Sjálfstæðisbaráttan nýja?

Arnar Þór Jónsson.

Með fullgildingu EES-samningsins 1993 undirgekkst íslenska ríkið nýja skipan mála varðandi regluverk og innleiðingu erlendra reglna. Grein þessi er rituð með skírskotun til þess áhrifaleysis sem framkvæmd EES-samningsins hefur opinberað í tilviki Íslands. Að mati höfundar eru álitamál sem tengjast stöðu íslenskrar löggjafar og innleiðingarferlinu í heild af þeirri stærðargráðu að engin þjóð sem vill teljast sjálfstæð getur látið þau liggja í þagnargildi. Með skírskotun til þeirra meginstoða um lýðræði, fullveldi og temprun valds sem stjórnskipun Íslands hvílir á er hér undirstrikað að innleiðingarferli erlendra reglna getur ekki og má ekki vera hömlulaust. Greinin er rituð sem innlegg í gagnrýna umræðu um hlutskipti Íslands í samhengi EES.

1. Formáli

Grein þessi er rituð af ærnu tilefni. Eftir liðlega aldarfjórðungslanga aðild að EES-samningnum standa Íslendingar frammi fyrir þeirri staðreynd að þeir mega, í ljósi þess hvernig höndlað hefur verið með samninginn, í raun heita áhrifalausir um efni þeirra lagareglna sem sendar eru hingað í pósti og innleiddar í stórum stíl í íslenskan rétt, daglangt og árlangt.[1] Þetta áhrifaleysi stafar ekki af samningsákvæðunum sjálfum, því EES-samningurinn geymir í 103. gr. skýr ákvæði um rétt Íslands til að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi innleiðingu viðkomandi gerða í íslenskan rétt. Engu að síður hefur Ísland aldrei beitt þessu neitunarvaldi og þar með aldrei beint ágreiningsmálum í sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, sbr. 102. gr. samningsins. Þó liggur fyrir, sérstaklega eftir miklar umræður um hinn svonefnda þriðja orkupakka ESB árið 2019, að upp hafa komið mál sem gefið hafa fullt tilefni til þess að stjórnvöld sýndu pólitískt þrek til að verja samningsbundinn rétt Íslands í þessu tilliti. Það væri stjórnvöldum unnt á grundvelli skýrra samningsheimilda, þótt lokamarkmiðið væri ekki annað en að fara fram á undanþágur frá Evrópureglum sem ekki eru taldar eiga við hér á landi sökum sérstakra aðstæðna hér á landi.

Af atvikum eins og þau hafa þróast má ljóst vera að fullveldi Íslands er ógnað með þeirri einstefnu lagareglna sem EES-samningurinn hefur í framkvæmd haft í för með sér. Alþekkt er að stofnanir ESB rökstyðja forgang ESB-réttar með skírskotun til þess að samninga skuli halda (lat. Pacta sunt servanda).[2] Ekkert hefur komið fram um hvers vegna Íslendingar ættu ekki að njóta réttar samkvæmt þessari ævagömlu meginreglu samningaréttar. Sú staðreynd að smáþjóðin Ísland hafi aldrei tekið þann kost að láta reyna á samningsbundnar heimildir sínar til hagsmunagæslu er vart merki um „jafnræði“ svonefnds „Tveggja stoða kerfis“ EFTA og ESB í EES-samningnum.

Fullveldi þjóðar er ekki lítilfjörlegt atriði, þvert á móti. Í fullveldinu felst óskoraður réttur ríkis til að fara með æðsta vald í eigin málum. Fullveldi er að þessu leyti samofið orðum eins og frelsi, sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti.

Fullveldi er lykilhugtak í stjórnmálum og hefur verið frá örófi alda. Fyrir Íslendinga ætti þetta að blasa sérlega skýrt við. Við erum þjóð sem byggir afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda. Almenn hagsæld á Íslandi síðustu hundrað ár helst í hendur við það að við náðum fullveldisrétti yfir auðlindum okkar. Fram kemur í 1. gr. EES-samningsins að hann miði að því „að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði“. Í framkvæmd hefur orðið æ skýrara að þetta yfirlýsta markmið gengur í ýmsu tilliti gegn sjálfsákvörðunarrétti íslensku þjóðarinnar og jafnvel að því er auðlindir hennar varðar.[3] Á grundvelli EES-samningsins hefur ákvörðunarvald í sífellt ríkari mæli færst frá Íslandi til Brussel, jafnvel í því sem árið 1993 var augljóslega talið falla undir innanríkismál á Íslandi. Síðastnefnt atriði má t.d. sjá í því hvernig innflutningur á hráu kjöti til Íslands, sem frá upphafi var alfarið bannaður, hefur á síðari stigum verið færður undan innflutningsbanni með skírskotun til þess að hrátt kjöt sé „vara“ í skilningi EES-samningsins.[4] Hér er mikið í húfi: Hver á að setja reglur fyrir Íslendinga og um íslenskt land annar en íslenskur löggjafi? Hver á að fara með ákvörðunarvald um skatt- og tollheimtu? Um hagnýtingu (og vernd) náttúruauðlinda? Um eignarhald á bújörðum? Um landnýtingu? Um hagstjórn á Íslandi? Íslensk hagstjórn fer best í höndum íslenskra yfirvalda sem þekkja aðstæður og geta hagað seglum eftir vindi og aðstæðum.

Með fullgildingu EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, undirgekkst íslenska ríkið vissulega nýja skipan mála varðandi regluverk og innleiðingu erlendra reglna. Þar með er þó ekki sagt að óheimilt sé að gagnrýna hvernig haldið hefur verið á spilunum í réttarframkvæmd. Gagnrýnin umræða um þessi efni hlýtur m.a. að byggja á fenginni reynslu og hverfast um hlutskipti Íslands í þessu samhengi, m.t.t. áframhaldandi aðildar að EES-samningnum og eðlilegrar hagsmunagæslu.

Fullveldi er nú sem fyrr undirstaða stjórnmála og lagasetningar, því það ber með sér þann grundvallandi rétt sérhverrar þjóðar að eiga síðasta orðið um innihald laga og þar með þann grunn sem dómstólar og framkvæmdavald starfa á. Í þessu ljósi blasir við nauðsyn þess að valdhafar á Íslandi beri skynbragð á aðstæður hér á landi, hlusti á vilja kjósenda og síðast en alls ekki síst: Svari til ábyrgðar gagnvart íslenskum kjósendum.

2. Frelsi og ábyrgð

Ábyrgð á eigin orðum og gerðum er einn af hornsteinum réttlátra laga og siðmenntaðs samfélags. Persónuleg ábyrgð er undirstaða refsiréttar, samningaréttar, kröfuréttar, skaðabótaréttar o.s.frv. Sá sem freistar þess að höggva í þessar undirstöður og ganga gegn þeim vegur að frelsi annarra og mun sjálfur, fyrr en síðar, verða sviptur frelsi sínu. Frelsi án ábyrgðar grefur undan trausti og leiðir til upplausnar, óstjórnar, stjórnleysis og glundroða. Hér skal látið nægja að nefna til sögunnar tvenns konar hörmungarástand, þar sem frelsi og ábyrgð eru í ójafnvægi.

