Sannleiksráðuneytið, falsfréttir og ótraustar fréttaveitur

Tilraunir ríkisvaldsins til að hafa áhrif á fréttamat almennings og það hvar fólk aflar sér upplýsinga eru í besta falli gagnslausar en það eru líka ákveðnar hættur fólgnar í slíkum tilburðum.

Þegar þetta er skrifað eru þrír mánuðir síðan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir að heimsfaraldur kórónuveiki væri brostinn á. Þá þegar voru á kreiki samsæriskenningar um eðli og tilurð veirunnar sem fengu byr undir báða vængi þegar milljónir fóru að óttast um líf sitt og frelsi. Fólk af asísku bergi varð fyrir aðkasti vegna kenninga um að útbreiðsla veirunnar væri þáttur í meintri heimsvaldastefnu Kínverja. Á nokkrum stöðum voru framin skemmdarverk á farsímamöstrum eftir að hugmyndir um tengsl milli kórónuveirunnar og farsímaneta komust í hámæli.

Auk samsæriskenninga flæddu vafasöm sóttvarna- og lækningaráð yfir internetið. Svindlarar nýttu sér óttann og óvissuna til að markaðssetja snákaolíu og einhver hélt því fram að hægt væri að drepa veiruna með því að innbyrða klór.

Hugmyndir af þessu tagi voru snarlega leiðréttar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin brást við og heilbrigðisyfirvöld víða um heim sendu út upplýsingar um hegðun veirunnar og vöruðu við skaðlegum húsráðum. Um allan hinn vestræna heim lögðu fjölmiðlar sig fram um að leiðrétta rangfærslur. Vinsælir þáttastjórnendur fjölluðu sérstaklega um falsfréttir með áherslu á klórdrykkjukenninguna, listamenn, stjórnmálamenn og annað áhrifafólk talaði gegn skottulækningum og almenningur tísti undir myllumerkinu #DontDrinkBleach.

Vitaskuld fóru samsæriskenningasmiðir eftir sem áður hamförum á samfélagmiðlum yfir meintum launráðum stjórnvalda og alþjóðastofnana, einhverjir gripu til vafasamra sjálfslækninga og aðrir sögðu veiruna upplogna og neituðu að grípa til varúðarráðstafana. En þar var ekki skorti á réttum upplýsingum um að kenna, það verður alltaf til fólk sem trúir því fjarstæðukenndasta sem er í boði hverju sinni.

Á Íslandi sinntu yfirvöld upplýsingaskyldu sinni hreint prýðilega. Vefurinn covid.is var uppfærður nánast jafnhratt og tölur bárust og á daglegum upplýsingafundum var farið yfir það helsta sem vitað var um þróun faraldursins. Um leið gafst tækifæri til að leiðrétta misskilning og rangfærslur.

Forræðishyggja og fjölmiðlafrelsi

Ein birtingarmynd frjáls upplýsingasamfélags er það sjálfsprottna samfélagsátak sem við sjáum í viðleitni yfirvalda, fjölmiðla, heilbrigðisstarfsfólks, áhrifafólks og almennings til að sporna gegn röngum og skaðlegum skilaboðum um kórónuveiruna. Frelsið til að dreifa vafasömum hugmyndum kemur ekki í veg fyrir að falsfréttir séu leiðréttar. Ég hef ekki séð gögn um útbreiðslu falsfrétta en líklega hefur hvatning til klórneyslu náð til mun færri Evrópu- og Bandaríkjamanna en þeirra sem fyrst fréttu af því ráði þegar þeir sáu viðvaranir. Traust á frjálsu upplýsingaflæði er þó ekki sjálfgefið og sú hugmynd að yfirvöld þurfi að hafa vit fyrir borgurunum lifir góðu lífi við hlið samsæriskenninga og hættulegra heilsuráða.

Síðari hluta aprílmánaðar skipaði Þjóðaröryggisráð vinnuhóp sem ætlað er að „kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við COVID-19 hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til þess að sporna gegn henni“.1 Hvers vegna talin var þörf á kortlagningu falsfrétta og misskilnings um veiruna á Íslandi? Voru mikil brögð að því að fólk gripi til hættulegra ráða? Fór æstur múgur um götur í þeim tilgangi að eyðileggja farsímamöstur? Bar einhver eld að Kínverska sendiráðinu? Nei, ekkert af þessu gerðist. Okkur stafaði engin óvenjuleg hætta af falsfréttum, stóra vandamálið var hversu lítið var vitað með vissu um veiruna og veikindin sem hún veldur.

