Kjarninn – að kaupa sig til áhrifa

Sama dag og umboðsmaður Alþingis birti harðorða skýrslu um störf Seðlabankans og gjaldeyriseftirlits hans kom Már Guðmundsson seðlabankastjóri í viðtal til Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, á Hringbraut. Áhorfendur voru undrandi yfir því hve mjúkum höndum Þórður Snær fór um Má og að hann spurði hann nánast ekkert út í tíðindi dagsins. (Mynd: Skjáskot af vef Hringbrautar)

Þegar við blasti að vinstrimenn myndu gjalda afhroð og missa stjórnartaumana í kosningum til Alþingis vorið 2013 fóru nokkrir vinstrisinnaðir einstaklingar úr fjölmiðlum, stjórnmálum og viðskiptalífi að kanna möguleika á því að stofna nýjan fjölmiðil sem gæti veitt yfirvofandi hægristjórn mótstöðu. Niðurstaðan var sú að vefmiðillinn Kjarninn var formlega stofnaður hinn 1. júní 2013, viku eftir að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók til starfa. Lagt var upp með að gefa út netmiðil – vikublað – sem lesendur gætu halað niður í heilu lagi.

Yfirlýsingar stofnenda Kjarnans voru hástemmdar í byrjun. Í einni auglýsingu vefritsins er haft eftir blaðamanni: „[V]ið eigum Kjarnann, engir fjárfestar, engin hagsmunaöfl, ekkert rugl.“

Ekki leið þó á löngu uns útgáfufélag Kjarnans hafði gefið út nýtt hlutafé og fjárfestar hófu að birtast í bakgrunninum og höfðu fljótt eignast á milli 30% og 40% í miðlinum á móti stofnendum. Í hluthafahópinn bættust meðal annarra Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, og Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi varaformaður flokksins. Þar með höfðu allar fjórar staðhæfingarnar í auglýsingunni fokið út í veður og vind. Miðillinn var ekki í eigu starfsmanna, með fjárfesta og augljós hagsmunatengsl.

Kjölfestufjárfestar Kjarnans voru þeir Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir og Hjálmar Gíslason frumkvöðull. Báðir höfðu haft sig talsvert í frammi í þjóðfélagsumræðunni og þó sérstaklega Vilhjálmur, sem var einarður talsmaður þess að Íslendingar tækju á sig skuldbindingar vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Þar hafði hann gerst eindreginn andstæðingur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins. Honum eins og mörgum vinstrimönnum var mjög brugðið við að Sigmundur Davíð yrði forsætisráðherra og sjálfsagt ekki síður vegna þess víðtæka persónulega fylgis sem hann naut á þessum tíma. Aðrir fjárfestar komu einnig af vinstri vængnum þó að þeir hefðu fæstir haft sig mikið í frammi, utan auðvitað Ágústs Ólafs Ágústssonar, sem hafði verið og varð aftur síðar alþingismaður fyrir Samfylkinguna.

Pólitísk slagsíða

Ritstjórn Kjarnans var í höndum þeirra Þórðar Snæs Júlíussonar og Magnúsar Halldórssonar blaðamanna, sem árin á undan höfðu verið fyrirferðarmiklir í þjóðfélagsumræðunni. Þeir höfðu sagt skilið við Fréttablaðið/365 miðla með hvelli þegar þeir efndu til ritstjórnarlegs ágreinings með skrifum sínum um Jón Ásgeir Jóhannesson, en kona hans Ingibjörg Pálmadóttir var þá eigandi Fréttablaðsins/365 miðla. Í skrifum fyrir kosningarnar 2013 höfðu þeir ráðist hart gegn hugmyndum Sigmundar Davíðs í aðdraganda kosninga um hina svokölluðu „leiðréttingu“ og þá hugmynd hans að láta erlenda vogunarsjóði bera kostnaðinn af henni. Þórður Snær skrifaði meðal annars forystugrein í Fréttablaðið, þar sem hann sagði Sigmund Davíð vera „óvinur [Íslendinga] nr. 1“. Þessum málflutningi héldu þeir áfram eftir að þeir færðu sig yfir á Kjarnann.