  1. Lögleysa: Ef engin lög eru til staðar, engir dómstólar og ekkert framkvæmdavald, búa menn í raun við aðstæður þar sem hnefarétturinn einn ríkir. Við slíkar aðstæður færast völd og áhrif til þeirra sem sýna mesta óbilgirni og ófyrirleitni. Undir þeim kringumstæðum, þar sem allt snýst um að lifa af, er hætt við að sjálfselskan og eiginhagsmunagæslan verði ráðandi leiðarstef daglegs lífs. Sagan sýnir að slíkt ástand, sem kenna má við upplausn, leiðir til sameiginlegs ófrelsis í stað frelsis. Í slíku samfélagi gilda engin sameiginleg hlutlæg viðmið lengur, bara persónubundið og huglægt mat. Í slíku þjóðfélagsástandi búa menn við stöðugan ófrið allra gegn öllum, sbr. fræga lýsingu Thomasar Hobbes í bókinni Leviathan. Til að koma í veg fyrir slíkt ófremdarástand koma menn sér upp sameiginlegum reglum, annaðhvort með sammæli eða fyrir tilstilli yfirvalds.
  2. Ofríki: Eftir að búið er að koma á fót ríkisvaldi verður ljós nauðsyn þess að það vald sé beislað. Ef þetta er ekki gert, þ.e. ef þeir sem völdin hafa geta farið með þau að vild, heitir slíkt stjórnarfar alræði. Í slíkum ríkjum eru valdhafar frjálsir en borgararnir ófrjálsir. Sögu slíkra ríkja þekkjum við öll. Ófrelsi, helsi, ánauð, þrældómur og kúgun eru orð sem best hæfa ríkjum þar sem öllu er stjórnað ofan frá; þjóðfélaginu er stjórnað af ríkisvaldi, ríkisvaldi er stjórnað af stjórnmálaflokki og flokknum er stjórnað af fámennri flokksforystu. Samkvæmt þessari forskrift er allt vald miðstýrt, kemur ofan frá og niður. Dæmin sanna að engin mörk eru fyrir því hversu langt slíkir valdhafar geta seilst inn í einkalíf fólks, tjáningu þess og lífsmáta. Í hryllingi slíks stjórnarfars, þar sem sjálfstæð hugsun er álitin glæpsamlegri en manndráp, sakna menn sárlega frjálsrar samvisku, hugsunar og tjáningar. Með hliðsjón af mannkynssögunni má ganga út frá því að ekkert alræði geti slökkt frelsisþrána í hjörtum mannanna og að ekkert ríki fái staðist til lengdar sem freistar þess að hneppa hugsun manna í fjötra eða hefta leit mannsins að ljósi og sannleika. Frá örófi hefur því verið stefnt að því að koma á samfélagsgerð þar sem frelsið er varið með því að kalla menn til ábyrgðar.[5]

3. Tilurð og stofnun Alþingis árið 930 sýnir að Íslendingar þess tíma skildu vel hið viðkvæma samhengi frelsis og ábyrgðar

„Á dögum Haralds hins hárfagra byggðist mest Ísland, því að menn þoldu eigi ánauð hans og ofríki […]“ – Harðar saga Grímkelssonar, 1. kafli[6]

3.1 Hið sögulega samhengi skiptir máli

Þótt framangreind tilvitnun til miðaldahandrits Harðar sögu hafi ekki heimildargildi um hugmyndir landnámsmanna endurspeglar hún söguskýringu sem löngum var í hávegum meðal Íslendinga, þ.e. að til Íslands hafi menn sótt í leit að frelsi og betra lífi.[7] Þótt ýmsar aðrar kenningar geti verið skemmtilegar í bland við þessa sögu af frelsisþrá er engin ástæða til að gera lítið úr þeirri staðreynd, sem hver og ein manneskja getur fundið í hjarta sínu, að frelsi og sjálfsákvörðunarréttur mega teljast til grundvallarþátta mannsæmandi samfélags og mannlegrar reisnar. Að því leyti búa frásagnir miðaldabókmennta Íslendinga um landnámið yfir kröftum sem geta sameinað Íslendinga, sem við getum sótt styrk til og getum samsamað okkur með.

Áminningin um upphaf Íslandsbyggðar og leit landnemanna að frelsi jafngildir því þó ekki að menn hafi komið hingað til að búa við stjórnleysi. Öðru nær. Ritaðar heimildir staðfesta að menn lögðu mikið á sig til að byggja hér samfélag sem lyti lögum, þar sem friður ríkti og þar sem lögbrjótar yrðu dregnir til ábyrgðar. Stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930 er í raun heimssögulegur viðburður. Þar lýstu íbúar landsins sameiginlegum vilja til að afmarka gildandi lög og nota þau til að leysa friðsamlega úr ágreiningi. Lögin voru því sameign þjóðarinnar, auk landsins sjálfs. Þau sameinuðu Íslendinga og menn skildu nauðsyn þess að lögin samræmdust íslenskum veruleika og íslenskum þörfum. Á þessum grunni varð til sameiginleg sjálfsmynd þjóðar. Lögin urðu grundvöllur viðskipta, samskipta, siðvenja o.fl. Lögin voru forsenda þess að unnt var að tala um íslenska þjóð og þjóðskipulag (þjóðveldið). Eins og höfundur hefur lýst annars staðar voru lögin upprunnin í samfélagi manna og mótuðust þar. Lögin voru ekki eign nokkurs manns og það var því ekki á forræði nokkurs einasta manns að breyta þeim að eigin vild. Lögin giltu um allt land, þau voru ekki svæðisbundin, sbr. heiti þingsins: Alþingi. Frá fornu fari áttu ekki aðrir sæti á þinginu en fulltrúar þeirra sem landið byggðu. Þetta fyrirkomulag er í raun forsenda þess að íbúar landsins sætti sig við að lúta lögunum, því þau hafa orðið til fyrir sammæli þjóðarinnar / kjörinna fulltrúa hennar. Ef menn vilja breyta þeim er það gert með lýðræðislegum hætti. Í þessu endurspeglast grundvallarmunur samanborið við þjóðfélög þar sem lögin eru ekki sameign allra heldur valdatæki ráðandi klíku, ættar eða stéttar.

Í slíkum ríkjum eru lögin notuð sem hreint valdatæki. Það veldur því að slík þjóðfélög búa við stöðugt ófriðarástand vegna þeirra sem eru áhrifalausir. Við þær aðstæður er allt tal um réttarríki lítið annað en skrum. Allt þetta skildu forfeður okkar, en þó ekki síst Íslendingar 13. aldar, sem í lok borgarastyrjaldar sturlungaaldar gerðu sáttmála við Noregskonung þar sem þeir buðu Hákoni konungi þjónustu sína og skattgreiðslur gegn nánar tilgreindum skuldbindingum konungs við Íslendinga, nánar tiltekið um skipaferðir hingað til lands, en auk þess að konungur tryggði að Íslendingar byggju við íslensk lög og næðu friði.

Um Gamla sáttmála mætti tala í löngu máli, t.a.m. um þá áherslu sem lögð var á það að engum Íslendingi yrði stefnt fyrir erlent vald („utanstefningar“) öðrum en þeim sem fyrir íslenskum dómi hefðu verið dæmdir „burt af landinu“ og að embættismenn skyldu vera íslenskir. Hér skal þó látið við það sitja að leggja áherslu á niðurlagsákvæði sáttmálans um það að hann byggðist á gagnkvæmri trúnaðarskyldu Íslendinga og konungs, sem hefði í för með sér lausn Íslendinga undan sáttmálanum ef konungur ryfi þessa sættargerð.

Sambærilega sáttmála gerðu Englendingar[8] og Skotar[9] við konungsvaldið á 13. og 14. öld, en allt er þetta til marks um vitundarvakningu um nauðsyn þess að valdhafar svöruðu til ábyrgðar gagnvart almenningi. Þessi sama hugsun gengur eins og rauður þráður í gegnum sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (1776).

Með hliðsjón af öllu framanskráðu er vart nokkur lýsing nærtækari en að segja að sagan af landnámi Íslands og síðari samskiptum Íslendinga við erlent konungsvald hafi verið saga um þrá eftir félagslegu öryggi og frelsi; um vilja til að ráða eigin örlögum með allri þeirri áhættu og öllum þeim áskorunum sem í því kunna að felast.

3.2 Vörn lýðveldisins nú

Öll barátta Íslendinga fyrir sjálfstæði og fullveldi hefur verið háð á grundvelli laga og lögfræði: Sjálfstæðisbaráttan á 19. öld, baráttan fyrir heimastjórn 1904, fyrir fullveldinu 1918, lýðveldisstofnunin 1944, þorskastríðin á 20. öld og Icesave-baráttan í upphafi 21. aldar.

