Lokaþing fyrir kosningar er hafið. Þar með er eðlilegt að þingmenn ræði enn á ný breytingar á stjórnarskránni, mál sem hefur sett svip sinn á stjórnmálalífið allt frá því að lýðveldi var stofnað fyrir 76 árum.
Samþykki alþingi frumvarp til stjórnskipunarlaga ber að rjúfa þing og efna til kosninga og bera málið upp að nýju á nýkjörnu þingi til að stjórnarskránni verði breytt. Vegna þessara ákvæða í 79. grein stjórnarskrárinnar er lokaþing kjörtímabils jafnframt eðlilegur umræðuvettvangur um stjórnarskrármál hafi þingmenn áhuga á að breyta einhverjum greinum stjórnarskrárinnar.
Frá hruni bankakerfisins hafa sumir látið eins og ekkert sé brýnna en að ýta lýðveldisstjórnarskránni frá 1944 til hliðar. Jóhanna Sigurðardóttir reyndi þetta strax eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 og vildi knýja í gegn breytingar fyrir kosningar í apríl sama ár en mistókst.
Eftir kosningar 2009 hófst fjögurra ára stjórnarskrárferli undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur sem miðaði að því að knýja í gegn nýja stjórnarskrá sem samin yrði utan alþingis.
Átti þjóðin að kjósa stjórnlagaþing, sem misheppnaðist, hæstiréttur ógilti kosningarnar. Þá varð til 25 manna stjórnlagaráð í umboði Jóhönnustjórnarinnar. Það skilaði tillögum og voru sum atriði lögð fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu haustið 2012. Þingið tók tillögurnar til meðferðar og breytti þeim. Þegar þingnefnd lagði þær fram til annarrar umræðu í mars 2013 var þeim vikið til hliðar með tillögu forystumanna stjórnarflokkanna, Árna Páls Árnasonar og Katrínar Jakobsdóttur. Þau lögðu ásamt Guðmundi Steingrímssyni fram formtillögu sem átti að tryggja að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar lægi fyrir á 70 ára afmæli lýðveldisins 2014.
II.
Gengið var til þingkosninga 27. apríl 2013. Eftir að tillögur stjórnlagaráðs höfðu komið til atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar 20. október 2012 en orðið að engu á alþingi vaknaði áhugi hjá nokkrum sem sátu í stjórnlagaráði að fylgja málinu eftir á pólitískum vettvangi og bjóða fram í þingkosningunum 2013. Til varð flokkurinn Lýðræðisvaktin.
Lýður Árnason læknir, sem var áður í flokknum Dögun, skýrði frá áformunum um framboðið í viðtali við Morgunblaðið 15. febrúar 2013. Í fréttinni sagði að fyrir utan Lýð stæðu að framboðinu meðal annarra Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor, Pétur Gunnlaugsson, lögfræðingur og útvarpsmaður, Örn Bárður Jónsson prestur og Gunnar Tómasson hagfræðingur, en allir áttu þeir sæti í stjórnlagaráði nema Gunnar.
Lýður sagði að nýja framboðið myndi snúast um þrjú meginmál, efnahagsmálin, stjórnarskrána og „glímuna við hagsmunaaðila hér á landi“.
Þegar Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri, sem átti sæti í stjórnlagaráði, bauð sig fram í fyrsta sæti Lýðræðisvaktarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður sagði Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu sig frá Lýðræðisvaktinni. Hann ætti ekki heima í femínískum Evrópuflokki, en Þórhildur vildi halda ESB-aðildarviðræðunum áfram.
Pétur Gunnlaugsson varð formaður í Flokki heimilanna, sem bauð einnig fram í kosningunum 2013 (og fékk 3%, fleiri atkvæði en Lýðræðisvaktin).
Þorvaldur Gylfason var formaður eða „vaktstjóri“ Lýðræðisvaktarinnar og sagði í DV 26. apríl 2013, daginn fyrir kjördag, að Lýðræðisvaktin væri þverpólitískt framboð, nema réttara væri að kalla það „ópólitískt framboð“ af því að ómögulegt væri að færa haldbær rök fyrir því að stefnuskrá flokksins hallaðist til hægri eða vinstri. Hún byggi „yfir sama galdri og frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá“.
