Lélegur lífskjarasamningur og hálaunaðir ríkisstarfsmenn

Það er óhætt að segja að kjaraviðræður hafi einkennt stærstan part umræðunnar síðastliðinn vetur, í það minnsta í stjórnmálum og atvinnulífinu. Það þurfti ekki mikla skynsemi eða þekkingu á efnahagsmálum til að sjá að kröfur verkalýðsfélaganna voru með öllu óraunhæfar og sjálfsagt hafa samninganefndir hinna ýmsu samtaka innan atvinnulífsins oft þurft að bíta á jaxlinn til að hleypa viðræðunum, ef viðræður skyldi kalla, ekki upp í loft þegar sumum þessara krafa var varpað fram.

Og þó. Eins og búast mátti við var engu að síður boðað til verkfalla með látum. Það vildi einmitt svo skemmtilega til að daginn eftir að boðað hafði verið til verkfalla var verkalýðsfélagið Efling tilbúið með sérstaka verkfallsbifreið sem notuð var til að draga starfsmenn hótela hér og þar um borgina til að greiða atkvæði með því að fara í verkfall. Það ríkti árshátíðarstemning í herbúðum Eflingar og Sósíalistaflokksins, svo einkennilegt sem það hljómar. Þau vissu að ferðaþjónustan var viðkvæm á þessum tímapunkti og í samræmi við það hvernig hrottar haga sér lá því beinast við að ráðast að henni.

Stuttu síðar varð Wow air gjaldþrota (sem hafði þó ekkert með verkalýðsbaráttuna eða kjaramál að gera) og tónninn breyttist. Öllum mátti verða ljóst að ekki yrði lengra komist með þessa baráttu. Meira að segja Eflingarforystan, sem seint verður kennd við nokkra skynsemi, áttaði sig á því.

Þá stigu Samtök atvinnulífsins og ríkisstjórnin það furðulega skref að koma til móts við kröfur þeirra sem höfðu með orðræðu sinni skaðað atvinnu- og efnahagslífið í allan vetur. Þegar VR var við það að brotna og almenningur var búinn að átta sig á því að Efling var ekki að starfa í þágu hins almenna launamanns mætti ríkisstjórnin á vettvang með 45 aðgerðir til stuðnings því sem menn vilja kalla lífskjarasamning. Innan þeirra aðgerða má svo sem finna ágætis liði en þær eru að miklu leyti kostnaðarsamar.

Embættismenn fjármálaráðuneytisins hljóta nú að vinna hörðum höndum að því að skrifa minnisblöð til stjórnmálamanna þess efnis að ekki verði hægt að lækka skatta á næstu misserum.

***

Að öllu óbreyttu munum við sjá töluvert um uppsagnir og frekari hagræðingu innan atvinnulífsins í haust þegar áhrif samningsins koma fram. Lífskjarasamningurinn verður atvinnulífinu og ríkisvaldinu dýr en mun ekki bæta lífskjör nema að litlu leyti.

Það hefði frekar átt að leyfa verkalýðsforystunni að rekast á vegg hins raunverulega. Bæði Samtök atvinnulífsins og ríkisvaldið hefðu átt að halda þetta lengur út og standa í lappirnar. Þetta var – og er – ekki bara barátta um tæknilegar útfærslur á kjarasamningum, heldur barátta um hugmyndir, barátta um frjáls markaðshagkerfi, frjáls viðskipti o.s.frv. Halda menn að það fólk sem enn situr í verkalýðsfélögunum, með alla þá digru sjóði sem þar er að finna, sé búið að pakka saman í þeirri baráttu?

***

Það eru þó ekki minni verkefni sem bíða hins opinbera þótt enginn virðist ætla sér að taka á þeim. Hagstofan birti nýlega tölur um heildarlaun fullvinnandi launamanna fyrir árið 2018, sem voru að meðaltali 721 þúsund krónur á mánuði. Þegar horft er á dreifingu heildarlauna var algengast að mánaðarleg heildarlaun væru á bilinu 550 til 600 þúsund krónur (í framhjáhlaupi má nefna að félagsmenn VR eru að miklu leyti með þessi laun og hærri – þannig að það hefði seint tekist að sannfæra þá um að fara í verkfall).

Það sem allir ættu aftur á móti að hafa áhyggjur af er að á meðan heildarlaun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 729 þúsund krónur á mánuði árið 2018 voru heildarlaun ríkisstarfsmanna 818 þúsund krónur að meðaltali. Meðallaun hjá ríkinu eru því tæplega 100 þúsund krónum hærri en í einkageiranum.

Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi setið í ríkisstjórn síðastliðin sex ár bendir ekkert til þess að ríkisstarfsmönnum muni fækka. Hinn opinberi eftirlitsiðnaður mun halda áfram að blása út, ráðuneytin stækka, stjórnsýslan stækkar, það þarf verkefnastjóra í alls konar verkefni, mannauðsstjóra til að stýra þessu og þannig mætti áfram telja – vel og lengi.

Einkageirinn þarf bara að halda áfram að vera duglegur, menn þurfa að mæta vel í vinnuna og leggja mikið á sig, jafnvel taka aukavinnu þegar svo ber undir, því þessi laun ríkisstarfsmanna greiða sig ekki sjálf.

Höfundur er ritstjóri Þjóðmála.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2019. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.