Umræðan um þriðja orkupakka ESB 2019 varð ekki til þess að hægja á innleiðingu reglna sem eiga uppruna sinn hjá ESB í íslenskan rétt. Áskoranir fjölmargra voru að engu hafðar og málið afgreitt á Alþingi í formi þingsályktunar í stað hefðbundins lagasetningarferlis, svo sem þó hefði verið rétt í ljósi þess hve umdeilt málið var. Í ljósi þess hvernig haldið var á þessu máli af hálfu handhafa íslensks ríkisvalds árið 2019 er sú spurning áleitin hvort lögin og lögfræðin, sem reynst hafa Íslendingum haldbestu vopnin í baráttu sinni fyrir sjálfstæði og þjóðarhag, hafi nú verið slegin úr höndum okkar með því að ESB í reynd setji okkur lög og eigni sér jafnframt allt túlkunarvald um þau.

Með hliðsjón af framangreindu má fullyrða að lýðveldið Ísland hafi ratað í stjórnskipulega kreppu, sem setur íslensk stjórnarmálefni í alls kyns vanda. Þessi stjórnskipulegi vandi stafar ekki síst af þeim lýðræðishalla sem Ísland býr við í EES-samstarfinu. Undirritaður hefur varað við því að einstakir þættir ríkisvalds seilist yfir á svið annarra valdþátta, en um leið varað við því að handhafar ríkisvalds afsali sér ábyrgð á því hlutverki sem þeim samkvæmt stjórnarskránni er ætlað að gegna.

Í réttarríki er lögunum ætlað að byggja á lýðræðislegum grunni, vera skýr, veita fyrirsjáanleika, marka umgjörð um samfélag manna og eyða réttaróvissu. Svo sem nánar verður vikið að hér á eftir hefur framsækin túlkun lagareglna á sviði Evrópuréttar[10] leitt til lýðræðislegs og stjórnskipulegs vanda hér á landi sem brýnt er að tekinn verði til almennrar umræðu, m.a. út frá skertum möguleikum EFTA-ríkja til áhrifa á réttarreglur sem fyrir tilstilli ESB-ríkja gilda á sviði EES-réttar.[11]

Íslenskur réttur stendur frammi fyrir stórum áskorunum hvað viðvíkur markmiðum EES-samningsins um einsleitni við ESB-rétt. Fyrir liggur að stofnsáttmálar ESB hafa tekið umtalsverðum breytingum frá því að EES-samningurinn tók gildi hérlendis árið 1994, en stjórnskipunarreglur Íslands eru óbreyttar og gera ekki ráð fyrir því framsali ríkisvalds sem EES-samstarfið virðist útheimta í æ ríkari mæli. Framsæknar lögskýringar EFTA-dómstólsins[12] hafa aukið á þennan vanda, jafnframt því að magna upp lýðræðishalla sem lengi hefur verið tilfinnanlegur í tilviki íslenska ríkisins og veikrar stöðu þess í EES-samstarfinu.

3.3 Hvert stefnir?

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 kveður skýrt á um það að handhöfn æðsta dómsvalds sé hjá íslenskum dómstólum og að ákvörðunarvald í innanríkismálum Íslands skuli geymt á Íslandi.

Í anda lýðræðis, fullveldis, þrískiptingar ríkisvalds og réttarríkis ber að gæta að þjóðarhag við innleiðingu erlendra reglna. Innleiðingarferli erlendra reglna í íslenskan rétt getur því hvorki verið, né má vera, hömlulaust. Af þessu leiðir að dómarar hafa bæði almennar og sérstakar skyldur til að fylgjast grannt með lagasetningarferlinu m.t.t. þess að því sé ekki stefnt í þrengri og grynnri farveg en ætlun stjórnarskrárgjafans var nokkru sinni, jafnvel eftir að deildaskipting Alþingis var afnumin í maímánuði 1991. Þriðji orkupakki ESB er, sem fyrr segir, dæmi um það að reglur á mikilvægu réttarsviði, sem geta varðað ríka þjóðarhagsmuni og mæla fyrir um framsal á ríkisvaldi, hafi verið innleiddar í íslenskan rétt með þingsályktunarferli fremur en verklagi lagasetningar. Með því móti var sneitt fram hjá mikilvægum stjórnskipulegum varnöglum sem settir voru inn í stjórnarskrá til að tryggja vandaða málsmeðferð í nafni þeirra burðarstoða réttarríkisins sem áður voru nefndar og stjórnarskránni er ætlað að standa vörð um.

Á lýðveldistímanum hefur lagasetningarferlið verið stytt verulega[13] en á sama tíma hefur settur réttur þó þrengt stöðugt meir að öðrum réttarheimildum, svo sem réttarvenju, og um leið að þeim almennu undirstöðureglum sem stjórnskipun lýðveldisins hvílir á samkvæmt stjórnarskránni. Í því ljósi er ekki óeðlilegt að athygli beinist að þeirri stjórnskipulegu þversögn að EES-rétturinn, sem síast hefur inn í almenn lög og stjórnvaldsreglur síðastliðinn aldarfjórðung með hraða og umfangi sem á sér engin fordæmi, skuli aðeins byggjast á venjuhelgaðri reglu sem sögð er löghelga það framsal ríkisvalds sem hér um ræðir. Við blasir að valdaframsal til stofnana EES hefur reynst umfangsmeira en nokkurn óraði fyrir við gildistöku EES-samningsins 1994[14], enda hefur þróunin verið öll í þá átt að veita stofnunum sem starfa á grundvelli EES-samningsins auknar valdheimildir, m.a. til að taka ákvarðanir sem geta verið íþyngjandi fyrir íslenska ríkisborgara og lögaðila.[15] Þegar þetta er ritað hefur ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sent Íslandi lokaviðvörun í samningsbrotamáli, en ESA telur Ísland ekki hafa uppfyllt skuldbindingar um framkvæmd EES-samningsins og vill að Evrópulöggjöf, sem hér hefur verið innleidd, gangi framar landslögum í íslenskri réttarframkvæmd.[16]

Með hliðsjón af öllu framanrituðu ber að beina sjónum íslensks almennings að þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er, þ.e. að ytri mörk heimilaðs framsals íslensks ríkisvalds eru næsta óljós og að viðamikið framsal valdheimilda íslenska ríkisins til stofnana EES byggir á veikum stjórnskipulegum grunni sem íslenskri þjóð ber að hafa vakandi auga með. Á íslenskum dómstólum hvíla að sjálfsögðu sérstakar skyldur í þessu sambandi.

Út frá öllum framangreindum ástæðum er engin ástæða til annars en að undirritaður, eins og allir aðrir sem láta sig varða framkvæmd laga og réttar, lýðræðislegar undirstöður laganna og fullveldissjónarmið, fylgist grannt með þróun mála á vettvangi EES-samstarfsins. Þróun þess samstarfs síðastliðinn aldarfjórðung má heita brýnt íhugunarefni allra handhafa íslensks ríkisvalds, enda eru teikn á lofti um að skriðþungi EES-réttarins sé enn að aukast að íslenskum rétti. EFTA-ríkin standa, sem fyrr segir, höllum fæti hvað varðar aðkomu að mótun reglna, ákvarðanatöku og túlkun í réttarframkvæmd.[17] Meðan umrætt valdframsal er aðeins byggt á óskráðri reglu er ekki við öðru að búast en að gerðar séu málefnalegar athugasemdir við þá framkvæmd og hvatt til þróttmikillar umræðu um hvert heita megi efnislegt inntak og umfang slíkrar reglu, hvert stefni í þessum efnum, hvað gera megi til að bregðast við þeim stjórnskipulega vanda sem uppi er og hvernig verja beri íslenska hagsmuni í þessu samhengi.