Þórður Snær Júlíusson, eða Doddi eins og hann er jafnan kallaður, hefur mikil tengsl við vinstrimenn. Alþjóð varð vitni að samskiptum hans við Elías Jón Guðjónsson, þá aðstoðarmann Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og fyrrverandi samstarfsmann Þórðar á blaðinu 24 stundum, þegar fyrir tilviljun komst upp um að þeir höfðu lagt á ráðin um spunafrétt undir slagorðinu: „Dodda langar að skúbba.“

Viðvarandi taprekstur

Rekstur Kjarnans hefur frá upphafi gengið erfiðlega, en hann hófst á miðju ári 2013. Hagnaður fyrsta ársins nam um 300 þúsund krónum. Tap hefur síðan verið af rekstrinum öll heilu rekstrarárin, þannig að við blasir að aðstandendur miðilsins kjósa að leggja fram töluvert fé til að sú vinstri rödd sem fjölmiðillinn stendur fyrir heyrist. Það kemur þó ekki í veg fyrir að Þórður Snær, ritstjóri Kjarnans, geri gjarnan taprekstur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, að umtalsefni.

Uppsafnaður taprekstur þessara fjögurra ára nemur 47 milljónum króna og lætur nærri að miðillinn tapi einni milljón á hverjum mánuði. Tapreksturinn framan af var útskýrður með vísun í fjárfestingar. Frá 2016 hafa Kjarnamenn leitað eftir stuðningsáskriftum. Lengst af hefur fjölmiðillinn orðið að treysta á fórnfýsi eigenda sinna, sem hafa hlaupið undir bagga, ýmist með lánum eða auknu hlutafé, en eins hafa starfsmenn í einhverjum tilvikum þegið hlutabréf, sem við þessar aðstæður eru verðlaus.

Í seinni tíð hefur miðillinn orðið að skera niður starfsemi sína og flokkast hann nú undir það að vera eins konar bloggsíða sem birtir hugleiðingar Þórðar Snæs og treystir mikið á endurbirtingar frétta úr öðrum fjölmiðlum, svo mjög að aðrir fjölmiðlamenn hafa orðið að gera athugasemdir við endurbirtingar Kjarnans.

Þannig benti Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, á það í janúar 2019 að Kjarninn hefði birt 900 orða frétt beint upp úr 2.400 orða viðtali sem blaðamaður Morgunblaðsins hafði unnið að dagana á undan og látið duga ein sæmdarkynning. Þar var farið yfir skynsamleg mörk endursagnar úr fréttum annarra miðla og verið að gera annarra efni að sínu.

Oft hafa fylgt ýmsar yfirlýsingar þegar breytingar verða á fjármögnun Kjarnans. Árið 2016 var til dæmis greint frá stofnun Kjarnasjóðsins, fyrsta íslenska rannsóknarblaðamennskusjóðsins sem ætlað er að styrkja stór og metnaðarfull verkefni á sviði rannsóknarblaðamennsku. Í frétt blaðsins sagði að með honum væri ætlunin að gefa blaðamönnum tækifæri til að helga sig alfarið stórum og flóknum verkefnum í dágóðan tíma. Tekið var fram að sjóðurinn myndi úthluta allt að fimm milljónum króna árlega og gæti hver einstakur styrkur numið allt að 500 þúsund krónum. Ekkert hefur spurst til sjóðsins síðan.

Náin tengsl við RÚV

Kjarninn hefur lengi endurvarpað skoðunum hluthafans Vilhjálms Þorsteinssonar. Frá upphafi hefur Kjarninn unnið náið með öðrum fjölmiðlum sem telja má til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Þetta samstarf náði hámarki þegar ráðist var að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þá forsætisráðherra, með vinnslu og birtingu Panama-skjalanna. Ljóst var að atlagan hafði verið í undirbúningi í marga mánuði með samstarfi við erlenda fjölmiðla, en sú hugmynd að geta fellt forsætisráðherra með birtingunum heillaði vafalaust marga. Eftir á að hyggja blasir við að áherslan á Sigmund Davíð var langt umfram það sem gögnin sögðu til um.

Kjarninn gekk til þannig samstarfs við Reykjavík Media, Ríkisútvarpið og Stundina um birtingu skjalanna. Ljóst var að Ríkisútvarpið myndi gegna lykilhlutverki í fréttaflutningnum auk þess sem það tók að sér að fjármagna hann að nokkru, meðal annars með því að bera launakostnað Reykjavík Media enda hafði það félag í raun enga starfsemi aðra en að senda reikninga út í nafni Jóhannesar Kristjánssonar rannsóknarblaðamanns.

