Móteitur við neikvæðni og bölmóði

Hvernig stendur á því að bölsýni selst vel og mun betur en bjartsýni? Þetta blasir við því fjölmiðlar telja sig bersýnilega selja fleiri áskriftir ef neikvæðninni er gert hátt undir höfði. Þetta á einnig við um fyrri tíma. Trúarbrögðin hafa alltaf sagt að siðferðislegt gjaldþrot blasi við og jafnvel heimsendir nema ráðum þeirra sé fylgt.

The Creative Society: How the Future Can Be Won
Höfundur: Lars Tvede
Útgefandi: Lid Publishing, 2015
548 bls.

Yfirvöld hafa alla tíð reynt að fylkja fólki á bak við sig með hræðsluáróðri og yfirlýsingum (oft réttmætum) um yfirvofandi innrás eða ógn frá útlendum fjendum. Í dag er okkur sagt að loftslag jarðar sé á óvenjulegri vegferð vegna losunar mannanna á gróðurhúsalofttegundum og að við því þurfi að bregðast með ýmsum mjög sársaukafullum og dýrum aðgerðum.

Bölsýnin umlykur okkur frá morgni til kvölds, í fréttum, í skólastofunum, í kirkjunum og jafnvel við kvöldverðarboðið eða kaffivélina í vinnunni.

Er ásókn í neikvæðni eitthvað eðlislægt við manninn? Kannski steinaldarmaðurinn, sem hafði góða ástæðu til að óttast náttúruna sem hann hvorki skildi né réði við, hafi réttilega þurft að innræta ótta í ættbálk sinn til að lifa af. Kannski frumstæði bóndinn hafi neyðst til að ávinna sér hæfilegan ótta við innrásir, þurrka, flóð, frostavetur og sjúkdóma til að vera vakandi og halda heimilisfólki sínu við vinnu. Kannski er óttinn okkur nauðsynlegur til að lifa af.

Eða er óttinn eða bölsýnin móteitur við öðrum kenndum? Öfund er hvimleið tilfinning sem margir búa við. Líður okkur betur við að vita af öðrum sem líður verr úti í hinum hverfula heimi? Verðum við bjartsýnni á að innbyrða neikvæðni því leiðin eftir það liggur upp á við? Vantreystum við kannski okkur sjálf að því marki að hræðsluáróður er meðtekinn sem eins konar nauðsynlegt agatæki sem heldur okkur á mottunni og kemur í veg fyrir að öll lífsgæðin og velmegunin stígi okkur til höfuðs?

Ónefnt er svo fréttagildið þótt margt sem áður hefur verið nefnt spili eflaust þátt í því. Það virðist vera auðveldara að skilja frétt um hungursneyð sem dregur tugi þúsunda manna til dauða á nokkrum vikum en frétt sem segir að á hverjum degi rísi álíka fjöldi í Indlandi úr örbirgð. Kannski er léttara að skilja frétt um flugslys, sem fylgt er eftir með áhrifamiklu myndefni, en að skilja tölfræði sem segir að flugferðir eru tölfræðilega miklu öruggari ferðamáti en bílferð nokkurn tímann. Upptökur af hagléli í Egyptalandi eða horuðum ísbirni á bráðnandi hafís við Norðurskautið fá okkur til að trúa á meiriháttar veðurfars- og loftslagsbreytingar ólíkar nokkru því sem mannkynið og jafnvel plánetan hefur nokkurn tímann séð áður þótt tölfræðin líti miklu sakleysislegrar út.

Í slíku andrúmslofti bölsýni og neikvæðni hrærast samt ekki allir, sem betur fer. Vonandi muna flestir eftir bók Matt Ridley frá árinu 2011, The Rational Optimist: How Prosperity Evolves, sem var þýdd á íslensku undir heitinu Heimur batnandi fer. Í sömu andrá er einnig rétt að minnast á bók Svíans Johan Norberg frá árinu 2017, Progress: Ten Reasons to Look Forward to the Future, sem einnig var þýdd á íslensku og fékk þá heitið Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi. Þegar bjartsýni fær rými í bókahillum verslana ættu allir að taka eftir. Bók Lars Tvede um hið skapandi samfélag og framtíð Vesturlanda er gott tækifæri til slíkrar eftirtektar.

En hvað getur Lars Tvede, fjárfestir og frumkvöðull, með lögheimili í Sviss og eiginkonu í Danmörku, kennt okkur?

