Í sumarhefti Þjóðmála fórum við yfir það þegar netskákin tók völdin. Gjörsamlega. Hin hefðbundnu skákmót sneru aftur í sumar og í haust bæði hérlendis og erlendis. Á Íslandi fóru fram Íslandsmótið í skák, sem á 107 ára sögu, og Haustmót Taflfélags Reykjavíkur, sem á 86 ára sögu.
Í október var svo fyrsta ofurmótið í heiminum haldið í Stafangri í Noregi síðan áskorendamótið hófst og endaði með hvelli í hálfleik með í Katrínarborg í mars. Þegar þetta er ritað er aftur búið að loka fyrir skákmótahald hérlendis, vonandi þó bara tímabundið, en það litla alþjóðlega mótahald sem komst á sumar í raunheimum virðist vera á útleið.
Guðmundur Íslandsmeistari í þriðja sinn
Íslandsmótið í skák, sem ber formlega hið fallega og virðulega nafn Skákþing Íslands, var haldið í Álftanesskóla í ágúst. Mótið var að þessu sinni samvinnuverkefni Skáksambandsins og Taflfélags Garðabæjar, sem fagnar 40 ára afmæli í ár. Garðabær studdi myndarlega við mótshaldið.
Á ýmsu gekk í undirbúningi mótsins. Upphaflega átti að halda mótið í Sveinatungu, fundarsal bæjarstjórnar í Garðabæ, í mars/apríl. Eðli málsins samkvæmt gekk það ekki upp og fresta þurfti mótinu. Mótið var sett á ágústlok og menn voru bjartsýnir á mótshaldið. Önnur bylgjan gerði þá mönnum lífið leitt og um tíma benti flest til þess að mótinu yrði aflýst.
Það var ekki nema með þriggja daga fyrirvara að undanþága, sambærileg þeirri sem aðildarfélög ÍSÍ höfðu fengið, var staðfest fyrir Íslandsmótið. Það þvældist fyrir heilbrigðisráðuneytinu hvort skák væri íþrótt eða ekki. Sú skilgreining fór þó í gegn að lokum eftir töluvert japl, jaml og fuður. Mótið var flutt í Álftanesskóla, þar sem teflt var við afar góðar aðstæður. Sá sem þetta ritar dáðist að keppendum að láta alla óvissuna ekki trufla sig of mikið.
Gera þurfti ýmiss konar ráðstafanir. Bjóða upp á breiðari borð og þrífa taflmenn, skákklukkuna og skákborðið á milli skáka. Jafnframt mátti ekki bjóða upp á veitingar á skákstað, sem er óvenjulegt fyrir skákmenn, sem margir hverjir eru miklir kaffidrykkjumenn. Þeir allra kaffiþyrstustu mættu með kaffibrúsa á skákstað! Áhorfendur voru heldur ekki leyfðir. Þess í stað lagði Skáksambandið mikið í beinar útsendingar, sem gengu framúrskarandi vel.
Mótið varð reyndar æsispennandi og um tíma stefndi í það að fjórir skákmenn yrðu efstir og jafnir. Svo fór þó að lokum að Guðmundur Kjartansson hélt naumlega jafntefli í lokaumferðinni gegn Hjörvari Steini Grétarssyni og tryggði sér um leið Íslandsmeistaratitilinn. Hefði Hjörvar unnið hefðu Guðmundur, Hjörvar, Helgi Áss Grétarsson og Bragi Þorfinnsson orðið efstir og jafnir og hefðu þurft að tefla til þrautar með skemmri umhugsunartíma.
Guðmundur sýndi strax í upphafi mótsins að hann ætlaði að sér að vera í baráttunni. Hann átti leik gegn Þresti Þórhallssyni í 2. umferð mótsins.
Guðmundur varð jafnframt Íslandsmeistari árin 2014, í Kópavogi, og 2017 í Hafnarfirði. Þriggja ára plan hjá meistaranum sem virðist jafnframt gagna betur í nágrenni borgarinnar en í henni sjálfri!
Afar ánægjulegt og þægilegt var að vinna með Garðabæ að mótshaldinu.