Aðalhvatinn að baki framtaki Þjóðaröryggisráðs virðist vera sá að í nágrannaríkjunum var verið að rannsaka útbreiðslu rangra upp lýsinga og áhrif þeirra og rétt þótti að Ísland tæki þátt í Evrópusamstarfi þar að lútandi. Niðurstöður þeirra kannana sem Þjóðaröryggisráð lítur til koma ekki á óvart.2 Almenningur verður að jafnaði heilmikið var við óáreiðanlegar upplýsingar en flestir treysta best opinberum upplýsingaveitum stjórnvalda og meginstraums-fjölmiðlum. Miðað við metáhorf Íslendinga á blaðamannafundi Almannavarna og tíðar deilingar hinnar opinberu Covid-19 síðu á samfélagsmiðlum kæmi verulega á óvart ef niðurstaðan á Íslandi yrði sú að áhrif falsfrétta væru stórt vandamál.

Vafasamar hugmyndir um falsfréttir

Vísindarannsóknir þarfnast ekki réttlætingar. Sjálfsagt er að menn rannsaki hvað eina sem vekur áhuga, hvort sem niðurstöður eru fyrirsjáanlegar eður ei. En þegar rannsóknir eru unnar undir merkjum þjóðaröryggis er ástæða til að spyrja um tilefni, tilgang og hver skuli meta hvað teljist til upplýsingaóreiðu og hvað ekki.

Stundum er það augljóst. Það er óumdeilt meðal vísindamanna að klórdrykkja er lífshættuleg og því er einfalt að koma réttum upplýsingum áleiðis. En þegar kórónuveiran er annars vegar er býsna margt sem sérfræðingar eru ekki einhuga um og stundum eru óskýr mörk milli upplýsinga sem byggja á sérfræðiþekkingu og pólitískra skoðana.

Vinnuhópur Þjóðaröryggisráðs hafði enn ekki verið kynntur opinberlega þegar áleitnar spurningar um mat yfirvalda og eftirlitsstofnana á falsfréttum tóku að vakna. Þann 9. apríl birti Ríkisútvarpið viðtal við Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar, þar sem hún talaði um þrenns konar birtingarmyndir falsfrétta. Hún nefndi það augljósa – samsæriskenningar og óvísindaleg heilsuráð – en einnig talaði hún um:

dæmigerðar falsfréttir sem hafi það að markmiði að sá fræum [svo] efans og ýta undir tortryggni bæði gagnvart stjórnvöldum einstakra ríkja, gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og til að grafa undan Evrópusambandinu með fullyrðingum um að samvinna Evrópuríkja sé ekki að virka, þau standi ekki saman.

Hér er eftirlitsaðili með fjölmiðlum að lýsa því yfir opinberlega að gagnrýni á Evrópusamstarfið sé „falsfrétt“. Væntanlega af því tagi sem þarf að sporna gegn og kortleggja. Hún skýrir þetta nánar með því að mikið hafi verið gert úr fréttum um að kínversk og rússnesk stjórnvöld hafi útvegað Evrópuríkjum, þ. á m. Ítalíu, lækningatæki og heilbrigðisstarfsfólk.

Fréttir af skorti á samstöðu Evrópuríkja voru ekki meira fals en svo að Evrópusambandið bað Ítali innilega afsökunar á seinum viðbrögðum.3 Það er líka staðreynd að Rússland og Kína komu Evrópuríkjum til hjálpar. Fáum dögum eftir að viðtalið var birt sóttu Íslendingar t.d. 16 tonn af lækningabúnaði til Kína.4

Elfa Ýr er ekki aðeins formaður eftirlitsnefndar með fjölmiðlum. Hún á einnig sæti í vinnuhópi Þjóðaröryggisráðs. Það er full ástæða til að vera vakandi fyrir frelsi fjölmiðla þegar fólk með þessa afstöðu til sannleikans fer með fjölmiðlaeftirlit og kortlagningu upplýsinga.

Verkefni vinnuhóps Þjóðaröryggisráðs

Samkvæmt vef Stjórnarráðsins eru verkefni vinnuhóps Þjóðaröryggisráðs fjórþætt. Í stuttu máli:

  • að standa fyrir könnun á dreifingu upplýsinga um COVID-19
  • að efla vitund og aðgát almennings varðandi upplýsingar um sjúkdóminn
  • að sjá til þess að fjölmiðlar og almenningur hafi góðan aðgang að áreiðanlegum upplýsingum
  • að tryggja að Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi er varðar upplýsingar um faraldurinn.5

Á þeim átta vikum sem liðnar eru frá stofnun vinnuhópsins hefur eitt verkefni á vegum hans verið kynnt. Það er samstarf við Vísindavef Háskóla Íslands um safn tengla á upplýsingar sem lúta að kórónufaraldrinum, auk birtingar greina á Vísindavefnum.