4. Gild lög verða að byggja á lýðræðislegum grunni

Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni? – Markús 8:36

Þegar „sérfræðingur í Evrópurétti“ lýsti því yfir í fréttaviðtali sumarið 2019 að „útilokað“ væri fyrir Íslendinga að fá undanþágu frá þriðja orkupakka ESB hlýtur mörgum að hafa brugðið alvarlega.[18] Með því var í reynd fullyrt að EES-sáttmálinn sem Íslendingar undirgengust, á skýrum forsendum, árið 1993 væri ekki lengur í fullu gildi, en Íslendingar þó engu að síður bundnir Evrópusambandinu í núverandi mynd, sem hlýtur að vera lögfræðileg rökleysa.

Eiga Íslendingar ekkert svar við þeirri stöðu sem hér var lýst annað en að segja að það sé „ekki hægt að sækja um undanþágur“ með þeim einu rökum að það hafi aldrei gerst í „sögu EES-samningsins að EFTA-ríki hafi hafnað upptöku löggjafar í EES-samninginn“? [19] Frammi fyrir þeirri stöðu sem hér birtist, sbr. m.a. áðurnefnda viðvörun ESA, er tímabært að staða Íslands innan EES sé tekin til gagnrýnni skoðunar en gert hefur verið hingað til.[20] Við þá endurskoðun þarf að ræða stöðuna í víðu samhengi hagsmunagæslu, fullveldis og lýðræðis. Með úrsögn sinni úr ESB hafa Bretar kosið að taka ábyrgð á eigin örlögum. Augljóslega er staða Íslands innan Evrópusamstarfsins mun þrengri en sú staða sem Bretland naut sem aðildarríki ESB, með fulltrúa í framkvæmdastjórn, ráðherraráði og á þingi ESB. Ísland kemur hvergi nálægt þessum stjórnartaumum og hefur verið skipað til sætis í farþegarými ESB. Frammi fyrir öllu þessu ber að kalla eftir heildarmati sem metur aðra þætti en aðeins hina efnahagslegu að verðleikum.

Eða getur verið að sá dagur sé upp runninn að Íslendingar vilji fórna fullveldi sínu á altari efnishyggjunnar einnar? Ef menn sækja rökstuðning til aðildar að EES til hugsjóna um evrópska samvinnu er vart ósanngjarnt að benda á að íslenska ríkið hefur þar nú engin völd, engin áhrif og enga rödd. Til hvers erum við að kjósa fólk á Alþingi, ef ekki til að veita því völd og áhrif? Þarf þá ekki að ræða kinnroðalaust valda- og áhrifaleysi Alþingis? Samhliða þarf að ræða um nauðsyn þess að handhafar ríkisvalds, sérstaklega löggjafinn, sæti aðhaldi frá þeim sem lögin beinast að og svari til ábyrgðar gagnvart þeim. Ef löggjafinn sætir engri slíkri ábyrgð eru auknar líkur á að lögin spillist og gangi gegn því hlutverki sem þeim er ætlað að þjóna, þ.e. að verja hagsmuni almennings. Lögin eiga að þjóna hinum mörgu en ekki vera valdatæki hinna fáu og útvöldu. Allt þetta vitum við vel. Samt sem áður eru Íslendingar komnir í þá stöðu að skæðadrífa nýrra lagareglna dynur á okkur í hverri einustu viku, án þess að þjóðin hafi haft nokkuð um efni þeirra að segja. Ef þetta er niðurstaða rúmlega aldarfjórðungs „samstarfs“ á grunni EES-samningsins, þ.e. að lög Íslendinga eru nú að stórum hluta samin af fulltrúum annarra þjóða og gefin út í nafni yfirþjóðlegra stofnana, hlýtur að mega spyrja grundvallarspurningar: „Hverra lög eru þetta?“ Undirritaður, sem unnið hefur drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, telur sér bæði rétt og skylt að bera þessa spurningu fram hér, jafnframt því að kalla eftir því að kjörnir embættismenn leiði upplýsta umræðu um þátttöku Íslands í EES-samstarfinu og aðra valkosti.

Jafnvel þótt allir væru sammála um að löggjöf sem í stórum stíl hefur verið samin og samþykkt á erlendum vettvangi sé þjóðinni nú til framdráttar myndi blasa við hversu ósjálfbært og ótryggt slíkt ástand er. Fyrirkomulagið sem hér hefur verið lýst er ögrun við lýðræðið og ávísun á alls konar misbeitingu valds. Með tíð og tíma missum við ekki einungis valdið úr höndunum heldur mögulega hagsældina einnig.

Meðan menn vilja í orði kveðnu leggja rækt við gagnrýna hugsun hlýtur það að vera hluti af heilbrigðri umræðu um stjórnmál og lög að ræða aðra möguleika en alþjóðahyggju og yfirþjóðlegt vald. Slíkt er með öðrum orðum ekki óæskilegt, heldur beinlínis hollt. Öll gagnrýni er holl. Án gagnrýni kemur slagsíða á allt stjórnarfar. Sagan hefur sýnt þetta ítrekað. Jákvæð þjóðvitund er ekki það sama og þjóðremba. Stjórnmálamenn bjóða sig beinlínis fram (og eru kosnir) til að verja og efla hag borgaranna, nánar tiltekið íslenskra ríkisborgara. Sem sjálfstæð þjóð höfum við allan rétt – og öll tækifæri – á að marka okkar eigin braut, bregðast skjótt og fumlaust við með lagasetningu þegar gefur á bátinn eða til að grípa tækifæri sem gefast, t.d. í útflutningi og alþjóðlegum viðskiptum eða til að styðja við innlendar atvinnugreinar þegar ný tækni gefur sérstök sóknarfæri.

Sem fullvalda þjóð höfum við að þessu leyti mun betri tækifæri en þjóðir sem búa við skert fullveldi eða þurfa að afla samþykkis annarra þjóða / yfirþjóðlegra stofnana við því sem gert er. Við sem þjóð eigum því augljóslega margvíslega sameiginlega hagsmuni og við eigum margt saman sem er vel þess virði að leggja rækt við og verja. Sem augljós dæmi má nefna sameiginleg heimkynni, náttúru landsins, íslenska tungu, íslensk lög, þ.m.t. réttarvenju, menningu okkar, sögu o.fl. Fullvalda lítil þjóð getur verið skilvirkari í lagasetningu og fljótari að bregðast við en stærri þjóðir þar sem boðleiðir eru lengri og skriffinnska þunglamalegri.

Ef Íslendingar vilja vera sjálfstæð þjóð verðum við að taka ábyrgð á okkur sjálfum. Í því felst að við þurfum að hafa kjark til að marka okkar eigin stefnu, í stað þess að taka stöðugt við fyrirmælum að utan frá stofnunum sem enginn hefur kosið til slíkra valda og svara ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart Íslendingum. Ef þetta samband milli kjósenda og valdsins er rofið er vart annars að vænta en að Íslendingar muni fyrr en síðar gjalda þess á eigin skinni. Þetta verða allir að skilja, sérstaklega þó þeir sem sækjast eftir því að starfa á vettvangi íslenskra stjórnmála.

Ábyrgðin er lykilatriði hér, því lýðræðisleg og stjórnskipuleg ábyrgð er það sem ljær þjóðþingi lögmæti. Sú ábyrgð sem þingið ber gagnvart kjósendum gerir það að verkum að menn sætta sig við að hlíta lögum sem þaðan stafa. Þegar þessi tengsl rofna og lagareglur eiga ekki lengur við neinn lýðræðislegan grunn að styðjast eru þær lítið annað en valdatæki, sem almenningur mun fyrr eða síðar vilja rísa gegn. En hvernig rísa menn gegn yfirþjóðlegu valdi ef engin eru tengslin sem duga?

