Flokkadrættir

Það er ekkert launungarmál að klofningur er í starfi unga sjálfstæðismanna og í starfi flokksins í Reykjavík. Sá klofningur er djúpstæður og hefur verið viðvarandi í marga áratugi. Hann byggir að litlu leyti á hugsjónum en miklu meira á afstöðu til kjörinna fulltrúa flokksins og ræður oft tilviljun í hvorri fylkingunni menn lenda.
Davíð Þorláksson.

Á tímamótum eins og afmælum er gjarnan litið yfir farinn veg. Skoðað hvert við erum komin og hvernig við komumst þangað. Það er ekki síður mikilvægt, og jafnvel enn mikilvægara, að horfa fram á veginn, marka stefnuna og ákveða hvert við ætlum að fara. Ég hef gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan ég var 17 ára, eða í meira en 20 ár. Verið formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og hverfafélags, setið í miðstjórn, flokksráði, kjörnefndum og kjördæmisráði og setið í stjórn ungliðafélags, fulltrúaráðs og málefnanefnda. Ég hef tekið þátt í millilandasamstarfi við systurflokka og í starfi flestra stofnana flokksins, þó ekki í Landssamböndum sjálfstæðiskvenna og eldri sjálfstæðismanna.

Í tilefni af 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins vil ég því stinga niður penna og segja frá því hver mín sýn er á það hvert flokkurinn ætti að vera að stefna og hvaða áherslur hann ætti að hafa.

1. Landsmál

Þegar ég hef verið spurður af útlendingum hvers konar flokkur Sjálfstæðisflokkurinn er hef ég gjarnan lýst honum sem hófsömum hægriflokki eða hægri-miðjuflokki. Það verður seint sagt að hann sé hreinn hægriflokkur, frjálshyggjuflokkur eða einhvers konar öfgahægriflokkur. Í raun mætti miklu frekar segja að hann sé stærsti velferðarflokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn á mjög stóran þátt í því öfluga velferðarkerfi sem við búum við og það er vel. Í ljósi stærðar sinnar og tíðrar veru í ríkisstjórn hefur hann verið leiðandi í því hlutverki sem sósíaldemókrataflokkarnir á Norðurlöndum hafa verið. Í þeim löndum eru hægriflokkarnir yfirleitt talsvert minni og hreinni í sinni hægristefnu. Í einni setningu mætti segja að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að standa fyrir lágmörkun ríkisafskipta og þar með aukið frelsi.

Birtingarmyndir þess eru þríþættar.

1.1 Fjárhagslegt frelsi

Í fyrsta lagi ætti ætti ríkið að skipta sér sem minnst af því hvernig fólk og fyrirtæki ráðstafa fé sínu með því að lágmarka skattheimtu. Opinber útgjöld á Íslandi eru þau þriðju hæstu meðal þróaðra ríkja, eða 41% af landsframleiðslu. Það þarf miklar skatttekjur til að standa undir öllum þessum útgjöldum. Skattheimta á Íslandi er enda sú þriðja hæsta meðal þróaðra ríkja, eða 33% af landsframleiðslu. Þetta ætti að segja okkur að skattheimta gæti ekki verið meiri án þess að það hafi slæm áhrif á samkeppnishæfni útflutningsgreina okkar. Lakari samkeppnishæfni þeirra myndi svo skila sér í minni fjárfestingu og færri og ótryggari störfum, sem myndi á endanum minnka skatttekjur. Skattheimta er því í botni.

Lönd sem halda úti öflugum velferðar- og menntakerfum geta það auðveldlega með minni útgjöldum og minni skattheimtu. Öll önnur lönd sem við berum okkur saman við þurfa þó að verja talsverðu fé til hernaðarmála og í mörgum þeirra þurfa ríkissjóðir að sinna hlutverki sem lífeyrissjóðir sinna hér. Munurinn liggur í því að við nýtum fé ekki nægjanlega vel og við erum að verja of miklu fé í hluti sem eru utan þess sem ætti að skilgreina sem grunnhlutverk ríkisins; réttarvörslu, velferð, menntun og samgöngur. Gripið var til skattahækkana í kreppunni í kjölfar hrunsins 2008 sem standa að mestu óhaggaðar þrátt fyrir það góðæri sem við höfum gengið í gegnum síðustu ár. Með skattheimtu í botni, eins og rakið var að framan, erum við því ekki vel búin undir næstu niðursveiflu, sem mun óhjákvæmilega koma einhvern tímann. Á hinn bóginn hafa opinberar skuldir lækkað skarpt síðustu ár svo að ríkissjóður er að því leyti vel búinn undir niðursveifluna.

