Kórónuveiran hefur haft djúpstæð áhrif á skáklíf landans og heimsins. Í þessum þrengingum felast þó tækifæri sem skákhreyfingin hefur notfært sér. Það hefur orðið algjör sprenging í skák á netinu, sem getur skilað sér til framtíðar í íslensku skáklífi.
Reykjavíkurskákmótinu aflýst
Sá sem þetta ritar var staddur á ársþingi FIDE í Abu Dhabi um mánaðamótin febrúar-mars. Síminn hringir 28. febrúar og við mig talar vinur minn Jón Þorvaldsson, skákfrömuður og einn forystumanna Skákfélagsins Hugins. Segir mér ábúðarmikilli röddu að fyrsta tilvik Covid-19 hafi verið greint á Íslandi og ég þurfi því að huga að því að fresta eða aflýsa Reykjavíkurskákmótinu. Mér fannst þessi varnaðarorð Jóns í fyrstu fjarstæðukennd þó að hann sé þrautreyndur ráðgjafi í krísustjórnun. Við létum sko ekki einhvern vírus stöðva sjálft flaggskip íslenskrar skákhreyfingar.
Nigel Short minnti mig á það síðar að ég hefði við kvöldverðarborðið sama kvöldið barið í borðið og sagt: „Mótið verður haldið hvað sem tautar og raular.“
Aðeins sex dögum síðar, þann 5. mars, afréð stjórn Skáksambands Íslands að aflýsa mótinu. Þrátt fyrir að samkomubann væri ekki skollið á var stjórnarmönnum Skáksambandsins þegar ljóst að mikil hætta væri á að falla yrði frá mótinu síðar eða þá að mótið yrði haldið við afar sérstakar aðstæður sem væru ekki samboðnar fjölþjóðlegum keppendum á hinu virðulega Reykjavíkurskákmóti. Betra væri að aflýsa mótinu strax til að draga úr fjárhagstjóni og óþægindum sem flestra. Sem reyndist kórrétt ákvörðun.
Þetta er í fyrsta skipti síðan fyrsta Reykjavíkurskákmótið fór fram árið 1964 að mótið er ekki haldið með reglulegum hætti. Mótin fóru fram á tveggja ára fresti fram til ársins 2008 en hafa verið haldin árlega síðan þá.
Skáksambandið var fyrsti vestræni mótshaldarinn sem tók ákvörðun um frestun/ aflýsingu jafnstórs viðburðar. Jafnframt var Íslandsmóti skákfélaga, sem átti að fara fram í mars, frestað. Síðar var svo Íslandsmóti grunn- og barnaskólasveita frestað og svo sjálfu Íslandsmótinu í skák sem átti að fara fram í mars-apríl í Garðabæ þar sem sex stórmeistarar voru skráðir til leiks.
Skáksambandsins bíður það verkefni að leysa úr því hvernig þetta mótahald fer fram þegar aðstæður leyfa.
Alþjóðlegt mótahald í uppnámi
Degi eftir að Ólympíuleikunum í Tókýó var frestað gaf FIDE það út að Ólympíuskákmótinu, sem átti að fara fram í ágúst 2020 í Moskvu, hefði verið frestað um eitt ár.
Annað alþjóðlegt mótahald er í upplausn og óljóst hvort hin ýmsu heimsmeistara- og Evrópumót fara fram í ár.
Sókn er besta vörnin
Íslensk skákhreyfing ákvað að blása til stórsóknar. Skákskóli Íslands, undir forystu Helga Ólafssonar stórmeistara, flutti sig alfarið á netið. Og þessi nýja tilhögun hefur gengið vel þótt örugglega verði snúið aftur í raunheima, a.m.k. að hluta til, þegar tækifæri býðst. Sömu sögu má segja af skákþjálfun skákfélaga.
Skákhreyfingin heldur regluleg skákmót á Chess.com. Þar eru haldin mót á öllum virkum dögum, þar sem dagskrá félaganna er að einhverju leyti spegluð. KR-mót á mánudögum og atskákmót Taflfélags Reykjavíkur á þriðjudögum, svo að dæmi séu nefnd. Skólaskákmót Íslands, sem haldin höfðu verið mánaðarlega, eru nú haldin vikulega.
Staðið hefur verið fyrir sérstökum viðburðum fyrir grunnskólanna á höfuðborgarsvæðinu og í undirbúningi er að halda kjördæmismótin á netinu. Í ljós kemur í fyllingu tímans hvort sjálft Landsmótið í skólaskák fer fram í raun- eða netheimum.