Það er fagnaðarefni að Vísindavefurinn skuli taka þátt í að upplýsa almenning en stöldrum aðeins við áður en við göngum út frá því að þetta sé allt saman hafið yfir gagnrýni. Fyrsti tengill á síðunni ber yfirskriftina: Hvar er að finna áreiðanlegar og traustar upplýsingar um Covid-19?6 Þar eru tenglar á gagnasöfn í nokkrum flokkum.

Flestir tenglarnir benda á vísindagreinar. Erfitt er að sjá hvaða upplýsingagildi það hefur fyrir almenning. Flestir leikmenn eru illa læsir á rannsóknir á sviði raunvísinda. Það eru helst grúskarar á ákveðnum sviðum sem kynna sér raunvísindarannsóknir og þeir kunna að leita heimilda.

Sumar þeirra síðna sem hlekkjað er á vísa svo aftur í ógrynni tengla á alls konar efni. Heimsókn á síðuna leiðir notandann þannig að tenglum á vísindagreinar, skoðanapistla og allt þar á milli. Það verður að teljast áhugavert að Þjóðaröryggisráð skuli telja samstarfsfólk sitt þess umkomið að gefa þessum ókjörum af efni gæðavottorð.

Sem dæmi um hversu misráðið það er að ríkisvaldið gefi út lista yfir áreiðanlegar heimildir má nefna að undir liðnum Heimspeki og siðfræði er tengill á ágætan vef Johns Hopkins-háskólans. Á þeim vef er sérflokkur með fréttum sem ætla má að séu líklegri en vísindagreinar til að vekja áhuga leikmanna. Í fréttaflokknum eru svo hlekkir á víðlesna fjölmiðla, þ. á m. hinn vinsæla miðil Daily Mail, sem oft hefur verið gagnrýndur fyrir æsifréttastíl. Það er varla hægt að skilja það tiltæki að vísa á Johns Hopkins-vefinn öðruvísi en svo að ríkisvaldið telji að allt sem þar er að finna sé áreiðanlegt. Miðlar á borð við Daily Mail eru þar með komnir með gæðastimpil frá Þjóðaröryggisráði Íslands.

Spurningakönnun Fjölmiðlanefndar

Fjölmiðlanefnd hefur ekki látið sitt eftir liggja í baráttunni gegn upplýsingaóreiðu. Þann 20. maí birti nefndin spurningaleik sem á að kenna almenningi helstu einkenni falsfrétta.7

Falsfréttir einkennast samkvæmt þessu kennslutæki af sláandi fyrirsögnum, hástöfum og upphrópunarmerkjum, ótrúverðugum fullyrðingum, óþekktum fréttaveitum, eftirlíkingum af einkennismerkjum meginstraumsmiðla, undarlegri framsetningu og málfari sem gefur vísbendingu um að þýðingarforrit hafi verið notað við vinnslu fréttarinnar. Allt eru þetta einkenni sem ætla má að þeir átti sig á sem á annað borð trúa því að meginstraumsmiðlar séu almennt áreiðanlegir. En til er fólk sem beinlínis sækir í vafasamar fréttir. Það fólk treystir ekki yfirvöldum og líklegast er að það skýri alla viðleitni þeirra til að hafa áhrif á fréttamat almennings sem þátt í samsæri. Leikurinn þjónar því ekki öðrum tilgangi en þeim að sannfæra þá sem þegar þekkja einkenni falsfrétta um færni sína í því.

Það er annar stór galli á þessum spurningaleik. Ein spurninganna er bæði með ótrúverðugri fyrirsögn og upphrópunarmerki – einkenni sem upplýstir lesendur staldra við. En þau einkenni eru ekki gefin upp í svarmöguleikum heldur er merkið sem lesandinn á hér að höggva eftir nafn fréttaveitu sem hann kannist ekki við. Þar með hlýtur leikmaður sem fer að þessum ráðum að hafna miðlum sem sinna sérsviðum sem hann er ekki heima í. Ég efast t.d. um að þorri þjóðarinnar hafi heyrt um ritrýnda læknisfræðiritið The Lancet áður en faraldurinn brast á. Að auki er eðlileg gagnályktun að útbreiddir miðlar séu þar með traustir. Varla er þó til sá meginstraumsmiðill sem aldrei birtir fréttir sem byggja á misskilningi, takmörkuðum upplýsingum eða einhliða mati á flóknum eða umdeildum málum. Augljóslega verður að skoða önnur einkenni á frétt en miðilinn sem birtir hana til að meta trúverðugleika hennar.