Hjörvar vann Haustmót TR
Fljótlega eftir Skákþingið hófst Haustmót Taflfélags Reykjavíkur, sem er sennilega þriðja elsta og jafnframt virtasta skákmót landsins. Fyrsta Haustmótið, sem jafnframt er meistaramót Taflfélags Reykjavíkur, var haldið 1934. Að þessu sinni mættu fimm af tíu keppendum landsliðsflokks Íslandsmótsins og þar af hinir fjórir efstu. Mótið var óvenju sterkt, en þar spilar inn í að menn hafa ekkert getað sótt mót erlendis. Hjörvar Steinn Grétarsson vann mótið en Helgi Áss varð annar og varð skákmeistari TR í þriðja sinn, þar sem Hjörvar er ekki meðlimur í Taflfélagi Reykjavíkur. Guðmundur varð þriðji og Bragi fjórði.
Mótið náði naumlega að klárast áður en samkomutakmarkanir voru hertar í október. Mótin féllu því rétt svo inn í rammann á milli annarrar og þriðju bylgju Covid-faraldursins.
Ofurmót í Noregi
Alþjóðlegt skákmótahald hefur verið í algjöru skötulíki í sumar. Eitthvað var þó um slíkt í suður- og austurhluta Evrópu eins og t.d. í Tékklandi, Póllandi og Ungverjalandi. Mest var þó um að ræða staðbundin mót eins og t.d. meistaramót landa sem mörg hver fóru fram.
Í sumarhefti Þjóðmála sögðum frá áskorendamótinu í Katrínarborg, sem var slitið í miðju móti vegna ástandsins þegar 7 umferðum af 14 var lokið. Til stóð að taflmennskan hæfist aftur í nóvember en því var frestað fyrir skemmstu og er stefnt að því klára mótið næsta vor. Því gæti liðið meira en ár á milli fyrstu og síðustu umferðar mótsins! Heimsmeistaraeinvíginu hefur verið frestað um eitt ár og er nú fyrirhugað í nóvember/desember 2021.
Fyrsta ofurmótið í raunskák eftir að heimsfaraldurinn skall á, Altibox Norway Chess, var haldið í Stafangri í Noregi í október. Upphaflega stóð til að mótið yrði 10 manna mót þar sem allir tefldu við alla en því var breytt í sex manna mót, enda Noregur lokaður fyrir aðra en Evrópubúa, þar sem tefld væri tvöföld umferð. Sumir keppendur lögðu á sig að mæta með 10 daga fyrirvara til Stafangurs til að klára sóttkví fyrir mótið.
Teflt var með óvenjulegu fyrirkomulagi. Teflt var hefðbundin kappskák og fékk sigurvegarinn 3 stig. Yrði jafntefli var tefldur svokallaður bráðabani. Þar fékk hvítur 10 mínútur og svartur 7 mínútur. Svörtum dugar hins vegar jafntefli. Sá sem vann bráðabanann fékk 1½ stig en sá sem tapaði fékk 1 stig.
Íranska landflótta ungstirnið Alireza Firouzja, sem hefur franskt vegabréf og er aðeins 17 ára, sló heldur betur í gegn og barðist um sigurinn á mótinu. Svo fór að lokum að heimsmeistarinn, Magnús Carlsen, fagnaði sigri þrátt fyrir að hafa tapað tveimur skákum. Hinn bandaríski Fabiano Caruana, sem einnig hefur ítalskt vegabréf og gat þess vegna verið með, varð þriðji.
Magnús tefldi fjörlega og lagði mikið á stöðurnar. Hann átti hér leik gegn landa sínum Aryan Tari.
Norðmenn héldu einnig alþjóðlegt mót í Fagranesi sem gekk að flestu leyti prýðilega þrátt fyrir miklar áskoranir. Sumir keppendur lögðu á sig 10 daga sóttkví til að taka þátt.
Hvernig verður framhaldið?
Þegar þetta er ritað liggur skákmótahald niðri á Íslandi en það er vonandi tímabundið.
Sem betur fer er búið að klára flest mikilvægustu mót ársins og e.t.v. verður hluti af því mótahaldi sem ólokið er flutt á internetið þótt það sé algjört neyðarúrræði. Íslandsmóti skákfélaga var alfarið frestað í ár og er áformað að keppninni sem hófst haustið 2019 ljúki vorið 2021!
Alþjóðlegt mótahald í raunheimum er nánast ekki til staðar. Fram undan eru hin ýmsu netmót, eins og HM ungmenna, EM taflfélaga í kvennaflokki og landskeppni fjögurra Norðurlandaþjóða.
Magnús Carlsen ætlar að gleðja skákáhugamenn með nýrri netmótasyrpu sem byrjar nú í nóvember á vefnum Chess24. Gera má ráð fyrir að flestir sterkustu skákmenn heims taki þar þátt.
Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.
—
Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.