Hlutverk hins opinbera við eflingu nýsköpunar

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins.

Nýsköpun er ein meginforsenda framleiðniaukningar, verðmætasköpunar, samkeppnishæfni og gjaldeyrisöflunar fyrirtækja og þjóða. Markmiðið með nýsköpunarstefnu og aðgerðum í málaflokknum er að efla þjóðarbúið í harðri alþjóðlegri samkeppni um störf og verðmætasköpun. Sýn og stefna í nýsköpun er þannig ein af meginstoðum öflugrar atvinnustefnu.

Nýsköpunarstefna leggur grunninn að sköpun verðmætra starfa í dag og til framtíðar. Hún er ekki síst mikilvæg til að mæta áskorunum framtíðarinnar, hvort sem það er á sviði loftslags- og umhverfismála eða velferðarmála. Með vísindastarfsemi er fjármunum breytt í hugmyndir. Nýsköpun breytir svo þeim hugmyndum í verðmæti. Nýsköpun leysir samfélagslegar áskoranir.

Hlýnun jarðar verður ekki snúið við nema með nýjungum í framleiðslu, þjónustu og ferlum og sú áskorun sem felst í öldrun þjóða verður ekki leyst nema með nýsköpun. Innan fyrirtækja leiðir nýsköpun til nýjunga í framleiðslu, nýrrar þjónustu eða þróunar á ferlum. Með nýsköpun sækja fyrirtæki fram í samkeppni á markaði og skapa sér sérstöðu.

Efnahagslífið nýtur góðs af þessari þróun þegar ný störf verða til og aukin verðmæti. Nýsköpun í iðnaði hefur til að mynda skapað ný verðmæti í tengslum við sjávarútveg bæði með nýrri tækni til betri nýtingar hráefna betur og aukinna afkasta sem og hvernig nú er hægt að nýta hráefni sem áður fóru til spillis með líftækni. Kannski er þó mikilvægasta hlutverk nýsköpunar það að atvinnugreinar sem byggja á hugviti, hátækni og nýsköpun jafna sveiflur í hagkerfinu sem verða vegna ytri áfalla, sem leggjast oft þungt á aðrar atvinnugreinar, sérstaklega þær sem háðar eru náttúrulegum skilyrðum. Dæmi um ytri áföll geta verið aflabrestur, náttúruhamfarir eða heimsfaraldur, líkt og sá sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir um þessar mundir.

En hvert er hlutverk hins opinbera við að efla nýsköpun?

Það er fagnaðarefni að fram sé komin nýsköpunarstefna fyrir Ísland. Titill stefnunnar er „Nýsköpunarlandið Ísland“, en stefnunni er ætlað að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Stjórnvöld búa yfir ýmsum tækjum og tólum til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í atvinnulífinu. Fjárfesting í nýsköpun er ekki undanskilin. Aðgerðir stjórnvalda til að hvetja til nýsköpunar þurfa að vera markvissar og færa má rök fyrir því að áhrifaríkast sé að hafa áhrif á hegðun og ákvarðanatöku fyrirtækja en að stjórnvöld eigi síður að reka stórar stofnanir tileinkaðar ákveðnum markmiðum. Nýsköpun verður í atvinnulífi. Stjórnvöld geta stutt við nýsköpun með því að beita útfærslum í skattkerfinu, með því að hafa áhrif á hugarfar og orðræðu, með því að stíga inn þar sem markaðsbrestur er til staðar, svo sem skortur á fjármagni, og með því að tryggja að stefnur gangi í takti. Dæmi um þetta er innkaupastefna hins opinbera. Hún ætti að vera mun sveigjanlegri og samræmast markmiðum um að efla nýsköpun.

Hér verður fjallað sérstaklega um eitt þessara hlutverka, beitingu skattahvata til að örva nýsköpun.

Skattfrádráttur rannsókna- og þróunarverkefna

Stig fjárfestingar í rannsóknum og þróun í atvinnulífinu ræðst af mörgum þáttum. Fjárfesting í rannsóknum og þróun leiðir til þess að nýjar vörur koma á markað, ný tækni verður til og verðmæti skapast. Árið 2009 voru sett lög hér á landi sem veita fyrirtækjum rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni, með öðrum orðum geta fyrirtæki sem hlotið hafa staðfestingu frá Rannís fengið 20% frádrátt frá álögðum tekjuskatti af útlögðum kostnaði vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti var fyrst um sinn 100 milljónir króna. Þakið hækkaði árið 2016 í 300 milljónir króna og tvöfaldaðist síðan árið 2019 og er nú 600 milljónir króna á ársgrundvelli. Markmið laganna er að efla rannsókna- og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja hér á landi.

