað undarlegt þegar lítill hlutur þeirra er skoðaður. Það var áhugavert að fylgjast með viðbrögðunum við þessu því sumir svonefndir umhverfissinnar fóru í hálfgerða afneitun og neituðu að trúa mati íslenskra vísindamanna og vísindanefndar loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna um þessi efni. Þeir hafa hins vegar snúið við blaðinu á undanförnum árum og eru jafnvel komnir með ágæt verkefni um endurheimt votlendis af stað.“

Sigríður segir að ástæðan fyrir því að þessi losun frá framræsta landinu sé ekki talin með í svokölluðu loftslagsbókhaldi Íslands er að framræslan fór að mestu leyti fram fyrir árið 1990 sem er viðmiðunarár Kyoto. Losunin heldur engu að síður áfram frá framræsta landinu.

„Við erum því annars vegar með raunverulega losun og hins vegar bókhaldslosun og á þeim er mikill munur í okkar tilfelli sem er mjög bagalegt,“ segir Sigríður.

„Endurheimt votlendis er heldur ekki bara loftslagsmál heldur eykur votlendi á náttúrugæði á svo margan hátt. Votlendi er stuðpúði fyrir vatnsbúskap í ám og vötnum og þar með mikilvægt lífríki fiska. Votlendi er sömuleiðis griðarstaður fuglalífs og fjölbreyttrar flóru.“

Höft og helsi er dæmt til að mistakast

Það verður ekki hjá því komist að spyrja dómsmálaráðherra út í þau mál sem snúa að réttarkerfinu vegna hinna svokölluðu hrunmála en um leið því mikla eftirlitskerfi sem hefur verið komið á fót hér á landi síðastliðinn áratug. Enn er verið að rannsaka og rétta í hrunmálum, eftirlitsstofnanir halda áfram að vaxa og hið svokallaða Samherjamál er nýjasta dæmið um valdníðslu opinberra aðila. Það virðist sem stjórnmálamenn geri lítið, enn sem komið er, til að koma böndum á eftirlitsstofnanir sem hegða sér með þeim hætti sem Seðlabankinn gerði í umræddu tilviki. Rétt er að halda því til haga að Seðlabankinn heyrir ekki undir dómsmálaráðherra, en sem fyrr segir er rétt að varpa þeirri spurningu fram hvað ráðherranum finnst um þessi mál heilt á litið.

„Nú liggur fyrir dómur í því máli sem þú nefnir og í sjálfu sér hef ég engu við hann að bæta. Í víðara samhengi kann málið að vera spegilmynd þess vanda sem menn stóðu frammi fyrir á árunum eftir hrun, efnislega og formlega. Menn töldu nauðsynlegt að grípa til tímabundinna gjaldeyrishafta sem því miður urðu alltof langvinn og fór þá formið að þvælast fyrir mönnum,“ segir Sigríður.

„Höft og helsi hverskonar er dæmt til að mistakast á einn eða annan hátt. Ef það nær að þjóna tilgangi sínum frá sjónarhorni ríkisins, sem er alls ekki sjálfgefið, þá er alltaf veruleg hætta á að gengið sé á grundvallarrétt borgaranna við beitingu reglnanna.“

Að mati Sigríðar eru árin eftir hrun ekki síður lærdómsrík en árin fyrir hrun.

„Í ágjöf skiptir máli að menn andi með nefinu, standi vörð um ákveðinn stöðugleika og réttarríkið. Bankarnir hrundu jú en aðrar helstu grunnstoðir okkar samfélags stóðu storminn ágætlega af sér í heildina á litið,“ segir Sigríður.

„Mönnum er auðvitað vandi á höndum þegar verða áföll eins og bankahrunið sem eru úr takti við öll hlutföll í þjóðfélaginu. Og gagnrýni á það sem var gert verður alltaf því marki brennd að menn hafa ekki samanburð við þær leiðir sem ekki voru farnar. Það var ekki óvænt að menn myndu láta reyna á alls konar gjörninga fyrir dómi en með tímanum þegar litið er til baka er ég ekki viss um að hægt sé að fullyrða að innstæða hafi verið fyrir öllum þessum málarekstri. Margir hafa átt um sárt að binda vegna þessara mála og ég vona innilega að þeir láti þau ekki byrgja sér sýn þegar horft er fram á veginn.“

Sigríður tekur undir þá skoðun að eftirlitsþjóðfélagið sé sífellt að vaxa og hefur efasemdir um ágæti þess.

