Í þeim heimsfaraldi sem ríkt hefur breyttist margt í skákheiminum. Allt skákmótahald í raunheimum féll niður og netskákin tók völdin. Gjörsamlega. Skák í raunheimum endaði með hvelli þegar áskorendamótinu í Katrínarborg var lokið með hvelli eins og fjallað var um í síðasta tölublaði Þjóðmála.
Flott og sterk netskákmót voru haldin og t.d. stendur heimsmeistarinn, Magnús Carlsen, fyrir skákmótasyrpu á Chess24-skákþjóninum þar sem flestir sterkustu skákmenn heims hafa verið að tefla. FIDE stóð ásamt Chess. com-þjóninum fyrir Þjóðakeppni þar sem Kínverjar unnu sigur. Mikið og öflugt skáklíf hefur verið innanlands og margir sterkir og skemmtilegir viðburðir haldnir.
Ofurmót Magnúsar
Magnús Carlsen er einn eigenda Chess24- skákþjónsins. Þar hefur verið staðið fyrir fimm móta syrpu sem ber nafnið Magnus Carlsen Tour og hafa flestir sterkustu skákmenn heims látið ljós sitt skína. Sjálfsagt hefur Magnús ætlað sér sigur í þeim öllum en það fór öðruvísi í móti númer tvö þegar hann tapaði fyrir Hikaru Nakamura í undanúrslitum. Rússinn Daniil Dubov vann svo Nakamura í úrslitum.
Þjóðakeppni FIDE
FIDE stóð fyrir þjóðakeppni á Chess.com þar sem flestir sterkustu skákmenn heims tóku þátt – nema heimsmeistarinn. Vegna eignarhluta síns í Chess24 var Carlsen ekki spenntur fyrir taflmennsku á Chess.com. Þar var honum reyndar aðeins boðið það sama og öðrum skákmönnum, sem heimsmeistaranum þótti alls ekki sjálfgefið og hefur ýmislegt þar með sér. Hann er auðvitað langdýrmætasti og vinsælasti skákmaður heims. Kínverjar unnu mótið eftir að hafa lagt Bandaríkjamenn í úrslitum.
Evrópumótið í netskák
Skáksamband Evrópu hélt EM í netskák. Þar var teflt í ýmsum riðlum. Fyrst tefldu þeir stigalægstu í undanrásum. Þeir efstu komust í úrslitakeppni og þeir efstu í henni komust í næsta flokk að ofan og svo koll af kolli. Ríflega 4.000 keppendur tóku þátt í mótinu, sem hafði samt sína galla eins og við fjöllum um hér síðar í greininni.
Íslandsmótið í netskák
Netskák á Íslandi blómstraði sem aldrei fyrr. Íslendingar eru reyndar fyrsta þjóðin sem hélt landsmót í netskák, en það var árið 1995. Mótið hefur síðan þá verið haldið flest ár en í gegnum tíðina á vegum Taflfélagsins Hellis og síðar Skákfélagsins Hugins. SÍ hélt nú mótið í fyrsta skipti.
Mótshaldið gekk frábærlega og tóku 120 skákmenn þátt. Hjörvar Steinn Grétarsson vann sigur á mótinu með sigri á Vigni Vatnari Stefánssyni í úrslitaeinvígi. Brim studdi myndarlega við mótshaldið.
Skáksambandið stóð fyrir Norðurlandamóti skákfélaga þar sem fjöldi norrænna klúbba tók þátt. Þar vann SSON (Skákfélag Selfoss og nágrennis) sigur. Víkingaklúbburinn varð í öðru sæti.
Skáksambandið stóð einnig fyrir Íslandsmótinu í netskappskák og nethraðskákkeppni skákklúbba svo dæmi séu tekin.
Landsmótið í skólaskák, sem á sér sögu síðan 1979, var að þessu sinni haldið á netinu!
Dekkri hliðar netskákar
Hér höfum við skoðað það sem tekist hefur vel. En ekki er allt fullkomið í heimi netskákarinnar.
Einu sinni var mannsheilinn betri en tölvuheilinn í skák – en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Maðurinn á í dag ekki mögulega gegn skákreiknum. Og venjulegir skákreiknar eiga svo ekki erindi í Alpha Zero, sem byggir á tölvugreind, en það er önnur saga. Lærði skák með því einu að tefla við sjálft sig.