Tengsl Kjarnans við Ríkisútvarpið hafa verið náin. Ægir Þór Eysteinsson var þannig meðal stofnenda Kjarnans (9,44% eignarhlutur), en hann hafði áður verið fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu. Hann sneri aftur til Ríkissjónvarpsins í lok árs 2015 vegna rekstrarerfiðleika Kjarnans, en miðillinn stóð ekki undir launakostnaði hans. Ægir var þó áfram í eigendahópi Kjarnans, þar sem hlutur hans í Kjarnanum var illseljanlegur. Að lokum leysti félagið sjálft til sín hlut Ægis Þórs til að komast hjá gagnrýni, en aðrir fjölmiðlar höfðu gert þetta að umtalsefni, meðal annars Viðskiptablaðið. Í byrjun árs 2015 var Þórunn Elísabet Bogadóttir gerð að aðstoðarritstjóra Kjarnans, en hún er dóttir Boga Ágústssonar, fyrrverandi fréttastjóra Ríkisútvarpsins. Síðar gekk Fanney Birna Jónsdóttir einnig til liðs við Kjarnann, en í upphafi árs 2018 var hún gerð að aðstoðarritstjóra blaðsins. Hún hætti tíu mánuðum síðar. Fanney Birna hefur um tveggja ára skeið séð um stjórn á þjóðmálaþættinum Silfrinu á móti Agli Helgasyni, samhliða því að eiga í og stýra Kjarnanum (0,97% eignarhlutur).

Eigendabreytingar

Í október 2014 var miklum breytingum á Kjarnanum hrint í framkvæmd. Þá var kynntur til leiks fréttavefur sem myndi sinna daglegri fréttaþjónustu en halda áfram fast í þá hugmyndafræði sem Kjarninn er byggður á. Samhliða var útgáfu stafræna fréttavikublaðsins hætt, því þrátt fyrir að ýmsir hefðu látið vel af fyrirtækinu var lesendahópurinn lítill og niðurhalið umstangsmeira en nýir neysluhættir leyfðu.

Upphafleg viðskiptahugmynd Kjarnans um einhvers konar fréttaapp til þess að ná í blað á PDF-formi hafði þar með fallið um sjálfa sig, afskrifa varð allt stofnframlagið og endurfjármagna reksturinn.

Meginvandi Kjarnans hefur alla tíð verið að lesturinn hefur látið á sér standa. Í upphafi var gerð metnaðarfull tilraun um netdreifingu á óprentuðu blaði, en hún gekk sem fyrr segir ekki upp. Þá var hafist handa við að breyta Kjarnanum í hefðbundnari vefmiðil, en lesturinn hefur samt sem áður látið á sér standa. Samræmdar vefmælingar bentu til þess að honum hefði aldrei auðnast að ná út fyrir tiltölulega lítinn kjarna lesenda (svo segja má að miðillinn hafi borið nafn með rentu). Nú er svo komið að Kjarninn nær hvorki á blað í vefmælingum Gallups né Modernus.

Afskriftir og endurfjármögnun hefur nokkrum sinnum verið endurtekin, en nú má heita að starfsemi miðilsins sé í lágmarki, tveir ritstjórar og tveir blaðamenn. Af upphaflegu ritstjórninni eru aðeins Þórður Snær Júlíusson og Magnús Halldórsson eftir, sá síðarnefndi raunar mjög laustengdur, býr erlendis og sinnir fyrst og fremst vikuritinu Vísbendingu. Auk þeirra sem hér hafa verið nefndir að framan flutti Birgir Þór Harðarson, starfsmaður Kjarnans (2,46% eignarhlutur), sig einnig yfir á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Virðist því sem stofnunin hafi tekið að sér að vera griðastaður fyrir starfsfólk Kjarnans, en á það hefur verið bent að ráðningar Ríkisútvarpsins á fyrrverandi starfsmönnum Kjarnans séu iðulega án auglýsinga.

Vorið 2019 var gengið frá því að Þórður Snær yrði fastur gestur í Morgunútvarpi Rásar 1 til að ræða um viðskipti og efnahagsmál. Það var að frumkvæði þáttastjórnandans Óðins Jónssonar. Innan fjölmiðlaheimsins hefur vakið athygli að RÚV leitar sjaldan eða aldrei til ritstjóra þeirra viðskiptablaða sem hér eru gefin út; Viðskiptablaðsins, og viðskiptablaða Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Nú hefur það gerst að Óðinn Jónsson hefur hætt störfum hjá RÚV og gengið til liðs við Aton, sem er almannatengsla- og lobbýistafyrirtæki á vinstri vængnum. Hjá Aton starfa Huginn Freyr Þorsteinsson, fyrrum aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar, fyrrnefndur Elías Jón, sem og Ingvar Sverrisson og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir sem bæði eru atkvæðafólk í Samfylkingunni.

