Ærumissir í boði opinbers valds

Jónas frá Hriflu. Myndin er tekin þegar Jónas er tæplega fimmtugur og hefur látið af störfum sem dóms- og kirkjumálaráðherra

Það er ágæt lexía fyrir þá sem telja stjórnmál dagsins í dag óvægin og hatrömm að lesa bók Davíðs Loga Sigurðssonar, Ærumissi. Bókin fjallar öðrum þræði um eitt átakamesta tímabil íslenskra stjórnmála, stjórnartíð Jónasar Jónssonar frá Hriflu sem dómsmálaráðherra 1927-1932. Tímabil þar sem ofríkur stjórnmálamaður beitti ríkisvaldinu til hins ýtrasta til að ná sér niður á andstæðingum sínum og til að umbylta íslensku þjóðfélagi.

Ærumissir
Höfundur: Davíð Logi Sigurðsson
Útgefandi: Sögur
Reykjavík, 2018
232 bls.

Sagan rekur þrautagöngu Einars M. Jónassonar, sýslumanns Barðstrendinga, frá því að Jónas frá Hriflu verður dómsmálaráðherra og lætur það verða eitt sitt fyrsta verk að setja Einar af. Inn í söguna blandast ungir lögfræðingar sem síðar verða áhrifamenn í íslensku samfélagi, einn verðandi þingmaður og tveir verðandi forsætisráðherrar, skjólstæðingar Jónasar, þeir Bergur Jónsson, Hermann Jónasson og Stefán Jóhann Stefánsson.

Það er ljóst að ýmislegt mátti betur fara í rekstri Einars á embættinu. Einar var sýslumaður af gamla skólanum á þriðja áratug síðustu aldar. Þá var margt venja sem okkur á 21. öldinni er algerlega framandi. Hann gerði ekki skýran greinarmun á eigin fjármálum og embættisins og eins og margir aðrir sýslumenn þess og fyrri tíma leit hann á ýmsar sporslur sem launabætur frekar en eitthvað sem skila bæri í ríkissjóð. Hann var Jónasi því auðveld bráð.

En Jónasi nægði ekki að setja Einar af heldur var gengið mjög hart að honum og teknar af honum allar eignir. Einar var stoltur maður og þess handviss að hann gæti fengið embættið aftur, að réttlætið myndi sigra og tók því ákvarðanir sem augljóslega gengu gegn hagsmunum hans. Þannig gróf hann eigin gröf og varð að hluta útskúfaður úr samfélagi heldri manna í Reykjavík á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar.

Um leið og sagan rekur vandræði sýslumannsins fyrrverandi þá er saga Jónasar frá Hriflu rakin. Jónas var einn áhugaverðasti stjórnmálamaður fyrri hluta síðustu aldar. Hann var einn stofnenda fyrsta stjórnmálaflokks vinstri manna á Íslandi, Alþýðuflokksins, snemma árs 1916 og svo lykilmaður í stofnun Framsóknarflokksins í desember sama ár, aðeins nokkrum mánuðum seinna.

Hann var gríðarlega duglegur og hugmyndaríkur en um leið var hann ósvífinn og ófyrirleitinn stjórnmálamaður sem sveifst einskis í sókn sinni til valda. Það var og er lítill munur á stjórnlyndi þá og nú eins og sást best þegar Kristján X. Danakonungur hitti Jónas á alþingishátíðinni 1930 og sagði við hann: „Spiller De stadigvæk den lille Mussolini?“. Konungurinn sá í þeim skýrslum sem hann fékk frá Íslandi að á þeim sem lék aðalhlutverkið í stjórnmálum hér og var frumkvöðull vinstri flokkanna á Íslandi, var stigs eða stærðar en ekki eðlismunur í samanburði við fasistana í Suður-Evrópu.

Heift og ákefð og jafnvel innræti Jónasar á þessum tíma sést best á því að hann lét sér ekki nægja að setja Einar af og gera hann eignalausan heldur sætti Jónas allra færa til að niðurlægja Einar, út yfir gröf og dauða. Þegar Jónas er síðar orðinn valdalaus og sér að hann nær ekki völdum aftur, bráir af honum og hann verður hatrammur andstæðingur helstefnu kommúnista og beitir sér af afli gegn þeim þótt það hafi í engri líkingu verið við ráðherraár Jónasar.

Davíð skrifar söguna lipurlega og fléttar inn í hana sögulegum þáttum og innsæi sem fyllir myndina og glæðir persónur og leikendur lífi. Sagan rekur þannig mikilvæga atburði í stjórnmálasögu undir lok þriðja og á fjórða áratugnum og fléttar þá inn í söguna. Bók Davíðs verður þannig skemmtileg skemmri skírn lykilatburða stjórnmála þess tímabils. Þannig fá þeir sem minna hafa lesið um þennan tíma góða innsýn í orðfæri og átök tímans.

Það sem stendur upp úr sögunni er hve hættulegt það er þegar ósvífið fólk fær mikil völd þar sem lítið aðhald er. Sagan er harmleikur breysks manns sem á bæði við ofurefli að etja og sjálfan sig. Allar ákvarðanir Einars hitta hann sjálfan fyrir og hann virðist ófær um að taka rétta ákvörðun stoltsins vegna. Þess vegna er þessi bók prýðisgóð saga, innsýn í Ísland 20. aldarinnar. Innsýn í einsleitt og einhæft þjóðfélag sem er horfið og við flest söknum ekki mikið.

Höfundur er framkvæmdastjóri.

Bókarýnin birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.