En það hvað skákreiknar eru miklu sterkari en mannfólkið hefur því miður boðið upp á freistingar. Ýmsir freistast til að hafa skákreikni nálægt sér þegar þeir tefla. Jafnvel er hægt að biðja Nonna frænda að vera með skákina í öðru tæki og koma upplýsingum á framfæri.
Vandamálið eykst þegar verðlaun eru í boði.
Skákþjónar leggja mikla áherslu á að reyna að stöðva þetta. Prófessorinn og alþjóðlegi meistarinn Kenneth Regan hefur útbúið algóritma sem eru býsna góðir við að grípa svindl – hvort menn tefla óeðlilega líkt og tölva. Chess.com hefur fjölda starfsmanna til að reyna að koma í veg fyrir það. Þeir grípa t.d. inn í ef menn tefla allt í einu of vel.
Vandamálið er þó að þótt menn þykist vita með mikilli vissu er sönnunarbyrðin alltaf þung. Netþjónar Chess.com hafa þá einnig farið að útiloka menn frá þátttöku á líkum.
Á EM í netskák þurftu allir að skrá sig undir fullu nafni og FIDE-kennitölu. Það dugði því miður ekki til. Allt var morandi í svindli – sérstaklega í neðstu flokkunum. Í úrslitakeppnum var komin skylda um að vera tengdur við Zoom. Það leysir ekki vandann fullkomlega en gerir allt svindl erfiðara.
Það er auðvelt að ná þeim sem svindla allan tímann en nánast ómögulegt að ná þeim sem kannski fá ráðleggingu 1-2 sinnum í skák.
Hvað er til ráða? Í Þjóðakeppni FIDE var 360 gráðu myndavél. Að vera með slíkt á alla keppendur á stórum mótum er væntanlega óraunhæft.
Mögulegt er að hafa skákmiðstöðvar. Segjum t.d. að keppendur á alþjóðlegu móti gætu tekið þátt og til staðar væru nokkrar miðstöðvar. Til dæmis í Reykjavík, London, New York, París og Moskvu. Í stað þess að 200 erlendir keppendur ferðuðust alla leiðina til Reykjavíkur til að taka þátt í Reykjavíkurskákmótinu gætu þeir teflt frá miðstöð í heimalandi sínu. Þar þyrfti reyndar að hafa skákstjóra yfir þeim.
Það er nú samt þannig að flestum finnst skemmtilegra að horfa framan í andstæðinginn! En frábært að geta teflt heima hjá sér á netinu í tölvunni eða snjalltækinu!
Kraftaverk netskákarinnar
Þótt hér að ofan hafi verið einblínt á gallana verður að benda á það jákvæða. Netskákin reyndist frábærlega í heimsfaraldrinum. Skákþjálfarar gerðu sumir hverjir kröfur til nemenda sinna á meðan þetta ástand varði um að þeir tefldu a.m.k. ákveðinn fjölda netskáka á dag/viku.
Það var t.d. ljóst að þeir sem sinntu skákinni vel í kófinu komu vel undan þegar skákstarf hófst aftur í raunheimum í maí.
Æfingar unglingalandsliðsins (u25) og kvennalandsliðsins hafa farið fram á netinu og Zoom verið notað. Það gekk framúrskarandi vel og á því verður framhald.
Vegur netskákar á eftir að aukast. Ólympíuskákmótið féll niður í ár en FIDE stendur fyrir ólympíumóti á netinu í ágúst. Það verður áhugaverð tilraun. Þar tefla blönduð lið, karlar, konur og unglingar af báðum kynjum. EM ungmenna í netskák fer fram í september. Þar geta skáksambönd sent allt að 24 fulltrúa.
Mótahald er að mjakast af stað í Evrópu. A.m.k. 14 alþjóðleg skákmót eru komin á dagskrá í sumar, sem er að sjálfsögðu mjög lítið miðað við það sem er í hefðbundnu árferði. Staðbundin mót verða þess í stað algengari. Sum lönd gera kröfur um að teflt sé með grímu.
Fram undan er Íslandsmótið í skák sem fram fer í Garðabæ í ágúst. Og alþjóðlegt minningarmót um Sigtrygg Sigtryggsson glímukappa verður haldið í haust ef ástand leyfir. Íslandsmót skákfélaga fer fram í október. Hápunktur næsta skákvetrar verður Evrópumót einstaklinga sem verður hluti af Reykjavíkurskákmótshátíðinni í apríl 2021. Svo verður slatti af netskák í góðu blandi.
Skemmtilegur skákvetur fram undan!
Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.
—
Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.