Upplýsingaóreiða, fjölmiðlaeftirlit ríkisins og sniðganga hefðbundinna fjölmiðla

Ákall háværra hópa um nýja stjórnarskrá hefur ekki farið framhjá þeim sem fylgjast með þjóðfélagsumræðunni. Fjölnir ætlar hvorki að rekja né hrekja málflutning þess hóps hér þótt af nægu sé að taka. Hins vegar eru þættir í herferð þeirra sem að verkefninu stóðu sem vert er að skoða.

Nær öll skilaboð þess hóps sem stóð fyrir kröfunni um nýja stjórnarskrá einkenndust ýmist af villandi eða hreinlega röngum upplýsingum. Upplýsingaóreiða er það kallað. Frægir listamenn, sem myndu flesta daga ekki vilja láta kenna sig við popúlisma, þuldu upp í myndböndum hverja rangfærsluna á fætur annarri – sem síðan var dreift á samfélagsmiðlum og í sjónvarpi – til að sannfæra venjulega, fáfróða fólkið um hvernig ný stjórnarskrá myndi gera líf allra svo miklu betra.

***

Áður en fræga fólkið gaf sér tíma til að leika í auglýsingum fyrir málstaðinn höfðu aðilar tengdir honum hafið markvissa herferð á samfélagsmiðlinum TikTok. Upplýsingaóreiða er vægt orð yfir þá herferð.

Herferðin var undir radarnum. Það er, hún fór fram með öðrum hætti en gengur og gerist þegar koma þarf pólitískum skilaboðum á framfæri. Í þessu tilviki var villandi skilaboðum beint að ungu fólki, skilaboðum sem fólu í sér að íslenskur sjávarútvegur væri að arðræna fólkið í landinu (eða ríkissjóð), að ekkert væri fjallað um náttúruvernd í núverandi stjórnarskrá (sem er rangt), að hægt væri að tryggja betra heilbrigðiskerfi með nýrri stjórnarskrá (sem er líka rangt), að „þjóðin“ hefði nú þegar samþykkt nýja stjórnarskrá (einnig rangt) og þannig mætti áfram telja. Allt frekar einföld skilaboð þar sem spilað var á tilfinningar ungs fólk sem vissulega vill láta sig hlutina varða án þess þó að hafa kynnt sér þá í þaula.

***

Fyrir utan lygarnar er lítið við aðferðafræði hópsins að athuga. Það er hvergi meitlað í stein hvernig pólitísk umræða á að fara fram eða hver á að stjórna henni. Öllum er frjálst að koma skilaboðum sínum á framfæri á blaði, í orði, á samfélagsmiðlum eða með hverjum þeim leiðum sem í boði eru. Alla jafna fögnum við tækniframförum og nýjum miðlum (þ.m.t. samfélagsmiðlum) sem tengja okkur betur saman og almennt auknu upplýsingaflæði. Því fylgir auðvitað að hægt er að koma villandi upplýsingum á framfæri, jafnvel lygum, og ýta þannig undir svokallaða upplýsingaóreiðu. Það væri þó afturför ef ríkisvaldið hefði eitt stjórn á því hvaða upplýsingum er komið á framfæri.

***

Þessi herferð upplýsingaóreiðu varð þó til þess að sannfæra Fjölni enn frekar um það hversu fráleitu hlutverki Fjölmiðlanefnd ríkisins gegnir. Allflestir fjölmiðlar landsins eru skráðir hjá Fjölmiðlanefnd og teljast þannig að forminu til „alvöru“ fjölmiðlar. Hægt og rólega er stofnunin þó að breytast í nokkurs konar stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að útdeila styrkjum til fjölmiðla, þá auðvitað aðeins þeirra sem eru búnir að skrásetja sig. Að öðru leyti hefur hún eftirlitshlutverk með fjölmiðlum, er nokkurs konar fjölmiðlalögga, sem að mestu hefur snúist um að sekta og skamma minni einkarekna fjölmiðla fyrir atriði sem engu máli skipta nema opinbera starfsmenn sem þurfa að láta til valds síns finna. Fjölmiðlaeftirlit ríkisins nær þó ekki út fyrir hina hefðbundnu miðla, þannig að hver sem er getur sagt hvað sem er – og auglýst hvernig sem er.