5. Markaðurinn lýtur ekki lýðræðislegum leikreglum

Hið klassíska sniðmát þar sem lögin eru spegill samfélagsins og mótast í daglegu lífi borgaranna, fyrir sammæli, í viðskiptum og með venju, svo fátt eitt sé nefnt, er nú á hröðu undanhaldi. Í vaxandi mæli sjáum við hvernig þrengt hefur að valdsviði Alþingis. Markmið hins yfirþjóðlega valds sem sendir þessar reglur frá sér er alveg skýrt, þ.e. að greiða fyrir markmiðum Rómarsáttmálans um fjórfrelsi. Frjáls viðskipti eru einnig aðalmarkmið Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) og þjóna þau markmið oft á tíðum fremur hagsmunum fjölþjóðafyrirtækja en hagsmunum almennings. Af þessu leiðir að svigrúm þjóða, þar á meðal Íslendinga, til að stýra eigin málum, forgangsraða og setja reglur með hliðsjón af aðstæðum er stórlega skert. Dæmi: Heilbrigðismál (sala áfengis í matvöruverslunum, innflutningur á hráu kjöti); landnýting / landbúnaður (eignarhald erlendra aðila / stórfyrirtækja á íslenskum bújörðum); Nýting og eignarhald náttúruauðlinda (þriðji orkupakkinn og síðari orkupakkar sem opna möguleikann á því að undirstofnun ESB fari með ákvörðunarvald um ráðstöfun og verðlagningu og eignarhaldi á orku sem til verður á Íslandi, stofnun raforkukauphallar og ákvörðun gjaldskrár Landsnets). Skýringin á þessari þróun er auðsæ: Í alþjóðavæddu viðskiptakerfi leyfist þjóðríkjum ekki að hindra frjáls viðskipti. Ef ríki reyna það er þeim stefnt fyrir að standa í vegi fyrir frjálsu flæði fjármagns, oftar en ekki réttindum alþjóðlegra stórfyrirtækja.

Augljós galli við það kerfi sem hér var lýst er sá að kerfið setur frjáls viðskipti (frjálsan markað) á oddinn sem æðsta markmið og efsta gildi. Líf almennings í þjóðríkjum lýtur ekki svo einföldum lögmálum. Þar þarf að taka tillit til margs konar hagsmuna og samræma þá eftir fremsta megni. Það hefur verið hlutverk stjórnmálanna í klassískum skilningi. Alþjóðavæðingin þrengir sjónarhornið með þeim hætti að öllum öðrum hagsmunum en þeim fjárhagslegu er ýtt til hliðar. Allt sem stendur í vegi fyrir eða hægir á markaðsviðskiptum er látið víkja, þ.m.t. öryggishagsmunir þjóða, stjórn á innflytjendamálum, hagnýting náttúruauðlinda og jafnvel umhverfisverndarsjónarmið o.fl.

Mannkynssagan hefur fært okkur margar dýrmætar lexíur sem hugsandi menn ættu að hafa skynsemi til að læra af. Ein er sú að því fjær sem valdið er fært frá kjósendum, þeim mun minni eru möguleikar almennings á að veita aðhald – og þeim mun minni ábyrgð bera þeir sem fara með valdið. Þegar lýðræðislegum leikreglum er ýtt til hliðar og lagareglur eru í meiri mæli samdar af embættismönnum og erindrekum sem bera enga lýðræðislega ábyrgð og kjósendur vita engin deili á eru ríki á 21. öld að stefna inn í veruleika sem áðurnefndir sáttmálar frá 13. og 14. öld afmörkuðu og skilgreindu sem rof á trúnaði milli landslýðs og valdhafa.

Ef staðan er sú að vald færist í æ meiri mæli frá þjóðþingum og lýðræðislega kjörnum fulltrúum yfir til stórfyrirtækja, fjármagnseigenda o.s.frv. verður ekki séð að neinu sambærilegu trúnaðarsambandi hafi verið komið á milli kjósenda og slíkra skuggastjórnenda. Markmið viðskipta eru augljóslega fjárhagslegs eðlis. Því er engan vegin sjálfgefið að atriði á borð við þjóðarhag eða almannaöryggi njóti viðeigandi vægis við háborð valda og áhrifa. Lesandinn þarf því ekki að vera gæddur neinni spámannlegri andagift til að sjá háska þess að hefja auðsöfnun á æðsta stall. Sagan af gullkálfinum er enn í fullu gildi.[21]

6. Markaðurinn leysir ekki Guð af hólmi

„Enn hefur ekki komið fram svo siðlaus þjóðflokkur að hann hafi ekki komið á og haldið guðsþjónustu. Sérhver maður hefur upphafið sérstakan guð þaðan sem hann væntir þess sem gott er, sem hjálpar honum og huggar.“ – Marteinn Lúther (1483-1546)[22]

Fyrsta boðorðið áskilur að Guð sé settur í fyrsta sæti hjá manninum. Þetta er einnig gegnumgangandi stef í Biblíunni sem er ítrekað aftur og aftur í ýmsum myndum, þar á meðal þessari: „Ótti Drottins er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn heilaga eru hyggindi.“[23] Fyrsta boðorðið mælir einnig skýrlega gegn allri skurðgoðadýrkun. Þegar nútímamaðurinn hugsar um skurðgoð er ekki ólíklegt að hann sjái fyrir sér frumstæða, vanþróaða, afskekkta eða „óupplýsta“ þjóðflokka fyrri tíðar eða löngu horfna menningarheima fornaldar, þar sem skurðgoð voru sett á stall og tilbeðin í musterum og færðar fórnir, jafnvel mannfórnir. Áður en við höldum áfram með þessa upptalningu og hefjum upp raust fordæmingar og hneykslunar má þó staldra við og spyrja hvort hinn „veraldlega þenkjandi“ nútímamaður tilbiðji ekki sjálfur skurðgoð í einhverjum skilningi, sbr. orð Lúthers hér að framan? Eða eiga ekki flestir menn eiga sér sín æðstu gildi og fremstu viðmið?

Þegar menn taka eitthvað gott og gera það að miðpunkti tilveru sinnar er í raun verið að búa til goð sem sett eru á stall og dýrkuð í stað Guðs. Hvers vegna er slíkt neikvætt? Vegna þess að sagan sýnir að slík tilbeiðsla hneppir menn í þrældóm, krefst orku, tíma og jafnvel þess að við brjótum gegn samvisku okkar og lögum til að þjóna þessu markmiði okkar og förum þannig gegn hagsmunum / velsæld náungans og heildarinnar. Þar með er ekki sagt að það sem tekur á sig guðsmynd í lífi okkar þurfi endilega að vera slæmt í sjálfu sér, þvert á móti geta mörg slík fyrirbæri verið góð og verðug í sjálfu sér. Vandinn er sá að jafnvel göfugustu fyrirbæri eins og jafnrétti geta í höndum manna umbreyst í barefli sem notað er á aðra og orðið að hugmyndafræðilegum myllusteini um háls þeirra sem binda sig á klafa málstaðarins og / eða hugmyndafræðinnar.

Áhersla á fjárhagslegan ágóða þarf ekki að vera neikvæð meðan hún yfirskyggir ekki allt annað og leiðir til skattsvika, frávika frá kröfum um öryggi og gæði o.s.frv. Biblían geymir óteljandi aðvaranir við því að mennirnir rati á refilstigu skurðgoðadýrkunar. Öllum þessum sögum er ætlað að sýna að enginn hjáguð getur markað tilveru mannsins svo sjálfstæðan, traustan og óhagganlegan grundvöll að það megi teljast ávísun á varanlega gleði, hamingju og öryggi.