„Við megum heldur ekki gleyma því að reglur um fjármálamarkað voru bæði miklar og flóknar fyrir árið 2008. Það var mikið eftirlit með fjármálastarfsemi, hér sem annars staðar á Vesturlöndum og löggjafinn hafði sett alveg gríðarlega margar reglur um fjármálafyrirtæki. Það eru fá ef nokkur dæmi í sögunni um starfsemi sem laut fleiri reglum,“ segir Sigríður. „En allt kom fyrir ekki þannig að menn þurfa stundum líka að horfast í augu við það að stundum eru áföll óhjákvæmileg og það er ekki hægt að koma í veg fyrir þau öll með reglum og eftirliti. Það má heldur ekki skapa falskar væntingar manna til þess að með eftirlitinu þurfi menn ekki að hafa vit fyrir sjálfum sér. Þetta er alltaf mikið álitaefni og við lagasetningu þarf löggjafinn að huga vel að þessu, þ.e. þegar það er verið að afhenda eftirlitsstofnunum sektarheimildir og önnur verkfæri til að beita viðurlögum. Þetta er þunn lína, hvenær farið er yfir það sem eðlilegt má teljast í ljósi þeirra réttarfarsreglna sem hér ríkja.“

Hef gaman af rökræðum

Af öllu framangreindu má sjá að Sigríður er óhrædd við að fara gegn straumnum. Þá liggur beint við að spyrja Sigríði hvort hún sé almennt óhræddur stjórnmálamaður, óhrædd við að taka umdeilda slagi eða erfiða umræðu?

„Það er miklu auðveldara í bráð og lengd að tala hreint út en að bögglast með málin. Mér þykir það mikill kostur, fyrir bæði mig og aðra, að menn viti hvar ég stend. Það þýðir ekkert að fara hræddur í gegnum lífið, og hvað þá í stjórnmálum þar sem oft þarf að gera fleira en gott þykir,“ segir hún og brosir.

„Ég skil þó vel að fólk hafi skoðanir á mínum störfum en ég finn það líka að fólk kann að meta að sumir hlutir séu sagðir hreint út og að fólk þarf ekki að velkjast í vafa um það hvaða skoðanir maður hefur. Ég held að það skipti máli fyrir stjórnmálamann, því það eru jú skoðanir hans sem skipta fólkið í landinu máli. En þótt ég veigri mér ekki við að ræða ýmis mál þá auðvitað getur maður ekki tekið alla slagi, því tíminn er takmarkaður og maður þarf að velja þau mál sem maður vill taka fyrir. En ég hef gaman af rökræðum og er iðulega tilbúin til þess að taka þátt í þeim.“

En hreyfir gagnrýni ekki við þér?

„Hún getur alveg gert það ef hún er réttlát. Ég hef alveg skipt um skoðun og málefnaleg gagnrýni er auðvitað bara jákvæð,“ segir Sigríður.

„En ómálefnaleg gagnrýni hreyfir ekki við mér og ég veiti henni sjaldnast athygli. Ég tel að gagnrýni sem rekin er af annarlegum hvötum styrki undantekningarlítið þann stjórnmálamann sem fyrir henni verður. Stóryrði og skítkast lýsa uppgjöf og ósigri þeirra sem slíkt stunda. Mér þykir miður þegar ég veit að menn eru ekki heilir í sinni gagnrýni þótt ég taki það ekki nærri mér. Ég hef aftur á móti fundið til með fólki sem hallar vísvitandi réttu máli, því ég veit að það er þá eitthvað annað þar að baki. Það má nefna sem dæmi að í sumum af þessum málum sem ég hef fengist við í minni ráðherratíð hefur fólk lýst því yfir á torgum að það hafi engin svör fengið hjá mér og ráðuneytinu við sínum málum, þrátt fyrir að ég hafi setið fundi með þeim og embættismönnum til þess eins að veita greinagóð svör og upplýsingar eins og lög leyfa.“

Sigríður bætir við að fjölmiðlaumfjöllunin sé þó yfirleitt nokkuð fyrirsjáanleg.

„Sumir fjölmiðlar kjósa að hamast í tilteknum málum á meðan aðrir flytja fréttir af málum,“ segir Sigríður.

„Ég hef hins vegar reynt að svara alltaf öllum spurningum sem vakna hvort sem það er hjá blaðamönnum, þingnefndum eða öðrum, það er það eina sem maður getur gert. Ég mæti alls staðar þar sem eftir því er óskað til þess að ræða hlutina og hef farið fram á að sem mest af því sé í beinni útsendingu til að fólk geti sjálft dregið sínar ályktanir en þurfi ekki að treysta á klippivald fjölmiðlanna. Ég held að maður geti ekki gert neitt meira. Maður þarf að vera tilbúin til þess að standa fyrir máli sínu og um leið að hlusta á aðra.“

Hvernig metur þú framtíð þína í pólitík?

„Ég nýt þeirra verkefna sem ég sinni hér og heyra undir dómsmálaráðuneytið. Ég hef líka mjög gaman af því að vera í þinginu og naut þess að vera óbreyttur þingmaður í þann stutta tíma sem það var. Á meðan það er kallað eftir kröftum mínum þá er ég tilbúin að sinna þessum verkefnum,“ segir Sigríður að lokum.

Viðtalið við Sigríði Á. Andersen birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda póst á askrift@thjodmal.is eða senda okkur skilaboð á facebook síðu blaðsins. Blaðið fæst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.