Nú eru fjórir skráðir starfandi á ritstjórn Kjarnans, en enginn þeirra er í fullu starfi. Þórður Snær hefur undanfarið tekið að sér störf og verkefni víða. Hann er stundakennari við Háskóla Íslands, þar sem hann kennir fjölmiðlafræði (blaðamennsku), og vakti athygli þar með því að nota þann vettvang til að efna til kæru til siðanefndar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor. Tilefnið var að Hannes hafði gefið þekktri sögu vængi, en hún snerist um tengsl Kjarnans við erlenda vogunarsjóði. Sagan var í raun aldrei til umræðu nema í formi ásakana Þórðar Snæs og Magnúsar um að tilteknir menn, oftast tengdir Framsóknarflokknum, væru að breiða út slíkar sögur.

Þórður Snær og Magnús hafa tekið að sér að skrifa vikulegar fréttaskýringar og fréttaefni í auglýsingavikublaðið Mannlíf sem er ýmist birt undir nafni þeirra eða Kjarnans. Eigandi Mannlífs er skráður Halldór Kristmannsson, sem hefur verið handgenginn Róbert Wessmann, stjórnanda lyfjarisans Alvogens. Magnús starfar sem fyrr segir frá Bandaríkjunum, en hann er jafnframt ritstjóri tímaritsins Vísbendingar, sem Kjarninn keypti af Benedikt Jóhannessyni, fyrsta formanni Viðreisnar og fyrrverandi fjármálaráðherra.

Auk þessa er Þórður Snær þáttagerðarmaður á Hringbraut, en það er verst varðveitta leyndarmál fjölmiðlaheimsins að Helgi Magnússon fjárfestir stendur að fyrirtækinu ásamt viðskiptafélaga sínum Sigurði Arngrímssyni (áður hjá Morgan Stanley), sem er skrifaður fyrir eignarhlutnum. Hann var í fréttum vegna stuðnings síns við stjórnmálaflokkinn Viðreisn, en Hringbraut hefur verið talin höll undir Viðreisn og aðild að Evrópusambandinu. Heimildir eru fyrir því að Helgi hafi samband reglulega við stjórnendur stöðvarinnar og hafi sjálfur útbúið lista yfir fólk sem eigi alls ekki að ræða við þar.

Þrátt fyrir þessi tengsl við Mannlíf og Hringbraut hefur Þórður Snær verið óhræddur við að gagnrýna eignarhald fjölmiðla í ræðu og riti en oftast beinast skeyti hans að Morgunblaðinu og þá sérstaklega að stærsta eigandanum, Guðbjörgu Matthíasdóttur, og svo Davíð Oddssyni ritstjóra.

Eigendur Kjarnans og aflandsfélög

Vilhjálmur Þorsteinsson, þá gjaldkeri Samfylkingarinnar og einn stærsti eigandi Kjarnans, Illugi Jökulsson, rithöfundur og dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu, og Birna Þórðardóttir, leiðsögumaður og fjölmiðlakona, berja tunnu á Austurvelli til að mótmæla aflandsfélögum vorið 2016.

Ætla má að það hafi komið ritstjórn Kjarnans mjög á óvart að einn helsti eigandi miðilsins, Vilhjálmur Þorsteinsson, skyldi vera með aflandsfélög þegar hún hóf afskipti af Panamamálinu. Samkvæmt gögnum Mossack Fonseca stofnaði Kaupþing í Lúxemborg félagið M-Trade á skattaskjólseyjunni Tortólu í október 2001. Skráðir stjórnendur þess voru þrjú önnur Tortólafélög. Raunverulegur eigandi M-Trade og stjórnandi var þó annað félag sem skráð var fyrir öllum eignum Tortólafélagsins: Félag Vilhjálms Þorsteinssonar, Meson-Holding í Lúxemborg. Nafn Vilhjálms er því ekki í gögnum Mossack Fonseca en nafn félags hans er það hins vegar. Fjölmiðlar upplýstu að litlar upplýsingar væru fáanlegar um starfsemi M-Trade á Tortóla. Það tók við pósti sem áframsendur var til Lúxemborgar árið 2005 en var formlega afskráð 2012. Í upplýsingum um félagið í þessu yfirliti Mossack Fonseca segir að eignir þess séu bankareikningur sem ekki eru frekari upplýsingar um. Einnig átti Vilhjálmur félög skráð á Kýpur.

