Hvernig vinstrimenn bjuggu til grýlu úr Jordan Peterson

Yfirgengileg viðbrögð við nýjustu bók Petersons eru úr öllu samhengi við það sem hann hefur raunverulega sagt. (Mynd: VB/HAG.)

Á undanförnum vikum hafa gagnrýnendur Jordan Peterson gert sitt ýtrasta til að auglýsa væntanlega bók hans, Beyond Order: 12 More Rules for Life. Sálfræðingurinn og rithöfundurinn margfrægi tilkynnti útgáfu bókarinnar á YouTube-rás sinni í lok nóvember og voru ekki nema nokkrar klukkustundir liðnar þegar búið var að fordæma bókina víða á samfélagsmiðlum fyrir hatursfullt innihald. Þetta er töluvert afrek sammannlegs ímyndunarafls í ljósi þess að enginn hefur enn lesið bókina.

Hamagangurinn hefur ekki síst stafað af því að starfsmenn hins kanadíska hluta útgefandans, Penguin Random House, hafa krafist þess að hætt yrði við útgáfu bókarinnar. Eftir að margar kvartanir voru lagðar fram mættu þeir yfirstjórnendum á fundi þar sem sumir starfsmannanna brustu í grát og sögðu frá því hvernig hinn illgjarni prófessor Peterson hefði valdið þeim tilfinningalegu tjóni með „erfiðum“ skoðunum sínum. Samkvæmt grein í Vice „ræddi einn starfsmaður hvernig Peterson hefði snúið föður [starfsmannsins] til öfgakenndra skoðana og annar ræddi um það hvaða neikvæðu áhrif útgáfa bókarinnar myndi hafa á kynsegin vin sinn“.

Þetta er einungis nýjasta dæmið um þá tísku að aðgerðasinnaðir starfsmenn hóti verkfalli af hugsjónaástæðum. Nýlega kröfðust starfsmenn hljóðstreymisveitunnar Spotify ritstjórnarvalds yfir nýfenginni hlaðvarpsröð Joe Rogan, eftir að þeim hafði tekist að fjarlægja fjölda þátta sem þeir töldu orka tvímælis. Þá hótuðu starfsmenn útgáfurisans Hachette að ganga út eftir að tilkynnt var væntanleg barnabók JK Rowling, The Ickabog. Allar þessar hallarbyltingar mistókust, væntanlega vegna þess að Rowling, Rogan, Peterson og þeirra líkar eru of vinsæl til að skrúfað verði fyrir þau. Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að verr gæti farið fyrir minni spámönnum.

Í gagnrýni minni um 12 Rules for Life fyrir Spiked (sem birt var við hlið andstæðrar greinar eftir Luke Gittos) ritaði ég að fólk sæi tvær hliðar á Jordan Peterson. Annars vegar væri „sálfræðiprófessor við Háskólann í Toronto sem hefur sérstakan áhuga á trúarlegum og hugmyndafræðilegum skoðanakerfum“ og hins vegar væri „alræmdur eldibrandur hins nýja hægris … transfóbískur æsingamaður sem fyllti fyrirlestra sína af hatursræðu“. Eins og ég benti á er aðeins önnur þessara ímynda raunveruleg.

Hinar illskeyttu árásir á Peterson sem við höfum séð á samfélagsmiðlum undanfarið eru afleiðing eins konar múgsefjunar. Hann hefur verið sakaður um að bera í bætifláka fyrir nasismann og verið kallaður fasisti af fólki sem þekkir ekki til verka hans en hefur lesið greinar þar sem ráðist er á Peterson og einstaka tilvitnanir eru teknar úr samhengi. Hann er oft kallaður öfgahægrimaður, jafnvel þótt grunngildi raunverulegra öfgamanna til hægri – að telja kynþátt eða þjóð öðrum æðri, styðja alræði og dýrka ríkisvald – séu algjörlega andstæð heimssýn Petersons. Margir gagnrýnendur hans hafa reynt að víkka út skilgreininguna á öfgastefnu til hægri – með því að fella inn í skilgreininguna menningarlega íhaldssemi, trúna á mikilvægi ábyrgðar einstaklingsins og meðvitund um líffræðilegan kynjamun – svo að hægt sé að setja þann merkimiða á Peterson. Þetta jafngildir því að setja plasthorn á bolabít svo að hægt sé að kalla hann skrímsli.

Vissulega eru aðrir þættir útbreiddir meðal öfgamanna til hægri: hatur á samkynhneigðum, kynjamismunun og önnur afturhaldssjónarmið. En að brennimerkja nokkurn mann sem öfgahægrimann á grundvelli þessara þátta eingöngu – sérstaklega þegar þeir eru ímyndaðir frekar en studdir gögnum – er tegund stjórnmálalegs ólæsis. Andstaða Petersons við femínisma er vel kunn og það er vel hægt að gagnrýna og rökræða gildi skoðana hans á þeim vettvangi. En jafnvel þótt hægt væri að sýna fram á að þau jafngildi karlrembu væri það ekki nóg til að kalla hann hægriöfgamann. Ef sú væri raunin væri ekki lengur hægt að gera greinarmun á Benny Hill og Hermann Göring.

Einbeittur viljinn til að mistúlka hugmyndir Petersons líkist æsingnum kringum JK Rowling, en samúðarfullum og blæbrigðaríkum viðhorfum hennar um hvernig kynjagagnrýninn femínismi og aðgerðastefna transfólks rekast á hefur verið tekið sem sönnun þess að hún sé sjálfur skrattinn holdi klæddur. Þessi skrímslavæðing fólks í sviðsljósinu, sem er byggð á afar veikum grunni, er til merkis um menningarlegt og vitsmunalegt máttleysi sem væri óviturlegt að leiða hjá sér. Það eru ýmiss konar ástæður til að taka stöðu gegn skoðunum Petersons, en af hverju er það orðið svo mörgum erfitt að rökræða gegn honum án þess að fara út í ungæðislega rökleysu?

Lítum á orð óbreytts starfsmanns hjá Penguin Random House. Peterson er að sögn hans „táknmynd hatursorðræðu og transfóbíu“ og „táknmynd hvítrar yfirgangsstefnu, burtséð frá innihaldi þessarar bókar“. Þegar óskað er frekari útskýringa á slíkum yfirlýsingum telur fólk sig undantekningalaust geta lýst illum ásetningi Petersons, en að gera hugmyndafræðilegum andstæðingum sínum slíkt upp sannar ekkert nema óskhyggju mælandans. Þetta er ástæða þess að ásakanir um „hundaflautur“ – að gefa leynimerki sem aðeins fylgjendur geta heyrt – eru svo algengar. Eins og einn af andstæðingum Petersons orðaði það á Twitter: „Eitt sem Peterson gerir reglulega er að kasta beinum til fylgjenda sinna í öfgahægrinu og blikka þá, með loðnum eða tvíræðum frösum sem gera honum kleift að segja síðar að auðvitað hafi hann ekki meint ÞETTA.“ Það krefst ágengrar tegundar af sjálfhverfu að gefa sér að maður geti lesið í leyndustu hugarfylgsni annarrar manneskju á grunni þess eins að hafa ákveðið að þannig sé málum háttað.

Fólk sem telur að hætta eigi við útgáfu allra bóka sem það er ósammála ætti ekki að helga sig útgáfustörfum; þetta ætti að vera morgunljóst. Við verðum að gera okkur grein fyrir þessum nýja raunveruleika, að til er fjöldi fullorðins fólks, með háskólamenntun, sem skilur ekki gagnrýna hugsun og skortir grunnhæfni til rökræðna. Það sem er enn verra er að margar af grófustu árásunum á Peterson – þar á meðal að hæðast að honum fyrir að ánetjast lyfinu bensódíasepíni í kjölfar þess að eiginkona hans var greind með krabbamein – koma frá fólki sem telur sig vera samúðarfullir og dyggðugir riddarar réttlætis. Ef slíkt fólk telur sig í alvöru vera „réttu megin í sögunni“ er framtíð mannkyns ekki björt.

Lykilkenning Petersons er að lífið sé óbærilegt án tilgangs, sem sé aftur hægt að finna með persónulegri ábyrgð og með því að taka stjórn á eigin lífi. Hann trúir því að siðmenning og samfélög hrynji ef ekki er viss formgerð til staðar, og þess vegna eigi uppeldi barna að vera í samræmi við þau siðferðilegu viðmið sem við setjum sjálfum okkur. Hann telur að vísindi og tækni hafi bætt líf okkar en fullnægi ekki þörf okkar fyrir tilgang, sem er ástæða þess að í skrifum hans er áhersla á sögur sem koma fyrir í fornum siðum og trúarbrögðum. Peterson heldur því fram að í þessum sögum felist viska jafnvel þótt yfirnáttúrulegir þættir þeirra eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Ef þér líkar ekki við þessar skoðanir geturðu alltaf boðið fram þína skoðun eða valið að lesa ekki verk Petersons. Ef þú finnur þörf fyrir að búa til strámann, eða fullvissa þig um að hann sé „hægriöfgamaður“ eða „næsti bær við fasisma“ til að réttlæta andstöðu þína, hefurðu engan rétt á að kvarta ef fólk tekur þig ekki alvarlega. Það er ekki sæmandi ábyrgum borgurum í siðuðu samfélagi að öskra fúkyrði á þá sem kunna að meta skrif Petersons, hvað þá að krefjast þess að hætt sé við útgáfu bókar hans. Ef þér líkar ekki við verk hans – hvort sem það er vegna inntaks þeirra eða vegna þess hvernig þú ímyndar þér að þau séu – ekki kaupa þá bækurnar hans. Þá er vandamálið leyst.

Við þurfum að spyrja okkur hvernig við höfum komist í þá stöðu að fullorðið fólk sé tilbúið að meðtaka svona fjarstæðukenndar lýsingar á fólki í þjóðmálaumræðunni, án þess að reyna einu sinni að kynna sér hvað það segir og hugsar í raun og veru. Við þurfum að leiðrétta þá útbreiddu sögulegu vanþekkingu sem hefur gengisfellt hugtökin „nasisti“ og „fasisti“ og gert þau að merkingarlausum hrakyrðum. Við þurfum að hefja gagnrýna hugsun aftur til vegs og virðingar í menntakerfinu til að vinna gegn þeirri hnignun opinberrar og pólitískrar orðræðu sem er að eiga sér stað. Við þurfum að íhuga ástæður þess að nokkur manneskja yfir 16 ára aldri telji að móðganir séu skilvirk leið til andmæla. Þetta snýst ekki bara um Jordan Peterson; þetta snýst um þá múgsefjun sem hann vekur í vanþróuðu samfélagi. Eitthvað verður að breytast.

Andrew Doyle er grínisti og dálkahöfundur fyrir Spiked.

Greinin birtist upphaflega á vef Spiked en var, með góðfúslegu leyfi, birt í íslenskri þýðingu í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.