Þótt barnalegur spurningaleikur sé ólíklegur til að hafa veruleg áhrif er það ábyrgðarhluti af hálfu opinberra eftirlitsaðila sem ætla að kenna fólki að meta áreiðanleika fjölmiðla að vanda ekki betur til verka. Þetta er því miður ekki í eina skiptið sem yfirvöld hafa boðað þá hugmynd að sniðganga skuli aðra fjölmiðla en meginstraumsmiðla og vefi á vegum stjórnvalda.

Sóttvarnateymið varar við ótilgreindum fjölmiðlum

Á upplýsingafundi Almannavarna þann 11. apríl lýsti Landlæknir yfir áhyggjum af útbreiðslu falsfrétta. Hún kvaðst ánægð með íslenska fjölmiðla en ráðlagði almenningi jafnframt að „leita til fjölmiðla sem þegar hafa sýnt í verki að þeir eru traustsins verðir“.8 Ekki sagði Landlæknir orð um það hvaða miðlar hefðu sannað trúverðugleika sinn, ekki heldur hvaða mælikvarða ætti að nota til að meta það. Ekki blasir við hvaða tilgangi hálfkveðnar vísur af þessu tagi eiga að þjóna en athugasemdin vekur grun um að Landlæknir hafi tiltekna miðla í huga.

Þetta var fyrsta merkið sem ég sá um tilburði yfirvalda til að hafa áhrif á val almennings á fjölmiðlum en ekki það síðasta. Á upplýsingafundi þann 26. apríl tók Víðir Reynisson í sama streng og ráðlagði lýðnum að:

Nota fréttir frá traustu fréttamiðlunum sem eru ritstýrðir og sýna okkur rétta mynd af hlutunum, nota það í umræðunni og ekki eitthvað annað,9

Nei – þetta er ekki í lagi. Síðustu mánuði hefur þríeykið Víðir Reynisson, Alma Möller og Þórólfur Guðnason haft gífurleg völd, bæði bein og óbein. Orðum Víðis var ekki beint gegn tiltekinni frétt eða umfjöllun. Ekki heldur gegn hræðsluáróðri, samsæriskenningum, fráleitum lækningaráðum eða neinu öðru sem hönd er á festandi, heldur gegn ótilgreindum fjölmiðlum.

Á Íslandi þrífst urmull vefmiðla sem höfða til fólks með sérstök áhugasvið og hópa sem aðhyllast tiltekna pólitík. Flestir þeirra ef ekki allir hafa birt einhverja umfjöllun sem tengist kórónufaraldrinum, enda setti hann vikum saman mark á daglegt líf landans. Með dylgjum um trausta og ótrausta miðla varpa yfirvöld rýrð á alla miðla sem höfða sérstaklega til jaðarhópa. Um leið gefa þau til kynna að fólk sem leitar fanga víðar en hjá stærstu fjölmiðlum sé óskynsamt og ábyrgðarlaust. Þótt stjórnvöld og nefndir á vegum þeirra hafi ekki beint spjótum sínum að nafngreindum miðlum er þessi hugmynd fjandsamleg því fjölmiðla- og upplýsingafrelsi sem lýðræðið grundvallast á og gæti við ýmsar aðstæður orðið því skaðleg.

Er þörf á kortlagningu upplýsinga og handleiðslu yfirvalda?

Þremur mánuðum eftir að ljóst var að við stæðum frammi fyrir heimsfaraldri veit ég ekki til þess að ein einasta falsfrétt hafi náð flugi á Íslandi. Á hinn bóginn er nokkuð um að upplýsingar settar fram í góðri trú hafi reynst rangar. Sem dæmi má nefna fullyrðingar sóttvarnalæknis um að einkennalausir smiti ekki.10 Annað dæmi er hugmyndin um hjarðónæmi. Blessunarlega hvarf sóttvarnalæknir fljótt frá þeirri hugmynd sem hann boðaði á fyrstu dögum faraldursins að hjarðónæmi myndi á endanum ráða niðurlögum veirunnar, sbr. t.d. orð hans á upplýsingafundi þann 25. mars:

Það er algjörlega ljóst að smit sem verður í samfélaginu það mun skapa hjarðónæmi og við höfum alltaf sagt það að við getum ekki komið í veg fyrir smit.11

Nú er komið í ljós að hjarðónæmi er hvergi að myndast, ekki heldur á svæðum þar sem lítil áhersla var lögð á varúðarráðstafanir.