Saga Vesturlanda er saga framfara og velmegunar

Hvernig stóð á því að það voru Vesturlönd en ekki menningarheimar Austurlanda, Suður- og Mið-Ameríku eða Afríku sem tókst að sigra heiminn? Þá er ekki endilega verið að meina hernaðarlega sigra þar sem andstæðingurinn er settur í hlekki ánauðar, heldur þá vísindalegu og menningarlegu – sigra í auðsköpun, velmegun, tækni og borgaralegum réttindum. Evrópa er frekar ómerkileg heimsálfa þegar landafræðin er skoðuð: Lítið er um verðmæt hráefni í jörðu, veðurfar er frekar óstöðugt, tiltölulega fáar tegundir dýra og plantna þrífast í álfunni og hún er langt úr siglingaleiðum á milli stóru heimsálfanna.

Hvernig stendur á því að við eigum að vera bjartsýn en ekki svartsýn, þá bæði almennt á framtíð mannkyns en sér í lagi á framtíð Vesturlanda (að uppfylltum nokkrum forsendum)? Eru Kínverjar ekki að hertaka alla tækniþróun og framleiðslu? Er mengun ekki að draga okkur til dauða og loftslagið inn í hamfaratímabil? Er ekki búið að finna upp allt sem skiptir máli? Má ekki einblína á að þenja út velferðarkerfið í stað þess að eltast við fleiri auðæfi?

Allt eru þetta stórar spurningar og yfirleitt er þeim svarað með bölmóði, svartsýni og í tón samviskubits og iðrunar. Lars Tvede syndir á móti straumnum. Í bók hans um hið skapandi samfélag og framtíð Vesturlanda boðar hann bjartsýni og framsýni og styður við með fjölmörgum sögum um uppgang Vesturlanda, opnun heimsverslunar og dæmi um vaxandi velmegun á heimsvísu þótt auðvitað séu skuggahliðar á þessu eins og öllu sem vex upp á við.

Lars Tvede byrjar á byrjuninni. Hvernig stóð á því að það var á Vesturlöndum á miðöldum að mönnum tókst að brjótast úr eilífri hringrás uppgangs og niðursveiflu – úr dauðahringekju fólksfjölgunar og hungursneyðar? Hvernig tókst bæði að auka mannfjöldann og bæta lífskjör hans? Kenning Lars er einföld: Evrópa miðalda var samansafn hundraða ríkja, smárra og stórra, sem fólk gat yfirleitt fært sig á milli í leit að betri kjörum. Ef skattar hækkuðu of mikið hjá prins A var hægt að færa sig yfir til prins B. Ef ofsóknir hófust á einu svæði var hægt að færa sig yfir á annað. Vissulega herjuðu kóngar og prinsar á hver annan en þeir pössuðu vel upp á skattgreiðendur sína eða væntanlega skattgreiðendur og létu hermennina slást utan við bæjarmörkin svo sem minnstar skemmdir hlytust af átökunum. Nornabrennur, hjátrú og plágur eru vissulega þekkt fyrirbæri miðalda en á heildina litið skreið vestræn menning í rétta átt yfir hundruð ára og með enn lengri forsögu að baki (m.a. kristni og lagahefðir Rómverja) og gat af sér allt sem við teljum sjálfgefið í dag: Raunsæi, náttúruvísindi, borgaraleg réttindi, verslunarfrelsi og lögvarinn eignarétt, svo fátt eitt sé nefnt.

Það var þetta andrúmsloft pólitískrar samkeppni sem fæddi af sér nokkuð sem áður var allt að því óþekkt í mannkynssögunni: Vaxandi velmegun vaxandi mannfjölda. Evrópa gekk í gegnum landbúnaðarbyltingu og iðnbyltingu og pólitíska uppreisn við þrúgandi einveldi konunga og prinsa. Leiðin var rudd og það var ekki aftur snúið.

Kenningar Lars um uppgang og hnignun menningarheima ná samt vel út fyrir hinn þrönga hring sem Evrópa er. Hann tekur fyrir sögu fjölmargra menningarheima, frá Inkum til Indverja, og vill meina að til að samfélag geti vænst þess að vaxa og dafna þurfi að koma til nokkrir þættir, svo sem samkeppni, sameiginlegt ritmál og greiðar samgöngur. Allir þessir þættir voru á einn eða annan hátt til staðar á uppgangstímum Rómverja, Kínverja, Forn-Egypta og auðvitað Evrópu miðalda, svo örfá dæmi úr bók hans séu nefnd.

En af hverju hnignaði svo þessum stórveldum og hvað kemur það Evrópu nútímans við? Frásögn Lars er hrífandi og fræðandi. Hún verður ekki rakin hér en Lars bendir á að allir menningarheimar sögunnar hafi mætt endalokum sínum og að hið sama sé fram undan í Evrópu og Vesturlöndum almennt nema gripið sé í taumana. Það má ekki taka neinu sem sjálfsögðum hlut og sé það trú okkar í dag þurfum við að kasta henni. Evrópubúar þurfa að rifja upp ástæður þess að heimsálfa þeirra réði yfir nánast öllum heiminum um tíma og af hverju menningarleg og samfélagsleg áhrif Evrópu eru enn þann dag í dag mjög sterk og loks átta sig á því að allt geti þetta horfið eins og dögg fyrir sólu sé ekki að gáð.