Það er mat þess sem þetta skrifar að skákhreyfingin geti jafnvel orðið sterkari eftir á en fyrir hina alþjóðlegu veirukreppu. Skáksambandið hefur tekið þá stefnu að auðsýna mikinn sveigjanleika og skákmenn læra eitthvað nýtt – sem þeir hafa kannski ekki lagt rækt við. Svo er líklegt að ungmenni, sem hefðu kannski ekki annars prófað skák, uppgötvi hve skák er skemmtileg og haldi áfram að tefla!
Áskorendamótið í Katrínarborg
Á meðan teknar voru ákvarðanir um að fella keppni niður í skák, fótbolta, handbolta, körfubolta og söng ákvað alþjóðlega skáksambandið, FIDE, að halda sínu striki og halda áskorendamótið í skák í Katrínarborg í Rússlandi. Mótið var sett 15. mars og átti að ljúka 3. apríl. Ákaflega umdeild ákvörðun sem margir gagnrýndu.
Á áskorendamótinu tefla átta skákmenn tvöfalda umferð, alls 14 skákir, um réttinn til að mæta Magnúsi Carlsen í heimsmeistaraeinvígi í skák. Áætlað var að heimsmeistaraeinvígið hæfist 21. desember nk. í Dubai. Sú tímasetning er að sjálfsögðu nú í algjörri óvissu.
Mörgum þótti að FIDE væri þarna að leika sér að eldinum. Til dæmis það eitt að Ding Liren, þriðji sterkasti skákmaður heims, væri staddur í Kína þótti ekki spennandi tilhugsun. Honum gekk illa að komast til Rússlands, þar sem vegabréfið hans var geymt hjá kínverska skáksambandinu og allt var lokað á meðan kínverski nýársfögnuðurinn gekk yfir.
Vegabréfsvandann tókst þó að leysa og Ding komst til Rússlands í tæka tíð. Þá var honum útvegað rússneskt herrasetur til afnota, þar sem hann var í einangrun í tvær vikur ásamt aðstoðarmönnum sínum, og losnaði aðeins nokkrum dögum fyrir mót.
Einn áskorendanna neitaði þátttöku
Aserinn Teimor Radjabov, einn áskorendanna átta, var alls ekki sáttur. Hann sendi erindi til FIDE og óskaði eftir því mótinu yrði frestað vegna kórónuveirunnar. Benti hann meðal annars á að a.m.k. tveir keppenda kæmu frá óöruggum stöðum, og átti þar við fyrrnefndan Ding Liren og landa hans, Wang Hao, sem hafði verið í Japan. Radjabov taldi öryggi keppenda því ekki tryggt. Jafnframt benti hann á að aðstæður gætu orðið mjög erfiðar ef einhver keppandi yrði veikur, þótt það væri bara kvef.
FIDE gaf Radjabov ákveðinn tímafrest til að ákveða sig. Þegar Aserinn gaf sig ekki kom yfirlýsing frá FIDE um að hann hefði ekki verið með vegna persónulega ástæðna. Radjabov var eðli málsins samkvæmt ekki sáttur og gerði athugasemdir við orðalagið og útskýrði af hverju hann tók ekki þátt. Varamaður Radjabov, Frakkinn Maxime Vachier-Lagrave, var kallaður til og átti eftir að setja svip sinn á mótið.
Yfir 1.000 manns á opnunarhátíð
Samkomubann var sett í Rússlandi 15. mars þar sem miðað var við 50 manna hámarksfjölda. Á setningarathöfn mótsins voru hins vegar yfir 1.000 manns og þar var tekin mynd sem fór víða og þótti mörgum benda til þess að mótshaldarar tækju ástandið ekki nógu alvarlega.
Mótið hófst svo 16. mars. Það var þá nánast eini íþróttaviðburðurinn í gangi og fékk því meiri athygli en ella. Ekki truflaði veiran keppendur á beinan hátt á mótsstað en hún hafði samt sem áður mikil áhrif á mótshaldið.
Kínverjinn Wang Hao lýsti þeirri skoðun að hann teldi að rétt hefði verið að fresta mótinu. Alexander Grischuk lýsti yfir svipuðu og sagði skákmönnunum líða illa við að tefla við þessar aðstæður. Fabiano Caruana, næststigahæsti skákmaður heims og stigahæsti keppandi mótsins, talaði um að hann væri ekki öruggur að komast aftur til Bandaríkjanna vegna takmarkana á flugi þangað.