Þessar röngu upplýsingar voru settar fram af yfirvöldum sjálfum og náðu eyrum alls þorra þjóðarinnar. Ætli þær séu meðal þess sem vinnuhópur Þjóðaröryggisráðs flokkar sem upplýsingaóreiðu?

Og hvaða miðlar hafa svo sýnt í verki að þeir séu traustsins verðir? Þess má geta að Viljinn, sem ekki telst meginstraumsmiðill, benti á heimildir fyrir því að einkennalausir gætu verið smitberar, sama dag og Þórólfur sóttvarnalæknir hafnaði því.12 Hefur Viljinn þá sannað trúverðugleika sinn?

Allir meginstraumsmiðlar hafa birt rangar upplýsingar frá fundum Almannavarna en einnig hafa útbreiddir miðlar flutt fréttir sem byggja á misskilningi um vísindarannsóknir. Ríkisútvarpið birti til að mynda frétt þann 25. maí um lyf sem sagt var minnka lífshættu af völdum kórónuveirunnar um 80%.13 Sú tala byggir á röngum útreikningum og hefur enn ekki verið leiðrétt nema að hluta, þótt klausu um lagfæringu hafi verið bætt við fréttina.14

Upplýsingaóreiða meginstraumsmiðla er ekkert séríslenskt vandamál. Þann 11. júní birti Science Norway frétt um að norski ríkismiðillinn NRK hefði birt ranga frétt um uppruna kórónuveirunnar. Í fréttinni var fullyrt að kórónuveiran gæti ekki verið upprunnin í náttúrunni og væri líklegast afsprengi vísindatilrauna. Tveir heimildarmenn voru nafngreindir, annar er vísindamaður og hinn fyrrverandi njósnari Breska ríkisins. Fréttin hafði náð augum milljóna lesenda áður en hún var leiðrétt.15

Hlutverk yfirvalda gagnvart upplýsingafrelsi

Upplýsinga- og tjáningarfrelsi eru mikilvægar undirstöður lýðræðisins. Við getum ekki komist hjá því að rangfærslur og misskilningur nái eyrum almennings en í frjálsu upplýsingasamfélagi er viðleitni til að leiðrétta rangar fréttir sjálfsprottin. Það er ekki hægt að sannfæra alla sem hafa fallið fyrir falsfréttum, sama hversu skýrar sannanir liggja fyrir, en upplýsinga- og skoðanafrelsi felur í líka í sér rétt til að leggja trúnað á þvælu.

Tilraunir ríkisvaldsins til að hafa áhrif á fréttamat almennings og það hvar fólk aflar sér upplýsinga eru í besta falli gagnslausar en það eru líka ákveðnar hættur fólgnar í slíkum tilburðum. Í fyrsta lagi eru yfirvöld ekki handhafar sannleikans og mat valdamikilla einstaklinga á áreiðanleika frétta getur verið vafasamt og litað af pólitískri afstöðu. Í öðru lagi liggur ekki alltaf fyrir hver sannleikurinn er. Sérfræðingar eru ekki alltaf sammála og ef almenningur treystir á einhliða upplýsingar getur það farið forgörðum sem réttara reynist. Í þriðja lagi eru hvorki upplýsingaveitur hins opinbera né meginstraumsmiðlar óskeikulir. Það er ekki í þágu upplýsingar og lýðræðis að stjórnvöld gefi út yfirlýsingar sem bjóða upp á þá túlkun.

Lýðræðissamfélag einkennist af frjálsu flæði upplýsinga og virðingu fyrir frelsi einstaklingsins til að velja og hafna. Það sem stjórnvöld geta gert og eiga að gera í krísuástandi þar sem búast má við upplýsingaóreiðu er að tryggja aðgang að áreiðanlegustu upplýsingum sem tiltækar eru hverju sinni. Þar hafa íslensk stjórnvöld staðið sig vel þótt auðvitað hafi rangar staðhæfingar slæðst með. Það sem yfirvöld eiga ekki að gera er að hafa afskipti af fréttaflutningi og fréttamati, umfram það að leiðrétta augljósar villur sem auka hættu á heilsutjóni og hörmungum.