Til viðbótar við þennan boðskap má svo benda á að evrópsk gildi eru alls ekki þau einu sem finnast. Víða um heim eru konur enn álitnar eign karlmanna, börnum otað út á vígvöllinn vopnuðum byssum og sveðjum og stéttaskipting ríkjandi innan fjölmargra samfélaga. Ef evrópsk gildi og menningaráhrif gefa eftir, hvað tekur þá við? Eitthvað sem við kærum okkur síður um þori ég að fullyrða.

Lars Tvede bendir á að saga Vesturlanda er saga framfara og velmegunar en ekki bara fyrir Vesturlandabúa. Öðru nær. Hundruð milljóna einstaklinga um allan heim eru að rísa úr örbirgð í bjargálnir, komast úr hreysum í hús og út af ruslahaugunum og inn á atvinnumarkaðinn, sem gjarnan er vel tengdur alþjóðlegri verslun. Saga mannkyns hefur yfirleitt verið saga fátæktar, hungursneyða og sjúkdóma. Vestræn lyf, vestræn tækni, vestræn gildi og vestræn viðskipti eru að breyta þessu fyrir alla þá jarðarbúa sem fá aðgang að þessu, beint eða óbeint. Þetta er gott fyrir bæði fólkið og umhverfið. Vestræn áhrif skipta máli og það skiptir máli að verja þau og efla í stað þess að horfa upp á þau dragast saman og að lokum fjara út, eins og örlög allra fyrri menningarheima eru dæmi um.

Úr vörn í sókn

Eins og áður var nefnt eru bækur sem boða bjartsýni fágætar og ber að fagna þegar þær láta sjá sig. Um leið er erfitt að láta ekki hrífast af bölmóðnum. Á móti einni frétt um útrýmingu fátæktar í einhverjum heimshluta koma hundrað sinnum fleiri um staðbundin áföll og átök í öðrum. Við lesum sjaldan um bættar lífslíkur og lækkandi fæðingartíðni íbúa þróunarríkja en þeim mun oftar um veðurlýsingar sem eiga að vera vísbending um einhverjar hamfarabreytingar í loftslagi jarðar. Það er auðvelt að missa móðinn og gefa eftir fyrir neikvæðninni en hvaða gagn er að því? Á hverjum degi gerir mannkynið nýjar uppgötvanir, brauðfæðir fleiri einstaklinga, læknar enn einn sjúkdóminn, kemur fleiri krökkum í gegnum lestrarkennslu og tengir fleiri íbúa vanþróaðra ríkja við internetið. Framfarirnar eru stórkostlegar en nánast ósagðar. Menn eins og Lars Tvede, Johan Norberg og Matt Ridley vita þetta og hafa allir lagt á sig mikla vinnu til að benda á að við séum, þrátt fyrir allt, að sigrast á stórum áskorunum og getum haldið áfram að gera það ef við höldum rétt á spöðunum.

En þá er það spurningin: Höldum við rétt á spöðunum?  Um það má efast.

Evrópska hagkerfið og jafnvel þau í Bandaríkjunum og Japan eru ekki lengur í fararbroddi. Í Evrópu hefur enginn tæknirisi á borð við Google, Facebook og Amazon fæðst. Stórfyrirtæki Evrópu voru stofnuð á öðrum tímum þegar sem skattar voru lægri og reglurnar færri. Í Japan hefur ekki fæðst eitt einasta alþjóðlega stórfyrirtæki í áraraðir, ólíkt t.d. nágrönnunum í Kína (af ýmsum misgóðum ástæðum) og Suður-Kóreu. Bandarísk fyrirtæki sjá sér ekki fært að framleiða innanlands lengur. Eina hagstjórnartækið sem gripið er til er peningaprentun, sem gagnast auðvitað engum nema vel tengdum fjármagnseigendum sem kunna að græða á dalandi kaupmætti gjaldmiðlanna, á kostnað launþega.

Lars Tvede tekur þessa þætti í sjálfu sér ekki mikið fyrir enda er einn stærsti galli bókar hans grunnur skilningur á vissum lögmálum hagfræðinnar (en hagfræðiþekking hans er samt betri en í meðallagi). Áhersla Lars er á önnur atriði sem má telja til veikleikamerkja í vestrænum samfélögum og verður honum tíðrætt um Sviss í því samhengi sem hann þekkir vel eftir að hafa flúið dönsku skattana fyrir mörgum árum til að geta breitt út vængina sem fjárfestir og frumkvöðull. Það má bera Sviss í dag við Evrópu miðalda: Sambland mismunandi stjórnsýslueininga (kantóna) sem keppast innbyrðis um fólk og fyrirtæki. Á milli þeirra er ákveðin skattasamkeppni og dæmi eru um kantónur sem fóru úr því að vera háskattasvæði í lágskattasvæði og hafa blómgast fyrir vikið.