Þegar litast er um á vettvangi stjórnmálanna nú á tímum er sú hugsun áleitin hvort dýrkun markaðarins sem hins æðsta viðmiðs hafi leyst guðsdýrkun af hólmi. Ef efast má um kenningar kristinnar kirkju um hin hinstu viðmið og örlög, má þá ekki efast um þá kenningu alþjóðlegrar markaðsvæðingar að fella beri niður allar hindranir fyrir viðskiptum og að öll ríki eigi að lúta valdi markaðarins? Má ekki efast um að þetta sé óumflýjanlegt og nauðsynlegt? Má ekki efast um þær aðgerðir sem lagt er til að ráðist sé í til að flýta þessari þróun? Eða lifum við í reynd í samfélagi sem leyfir ekki efa, umræður og spurningar um tiltekna hluti?

Allt framangreint er ritað í þeim tilgangi að draga athygli lesandans að því hvernig sneitt hefur verið af hefðbundnu stefnumótunarhlutverki stjórnmálanna á þessum forsendum og hvernig sérfræðingar hafa að miklu leyti leyst hefðbundna pólitíska rökræðu af hólmi. Í stað þess að rætt sé um hugmyndir, settar fram spurningar og leitað að svörum með fjölbreyttum aðferðum í leit að farsælustu lausn miðað við aðstæður á þeim tíma er kallað eftir tölfræði. Tölfræðin er svo notuð til að mata spálíkön sem lögð eru pólitískum ákvörðunum til grundvallar, með misjöfnum árangri. Tæknilegir ráðgjafar og sérfræðingar hafa þá tekið við hlutverki sem lýðræðisleg stjórnskipun ætlar þó stjórnmálamönnum að fara með. Með þessu móti eru stjórnmálin leyst upp, lýðræðið vængstýft og borgararnir klipptir út úr ferlinu, samhengi hlutanna er rofið, mál eru aðeins skoðuð út frá þeim sérstöku atvikum sem þar reynir á, og menn eru hvattir til að vera nútímalegir, jafnvel framsæknir, með beinni eða óbeinni vísun til hins goðumlíka markaðar.

Á þessum óljósa hugmyndafræðilega grunni miðar hið alþjóðavædda heimsviðskiptakerfi að því að má út þjóðríkið og deyfa tilfinningu fólks fyrir því að við séum ríkisborgarar tiltekins heimaríkis sem við berum skyldur gagnvart og sem svarar til samsvarandi ábyrgðar gagnvart okkur. ESB er byggt upp þannig að borgararnir hafi lítið eða ekkert um það að segja hvernig málum er stjórnað og hvert er stefnt. Þeir sem stjórna eru einhvers konar innvígðir prestar, sem túlka óljóst orðalag „ritninganna“ (samninganna / reglugerðanna) eða teknókratar sem boða nýjan sannleika (hagsældarguðsins). Allt leiðir þetta að því að auka fjarlægðina milli hins almenna borgara og þeirra sem fara með völdin.

Í Evrópurétti er landsréttur algjört aukaatriði og hið sama má segja um flest svið þjóðaréttar. Það sem máli skiptir og ræður för er „sífellt nánari samvinna“ ríkja innan ESB. Nánar tiltekið er ráðandi sjónarmið kennt við „tiltekna hugmynd um Evrópu“[24] sem embættismennirnir sjálfir virðast ákveða hver er, a.m.k. hafa almennir borgarar minnst um það að segja. Í 164. gr. Rómarsáttmálans[25] er talað um að dómstóll bandalagsins skuli tryggja að lögin (e. the law) séu varin við túlkun og beitingu sáttmálans.[26] Af dómaframkvæmd má ráða að aðildarþjóðir hafi upphaflega talið sig mega vera í góðri trú um að þetta orðalag um „lögin“ skírskotaði til einhvers konar blöndu af landsrétti og þjóðarétti. Sú hefur þó ekki orðið raunin í réttarframkvæmd, því þar hefur framsækin túlkun stofnana ESB á reglum Evrópuréttar gengið lengra en sjá mátti fyrir í upphafi. Í þeim tilgangi að markmið stofnsáttmála ESB nái fram að ganga hafa dómarar og embættismenn ESB sýnt viðleitni til að víkja öðrum lagareglum til hliðar, jafnvel ákvæðum í stjórnarskrám aðildarríkjanna. Svo sem gefur að skilja hefur þessi réttarframkvæmd ekki verið algjörlega átakalaus[27] þótt sneitt hafi verið að mestu hjá alvarlegum árekstrum.[28]

Í þessu ljósi var sérstakt að heyra prófessor í lögfræði halda því fram að ekkert væri því til fyrirstöðu að Alþingi samþykkti þriðja orkupakka ESB þar sem réttur Íslands „til að heimila eða hafna lagningu sæstrengs inn fyrir landhelgina“ stæði óhaggaður „hvað sem þriðja orkupakkanum eða öðrum ákvæðum EES-samningsins líður“.[29] Með vísan til réttarframkvæmdar á sviði Evrópuréttar[30] þar sem fjórfrelsið hefur notið verndar sem nokkurs konar „yfirstjórnarskrá“ mega síðast tilvitnuð ummæli teljast illa ígrunduð,[31] enda blasir við að viðleitni íslenska ríkisins til að hindra tengingu rafkerfis Íslands við rafkerfi annarra landa yrði talin jafngilda hindrun á frjálsu vöruflæði.

Viðfangsefni stjórnmálanna er að vekja borgarana til vitundar um ábyrgð þeirra og möguleg áhrif á stefnumótun í gegnum þátttöku í stjórnmálum. Á sama tíma og fækkað hefur í ungliðadeildum stjórnmálaflokkanna er engin vöntun á fólki sem er reiðubúið að taka þátt í fjöldamótmælum og hrópa á torgum. Augljóslega getur það þó ekki verið leiðin til að hafa áhrif í lýðræðissamfélagi, heldur í gegnum stjórnmálaþátttöku, þar sem leitað er svara við spurningunni um hvert við viljum stefna. Allt framangreint er reifað hér til að undirstrika að einstefna í átt til síaukinnar alþjóðahyggju, með þeim neikvæðu áhrifum á lýðræðið sem hér hafa verið nefnd, getur ekki verið hið óumdeilanlega eða endanlega svar. Heimsvaldastefna yfirþjóðlegra stofnana samræmist ekki vel stjórnarskrárákvæðum um fullveldi, lýðræði, borgaraleg réttindi og sjálfsábyrgð.

Sá háttur alþjóðaviðskipta sem misvirðir allt sem fallið getur undir þjóðarhag, annað en frjálsan markað, er ógn við fullveldi þjóða, auk þess sem það hlýtur að verða að teljast augljós veikleiki að hvergi er sérstaklega útskýrt hvað er svo göfugt við markaðinn einan og sér að hann eigi skilyrðislaust tilkall til að tróna í því hásæti sem hér um ræðir. Hvað með hinar margvíslegu skuggahliðar þessara haftalausu heimsviðskipta með öllu því dýraníði, þrælahaldi og misnotkun náttúrunnar sem þeim er fylgjandi? Almennir borgarar hafa litla sem enga möguleika á að hafa áhrif á störf starfsmanna ESB eða efni þeirra reglna sem þaðan stafa, en auk þess enga möguleika á að víkja þeim úr starfi. Í stuttu máli er gallinn við þetta fyrirkomulag augljós: Þar sem ekki er hægt að beita raunverulegu aðhaldi eru allar líkur á að valdið fari fyrr en síðar að þjóna eigin hagsmunum fremur en þeirra sem valdinu er ætlað að þjóna. Þegar skorið hefur verið með þessum hætti á tengsl almennings og valdastofnana geta kjósendur ekki vikið mönnum úr valdastólum ef trúnaðarbrestur verður. Í þessu birtist gömul saga og ný: Átrúnaður á falsguði mun óhjákvæmilega valda okkur miklum háska þegar fram líða stundir.

7. Lög og samfélag

Í bók minni, Lög og samfélag,[32] eru færð fram margvísleg rök fyrir því að þetta tvennt sé órjúfanlega tengt. Í því ljósi er sú staða með öllu óásættanleg að við fáum lögin send hingað í formi tilskipana sem við höfum ekkert um að segja, hvorki til að breyta efni þeirra né til að hafna þeim. Til að bæta gráu ofan á svart svarar „löggjafinn“ samkvæmt framansögðu ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart okkur sem móttakendum þessara sömu reglna. Hlutverk okkar er aðeins eitt í þessu samhengi: Að hlýða.