Við þetta bætist að framfarir í læknavísindum og hækkandi meðalaldur þjóðarinnar gerir það að verkum að þrýstingur á aukin útgjöld til heilbrigðismála mun halda áfram að aukast. Við erum nú að ganga í gegnum tæknibreytingar sem oft eru kallaðar fjórða iðnbyltingin. Þær breytingar kalla á að sum störf verða óþörf og önnur koma í staðinn. Það mun valda auknum þrýstingi á útgjöld til fullorðinsfræðslu, sem er stundum kölluð fjórða stoð menntakerfisins. Mikil ríkisútgjöld eru því búin að koma okkur í mjög þrönga stöðu sem á bara eftir að versna. Við munum ekki losna úr henni með flatri hagræðingarkröfu eingöngu. Þessi vandi verður aðeins leystur með tvennu.

Annars vegar breyttri forgangsröðun sem þýðir að ríkið verður að hætta að veita fé til margra þeirra málaflokka sem eru utan grunnhlutverks ríkisins og draga úr útgjöldum til annarra. Hins vegar verður að auka aga í útgjöldum til þeirra málaflokka sem eftir eru. Það þarf að gera auknar kröfur til þeirrar þjónustu sem ríkið vill fá fyrir peningana með því að gera fleiri mælanlegar gæðakröfur. Þar þarf einnig að nýta betur kosti einkarekstrar og eftirláta einkaaðilum að reka stofnanir og mannvirki sem ríkið rekur í dag, þótt ríkið haldi áfram að fjármagna þær. Þetta á sérstaklega við í velferðar-, mennta- og samgöngumálum. Forgangsröðun og agi í ríkisfjármálum er í raun stærsta velferðarmálið því það mun gera okkur kleift að sinna þeim málaflokki vel til framtíðar.

1.2 Atvinnufrelsi

Í öðru lagi ætti Sjálfstæðisflokkurinn að standa fyrir atvinnufrelsi. Fyrirtækið er ein mikilvægasta uppfinning sögunnar. Það að einstaklingar geti komið saman og myndað félag til að skapa eitthvað án þess að hætta öðru en hlutafé sínu hefur verið lykill að mörgum þeim framförum sem við höfum séð á síðustu áratugum. Þær framfarir hafa átt þátt í auknum lífsgæðum víðast hvar um heim.

Á Íslandi eru það útflutningsfyrirtæki sem eru grundvöllur lífsgæða okkar. Þau skapa störf, bein og afleidd, og standa undir skatttekjum sem gera okkur kleift að halda úti velferðarsamfélagi. Öflug útflutningsfyrirtæki eru ekki sjálfsögð. Við þurfum að hlúa að þeim. Til viðbótar við hóflega skattlagningu, eins og rakið var að framan, er mikilvægt að lagaumhverfi þeirra sé ekki of íþyngjandi.

Þar er nærtækast að líta til annarra landa á Evrópska efnahagssvæðinu. Stór hluti löggjafarinnar um íslenskt atvinnulíf kemur þaðan og stór hluti viðskipta okkar á sér stað innan svæðisins. Oft hefur Ísland ákveðið svigrúm þegar reglur EES eru innleiddar til að ákveða hversu íþyngjandi þær eiga að vera. Því miður er of algengt að meira íþyngjandi leiðir séu farnar. Meira íþyngjandi reglur auka kostnað fyrirtækja, sem minnkar um leið samkeppnishæfni þeirra. Til þess að íslensk fyrirtæki geti séð sem flestum fyrir öruggum störfum og hafi svigrúm til að borga sem hæst laun og hæsta skatta er því grundvallaratriði að lagaumhverfi þeirra sé ekki íþyngjandi í samanburði við önnur lönd. Við ættum því alltaf að fara eins lítið íþyngjandi leiðir og hægt er.

Áframhaldandi vera Íslands í EES skiptir Ísland miklu máli vegna þess aðgangs sem hún veitir íslenskum fyrirtækjum að innri markaði Evrópu. Hún gerir það líka að verkum að minni ástæða er fyrir Ísland til að ganga í Evrópusambandið. Samningurinn hefur líka fært okkur frelsi á ýmsum sviðum. Svarið við spurningunni um inngöngu í Evrópusambandið ætti að ráðast af hagsmunamati frekar en þjóðerniskennd. Það hagsmunamat breytist óhjákvæmilega eftir aðstæðum hér á landi og því hvernig sambandið þróast. Fólk getur litið þetta hagsmunamat ólíkum augum og því ætti Sjálfstæðisflokkurinn vel að geta rúmað fólk sem er hlynnt og andvígt inngöngu í ESB. Fólk sem hefur sterkar skoðanir á þessu þarf að hafa skilning á skoðunum fólks sem er því ósammála. Í mínum huga er hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins. Þar ræður mestu að mikilvægt er að við höfum áfram stjórn á sjávarútveginum.

