Einstakur árangur Armena

Skákkennsla í skólum hefur verið afar heitt efni innan skákheimsins og hefur nýr forseti FIDE, Arkady Dvorkovich, aukið mjög áherslu sambandsins á skák í skólum.

Sífellt fleiri lönd hafa eflt sína skákkennslu í skólum. Svíar hafa undanfarið verið öflugastir Norðurlandaþjóðanna og svo hafa Norðmenn mikinn áhuga á skák – en hafa þrátt fyrir að hafa sjálfan Magnús Carlsen glímt við skort á fjármagni og afþökkuðu nýlega styrk upp á 730 milljónir króna eins og við förum betur yfir hér á eftir.

Skákkennsla í skólum á Íslandi hefur lengi verið til staðar – í marga áratugi. Við eigum marga afar færa skákkennara og –þjálfara; bæði skákmenn sem hafa lagt fyrir sig skákkennslu og einnig hinn hefðbundna kennara sem hefur kennt skák samhliða annarri kennslu. Skákkennslan í skólum á Íslandi er hins vegar nokkuð tilviljunarkennd og hefur að miklu leiti stjórnast af áhuga skólastjórnenda. Er hún minna miðstýrð en víða erlendis. Fáir hafa náð betri árangri en Helgi Árnason í Rimaskóla en í augnablikinu er staðan þannig að sterkustu skákskólarnir eru flestir í Kópavogi.

Greinarhöfundur ásamt Lputian, Dvorkovich og ráðherra sem heldur á kennsluefni frá armenska skákskólanum.

Skáksambandið fékk hingað til lands í kringum síðasta GAMMA Reykjavíkurskákmót Smbat Lputian, skólastjóra armenska skákskólans. Hann hitti meðal annars menntamálaráðherra og fór yfir það sem hefur verið gerast í skákkennslumálum í Armeníu og víðar.

Engin þjóð sinnir betur skákkennslu í skólum en Armenar. Þar hefur skák verið skyldufag í skólum síðan 2011. Þessi fámenna þjóð, sem telur um tvær milljónir, er ein allra sterkasta skákþjóð heims. Þrefaldir Ólympíumeistarar.

Það er ekki nóg með að Armenar styðji við skákkennsluna af stórkostlegum krafti, heldur hafa þeir gert samhliða ýmsar rannsóknir á árangri skákennslunnar. Tæplega 20 manns við Háskólann í Jerevan hafa verið að skoða árangurinn og niðurstöðurnar eru sláandi.

Það bætir námsárangur og félagsfærni að læra skák

Undirritaður sótti í maí síðastliðnum ráðstefnu í Armeníu um skák í skólum. Þar mættu margir af helstu forkólfum skákarinnar, svo sem Judit Polgar, sterkasta skákkona allra tíma, og Nigel Short, einn varaforseta FIDE og fyrrverandi áskorandi um heimsmeistaratitilinn. Þar fór fjöldi armenskra vísindamanna yfir árangurinn af skákkennslunni auk þess sem gestir ræddu árangurinn í sínum löndum.

Niðurstaða armensku vísindamannanna er afgerandi. Það eykur námsárangur og rökhugsun að læra skák. Það hefur einnig komið í ljós að skák eykur félagsfærni og dregur um leið krakkana frá snjalltækjunum.

Í heimsókn forseta FIDE til Íslands lofaði hann meðal annars stuðningi við skákkennslu í skólum á Íslandi. Formaður skólaskáknefndar FIDE er áðurnefndur Lputian. Bæði hann og Dvorkovich eru miklir áhugamenn um skák á Íslandi og finnst landið tilvalinn vettvangur fyrir frumþróunarverkefni hérlendis sem gengi ekki síst út á það að styðja við skákkennara.

FIDE og armenski skákskólinn eru tilbúin að leggja meðal annars fram kennsluefni sem við gætum nýtt okkur til að hjálpa til við skákkennslu í skólum. Velvilji Dvorkovich og Lputian gagnvart Íslandi er augljós.

Tækifærin og grunnurinn eru til staðar. Forseti FIDE kom á framfæri loforði um stuðning við skákkennslu á Íslandi. Með stuðningi FIDE, opinberra aðila og einkaaðila getum við byggt ofan á þann góða grunn sem er til staðar.

Ekki er svo verra að í kaupbæti fylgir bættur námsárangur, meiri rökhugsun og aukin félagsfærni komandi kynslóða!

Skáksamband Noregs afþakkaði 730 milljóna styrk

Frá ráðstefnunni í Armeníu. Lputian, Polgar og Short.

Aðalfundir skáksambanda úti í honum stóra skákheimi vekja iðulega ekki mikla athygli. Það átti þó alls ekki við umaðalfund norska skáksambandsins sem fram fór 7. júlí sl.

Skáksambandið í Noregi fékk vilyrði upp á stuðning upp á 730 milljónir (50 milljón norskar krónur) gegn því að berjast fyrir því að einokun á norskum veðmálamarkaði yrði afnumin. Sá sem bauð styrkinn er maltverska veðmálafyrirtækið Kindred, sem rekur veðmálasíðuna Unibet.

Í Noregi er kerfið áþekkt og á Íslandi. Norsk tipping er þeirra Íslensk getspá og hefur einkaleyfi á veðmálum í Noregi. Danmörk og Svíþjóð hafa hins vegar leyft veðmálafyrirtækjum að starfa þarlendis en þó með ströngum skilyrðum og þau þurfa að sækja um leyfi.