Hvað heitir þetta stjórnarfyrirkomulag á mannamáli annað en ofríki? Hvers vegna ættu Íslendingar að lúta lögum sem þannig verða til og er beint til okkar með þeim hætti sem hér var lýst? Svarið við þeirri spurningu blasir ekki við. Í ljósi alls þess sem höfundur hefur áður sagt um hinn órjúfanlega – og nauðsynlega – þráð milli laganna og samfélagsins sem þau eiga að þjóna hlýtur íslensk þjóð að sjá að það sem hér um ræðir er ekki „okkar lög“ heldur lög annarra, sem Íslendingum er ætlað að taka upp, án tillits til aðstæðna hér á landi. Óskandi væri að íslenskur almenningur gæfi þessari viðkvæmu stöðu meiri gaum. Í þessu samhengi bera stjórnmálamenn þunga ábyrgð. Þeir hafa boðið sig fram til starfa í þágu almennings, til þess að setja mönnum lög. Er í því ljósi ósanngjarnt að kjörnir fulltrúar axli þá ábyrgð sem þeir hafa boðið sig fram til að bera?

8. Samantekt

Valda- og áhrifaleysi Alþingis hefur skapað háskalegan vítahring ásýndar, gervistjórnmála og inntaksleysis sem aftur hefur leitt til stöðugt lélegra mannvals á Alþingi, þar sem allt of margir líta á þingmannshlutverkið sem starf handa sjálfum sér, sem starfsferil, í stað þess að nálgast þingmennskuna sem þjónustu við íslenska þjóð. Þjóðarhagsmunum hefur verið kastað út um gluggann í stjórnmálaumræðu og sótt að fullveldishugmyndinni bæði frá hægri og vinstri: Haftalaus frjálshyggja getur leitt til þess að hagur fjármagnseigenda sé settur ofar rétti þeirra sem landið byggja. Á vinstri kantinum hefur sá öfugsnúningur átt sér stað að hámenntaðir smáborgarar vilja gera öreigana áhrifalausa, skapa undirstétt sem er háð stjórnvöldum um framfærslu, en koma völdunum þess í stað í hendur smáborgaralegs og miðstýrðs valds.

Við öllum þessum vanda eru auðvitað ekki til neinar töfralausnir. Eitt af því sem þó má benda á sem skref til framfara væri að endurvekja stjórnmál á lýðræðislegum grunni. Það verður ekki gert án þess að kalla menn til ábyrgðar gagnvart sjálfum sér og samfélagi sínu. Ein besta leiðin til þess væri að draga úr umsvifum ríkisins en hvetja menn til að vinna saman að því að leysa þau mál sem á þeim brenna. Sagan hefur sýnt að frjáls félagasamtök gegna lykilhlutverki í þessu samhengi, þar sem slíkt starf reiðir sig á einstaklinginn og virðir hann, en kallar menn um leið til samvinnu og ábyrgðar. Þátttaka í slíku starfi rýfur félagslega einangrun og kemur til móts við þörf mannsins til að tilheyra stærri hópi. Maðurinn þarf að vera hluti af heild til að líða vel og ná árangri – og umfram allt til að finnast hann hafa hlutverk og tilgang. Í anda vonar og bjartsýni má vænta þess nýr kraftur hlaupi í allt félagsstarf þegar samkomutakmörkunum vegna kórónaveirunnar verður aflétt.

Á tímum þar sem sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karlmanna[33] væri kannski ekki úr vegi að hætta að skilgreina fólk sem neytendur en vekja þess í stað borgarahugtakið til lífs, enda er þar margt að finna sem við getum sameinast um í þjónustu við nærsamfélag og íslenska lýðveldið. Í alræðisríkjum er borgarahugtakið afrækt og í slíkum ríkjum skilja menn ekki lengur muninn á því að vera borgari og þegn. Þegn hlýðir yfirvaldinu skilyrðislaust. Borgari veitir valdinu aðhald. Sem borgarar eigum við sameiginlega hagsmuni sem lýðræðinu er ætlað að verja. Borgarar eru í þessum skilningi brjóstvörn almannahagsmuna og hafa það hlutverk að koma í veg fyrir að stjórnmálin leysist upp í baráttu sérhagsmuna. Lýðræðisleg stjórnmál eiga samkvæmt þessu að renna í farvegi sem liggur á milli ofríkis og skrílræðis. Í því felst að ákvarðanatakan má hvorki stýrast af blindri valdhlýðni né ótta við upphrópanir þeirra sem hafa hæst þá stundina. Vísbendingar eru um að íslensk stjórnmál séu nú um stundir á eyðimerkurgöngu, burt frá fyrrgreindri uppsprettu borgaralegs lýðræðis.

Íslensk þjóðarvitund sem sameinar fólk til varnar landinu, tungumálinu, menningu okkar og sögu á fullan rétt á sér undir merkjum jákvæðrar þjóðhyggju, sem lifir rétt eins og smáblómið í þjóðsöngnum í auðmýkt og þakklæti, meðvituð um veikleika sinn, forgengileika og það kraftaverk að við skulum vera til og lifa. Slík þjóðvitund minnir okkur á að Ísland er sameiginlegt heimili okkar, þar sem við deilum kjörum og byggjum upp samfélag, þar sem við förum sjálf með völd en berum líka ábyrgðina á því sem gert er (og ógert). Má ekki í þessu samhengi færa rök fyrir mikilvægi þess að völdin séu færð aftur til almennings, úr höndum teknókrata og stórfyrirtækja? Frjálsir fjölmiðlar bera sérstaka ábyrgð á því að verja og viðhalda tjáningarfrelsi. Margs konar sérhagsmunir kunna að mæla með því að hefta málfrelsi og vega að lýðræðinu. Frammi fyrir slíkum tilburðum eiga almannahagsmunir fullt erindi í umræðuna.

Lýðveldisstjórnarskráin nr. 33/1944 slær skjaldborg utan um almannahag m.a. með því að tryggja að enginn einn maður / hópur geti verið einráður, ekki einu sinni meirihlutinn. Leitast var við að tryggja að meirihlutinn gæti ekki svipt minnihlutann grundvallarréttindum. Áfram gætu menn þó í sameiningu rætt, afmarkað og varið almannahag, þ.e. hagsmuni meirihluta þjóðarinnar. Ýmsar áherslur og tilhneigingar í félagsvísindum nútíðarinnar vega að þessu. Meirihlutinn er þar talinn vera í stöðugri hagsmunagæslu fyrir sjálfan sig, pólitíkin hefur í samræmi við þetta verið leyst upp í n.k. leðjuslag þar sem hver hópur berst aðeins fyrir sjálfan sig. Þar með er raskað hinu viðkvæma jafnvægi, milli meirihlutans og minnihlutans, sem stjórnarskráin leitast við að tryggja. Almannahagur hverfur út af sviði umræðunnar. Menn virðast sammála um það eitt að enginn sannleikur sé til, hann sé afstæður. En afstæðishyggjan hefur tilhneigingu til að leiða út í ófrjótt fen.

9. Lokaorð

Lýðræðið byggist á því að hver og einn maður leitist við að mynda sér sjálfstæða skoðun en berist ekki hugsunarlítið með straumi tíðaranda og breytilegu almenningsáliti. Til grundvallar liggur viðurkenning á því að einstaklingurinn sé myndugur í eigin lífi og móti eigið líf með vel ígrunduðu vali sínu. Allt þetta hefur vestræn stjórnskipun notað sem útgangspunkt með því að stuðla að hlutlausri umgjörð um réttindi fólks og virða frjálst val þeirra í lengstu lög. Hlýtur þá ekki hið sama að gilda um fullveldi þjóða?