1.3 Persónufrelsi

Í þriðja lagi ætti ríkið sem minnst að skipta sér af því hvað sjálfráða fólk aðhefst. Að sjálfsögðu með hinum hefðbundna fyrirvara um að það sé ekki að skaða aðra eða stefna þeim í hættu. Það er helst þegar kemur að neyslu, hvort sem það er á sykri, áfengi eða öðrum vímuefnum, eða kynhegðun fólks sem ríkisvöld sjá ástæðu til að skipta sér um of af fólki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á móti sykurskatti og það voru fyrst og fremst sjálfstæðismenn sem börðust fyrir því að bjórinn var leyfður. Þá hefur stefna flokksins verið að afnema einkasölu ríkisins á áfengi og þingmenn flokksins hafa lagt fram frumvörp þess efnis, þótt ekki hafi tekist að fá nægjanlegan stuðning alþingismanna til þess að klára málið. Ungir sjálfstæðismenn hafa opnað á umræðuna um að tekið verði á vímuefnavandanum með forvörnum og aðstoð við fíkla frekar en með bönnum og refsingum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið í fararbroddi þegar kemur að réttindum samkynhneigðra og hefur átt þátt í flestum þeim réttarbótum sem orðið hafa á því sviði.

Séreignarrétturinn er órjúfanlegur þáttur í frelsi einstaklings. Það sem greinir lönd með miklum lífsgæðum frá öðrum er að þar er séreignarréttur skýrt skilgreindur og verndaður. Þannig hefur það verið á Íslandi frá því að land byggðist. Séreignarstefna virðist líka rík í hugum landsmanna. Þannig myndu t.d. um 80% þeirra sem eru á leigumarkaði frekar vilja búa í eigin húsnæði. Húsnæðisstefna stjórnvalda ætti því fyrst og fremst að snúa að því að gera sem flestum sem auðveldast að eignast sitt eigið húsnæði. Annar angi þessa er að eignarhaldi á auðlindum sé best komið í höndum einstaklinga. Engir aðrir hafi meiri hagsmuni af því að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra til langs tíma.

Átakalínurnar um þetta liggja fyrst og fremst í sjávarútvegi. Þar verður flokkurinn að halda áfram að standa vörð um aflamarkskerfið og beita sér fyrir því að aflaheimildir séu varanlegar og framseljanlegar.

Það ætti ekki að vera neinn tímafrestur á persónufrelsinu. Með því á ég við að það er engin ástæða til þess að það taki bara til okkar sem áttum forfeður sem voru innflytjendur heldur ætti það líka að taka til nýrra Íslendinga. Það er ekki bara siðferðisleg skylda okkar að taka vel á móti útlendingum sem vilja koma hingað til að vinna heldur sýna rannsóknir að í þróuðum ríkjum hafa innflytjendur jákvæð áhrif á lífsgæði þeirra sem fyrir eru í landinu. Þeir sinna störfum sem væri ella ekki sinnt og þurfa að kaupa vörur og þjónustu og auka þannig hagvöxt.

2. Borgarmál

Grundvallaratriði í stefnu Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum ætti að vera að borgin sé góður og skemmtilegur staður til að búa á. Þar gilda að sjálfsögðu sömu lögmál og rakin voru að framan um lága skatta, aðhald í rekstri og einkarekstur. Það sem sameinar borgir sem skemmtilegt er að heimsækja er að þær eru þéttbyggðar og skipulag þeirra hverfist ekki um bíla. Reykjavík má því gjarnan vera þéttari en samgöngur þurfa líka að vera greiðari. Fleiri og afkastameiri mannvirki fyrir bíla munu bara auka umferð, en greiða ekki fyrir henni. Það þarf því að leggja áherslu á fjárfestingar sem gera fólki auðveldara að komast leiðar sinnar gangandi, hjólandi eða í almenningssamgöngum, t.d. með Borgarlínu. Það gagnast ekki síst þeim sem vilja fyrst og fremst keyra. Þá er mikilvægt að Reykjavíkurflugvöllur fari úr Vatnsmýrinni því þar gefst einstakt tækifæri til að byggja nýtt og þétt hverfi miðsvæðis í borginni.