Skáksambands Noregs er fyrir utan Norsk tipping, rétt eins og t.d. Skáksamband Íslands og Bridgesamband Íslands eru hérlendis. Norska skáksambandið hefur lengi verið fjárvana og sáu forráðamenn Skáksambandsins þarna frábært tækifæri til að breyta því.

Norskur skákheimur fór hins vegar gjörsamlega á hliðina þegar þetta varð ljóst. Stjórn skáksambandsins klofnaði og varaforsetinn beitti sér gegn samningum. Mörg skákfélög lýstu yfir andstöðu og sögðu að skáksambandið ætti að halda sig fyrir utan pólitísk álitamál.

Heimsmeistarinn blandar sér í málin

Þá kom til sögunnar heimsmeistarinn Magnús Carlsen. Sá var heldur betur ekki sáttur við andstöðuna við samninginn og lýsti yfir eindregnum stuðningi við hann. Sagði annað vera svik við bestu skákmenn þjóðarinnar og síðast en ekki síst framtíð skákarinnar. Flestir bestu skákmenn þjóðarinnar studdu Magnús en þó ekki allir. Þar var stórmeistarinn Simen Agdestein, fyrrverandi þjálfari Magnúsar og bróðir umboðsmanns hans, fremstur í flokki sem beitti sér mjög gegn samningum.

Magnús Carlsen var kampakátur með sigurlaunin í Zagreb – en væntanlega ekki jafn ánægður með niðurstöðu aðalfundar norska skáksambandsins.

Segja má að í grundvallaratriðum hafi norski skákheimurinn skipst í tvennt. Hinir virku skákmenn sáu aukin tækifæri sem földust í auknum fjármunum; að senda fleiri unga skákmenn á mót, ráða erlenda þjálfara og styrkja betur við efnilegustu skákmennina.

Hins vegar voru hinir almennu klúbbaskákmenn sem stjórna flestum taflfélögunum. Fyrir þá skipta auknir fjármunir í skákhreyfingunni ekki öllu máli. Þeir geta teflt sem fyrr einu sinni í viku í sínu félagi. Hinir yngri eru sjálfsagt einnig vanari því að geta veðjað þegar þeim hentar án landamæra. Muna ekki þá tíma þegar fyllti þurfti út getraunaseðla og skila inn í tæka tíð á laugardögum!

Heimsmeistarinn var alls ekki sáttur. Á meðan hann tefldi á alþjóðlegu móti í Zagreb í Króatíu, sem hann vann reyndar mjög örugglega, setti hann nokkur skeyti á Facebookspjallþráð um samninginn. Sagði afstöðu „nei-manna“ lýsa algjöru metnaðarleysi fyrir hönd skákarinnar. Heimsmeistarinn greip til þess að stofna nýtt skákfélag, Offerspill, og bauðst til að borga meðlimagjaldið til norska skáksambandsins fyrir fyrstu 1.000 félagsmennina, sem hann og gerði. Það samsvarar um átta milljónum íslenskra króna.

Allt fór gjörsamlega á annan endann í Noregi. Fjölmiðlar fjölluðu lítið um mótið í Zagreb en því meira um átökin í skákhreyfingunni og afskipti Magnúsar.

Sakaður um tilraun til valdaráns

Heimsmeistarinn var sakaður um tilraun til valdaráns og var hart gagnrýndur. Hann hafði líka leyft sér að vera ósáttur við að norska skáksambandið valdi Stafangur sem vettvang fyrir heimsmeistaraeinvígið 2020 en ekki Ósló eða Bærum, sem Magnús vildi miklu frekar. Stafangur dró að lokum tilboð sitt til baka vegna andstöðu Magnúsar. Á þessari stundu er óljóst hvort Norðmenn bjóði í einvígið, en FIDE framlengdi frestinn til að sækja um einvígið 2020 um tvo mánuði fram í september – sennilega til að gefa Norðmönnum annan möguleika á að sækja um.

Deilt var um hvort félag Magnúsar ætti að hafa atkvæðisrétt á aðalfundinum og blönduðu virtir norskir lögmenn sér í málið. Magnús var einnig sakaður um að njóta persónulegs ávinnings en neitaði því staðfastlega. Sagðist hann bara hafa hagsmuni skákarinnar að leiðarljósi, sem ég trúi að sé rétt.

Svo fór að samkomulag náðist um að félagið fengi aðeins sex fulltrúa á aðalfundinum en ekki 41 eins og meðlimafjöldinn sagði til um.

Samningurinn kolfelldur

Þegar kom að fundinum var metaðsókn og hann stóð í sex tíma. Tillagan um samninginn við Kindred var kolfelld 44-132 og ljóst var að atkvæði félags Magnúsar hefðu engu máli skipt. Forseti Skáksambandsins, Morten L. Madsen, sem var eindreginn stuðningsmaður samningsins, var hins vegar endurkjörinn forseti sambandsins.

Málið allt hefur hins vegar vakið mikla umræðu í Noregi. Íþróttamálaráðherrann þar hefur léð máls á því að skákin fái stuðning í gegnum Norsk Tipping þrátt fyrir að vera ekki í Íþróttasambandi Noregs eða mögulega beinan aukinn stuðning frá ríkinu.

Kindred náði tilgangi sínum að miklu leyti og það án þess að borga 50 milljónir norska króna. Þrýstingur á að einokun Norsk Tipping á norskum veðmálamarkaði verði afnumin hefur aukist.

Mun Kindred reyna það sama í öðrum löndum?

Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.

Aðalmynd frá Wooden Chess

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson