Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), skrifaði áhugaverða grein í Markaðinn í vikunni. Greinin birtist í kjölfar umræðu þar sem hvatt er til hækkun atvinnuleysisbóta. Anna Hrefna bendir réttilega á að væntanlega muni sú umræða halda áfram í haust þegar skammtímaúrræði ríkisstjórnarinnar taka enda og efnahagslægðin dýpkar enn yfir landinu. Einnig segir hún að hugmyndir um hækkun bótanna sé þó nauðsynlegt að skoða í samhengi við aðrar stærðir og með tilliti til þess hver langtímaáhrifin gætu orðið fyrir ríkissjóð og samfélagið allt.
„Fjöldi rannsókna hefur sýnt að háar bætur í samhengi við laun á vinnumarkaði dragi úr hvata til atvinnuleitar og hafi þannig áhrif til aukins atvinnuleysis með tilheyrandi útgjöldum úr sameiginlegum sjóðum. Einnig hefur verið sýnt fram á að það sé samband milli lengdar bótatímabils og lengdar tímabils atvinnuleysis,“ segir Anna Hrefna í grein sinni.
„Það er því ekki einungis undir atvinnurekendum komið að skapa störf heldur þarf að vera nægur hvati til staðar fyrir fólk í atvinnuleit til að ganga í þau störf sem í boði eru. Nýleg dæmi innanlands benda til vandamála þessu tengdu, en á tilteknum ferðamannastöðum í júlí reyndist þrautin þyngri að fá fólk í vinnu þrátt fyrir mikið atvinnuleysi á svæðinu.“
Daginn eftir að greinin birtist fór Anna Hrefna nánar yfir málið í viðtali í útvarpsþættinum Bítínu á Bylgjunni. Þar benti hún réttilega á að mörg ríki hefðu lent í vandræðum vegna loforða um hærri atvinnuleysisbætur enda ófyrirséð hver útgjöldin verða og hvernig þau eru fjármögnuð. Þá kom einnig fram í máli hennar að bætur hér á landi væru með því hæsta sem gerist meðal OECD ríkja.
Ríkisútvarpið, sem er sem kunnugt er ríkisfjölmiðill og stærsti fjölmiðill landsins, brást hratt við málinu enda gengur það ekki að slík sjónarmið fái að standa óáreitt. Í Speglinum, sem er einn útbreiddasti fréttaþáttur landsins, hafnaði Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ), þeim ummælum að hækkun atvinnuleysisbóta dragi úr hvata fólks til að finna sér vinnu og geti þannig aukið atvinnuleysi. Ólíkt Önnu Hrefnu vísaði Henný þó ekki í nein gögn, rannsóknir eða annað ítarefni.
Nú er það ekki svo að skoðanir eða fullyrðingar starfsmanna SA séu hafnar yfir gagnrýni. Þær má ræða á yfirvegaðan hátt og öllum er frjálst að mótmæla þeim eða leggja fram önnur sjónarmið. Það eru þó ekki allir sem fá að nýta Ríkisútvarpið í þeim tilgangi. Þeir sem aðeins treysta fréttaflutning ríkisfjölmiðilsins fengu því aðeins að heyra sjónarmið ASÍ enda engin tilraun gerð til að leita sjónarmiða SA.
Í lögum um um Ríkisútvarpið ohf. er skýrt kveðið á um skyldu til óhlutdrægni og fyllstu hlutlægni í allri umfjöllun og fréttaflutningi. Það þarf nokkuð frjálsa túlkun á lögunum til að kalla ASÍ til í þeim tilgangi að leiðrétta málflutning SA. Það er full ástæða til að gagnrýna þessi vinnubrögð Ríkisútvarpsins.