Áslaug Arna: Tímarnir breytast og stjórnmálin þurfa að taka mið af því

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (Mynd: HAG)

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, var kjörin á þing haustið 2016 og hefur verið áberandi í forystu flokksins á undanförnum árum. Í viðtali við Þjóðmál fer Áslaug Arna yfir stöðu Sjálfstæðisflokksins á 90 ára afmæli flokksins og mikilvægi þess að hann svari kalli um nýja tíma og nýjar áherslur og störf sín sem þingmaður. Hér birtist sá hluti úr viðtalinu.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lauk nýlega við hringferð um landið, þar sem yfir 50 sveitarfélög víðs vegar um landið voru heimsótt. Ferðin vakti mikla athygli, sérstaklega á samfélagsmiðlum, og fundir þingflokksins voru almennt vel sóttir.

„Svona hringferð gerir heilmikið, bæði fyrir þingflokkinn og þá sem komu og hittu okkur víðs vegar um landið,“ segir Áslaug Arna spurð um ferðina.

„Þingmenn nýta svokallaðar kjördæmavikur til að heimsækja kjördæmi sín og það er allur gangur á því hvers konar fundarform er notað. Við ákváðum að breyta til og gera eitthvað sem hafði ekki verið gert áður og ég held að mér sé óhætt að segja að það hafi tekist vel. Það var líka við hæfi að gera þetta stærra og veglegra en áður enda 90 ára afmæli flokksins í ár. Með þessu móti fær allur þingflokkurinn að kynnast fleiri hliðum þjóðfélagsins og fær vitneskju um þær áskoranir sem blasa við fólki á öllum aldri um allt land.“

Áslaug Arna segir að ferð sem þessi sé til þess fallin að auka nánd á milli kjörinna fulltrúa og kjósenda.

„Það er mikilvægt að kjósendur eigi greiðan aðgang að þingmönnum,“ segir Áslaug Arna.

„Við erum aldrei hrædd eða feimin við að mæta kjósendum. Það gefur fólki möguleika á samtali við þingmenn sína og ráðherra. Við tökum margt út úr svona ferð, skiljum betur áherslumál ólíkra byggða og allt leiðir þetta til þess að stjórnmálamenn læra að forgangsraða verkefnum sínum enn betur. Það var líka einstakt að heyra frá fólki hvað það er ánægt með, hvað við höfum gert sem hefur haft góð áhrif á líf þess og síðan hvað við getum gert betur.“

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að höfða til ólíkra hópa og einstaklinga

En víkjum þá að Sjálfstæðisflokknum og stöðu hans. Eins og fram kom eru nú liðin 90 ár frá stofnun flokksins. Í þessu riti Þjóðmála er birtur greinaflokkur um stöðu og framtíðarhorfur Sjálfstæðisflokksins en það verður ekki hjá því komist að spyrja Áslaugu Örnu, sem er ritari flokksins, um stöðu hans. Það verður að segjast eins og er að margir horfa til þess tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn var með 30-40% fylgi en flokkurinn mælist nú með um 25% fylgi.

„Ég skil vel að menn skuli hugsa með hlýjum hug til þess tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn var 35% flokkur en til þess að verða aftur svo stór flokkur er ekki eingöngu hægt að gera allt eins og hann gerði á síðasta áratug síðustu aldar,“ segir Áslaug Arna.

„Við erum nú með allt annan kjósendahóp og öðruvísi pólitískt landslag. Sjálfstæðisflokkurinn á erindi við alla landsmenn á öllum aldri en við þurfum samt að átta okkur á því að ekki eru allir í sama forminu. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að höfða til ungra sem aldinna, þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, kvenna og karla. Við þurfum að gæta að því að tala við alla og leyfa fjölbreytt sjónarmið.“

Þú vísar í yngri kjósendur. En eru hagsmunir ungs fólks í grunninn ekki þeir sömu og þeir voru fyrir 20 árum, að koma sér upp heimili, stofna fjölskyldu, velja sér starfsferil og svo framvegis?

„Jú, í grunninn eru þeir það en tímarnir eru samt að breytast og stjórnmálin þurfa að taka mið af því,“ segir Áslaug Arna.

 „En það er rétt að grunnþarfirnar eru oft þær sömu. Þess vegna hef ég meðal annars lagt fram frumvarp um að afnema stimpilgjöld af fasteignalánum fyrir einstaklinga. Afnám stimpilgjalda, sem eru ekkert annað en ósanngjarn skattur, er skref í því að auðvelda ungu fólki að eignast íbúð en að sama skapi gagnast það einnig eldri einstaklingum sem vilja minnka við sig. Við eigum alltaf að reyna að einfalda öll kerfi eins og hægt er og það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn á að standa fyrir – að auðvelda líf sem flestra.“

Áslaug Arna segir í framhaldinu að þó svo að grunnþarfir ungs fólks séu að mörgu leyti þær sömu og fyrir 20 árum þurfi stjórnmálin að taka mið af breyttum tímum. „Fólk vill og hefur meira frelsi en það hafði fyrir 20 árum. Við sjáum það til dæmis á vinnumarkaði en einnig í mörgu öðru,“ segir Áslaug Arna.