Það væri helsta stefnumið Lýðræðisvaktarinnar að færa fram málin sem þjóðin studdi í atkvæðagreiðslunni 20. október 2012 en „gömlu flokkarnir“ á þingi hefðu brugðið fæti fyrir „í eiginhagsmunaskyni“.
„Forseti alþingis braut þingsköp með því að bera [stjórnarskrár]frumvarpið ekki undir atkvæði, þótt enginn hafi fyrr en nú haft orð á þeim þætti hneykslisins opinberlega,“ sagði Þorvaldur án þess að rökstyðja „kosningabombuna“ frekar.
Með öðrum orðum. Til varð sérstakur flokkur fyrrverandi stjórnlagaráðsmanna sem bauð fram til að fylgja eigin tillögum fram til sigurs í þingkosningum.
Þegar atkvæði voru talin fékk Lýðræðisvaktin 2,46461546601762% atkvæða. Óvenjulegt er að sagt sé frá fylgi flokka með 14 aukastöfum. Í þessu tilviki er ástæðan sú að Héraðsdómur Reykjavíkur birti töluna í febrúar 2016 þegar héraðsdómari hafnaði fullyrðingu Lýðræðisvaktarinnar um að fylgi hennar væri 2,5% en á því valt hvort flokkurinn fengi 29 m. kr. úr ríkissjóði á kjörtímabilinu sem hófst 2013.
Fyrir þingkosningarnar 2013 voru til þrjár útgáfur af tillögum að nýrri stjórnarskrá. Sú fyrsta var samþykkt af stjórnlagaráði 2011 og afhent alþingi. Önnur útgáfan varð til eftir að sérfræðingahópur alþingis lagaði drögin og útbjó frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga 2012. Þriðja útgáfan varð síðan til í meðförum alþingis 2013. Henni var hafnað í mars 2013. Alþingi hefur hafnað að samþykkja heildstæða stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Stjórnarskrárfélagið, undir formennsku Katrínar Oddsdóttur lögfræðings, hóf 19. júní 2020 söfnun undirskrifta til stuðnings við „nýja stjórnarskrá“.
„Ég myndi telja að fólk væri að skrifa undir drög stjórnlagaráðs, og þau yrðu lögð til grundvallar,“ sagði Katrín Oddsdóttir á ruv.is 17. október 2020.
Á þinginu sem nú situr flytja píratar, samfylkingarþingmenn og tveir utan flokka þingmenn frumvarp að nýrri stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs.
III.
Ólafur Ragnar Grímsson lét að því liggja í áramótaávarpi 1. janúar 2012 að hann stefndi ekki að endurkjöri þegar fjórða kjörtímabili hans sem forseta Íslands lyki sumarið 2012. Hann ákvað þó síðar að láta slag standa og bjóða sig fram að nýju. Meginástæðan var að hann taldi viðsjárverða tíma í stjórnarskrármálinu.
Eftir að hafa náð endurkjöri bar Ólafur Ragnar lof á lýðveldisstjórnarskrána frá 1944 í innsetningarávarpi sínu 1. ágúst 2012. Hún hefði á margan hátt „reynst þjóðinni vel enda jafnan verið löguð að þörfum nýrrar tíðar. Sú hugsjón ávallt leiðarljós að þjóðin væri hinn æðsti herra; allar stofnanir og ráðamenn yrðu að lúta vilja hennar“.
Stjórnarskráin væri rammi sem hefði haldið þrátt fyrir stéttaátök og kalda stríðið og veitt á nýliðnum árum svigrúm til að mæta kröfum mótmælenda og gera upp mál með atkvæðagreiðslum þjóðarinnar. Íslendingar hefðu „ávallt borið gæfu til að ná víðtækri samstöðu um breytingar á stjórnarskrá, skapa einhug sem í aðdraganda aldamóta birtist við afnám deildaskiptingar Alþingis, mótun nýs kafla um mannréttindi og breytta tilhögun þingrofsins“.
Ólafur Ragnar Grímsson hvatti með öðrum orðum til víðtækrar samstöðu um breytingar á stjórnarskránni þegar hann flutti fyrstu ræðu sína sem endurkjörinn forseti.