Í kjölfar uppljóstrana um eignarhald Vilhjálms Þorsteinssonar á aflandsfélögum árið 2015 hvarf hann úr stjórn Kjarnans en heldur enn eignarhlut sínum. Aflandseignarhaldsfélagaflétta hans er talin flókin. Þrátt fyrir það vafðist ekki fyrir Vilhjálmi að mæta á Austurvöll og berja tunnulok með Illuga Jökulssyni og Birnu Þórðardóttur til þess að mótmæla því að annað fólk hefði tengsl við aflandsfélög í skattaskjóli. Þeir Vilhjálmur og Illugi þekktust vel enda höfðu báðir sest í stjórnlagaráð á sínum tíma eftir að Hæstiréttur hafði ógilt kosningu til stjórnlagaþings þar sem þeir voru í kjöri.

Eignir Vilhjálms komu aldrei fram í hagsmunaskráningu hans vegna stjórnlagaráðs. Þá má hafa í huga að þann tíma sem Vilhjálmur var gjaldkeri Samfylkingarinnar hafði hann einnig umsjón með huldusjóðnum Sigfúsarsjóði, sem um árabil hefur haldið utan um fjárhagslegar eigur vinstrimanna, „Rússagullið“ svokallaða, meðal annars húsakynni á Hallveigarstíg 1 í Reykjavík.

Tengsl Vilhjálms Þorsteinssonar (sem er hálfbróðir Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar) við ritstjórn Kjarnans eru mikil og nú síðast var ákveðið að fjölmiðillinn myndi færa starfsstöð sína í húsnæði sem Vilhjálmur hefur umráð yfir úti á Granda við Fiskislóð. Kjarninn var til húsa á Laugavegi 3 en er nú starfræktur inni á skrifstofu Vilhjálms.

Félagið Miðeind ehf., í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, á nú 17,8% og hefur aukið hlut sinn undanfarin ár. Félagið er algjörlega í eigu Meson Holding A.S. sem skráð er í Lúxemborg eins og áður sagði. Hlutur Miðeindar ehf. í Kjarnanum var bókfærður á rúmar 14 milljónir króna í lok árs 2016.

Stærsti hluthafinn og stjórnarformaður Kjarnans er Hjálmar Gíslason með 18,28% eignarhlut í gegnum félag sitt HG80 ehf. Hjálmar setti upp starfsemi í Bandaríkjunum í lágskattaríkinu Delaware og hefur efnast vel á stofnun, rekstri og sölu tæknifyrirtækja. Delaware er skilgreint sem skattaskjól (e. tax shelter) og dregur þannig til sín gríðarlegan fjölda skúffufélaga. Þessi starfsemi hefur sætt harðri gagnrýni víða.

Leiða má að því líkur að Kjarninn hafi að einhverju leyti verið fjármagnaður með fjármunum sem eiga uppruna sinn í skattaskjólum. Við það þarf ekki að vera neitt ólöglegt en spyrja má hversu siðlegt það er, einkum í ljósi þeirrar gagnrýni sem Kjarninn sjálfur hefur verið iðinn við að beina til annarra. Síðan Panamamálið fór af stað hefur Kjarninn reynt að nýta sér þá athygli sem þá fékkst með því að sækja áheitastuðning til almennings og hefur það gengið þokkalega að sögn Kjarnamanna.

Málefni Ágústs Ólafs

Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar og nú þingmaður í veikindaleyfi, eignaðist hlut í Kjarnanum 2014. Í frétt á heimasíðu Kjarnans segir að á þeim tíma hafi Ágúst Ólafur ekki verið þátttakandi í stjórnmálum. Hann sat enn fremur í stjórn miðilsins um tíma.

Í september 2017 tilkynnti Ágúst Ólafur að hann ætlaði að hefja stjórnmálaþátttöku að nýju og vék hann þá úr stjórn Kjarnans, enda var það mat stjórnenda Kjarnans, Ágústs Ólafs og annarra hluthafa að ekki færi saman að vera kjörinn fulltrúi og eiga hlut í fjölmiðli, eins og sagði í tilkynningu frá þeim tíma. Samhliða var gert samkomulag um að Ágúst Ólafur yrði með öllu óvirkur eigandi í félaginu og að hlutur hans yrði settur í söluferli.