En það er fleira en hin pólitíska samkeppni sem gerði Evrópu að öflugasta hagsvæði jarðar og uppsprettu gríðarlegrar velmegunar og Lars bendir hér á áhugaverð atriði. Heimsálfan var og er krefjandi landfræðilega. Há fjöll og djúpir firðir voru og eru erfiðir viðureignar. Fyrir vikið þurftu Evrópubúar að smíða skip og báta og læra að sigla og það gaf þeim forskot þegar fram í sótti. Það þurfti að búa í haginn fyrir erfiða vetur og rysjótt veðurfar. Með öðrum orðum mætti segja að náttúrulegar hindranir hafi leitt til skapandi lausna sem gáfu forskot á aðra og á þetta bendir Lars Tvede i sannfærandi máli. Þetta ætti ekki að koma á óvart. Mörg af ríkustu svæðum jarðar (ef ríki olíuauðs eru undanskilin) eru frekar sviplausir klettar, eins og Hong Kong og Singapore, eða auðlindasnauðar sléttur, eins og Danmörk og Holland. Olíubölvunin svokallaða ásækir fyrst og fremst þá sem þurfa ekki að hafa fyrir hlutunum og þurfa í raun ekki að kasta sér út í samkeppnisumhverfi heimsverslunarinnar. Slík ríki staðna á meðan opnu hagkerfin blómgast.

Það er því synd og skömm að horfa upp á Evrópuríkin sameinast um að reisa tollamúra við umheiminn og telja sig vera ómissandi í heimsversluninni. Menn telja að himinháir skattar og hafsjór reglugerða hafi engin áhrif. Það er öðru nær. Samkeppnishæfni Evrópu er í frjálsu falli og enn er bætt í með hertum reglugerðum og íþyngjandi kostnaði á fólk og fyrirtæki. Sem hugsanatilraun mætti ímynda sér að ef Evrópa hyrfi af landakortinu hefði það sennilega lítil áhrif á efnahag margra stórfyrirtækja og viðskiptaríkja til lengri tima. Miðstétt Kína telur yfir 300 milljónir einstaklinga. Hún var ekki til fyrir 30 árum en telur nú svipað marga einstaklinga og ríki Vestur-Evrópu samanlagt. Hver verður raunin eftir 10 eða 20 ár í viðbót? Vonandi sitja einhverjir spekingar í höfuðstöðvum Evrópusambandsins og hugleiða það.

En er von? Já, auðvitað. Lars Tvede sparar ekki heilræðin þótt sum hver séu pólitískt óraunhæf og önnur frekar bitlaus og enn önnur jafnvel mótsagnakennd. Bók hans verður samt seint sökuð um að bjóða ekki upp á hugmyndir sem má óhikað segja að byggist bæði á reynslu og þekkingu en piprað með draumórum. Já, bjartsýni er við hæfi en það er óþarfi að vera bjartsýnn á allt, svo sem framtíð Evrópusambandsins eins og það hefur þróast undanfarin ár.

Vesturlöndin geta hæglega snúið vörn í sókn og þurfa þá oftar en ekki bara að rifja upp fyrri tíma úr eigin sögu.

Það fer kannski að verða of seint. Hvað er langt í að Vesturlönd mæti sömu örlögum og allir stórir menningarheimar mannkynssögunnar fram til dagsins í dag? Sagan hræðir vissulega en við verðum að vera bjartsýn. Það er miklu meira en bara Evrópa í húfi. Heimurinn allur hefur notið góðs af áherslum vestrænnar menningar á borgaraleg réttindi, lögvarinn eignarétt, gegnsæja stjórnsýslu, málfrelsi, viðskiptafrelsi og takmörkun ríkisvaldsins að því marki sem hægt er að temja þann tudda. Vesturlandabúar hafa kannski gleymt grundvelli eigin velmegunar en við því þarf þá að bregðast. Lars Tvede getur vonandi hjálpað okkur við það verkefni.

Að lokum

Bækur koma og fara og flestar staldra stutt við í minningu okkar. Bók Lars Tvede er ekki ein af þeim og hugsunin að aflestri loknum er ósjálfrátt: Skyldulesning! Hið sama má segja um aðrar nýlegar bækur sem boða bjartsýni og styðja við hana með fjölbreyttum rökum. Nóg er af bölmóðnum og því næg ástæða til að halda fast í bjartsýnina, meðtaka hana og boða hana í eyru annarra. Að þessu sögðu skal það hér með sagt um bók Lars Tvede að hún ætti að vera lesin af öllum, strax.

Höfundur er verkfræðingur.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.