Ráðgefandi atkvæðagreiðslan um tillögur stjórnlagaráðs var að baki þegar Ólafur Ragnar ávarpaði þjóðina 1. janúar 2013. Þingnefnd sat þá yfir stjórnarskrármálinu og stjórnarskrársérfræðingar Evrópuráðsins í Feneyjanefndinni höfðu fengið tillögur stjórnlagaráðs til skoðunar.
Forseti Íslands lá ekki á skoðun sinni. Hann sagði við blasa að umræðan um nýja stjórnarskrá væri „á ýmsan hátt komin í öngstræti“. Í stað samstöðu geisuðu djúpstæðar deilur og virtir fræðimenn við háskóla landsins hefðu áréttað að margt væri óskýrt og flókið í tillögunum frá stjórnlagaráði.
Lítil sem engin umræða hefði orðið um nýja stjórnkerfið sem tillögurnar fælu í sér, hvernig samspili alþingis, ríkisstjórnar og forseta yrði háttað. Það ætti til dæmis að leggja niður ríkisráðið, sameiginlegan vettvang forseta og ríkisstjórnar. Ráðherrar yrðu sviptir „almennu málfrelsi“ á alþingi.
„Einstaklingum yrði auðveldað að ná þingsetu í krafti fjölmiðlafrægðar; dregið umtalsvert úr áhrifum flokka og persónubundin barátta innan þeirra háð allt til kjördags; hlutur landsbyggðar reyndar líka rýrður mjög,“ sagði forseti og benti á að formenn stjórnmálaflokka myndu ekki lengur gegna sérstöku hlutverki við myndun ríkisstjórna. Þar myndi forseti lýðveldisins stýra för í mun ríkari mæli en áður.
Forsætisráðherra fengi agavald yfir ráðherrum annarra flokka og gæti einn rekið þá alla; „virðist sem tillögumenn telji að helsti galli íslenskrar stjórnskipunar á undanförnum áratugum hafi verið að forsætisráðherrar – og reyndar forsetinn líka – hefðu þurft enn meiri völd,“ sagði Ólafur Ragnar.
Yrðu tillögurnar samþykktar kæmi til sögunnar „annað stjórnkerfi en við höfum búið að frá lýðveldisstofnun; yrði tilraun um stjórnkerfi sem ætti sér engan líka á Vesturlöndum“.
Forseti benti á að á málþingum sem Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst efndu til hefðu komið „fram efnisríkar athugasemdir við fjölmargar greinar og voru þær studdar tilvísunum í rannsóknir hér heima og á alþjóðavettvangi vísindanna“.
Áhugamenn um tillögur stjórnlagaráðs hefðu sumir gert lítið úr þessu framlagi fræðasamfélagsins, jafnvel reynt að gera það tortryggilegt. Slíkur málflutningur minnti því miður á skollaeyrun sem ýmsir skelltu við rannsóknum á hlýnun jarðar. „Hvort tveggja sæmir lítt því stefnumótun nýrrar aldar þarf að vera byggð á traustum grunni þekkingar, bæði hvað varðar loftslag og stjórnarskrá,“ sagði forsetinn í nýársávarpinu. Hann hefði á fundi ríkisráðs 31. desember 2012 hvatt til samstöðu allra flokka með víðsýni og sáttavilja að leiðarljósi, að vegferð stjórnarskrármálsins yrði mörkuð á þann hátt að tryggð væri vönduð meðferð og í forgang settar breytingar sem ríkur þjóðarvilji veitti brautargengi. Aðeins þannig næðist farsæl niðurstaða.
Þetta er sögulegt ávarp en fellur að umboðinu sem Ólafur Ragnar leitaði eftir þegar hann gaf kost á sér í fimmta sinn til þess fyrst og fremst að forða stjórnarskrárslysi. Brýning forseta um sáttavilja í málinu yfir Jóhönnu Sigurðardóttur í ríkisráðinu hefur ekki glatt forsætisráðherrann sem hratt sundrungarferlinu af stað. Þar fyrir utan er einsdæmi að forseti Íslands segi opinberlega frá umræðum í ríkisráðinu.