***

Í raun getur hver sem er stofnað sinn eigin fjölmiðil í þeirri merkingu, án þess þó að hljóta sérstaka ríkisvottun. Vissulega er hægt að búa til vefsíðu þar sem skrifaðir eru pistlar og einstaka handvaldar fréttir af málum sem viðkomandi ritstjórn telur skipta máli eða þjóna málstað miðilsins – skrásetja vefsíðuna sem fjölmiðil hjá ríkinu og heimta svo ríkisstyrki þegar og ef þeir falla til. En hver sem er getur þó opnað vefsíðu, búið til hlaðvarp, dreift efni í hljóði og mynd á samfélagsmiðlum á borð við TikTok, Facebook, Instagram eða YouTube. Hver sem er getur þannig búið til sína eigin sjónvarpsstöð, svo að segja. Þetta er það sem tæknin býður upp á og neytendur miðlanna eru jafn misjafnir og þeir eru margir.

Margir af vinsælustu spjallþáttum landsins eru hlaðvarpsþættir (sem sumir hverjir eru einnig í mynd og í boði á YouTube) sem framleiddir eru utan hinna hefðbundnu fjölmiðla. Við eigum eftir að sjá hversu lengi stjórnendur þeirra munu halda það út að stýra slíkum þáttum en allt byggir það væntanlega á því hversu tekjumyndandi þættirnir verða.

***

Þetta fjölbreytta form fjölmiðlunar hefur að öllum líkindum fleiri kosti en galla. Það efni sem almenningur hefur aðgang að er bæði meira og fjölbreyttara en áður og hægt er að koma skilaboðum áleiðis með kvikari og skilvirkari hætti en áður þótt vissulega sé hætt við því að fjölbreytnin sé misnotuð eins og í tilviki þeirra sem boðuðu fagnaðarerindið um nýja stjórnarskrá.

***

Þetta form getur þó gagnast með ýmsum hætti. Hér er búið að taka dæmi um neikvæð áhrif þess en það má líka horfa á þetta með öðrum hætti og sjá þau tækifæri sem einstaklingar, fyrirtæki, stjórnmálaflokkar, félagasamtök, trúarhreyfingar og fleiri geta nýtt sér til að koma málstað sínum áleiðis.

***

Gott dæmi um þetta er það verkefni sem útgerðarfélagið Samherji hefur ráðist í á undanförnum vikum með því að framleiða stutt myndbönd sem birt eru á YouTube-síðu félagsins. Sjálfsagt geta allir haft skoðanir á fyrirtækinu og ekki síður á þessari aðferð þess við að koma málstað sínum á framfæri, en Fjölnir hefur þó skilning á því að Samherji hafi frekar farið þessa leið en í gegnum hefðbundið form fjölmiðla. Myndbönd Samherja hafi vakið reiði sumra, forvitni annarra og gleði einhverra – en hvað sem því líður verður að viðurkennast að þau hafa varpað skýrari mynd á einstaka þætti þess sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum á síðustu árum. Er nokkuð við það að athuga?

Óháð því hvaða skoðun fólk kann að hafa á efnistökunum og málefninu liggja nú fyrir upplýsingar sem allir hafa aðgang að og geta út frá þeim mótað sér skoðun. Það er enginn neyddur til að horfa og þeir sem vilja ekki horfa hafa úr óteljandi öðrum afþreyingarmöguleikum að velja.

***

Samherji er þó ekki fyrsta fyrirtækið sem framleiðir sitt eigið fjölmiðlaefni. Hin ýmsu fyrirtæki hafa framleitt ýmiss konar efni í nokkur ár, allt frá bloggi eða skrifum á heimasíðu til beinna útsendinga á samfélagsmiðlum af viðburðum, fræðslufundum eða ráðstefnum, spjallþátta í hlaðvarpi eða á streymisveitum og þannig má áfram telja. Meira að segja ríkisspítalinn, sem aldrei á nægilegt fjármagn, framleiðir sína eigin hlaðvarpsþætti án þess að hafa nokkra skyldu til þess eða að nokkur hafi gert athugasemd við það.

***

Fjölnir ætlar ekki að taka afstöðu til þess hvort í þessari þróun felist einhver vanvirðing gagnvart þeim fjölmiðlum sem fyrir eru eða hvort verið sé að hunsa hefðbundna fjölmiðla og það hlutverk sem þeir hafa að gegna. Með málefnalegum rökum er hægt að svara því bæði játandi og neitandi. Við vitum ekki hvernig þróunin verður en það verður þó að teljast ólíklegt að hún verði í þá átt að hefðbundnir fjölmiðlar fái dagskrárvaldið aftur eða sitji einir að því hvaða efni kemst á framfæri.