Í fjölmiðlum var greint frá því að hlutur Ágústs Ólafs í Kjarnanum hefði aukist milli áranna 2017 og 2018. Sú skýring var gefin á því að hluthafalán, sem veitt var vegna fjárfestinga á fyrri hluta ársins 2017, hefðafi verið breytt í hlutafé í byrjun árs 2018. Illa gekk að selja hlut Ágústs, sem var upp á tæp 5%, og það var ekki fyrr en um miðjan febrúar 2018 að tilkynnt var móðurfélag Kjarnans hefði að endingu keypt hlut Ágúst Ólafs. Um leið var tilkynnt að Fanney Birna aðstoðarritstjóri hefði bæst við hluthafahópinn en hún er eins og áður sagði enn í hluthafahópnum þrátt fyrir störf sín hjá Ríkissjónvarpinu.

Afskiptum Ágústs Ólafs af Kjarnanum var þó ekki með öllu lokið. Í desember 2018 var upplýst að Ágúst Ólafur hefði sætt áminningu trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar fyrir að hafa brotið gegn Báru Huld Beck, blaðamanni Kjarnans, með því reyna endurtekið og í óþökk Báru að kyssa hana. Þetta kynferðisáreiti átti sér stað á starfsstöð Kjarnans eftir lokun skemmtistaða nóttina 20. júní 2018. Kjarninn fjallaði ekki um málið fyrr en það var upplýst á öðrum vettvangi og litlar fréttir hafa verið fluttar af viðbrögðum stjórnenda Kjarnans við atvikinu.

Tilkynningar þeirra Ágústs Ólafs og Báru Huldar voru látnar nægja í umfjöllun um málið. Athygli vekur að Bára Huld hélt áfram að birta fréttir er vörðuðu stjórnmálavafstur Ágústs Ólafs í Kjarnanum, eftir atvikið og fram að því að hann fór í leyfi. Augljóst var þó að Bára Huld var ekki ánægð með hvernig tekið hafði verið á máli hennar.

Styrkhæfni?

Eins og áður sagði er starfsemi félagsins að dragast saman en eigendur félagsins hafa leitað ýmissa leiða til að minnka tapið.

Í byrjun árs 2017 átti Vilhjálmur Þorsteinsson þannig í viðræðum við Sigurð Gísla Pálmason, einn aðaleigenda Fréttatímans á þeim tíma, um samstarf milli miðlanna. Af því varð ekki og Fréttatíminn lagði upp laupana skömmu síðar. Engum blöðum er um það að fletta að viðvarandi taprekstur Kjarnans hvílir þungt á eigendum, eins og sést á því að ritstjóri Kjarnans sækir fast eftir ríkisstyrkjum nú þegar allt lítur út fyrir að Alþingi samþykki að veita fjölmiðlum slíka styrki. Mikið álitamál er þó enn hvort miðillinn uppfyllir kröfur þær sem gerðar eru til styrkhæfra fjölmiðla, þar sem sáralítið er þar um frumframleiðslu frétta, en slíkt verður tíminn að leiða í ljós. Styrkjafyrirætlanir stjórnvalda til handa fjölmiðlum og fyrirferð Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði er hins vegar efni í aðra fjölmiðlaúttekt.

Af ritstjórnarefni og fréttum Kjarnans má vel ráða pólitískt leiðarhnoð hans, en það er borgaraleg vinstristefna sem teygir sig allt frá Vinstri grænum um Samfylkingu og yfir á miðjuna til Viðreisnar, en oft má fremur greina hana af andstæðingunum en samherjunum. Hún er raunar svo fyrirsjáanleg (og greinarnar langorðar) að gárungar í fjölmiðlastétt hafa uppnefnt miðilinn Kranann. Það er vitaskuld ekkert að því að Kjarninn marki sér ritstjórnarstefnu með þeim hætti, en það má heita fullreynt að hún afli miðlinum lesenda.

Þá má hins vegar spyrja til hvers verið er að halda honum úti og hver leggi honum til fé til þess að halda öndunarvélinni gangandi undir því yfirskyni að Kraninn sé laus við fjárfesta, hagsmunagæslu og rugl.

Höfundur er blaðamaður.

*Eignarhlutar eru skráðir hér eins og þeir koma fyrir hjá Fjölmiðlanefnd.

ÁRÉTTING: Rétt er að geta þess að Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, svaraði grein Sigurðar Más. Svargrein Þórðar Snæs má lesa HÉR. Sigurður Már svaraði til baka og má lesa grein hans HÉR.

Viðbót 14.07.19: Þjóðmálum hafa borist athugasemdir frá forsvarsmönnum Kjarnans vegna umræddrar greinar. Þær athugasemdir má lesa HÉR.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.