Samfylking og VG fengu hraklega útreið í þingkosningunum 27. apríl 2013. Nýr meirihluti myndaðist á þingi og Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins.
Nýtt þing var kallað saman til fundar 6. júní 2013. Í þingsetningarræðu sinni fór Ólafur Ragnar gagnrýnum orðum um tillögur stjórnlagaráðs. Vissulega mætti bæta lýðveldisstjórnarskrána „svo sem með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur, þjóðareign á auðlindum og aukið sjálfstæði dómstóla“. Stjórnarskráin hefði á hinn bóginn „reynst traustur rammi um þá lýðræðisskipan sem Íslendingar kjósa helst“.
Um úrslit kosninganna 27. apríl 2013 sagði forseti:
„Alþingiskosningarnar skiluðu mikilvægum boðskap um stjórnarskrána og reyndar einnig skýrri niðurstöðu um framtíðarskipan fullveldisins. Afgerandi meiri hluti hins nýkjörna þings er bundinn heiti um að Ísland verði utan Evrópusambandsins og málið fært í hendur þjóðarinnar.“
Markverðs framlags Ólafs Ragnars Grímssonar til umræðna um stjórnarskrárbreytingar í forsetatíð hans verður minnst um langan aldur. Enginn fór í grafgötur um skoðun hans og hún skipti að sjálfsögðu máli þá eins og enn þann dag í dag. Afstaða hans var í hróplegri andstöðu við allt tal málsvara „nýju stjórnarskrárinnar“ um veika innviði íslenska lýðveldisins vegna gildandi stjórnarskrár.
IV.
Í lok ágúst 2016 þegar kosningar voru á næsta leiti lagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sem var orðinn forsætisráðherra framsóknarmanna í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum, fram tillögu um breytingu á stjórnarskránni í þremur liðum. Tillagan var reist á samráði fulltrúa allra þingflokka. Nefnd flokkanna efndi til 50 funda frá hausti 2013, þegar hún var skipuð, fyrst undir formennsku Sigurðar Líndals, fyrrv. prófessors, en síðan Páls Þórhallssonar, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu.
Píratar eignuðust fyrst þingmenn árið 2013 þegar Lýðræðisvaktin galt afhroð.
Þeir hafa látið stjórnarskrármálið sig mjög varða enda er flokkurinn að nokkru vettvangur fyrir þá sem áður voru í smáflokkunum Dögun og Lýðræðisvaktinni.
Aðalheiður Ámundadóttir lögfræðingur, þáv. starfsmaður þingflokks Pírata, núv. blaðamaður og leiðarahöfundur Fréttablaðsins, var fulltrúi Pírata í stjórnarskrárnefndinni 2013-2016. Hún vildi að Píratar stigju varlega til jarðar og tækju þátt í samráðsnefndinni en gættu þess samtímis að flokkur þeirra klofnaði ekki vegna meðferðar málsins. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata og flokksleiðtogi, fór ekki leynt með andúð sína á þessu nefndarstarfi.
Frumvarpið sem forsætisráðherra mælti fyrir 25. ágúst 2016 var reist á þremur efnisliðum:
- Þjóðareign á náttúruauðlindum.
- Umhverfis- og náttúruvernd.
- Þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu hluta kjósenda.
Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu.
V.
Að loknum þingkosningum haustið 2017 og myndun núverandi ríkisstjórnar undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur var vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar haldið áfram með aðild formanna stjórnmálaflokkanna. Forsætisráðherra vill áfangaskipta endurskoðuninni.
Á árunum 2018 til 2021 verði tekin fyrir eftirfarandi viðfangsefni: Þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minnihluta þings, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, II. kafli stjórnarskrárinnar um forseta lýðveldisins og meðferð framkvæmdarvalds og loks ákvæði um hvernig stjórnarskránni verði breytt.
Á árunum 2021 til 2025 verði tekin fyrir: Kaflar stjórnarskrár um Alþingi, m.a. um fjárstjórnarvald þess, Alþingiskosningar og dómstóla, þ.e. III. IV. og V. kafli, ákvæði um þjóðkirkjuna, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, og inngangsákvæði, þ.e. I. VI. og VII. kafli og önnur efni sem ekki hafa þegar verið nefnd.