„En almennt vill fólk hafa frelsi og frjótt umhverfi til að skapa sína eigin hamingju og grípa þau tækifæri sem gefast. Það er hlutverk stjórnmálamanna að skapa þann grundvöll og án afskipta ríkisins, eða öllu heldur án þess að ríkið leggi stein í götu þess. Fólk hefur miklu fleiri tækifæri til að nálgast upplýsingar, mennta sig, meira svigrúm á vinnumarkaði og svo framvegis. Ungt fólk hefur líka fleiri tækifæri til að bæði mennta sig og starfa erlendis. Alþjóðavæðingin er alltaf að aukast og við þurfum að vera óhrædd við að taka þátt í henni.“

En er flokkurinn eða stefna hans gamaldags?

„Að sumu leyti er hann það en það má allt eins gera ráð fyrir því að 90 ára gamall flokkur sé á einhvern hátt gamaldags,“ segir Áslaug Arna.

„Á sama tíma stendur hann á traustum og einstökum grunni og innan hans eru aðilar sem hafa mikla og góða reynslu. Sjálfstæðisflokkurinn er ríkastur allra flokka af fólki alls staðar um land. Það er mjög dýrmætt að hafa reynt fólk innan hans og fyrir yngra fólk að geta leitað til þeirra sem eru reyndari og lært af þeim. En flokkurinn getur ekki stoppað þar, við þurfum alltaf að gæta að því að standast tímans tönn og höfða til ólíkra hópa og einstaklinga og það var einmitt það sem ég ræddi þegar ég bauð mig fyrst fram sem ritari árið 2015.“

Grunngildin enn til staðar

Áslaug Arna vísar hér til landsfundar Sjálfstæðisflokksins haustið 2015. Fyrir landsfundinn hafði ungliðahreyfing flokksins farið yfir drög að landsfundarályktunum og gert á þeim breytingar sem miðuðu að því að auka frelsi enn frekar, minnka ríkisafskipti og svo framvegis. Ungliðarnir skipulögðu vinnu sína vel og mönnuðu málefnanefndir fundarins í þeim tilgangi að vinna hugmyndum sínum brautargengi og náðu í því töluverðum árangri.

Í stuttu máli mætti segja að ungliðahreyfingin hafi gert uppreisn í málefnastarfi flokksins – og í kjölfarið á því var Áslaug Arna kjörin ritari flokksins. Nú eru liðin um þrjú og hálft ár og það liggur því beinast við að spyrja Áslaugu Örnu hvort þetta hafi á einhvern hátt haft jákvæð áhrif á stefnu og starf Sjálfstæðisflokksins.

„Já, þetta hafði jákvæð áhrif og við sáum það meðal annars í kosningabaráttu flokksins haustið 2016,“ segir Áslaug Arna.

„Þegar ég bauð mig fram var Sjálfstæðisflokkurinn að mælast með um 20% fylgi en við fengum síðan um 29% í kosningunum 2016. Þá höfðum við verið í ríkisstjórn í rúm þrjú ár og fórum inn í kosningar eftir erfiðleika í stjórnarsamstarfinu. Niðurstaða kosninganna var ánægjuleg fyrir flokkinn. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sýndi það líka eftir kosningar að hann treystir ungu fólki fyrir ábyrgðarhlutverkum. Ég varð formaður allsherjar- og menntamálanefndar og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir varð ráðherra. Við vorum báðar að koma nýjar inn á þing og ekki orðnar þrítugar.“

Áslaug Arna segir að í framhaldinu sé mikilvægt, burtséð frá einstaka persónum eða þingmönnum, að Sjálfstæðisflokkurinn sýni að hann eigi erindi við fjölbreyttan hóp kjósenda.

„Ég nefndi hér áðan að við værum gjörn á að vísa í árangur Sjálfstæðisflokksins á árum áður en við þurfum fyrst og fremst að sýna fram að við eigum erindi við nútímann og framtíðina. Því Sjálfstæðisflokkurinn og stefna hans á alltaf við. Það má nefna sem dæmi að þær áskoranir sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu standa frammi fyrir eru aðrar en þær sem íbúar landsbyggðarinnar standa frammi fyrir. Við getum talað við báða hópa en það þarf kannski að gera það með mismunandi hætti,“ segir Áslaug Arna.

Er ekki hætt við því að flokkurinn svíki sín eigin prinsipp ef hann telur sig þurfa að þóknast öllum?

„Ég er ekki að segja að við þurfum að þóknast öllum enda gengur það ekki upp,“ segir Áslaug Arna.

„Það getur aldrei verið markmið stjórnmálamanna, eða stjórnmálaflokka, að ætla sér að þóknast öllum og ná til allra. Við höfum séð þannig flokka, sem enda yfirleitt á því að ná ekki til neinna og gera ekki neitt. Sjálfstæðisstefnan á víða sterkan hljómgrunn en þó svo að 20 ára gömul slagorð séu enn í fullu gildi þarf að átta sig á því að sama efni þarf að nálgast öðruvísi í dag. Grunngildin eru alltaf þau sömu; frjáls viðskipti, minna ríkisvald, lægri skattar, einstaklingsfrelsi, öflugt atvinnulíf og þannig mætti áfram telja. Við viljum búa til gott samfélag þar sem allir hafa skilyrði og tækifæri til að athafna sig og vera sinnar gæfu smiðir. Stefna Sjálfstæðisflokksins er forsenda allra framfara í landinu. Þau skilaboð eiga erindi við alla.“

Viðtalið birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.