Með lagasetningunni árið 2009 fetaði Ísland í fótspor flestra annarra landa, en mikil samkeppni er á heimsvísu um að laða að erlenda fjárfestingu, stuðla að uppbyggingu þekkingarstarfa og auka tekjur af hugverkum (e. intellectual property). Yfirferð á stuðningsumhverfi rannsókna og þróunar í 45 ríkjum sýnir að yfir þriðjungur rýmkaði endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar árið 2018. Samkvæmt árlegri skýrslu alþjóðlega endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækisins Ernst&Young var það ár metár í kapphlaupi ríkja í skattaívilnunum vegna rannsókna- og þróunar. Öll ríki í efstu tíu sætum alþjóðlega nýsköpunarmælikvarðans (e. Global Innovation Index), sem gefinn er út af Alþjóðahugverkastofnuninni (e. World Intellectual Property Organization, WIPO), leggja áherslu á að byggja upp öflugt stuðningsumhverfi fyrir rannsóknir og þróun. Þá sjáum við jafnframt sérstakan stuðning við einstakar atvinnugreinar.

Dæmi um slíkt er endurgreiðslukerfi tölvuleikjaiðnaðar í Bretlandi, en fyrirtæki sem þróa tölvuleiki geta fengið 20% endurgreiðslu á framleiðslukostnaði tölvuleikja þar í landi. Í Kanada er gengið enn lengra og boðinn allt að 50% skattafsláttur af starfsmannakostnaði við þróun tölvuleikja, eða 25% af heildarframleiðslukostnaði, eftir því hvor talan er lægri.

Færa má rök fyrir því að opinber stuðningur við rannsókna- og þróunarstarf fyrirtækja sé fjárfesting í verðmætasköpun framtíðar. Útgjöld ríkisins vegna þessa stuðnings skila sér til baka í formi stærri skattstofns en ella, en sýna má fram á það á nokkuð einfaldan máta að slík fjárfesting skili fleiri krónum í ríkiskassann en sem nemur útlögðum kostnaði ríkisins. Nýleg könnun og greining Samtaka iðnaðarins á áhrifum af tvöföldun endurgreiðsluþaksins hér á landi árið 2019 staðfestir þetta. Fyrirtæki sem nýta sér endurgreiðslurnar hafa aukið umsvif og fjölgað verkefnum. Mörg dæmi eru um nýráðningar sem rekja má til hækkunar þaksins. Réðust fyrirtæki gjarnan í ný verkefni og settu almennt aukinn kraft í þróun á vörum og þjónustu.

Íslenska ríkisaðstoðarkerfið sem felst í lögunum frá 2009 til rannsókna- og þróunarverkefna fellur undir reglugerð Evrópusambandsins um hópundanþágur frá þeirri meginreglu að ríkisaðstoð við viðskiptastarfsemi sé óheimil. Viðurkennt er að ríkisaðstoð geti verið nauðsynleg til að standa vörð um innlend stefnumið, svo sem markmið um eflingu nýsköpunar. Enn er til staðar heilmikið svigrúm fyrir Ísland til að hækka þök á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar miðað við viðmið hópundanþágunnar.

Skynsamlegt væri því að halda áfram á þeirri vegferð að hækka þökin. Það mun hafa jákvæð áhrif á ákvarðanir íslenskra hugverka- og tæknifyrirtækja um hvar þau staðsetja og stækka rannsóknar- og þróunarverkefni og þar með stuðla að því að afrakstur nýsköpunar leiði til verðmætasköpunar hér á landi með tilheyrandi fjölgun starfa og útflutningstekjum.

Hvatar til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum

Með sérstökum nýsköpunarlögum árið 2016, þar sem fyrrgreind þök á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar voru hækkuð, voru jafnframt innleiddar skattaívilnanir fyrir einstaklinga sem fjárfesta í fyrirtækjum sem uppfylla ýmis skilyrði. Þau voru meðal annars að hjá félaginu störfuðu ekki fleiri en 25 starfsmenn og að árleg velta væri ekki meiri en 650 m.kr. Með öðrum orðum giltu lögin um fjárfestingar í sprotafyrirtækjum.

