„Lestir eru verk sem skaða gerendurna sjálfa eða rýra eignir þeirra. Glæpir eru verk sem skaða aðra en gerendurna eða rýra eignir þeirra.“
Þetta segir Lysander Spooner í upphafi bókarinnar Löstur er ekki glæpur í þýðingu Tómasar Brynjólfssonar. Þetta eru skilgreiningar sem allir ættu að skilja og virða. Þetta er auðveldur sannleikur. Það er sjálfsagt að einstaklingur geri það sem hann vill svo lengi sem hann skaðar ekki aðra.
Ég er dyggur stuðningsmaður einstaklingsfrelsis. Margir flokksfélagar mínir eru á því máli að einstaklingsfrelsi skipti öllu máli, upp að marki. Flestir íslenskir stjórnmálamenn eru fylgjandi einstaklingsfrelsi, þó aðeins í orði, því hvað eftir annað hefur ríkið með lagasetningum takmarkað eða hindrað framkvæmd einstaklings innan þess frelsis sem hann hefur með sjálfræði sínu.
Forræðishyggja virðist ráða ríkjum innan íslenskra stjórnmálaflokka og þeir treysta ekki hinum almenna borgara til þess að ráðstafa sínu eigin lífi eftir sínum vilja. Það er sorglegt að hinir löngu armar ríkisvaldsins fái að teygjast enn lengra við hvert tækifæri og með því tilheyrandi kostnaður sem bitnar á skattgreiðendum.
Lestir einstaklinga eru margvíslegir og sumir þeirra eru skilgreindir sem glæpir, þó að fjarvera glæpsamlegs ásetnings eigi við um þá flesta. Rétt eins og Lysander segir:
„Þeir sem lifa lastalífi gera það sér til ánægju en ekki af meinfýsni í garð annarra.“
Lestir eru persónugallar einstaklinga, þeir eru allir skyldir við dauðasyndirnar sjö, hroka, öfund, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúðlífi. Mér sem ungum sjálfstæðismanni þykir það miður að við kjósum að refsa, beita ofbeldi og frelsissvipta fólk því það hafi látið freistast til þess að láta undan löstum sínum. Á sama tíma fá einstaklingar með aðra lesti jákvæða athygli, umfjöllun og hrós því lestir þeirra eru samþykktir af samfélaginu.
Ég vil sjá breytingar gerðar á dómskerfinu og ég vil aukið frelsi einstaklingsins – því löstur er ekki glæpur.
Höfundur er formaður Týs, Félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi.
—
Greinin birtist í vorhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2020. Heimildarskrá er að finna í prentútgáfu blaðsins.
Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.