3. Innra starfið

Stjórnskipulag Sjálfstæðisflokksins var búið til þegar flokkurinn var stærri og fyrir tíma stafrænna samskipta. Skipulagið er því barn síns tíma og þarfnast gagngerrar endurskoðunar. Flokkar eru verkfæri til að hrinda hugsjónum í framkvæmd. Það er því mikilvægt að verkfærið virki sem best og sé í takt við þann tíma sem á að nota það á. Flokksforystan getur nú komið skilaboðum fljótt og milliliðalaust til flokksmanna í gegnum tölvupóst og samfélagsmiðla. Það er því ekki lengur þörf á öllum þeim fjölda félaga og stofnana sem nú er innan flokksins. Þannig eru t.d. 18 sjálfstæðisfélög í Reykjavík, þar af 15 almenn hverfafélög. Þau miða við gamla hverfaskiptingu sem fáir þekkja eða skilja. Þannig eru til dæmis þrjú mismunandi hverfafélög sem ná yfir mismunandi hluta póstnúmersins 101. Sameina ætti öll hverfafélögin í eitt. Þá má velta fyrir sér hvort að hin svokölluðu málfundafélög séu ekki tímaskekkja.

Það er ekkert launungarmál að klofningur er í starfi unga sjálfstæðismanna og í starfi flokksins í Reykjavík. Sá klofningur er djúpstæður og hefur verið viðvarandi í marga áratugi. Hann byggir að litlu leyti á hugsjónum en miklu meira á afstöðu til kjörinna fulltrúa flokksins og ræður oft tilviljun í hvorri fylkingunni menn lenda. Kosturinn við þetta er að það heldur fólki á tánum í nýliðun og þetta fjölgar þeim sem skrá sig í flokkinn og sækja fundi þar sem kosningar fara fram.

Gallarnir eru hins vegar miklu veigameiri. Þetta gerir það að verkum að þegar önnur fylkingin vinnur og tekur stjórn í félagi er hin fylkingin ekki virk innan félagsins á meðan. Fólk velst einnig frekar til ábyrgðarstarfa innan flokksins á grundvelli hollustu við aðra hvora fylkinguna frekar en hæfni.

Það snýst allt um að vinna kosningar innan flokksins og valdastóla frekar en að vinna saman að því að vinna sigra í alþingis- eða sveitarstjórnarkosningum. Starfið snýst frekar um að halda röngu fólki úti en að koma góðu fólki inn. Þetta hefur líka fælt marga almenna stuðningsmenn flokksins frá því að taka þátt í starfinu. Það er ekki óeðlilegt að fleiri en einn gefi kost á sér til ábyrgðarstarfa innan flokksins og að kosið sé á milli þeirra. Það er hins vegar mjög óeðlilegt að það séu alltaf sömu fylkingarnar sem takast á og bjóða sína fulltrúa fram í þau embætti sem losna. Ég kemst ekki hjá því að játa að ég hef sjálfur tekið þátt í þessum klofningi og jafnvel átt þátt í að ýta undir hann. En ég hef í seinni tíð komist á þá skoðun, og trúi því einlæglega, að þetta verði að hætta svo að flokkurinn nái vopnum sínum í Reykjavík.

4. Að lokum

Nýjar kynslóðir kjósenda kalla á meira frjálslyndi og minni íhaldssemi. Ungt fólk virðist hafa minni áhuga á flokksstarfi en þeir sem eldri eru. Þó virðist áhugi ungs fólks á ýmsum málefnum og hvers kyns aðgerðahyggju vera mikill. Til þess að höfða betur til þessara nýju kynslóða mætti því tala meira um hugmyndafræði. Margir stjórnmálamenn eru of hræddir við það eða skortir hugsjónir til þess. Þá er mikilvægt að átta sig á því að stjórnmálaflokkar sem vilja láta taka sig alvarlega eiga ekki að elta almenningsálitið, heldur að móta það. Ekki að fylgja kjósendum heldur fá kjósendur til að fylgja sér. Hlutverk stjórnmálaflokka er að sannfæra sem flesta um að grunngildi þeirra séu best til að búa til betra samfélag.

Höfundur er lögmaður og MBA og var formaður SUS á árunum 2011-2013.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2019, undir greinaflokk um Sjálfstæðisflokk framtíðarinnar, sem birtur er í tilefni 90 ára afmæli flokksins . Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.