Sá hængur var hins vegar á þessari lagasetningu að skilyrði hennar, ýmis önnur en hér eru talin upp, voru of þröng. Á tímabilinu 2016 til 2018 nýttu einungis örfá fyrirtæki ákvæði laganna til að laða að fjárfestingu. Fjármála- og efnahagsráðherra lagði því fram breytingar á ákvæðum laganna á haustmánuðum 2018 og tóku þær gildi í janúar 2019. Þær eru jákvæðar og vonandi til þess fallnar að fleiri fyrirtæki geti nýtt sér þessi ákvæði. Skilyrðin voru rýmkuð og sum hver felld út. Skattafslátturinn er allt að 50% og reiknast frá tekjuskattstofni einstaklings að viðbættum fjármagnstekjum. Það munar um minna. Þátttaka almennings í fjárfestingu í atvinnulífi er hlutfallslega fremur lítil á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Þetta er áhyggjuefni. Allt sem stjórnvöld geta gert til að styðja við auknar fjárfestingar í fyrirtækjum sem eru í vexti og þarfnast fjármagns mun styðja við fjölgun arðbærra fyrirtækja og starfa í framtíðinni.

Skattaívilnanir fyrir erlenda sérfræðinga

Ein megináskorun hugverka- og hátæknifyrirtækja hér á landi er skortur á sérfræðiþekkingu, sökum smæðar. Það þarf því oftar en ekki að leita út fyrir landsteinana að fólki með þekkingu á sérhæfðum sviðum, svo sem í líftækni og hugbúnaðarþróun.

Hlutfall útskrifaðra úr svokölluðum STEMgreinum (e. Science, Technology, Engineering, Mathematics) hér á landi er einnig lágt í alþjóðlegum samanburði. Til þess að einfalda fyrirtækjum að ráða til sín erlenda sérfræðinga er mikilvægt að umgjörð og hvatar til þess séu með besta móti og að hindrunum sé rutt úr vegi eins og kostur er. Skattkerfinu má einnig, og ætti, að beita í þessa þágu.

Með nýsköpunarlögunum 2016 voru einmitt innleidd ákvæði um heimild til skattfrádráttar frá tekjum erlendra sérfræðinga. Þetta felur í sér að heimilt er að draga 25% frá tekjum, það er að segja að 75% tekna viðkomandi eru tekjuskattskyld. Gildir þetta fyrstu þrjú árin í starfi. Ýmis skilyrði þurfa að vera uppfyllt og þarf vinnuveitandi meðal annars að skila greinargerð um að viðkomandi sérþekking eða reynsla sé ekki fyrr hendi hér á landi eða í litlum mæli.

Í nýsköpunarstefnu Samtaka iðnaðarins, sem kom út árið 2019, er lagt til að skilyrðin fyrir skattaívilnun verði einfölduð og skilgreiningu á því hvaða sérfræðingar falla undir skilmálana verði breytt. Til að mynda væri hægt að takmarka skilyrðin við það að fyrirtæki sýndu fram á að ekki væri um undirboð að ræða og að laun væru í samræmi við markaðslaun í greininni. Myndi þetta liðka fyrir þessu úrræði þannig að unnt væri að nýta það í meiri mæli, í þágu þess að laða hingað til lands sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum sem mun hafa afleidd jákvæð áhrif á allt efnahagslífið.

Hugverk

Alþjóðleg samkeppni um hugvit og þekkingu er hörð. Ef Íslandi á að farnast vel í þeirri samkeppni þarf að huga að samkeppnishæfni skattkerfisins. Skattfrádráttur vegna rannsókna og þróunar er lykiltól til að hafa áhrif á umfang nýsköpunar. Jafnframt gæti verið fengur í því að skoða önnur úrræði sem mörg ríki heims beita til að efla nýsköpun og afrakstur hennar. Þar má meðal annars nefna svokallað „Patent box“.

Staðreyndin er sú að verndun og skráning hugverka sem skiptir sköpum í alþjóðlegri samkeppni hefur ekki verið ofarlega á baugi hjá íslenskum fyrirtækjum heilt yfir. Öfugt við alþjóðlega þróun fækkaði einkaleyfaumsóknum íslenskra lögaðila á síðustu 10 árum að meðaltali. Fjölmörg ríki í Evrópu og Asíu hafa á undanförnum áratugum innleitt sérstakar skattaívilnanir til fyrirtækja vegna hagnaðar sem kemur til vegna skráðra hugverka. Hafa þessar ívilnanir verið nefndar „Patent box“.

Ýmis skilyrði eru fyrir því að fyrirtæki geti nýtt sér slíka ívilnun, meðal annars að starfsemin skili hagnaði og að rannsóknir og þróun sem leiddu til einkaleyfis hafi átt sér stað hjá fyrirtækinu en sé ekki aðkeypt. Fyrirkomulagið gæti hvatt til aukinna fjárfestinga í rannsóknum og þróun hjá íslenskum fyrirtækjum ásamt því að fjölga einkaleyfaumsóknum, þar sem skýr hvati yrði til að skrá hugverk. Hugverk eru verðmæti framtíðarinnar.

Höfundur er sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins.

Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.