Ian Nepomniachtchi (Nepo) varð veikur fyrir sjöttu umferðina og fékk þurran hósta. Hann var prófaður tvívegis og reyndist vera með venjulegt kvef. Það breytti því ekki að hann vann Ding Liren og hafði vinningsforskot eftir umferðina. Ding Liren var hins vegar heillum horfinn og ljóst að tveggja vikna einangrun hafði haft áhrif á form hans. Ding tefldi nýlega 100 skákir í röð án taps en hafði tapað þremur skákum á mótinu. Nepo sjálfur gerði athugasemdir við mótshaldið og sagði aðstæður fjandsamlegar þrátt fyrir að vera efstur.
Nepo mætti svo varamanninum franska Maxime Vachier-Lagrave í sjöundu umferð og tefldi franska vörn. Afbrigðið sem hann tefldi hefur meira að segja númerið C19. Ekki vænlegt til árangurs enda sá Rússinn ekki til sólar og tapaði sannfærandi.
Þegar mótið var hálfnað voru Vachier- Lagrave og Nepo efstir með 4½ vinning. Höfðu vinningsforskot á næstu keppendur. Staða Frakkans er sterkari, þar sem innbyrðisúrslit eru fyrstu oddastig fái keppendur jafnmarga vinninga.
Mótið skyndilega stöðvað
Anish Giri lýsir því svo að hann hafi verið að undirbúa sig á hótelherbergi sínu um kl. 12 þann 26. mars, þar sem hann átti að mæta Nepo í áttundu umferð kl. 16. Þá hringir síminn. Stúlka úr mótsnefndin segir honum að mótið hafi verið stöðvað, þar sem Rússar séu að loka landinu, meðal annars fyrir flugumferð. Keppendur séu hvattir til að taka saman og undirbúa sig fyrir brottför.
Giri bregst fljótt við, kaupir flug sem fór 2½ klukkustund síðar, pakkar saman og tekur leigubíl út á flugvöll þar sem hann tók áætlunarflug til Amsterdam. FIDE útvegaði leiguflug og svo fór að aðrir keppendur og starfsmenn komust allir naumlega úr landi áður en því var lokað, reyndar eftir alls konar tafir og óþægindi.
FIDE sýndi mikinn dómgreindarskort með mótshaldinu. Forystumenn þess sögðu að ástandið hefði alls ekki verið svo slæmt við upphaf mótsins en flestum var samt ljóst að stefnt gæti í óefni. Keppendur, sem höfðu barist um sætin átta, létu sig hafa að mæta til leiks missáttir að einum undanskildum sem mætti ekki.
Hvað gerist næst?
FIDE gaf það upp fyrir mót að ef til stöðvunar kæmi myndi staðan halda sér og mótinu yrði fram haldið við fyrsta tækifæri. Samþykktu keppendur það á tæknifundi fyrir mót.
Radjabov er alls ekki sáttur við þá niðurstöðu og vill að mótið byrji frá grunni enda hafi kvörtun hans fyrir mót verið réttmæt. Margir hafa tekið undir þá kröfu hans og meðal annars hefur verið birt opið bréf frá aserskum landsliðsmönnum. Fjórtándi heimsmeistarinn, Vladimír Kramnik, gagnrýndi það mjög að mótið hefði farið fram.
Aðrir telja það fráleitt og þar er fremstur í flokki varamaðurinn og forystusauðurinn, Maxime Vachier-Lagrave. Magnús Carlsen er sömu skoðunar og gagnrýnir Radjabov fyrir að hafa ekki tekið þátt. Ákvörðun hans lýsi ekki miklum vilja til þess að verða heimsmeistari. Mörgum finnst heimsmeistarinn þarna vera allt of harðorður.
Sjálfum finnst mér það líklegast að mótinu verði fram haldið. Það liggur í mannlegu eðli að margur á afar erfitt með að viðurkenna mistök, eins og lægi í raun fyrir ef FIDE hæfi mótið upp á nýtt.
Þess í stað er líklegt að Radjabov fái einhverjar skaðabætur. Ekki er ólíklegt að hann fái keppnisrétt í næsta áskorendamóti sem á að fara fram árið 2022 – ef það mót færist þá ekki til. Líklega hefur staðan á hinu stóra alþjóðlega skákborði aldrei verið flóknari en einmitt nú.
Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.
—
Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.