Höfundur er héraðsdómari.

Greinin er ritrýnd og birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

Tilvísanir:
[1] Sjá <https://www.ruv.is/frett/ekki-haegt-ad-saekja-um-undanthagu-fra-orkupakka> Skoðað 9.2.2020.
[2] Sjá t.d. Alicia Hinarejos, Judicial Control in the European Union: Reforming Jurisdiction in the Intergovernmental Pillars (Oxford University Press 2009), bls. 45.
[3] Sjá t.d. ákvörðun ESA nr. 075/16/COL, 20. apríl 2016 í máli nr. 78027: „EFTA surveillance authority decision of 20 April 2016 to propose appropriate measures regarding the the use of publicly owned land and natural resources by electricity producers in Iceland“. Sjá: <https://www.eftasurv.int/cms/sites/default/files/documents/decision-075-16-COL.pdf > skoðað 9.10.2020.
[4] Sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 11. október 2018 í máli nr. 154/2017: íslenska ríkið gegn Ferskum kjötvörum ehf. < https://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=5fcf2290-2dc2-4cfa-8560-4e534c7c34f5> skoðað 22. október 2020.
[5] Fyrsta Mósebók 4:10.
[6] Íslenzkar fornsögur – Íslendingasögur (Skuggsjá 1972), 359.
[7] Á síðari tímum hafa menn sett fram ýmsar aðrar kenningar, þar á meðal um að menn hafi siglt hingað í trúarlegum tilgangi, í landkönnunartilgangi, af ævintýraþrá o.s.frv. Sjá nánar m.a. bók Guðmundar G. Þórarinssonar, Árdagar Íslendinga (Einir 2016).
[8] Sbr. Magna Carta (1215).
[9] Sbr. Arbroath-yfirlýsinguna (e. Declaration of Arbroath) frá 1320.
[10] Á grundvelli 6. gr. EES-samningsins, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 106. gr. samningsins, hefur EFTA-dómstóllinn í framkvæmd túlkað ákvæði EES-samningsins í samræmi við dómsniðurstöður dómstóls ESB. Sjá t.d. Carl Baudenbacher: „EFTA-dómstóllinn í 10 ár: Hvernig er samskiptum við Evrópudómstólinn háttað?“ (2004) 3 Tímarit lögfræðinga, 301, 306.
[11] Af ákvæðum 6. gr. EES-samningsins leiðir að túlkunarvaldið hvílir í framkvæmd hjá dómstól ESB.
[12] Sjá t.d. dóm EFTA-dómstólsins 26. júní 2007 í máli nr. E-2/06, ESA g. Noregi, þar sem talið var að skýrt ákvæði 125. gr. EES-samningsins („Samningur þessi hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar“) yrði í framkvæmd að lúta grundvallarreglum ESB um fjórfrelsið. Með þeim rökum, og með vísan til dómaframkvæmdar dómstóls ESB, var hafnað þeim vörnum Noregs að tilvísaðar norskar lagareglur féllu utan við gildissvið EES-samningsins.
[13] Í 44. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hún var orðuð áður en henni var breytt með lögum nr. 56/1991, var að finna svohljóðandi ákvæði: „Ekkert lagafrumvarp, að fjárlögum og fjáraukalögum undanskildum, má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt þrisvar sinnum í hvorri þingdeild.“ Með 14. gr. laga nr. 56/1991 var 44. gr. stjórnarskrárinnar breytt þannig að nú má ekkert lagafrumvarp samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.
[14] Sjá nánar „Álit nefndar utanríkisráðherra um stjórnarskrána og EES-samninginn (6. júlí 1992.)“ <https://www.althingi.is/altext/116/s/0030.html> skoðað 8. október 2020.
[15] Skoða ber þetta með hliðsjón af ákvæði 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. og bókun 35 við samninginn, þar sem tekið var fram að með EES-samningnum væri stefnt að „einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig“ með eftirfarandi viðbótarbókun: „Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“
[16] Sjá „Island gir ikke EU/EØS-retten forrang fremfor nasjonal rett“ https://www.stortinget.no/no/Hva-skjer-pa-Stortinget/EU-EOS-informasjon/EU-EOS-nytt/2020/eueos-nytt—2.-oktober-2020/island-gir-ikke-eueos-retten-forrang-fremfor-nasjonal-rett/ skoðað 8. október 2020.
[17] Sjá t.d. Hans Petter Graver, Grunnlovens § 115 og (særlig) ACER-saken. Betenkning avgitt til Nei til EU
(Nei til EU, november 2018).
[18] Sjá <https://www.ruv.is/frett/ekki-haegt-ad-saekja-um-undanthagu-fra-orkupakka> skoðað 22.10.2020.
[19] Sama heimild.
[20] Höfundur hefur í þessu samhengi ekki horft fram hjá jákvæðri „Skýrslu starfshóps um EES-samstarfið“ sem út kom í septembermánuði 2019, sjá <https://web-mediafiles.s3.amazonaws.com/A478317FC0B8C13A05870CE8248D08702C1B559A37A3AC88483B55B04E6CF09E.pdf> skoðað 22.10.2020.
[21] 2. Mósebók, 32. kafli.
[22] Marteinn Lúther, Úrval rita 2 (Skálholtsútgáfan 2018), 154
[23] Orðskviðirnir 9:10.
[24] Sjá nánar t.d. Parsons, Craig. A Certain Idea of Europe (Cornell University Press 2018).
[25] Undirritaður 25. mars 1957.
[26] Ensk útgáfa ákvæðis 164. gr. Rómarsáttmálans hljómar svo á enskri tungu: „The Court of Justice shall ensure that in the interpretation and application of this Treaty the law is observed.“ Sjá <https://ec.europa.eu/romania/sites/romania/files/tratatul_de_la_roma.pdf> skoðað 26. september 2020.
[27] Um langvarandi spennu milli þýska stjórnlagadómstólsins í Karlsruhe og ESB má t.a.m. visa til dóms stjórnlagadómstólsins 22. október 1986 í svonefndu Solange II máli: BVerfGE 73, 339, [1987] 3 CMLR 225
[28] Í samhengi þeirrar lagaframkvæmdar sem hér um ræðir má niðurstaða þýska stjórnlagadómstólsins 2. maí 2020 kallast stórviðburður, en þar var ESB settur stóllinn fyrir dyrnar m.t.t. þýsku stjórnarskrárinnar. Sjá <https://www.bundesverfassungsgericht.de/SharedDocs/Entscheidungen/EN/2020/05/rs20200505_2bvr085915en.html> skoðað 9. október 2020.
[29] Sjá <https://www.visir.is/g/2019799286d> og enn fremur https://www.frettabladid.is/skodun/meiri-saestrengjasteypa/ skoðað 26. september 2020
[30] Sjá t.d. Peter Ørebech, EUs Energibyrås Energipakke 3 & 4 og Kongeriket Norges Grunnlov (Nei til EU 2020), 66.
[31] Yfirlýsingar norsku ríkisstjórnarinnar, um lagningu rafstrengja yfir landamæri, við innleiðingu þriðja orkupakka ESB í norskan rétt 2017 voru öllu raunsærri, því þar var einungis talað um að ríkisstjórnin hygðist „vinna að því að tryggja áhrif norskra aðila að gerð og framkvæmd slíkra reglna“. Sjá Prop. 4 S (2017–2018) „Samtykke til godkjenning av EØS-komiteens beslutning nr. 93/2017 av 5.
mai 2017 om innlemmelse i EØS-avtalen av rettsaktene som inngår i den tredje
energimarkedspakken“, 18.
[32] Arnar Þór Jónsson, Lög og samfélag (Háskólinn í Reykjavík og Háskólaútgáfan 2016).
[33]Sjá <https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/24/sjalfsvig_er_algengasta_danarorsokin/> skoðað 26. september 2020.