Kortlagning á því sem stjórnvöld telja til upplýsingaóreiðu getur gefið mynd af því hvar fólk leitar fanga. En ef þær upplýsingar eiga að þjóna lýðheilsumarkmiðum þarf að liggja fyrir hver sannleikurinn er og hvar hann er að finna. Sannleiksmat nefnda á vegum ríkisins er í besta falli umdeilanlegt og því mögulegt að tilraunir til að hafa vit fyrir almenningi vinni beinlínis gegn þeim markmiðum sem lagt var upp með.

Höfundur er lögfræðingur.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

 

Tilvísanir:

  1. Vefur Stjórnarráðsins: „Vinnuhópur gegn upplýsingaóreiðu“ 20. apríl 2020. https://www.stjornarradid.is/ efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/04/20/Vinnuhopurgegn- upplysingaoreidu/
  2. Meðal rannsókna sem litið er til er könnun OFCOM í Bretlandi, sem byggir á vikulegum mælingum, norsk spurningakönnun frá mars sl. og könnun Reuters Institute við Oxford-háskóla, þar sem bornar eru saman mælingar milli sex landa. Þessar upplýsingar eru frá Þórunni J. Hafstein, sem leiðir starf hópsins.
  3. Fréttablaðið: „Evrópusambandið biður Ítalíu „innilegrar afsökunar““ 16. apríl 2020. https://www.frettabladid.is/ frettir/evropusambandid-bidur-italiu-innilegrar-afsokunar/
  4. Morgunblaðið: „Sækja 16 tonn af lækningabúnaði til Kína“ 15. apríl 2020. https://www.mbl.is/frettir/ innlent/2020/04/15/saekja_16_tonn_af_laekningabunadi_ til_kina/
  5. Vefur Stjórnarráðsins: „Vinnuhópur um upplýsingaóreiðu og COVID-19“ https://www.stjornarradid.is/ verkefni/almannaoryggi/thjodaroryggisrad/vinnuhopurum- upplysingaoreidu-og-covid-19/
  6. Vísindavefur Háskóla Íslands: „Hvar er að finna áreiðanlegar og traustar upplýsingar um COVID-19?“ https://www.visindavefur.is/svar.php?id=79337#
  7. Vefur Fjölmiðlanefndar: „Svona þekkir þú rangfærslur og falsfréttir“ https://fjolmidlanefnd.is/stoppa-hugsaathuga/
  8. Vísir: „Svona var 42. upplýsingafundurinn vegna kórónuveirunnar“ 11. apríl 2020. https://www.visir. is/g/2020142738d
  9. Ríkisútvarpið: „Stingur upp á samfélagssáttmála eftir fjórða maí“ 26. apríl 2020. https://www.ruv.is/ frett/2020/04/26/stingur-upp-a-samfelagssattmala-eftirfjorda- mai
  10. Vísir: „Svona var blaðamannafundurinn vegna kórónuveirunnar“ 26. febrúar 2020. https://www.visir. is/g/2020200229228
  11. Vísir: „Svona var 25. upplýsingafundurinn vegna kórónuveirunnar“ 25. mars 2020. https://www.visir. is/g/202025792d
  12. Viljinn: „Geta sýktir en einkennalausir verið smitberar eða ekki?“ 26. febrúar 2020. https://viljinn.is/frettaveita/ geta-syktir-en-einkennalausir-verid-smitberar-eda-ekki/
  13. Ríkisútvarpið: „Lýsa notkun á Remdesivir við COVID sem uppgötvun ársins“ 23. maí 2020. https://www.ruv. is/frett/2020/05/23/lysa-notkun-a-remdesivir-vid-covidsem- uppgotvun-arsins
  14. Einar Steingrímsson hefur rakið ferðalag upplýsingaóreiðunnar að baki frétt Ríkisútvarpsins, sem Vísir hafði svo eftir. Einar Steingrímsson: „Mun Fjölmiðlanefnd vara við „falsfréttum“ RÚV og Vísis?“ Kvennablaðið, 23, maí 2020. https://kvennabladid.is/2020/05/24/mun-fjolmidlanefnd- vara-vid-falsfrettum-ruv-og-visis/
  15. Science Norway: „Public broadcaster’s controversial coronavirus article spread disinformation to millions“ 11. júní 2020. https://sciencenorway.no/epidemic-mediavirus/ public-broadcasters-controversial-coronavirusarticle- spread-disinformation-to-millions/1697610