***

Allir fjölmiðlar fyrir utan Ríkisútvarpið hafa orðið fyrir töluverðum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum; auglýsingatekjur hafa dregist verulega saman. Tekjugrunnur þeirra er óstöðugur og hér á Íslandi er hann að miklu leyti takmarkaður (í samanburði við erlenda miðla) vegna ákvörðunar ríkisins um að banna tilteknar auglýsingar og reka sína eigin auglýsingadeild í Efstaleiti. Þrátt fyrir það eru reknir hér öflugir fjölmiðlar sem bæði flytja fréttir og færa okkur afþreyingu. Framtíðin ein mun leiða í ljós hvernig þeim reiðir af að þessu ástandi loknu og ekki síður í ljósi þeirrar tækniþróunar sem hér hefur verið fjallað um.

***

Sem fyrr segir vitum við ekki heldur hversu lengi stjórnendur tiltekinna hlaðvarpsþátta eða óhefðbundinna þátta halda út. Hér er um að ræða einkaframtak í sinni hreinustu mynd, einn aðili eða fleiri taka sig til, fjárfesta í búnaði og byrja að framleiða efni. Einhverjir selja auglýsingar eða eru með styrktaraðila sem tilteknir eru og margir þessara þátta njóta töluverða vinsælda. Ólíkt sumum hefur enginn þeirra kvartað undan því að ríkið skuli ekki fjármagna rekstur þeirra.

***

Í framhaldi af þessu má spyrja þeirrar viðkvæmu spurningar hvort á Íslandi séu of margir fjölmiðlar.

Í grunninn þurfa fjölmiðlar, eins og önnur fyrirtæki, að lúta lögmálum hins frjálsa markaðar. Það er enginn neyddur til að reka fjölmiðil, menn hljóta að gera það af fúsum og frjálsum vilja – nú, eða í einhverjum öðrum tilgangi, til dæmis pólitískum. Hvað sem því líður er ekki hægt að gera neina kröfu um að aðrir en notendur þeirra, auglýsendur og í versta falli eigendur greiði fyrir rekstur þeirra.

***

Að lokum er ekki hjá því komist að velta fyrir sér hlutverki og tilgangi Ríkisútvarpsins (RÚV). Ef ekki væri fyrir stuðning vinstrimanna við RÚV væri búið að leggja stofnunina niður eða selja hana. Það er í raun engin þörf á því að ríkið reki fjölmiðil, hvort sem horft er til menningarsjónarmiða, afþreyingar eða fréttagildis. Það er heldur ekkert sem getur réttlætt veru RÚV á íslenskum auglýsingamarkaði í samkeppni við einkarekna. Litlar líkur eru þó á því að hróflað verði við RÚV á kosningavetri. Sá stjórnmálamaður sem ætlar að leggja í þá vegferð er annaðhvort mjög hugaður eða vitlaus.

***

Allt er þetta tákn um nýja tíma. Þúsaldarkynslóðin hefur ekki áhuga á því að halda tryggð við einn fjölmiðil umfram annan, hvað þá við eitt fjölmiðlaform umfram annað. Og af hverju ætti hún að gera það? Það er úr nægu að velja, allir geta fundið efni við sitt hæfi, hvort sem er til upplýsingaöflunar eða afþreyingar. Og ef ekki, þá geta allir framleitt sitt eigið efni.

Það eru áhugaverðir tíma að baki í fjölmiðlaheiminum en það eru ekki síður áhugaverðir tímar fram undan. Það eina sem getur tafið eða stöðvað þá framþróun er ríkisvaldið, hvort sem er með því að efla starfsemi RÚV, efla Fjölmiðlanefnd ríkisins, stofna fleiri tilgangslausa starfshópa sem eiga að greina upplýsingaóreiðu (líkt og gert var við upphaf Covid-19 faraldursins) eða reyna að koma böndum á framleiðslu einstaklinga á efni. Fjölnir hefur lært að vanmeta aldrei stefnu stjórnmálamanna sem sett er fram í góðum tilgangi.

Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.