Í stefnuræðu sinni 1. október 2020 sagði Katrín Jakobsdóttir að á þessum vetri fengju þingmenn tækifæri til að takast á við ýmis ákvæði til breytinga á stjórnarskránni, m.a. ákvæðið um að auðlindir sem ekki væru háðar einkaeignarrétti yrðu þjóðareign. Þeir gætu nú sett slíkt ákvæði, skýrt og knappt, inn í stjórnarskrá til að tryggja réttlæti til framtíðar, ásamt fleiri ákvæðum um umhverfis- og náttúruvernd, íslenska tungu og táknmál, forseta og framkvæmdarvald, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði.
Alþingi gæti ákveðið að nýta þetta tækifæri til að sýna hvernig þingmenn tækjust á við slík stór og mikilvæg mál. Þeir gætu ákveðið að breyta stjórnarskrá með skynsamlegum hætti með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þingmenn gætu ákveðið að standast þetta mikilvæga próf og eiga efnislega umræðu um þessi mál fremur en að festast í hjólförum liðinna ára og áratuga. „Við höfum frábært tækifæri til að horfa til framtíðar og taka góðar ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir,“ sagði forsætisráðherra.
Hér skal engu spáð um hvernig til tekst en boðskapur af þessu tagi er eitur í beinum þeirra sem hrópa: Hvar er nýja stjórnarskráin? Þeir sem vilja allt eða ekkert í því efni fá ekkert. Hinir sem vilja stíga skref fyrir skref geta ef til vill fetað sig áfram. Á það reynir leggi forsætisráðherra fram frumvörp til stjórnarskrárbreytinga eins og boðað hefur verið.
VI.
Vegna þess starfs sem nú er unnið við breytingu á stjórnarskránni sneri Katrín Jakobsdóttir sér til Feneyjanefndarinnar með bréfi 31. júlí 2020 og leitaði álits hennar á efnisatriðum sem hafa verið til skoðunar í viðræðum forystumanna stjórnmálaflokkanna um stjórnarskrármál.
Svör Feneyjanefndarinnar bárust 9. október 2020. Hún telur að breytingar á kafla um forseta lýðveldisins og hlutverk framkvæmdavaldsins séu almennt jákvæðar og í samræmi við alþjóðleg viðmið. Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem almenningi verði gefinn kostur á að hafa áhrif á löggjöf er fagnað. Ákvæðum um náttúruauðlindir og umhverfisvernd er fagnað og þau sögð í samræmi við viðeigandi viðmið.
Í álitinu er rifjað upp að Feneyjanefndin hafi sagt álit sitt á tillögum stjórnlagaráðs veturinn 2012/13. Minnt er á að nefndin fagnaði því að unnið væri að breytingum á íslensku stjórnarskránni á lýðræðislegan hátt eins og sæmdi réttarríki og af virðingu fyrir grundvallarréttindum auk þess sem almenningur hefði verið virkjaður til þátttöku í ferlinu. Á hinn bóginn þótti nefndinni fjöldi ákvæða í tillögunum of óljós og almennt orðuð og það myndi leiða til mikilla vandkvæða við túlkun þeirra og framkvæmd. Þá væri stjórnkerfið sem tillögurnar boðuðu frekar flókið og án samræmis. Nauðsynlegt væri að skoða mun nánar flóknar tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur bæði frá lögfræðilegum og stjórnmálalegum sjónarhóli. Sú skipan sem boðuð væri kynni að leiða til stjórnarkreppu og óstöðugleika í stjórnmálum og vega þannig alvarlega að góðum stjórnarháttum. Skerpa þyrfti inntak ákvæða sem boðuðu alls konar réttindi og frelsi, til dæmis félagsleg og efnahagsleg réttindi. Skilgreina yrði tengsl milli réttinda og skyldna þegar þessi ákvæði væru samin. Einnig þyrfti að skýra ákvæði sem sneru að réttarkerfinu, einkum þau sem lytu að óhreyfanleika dómara og sjálfstæði saksóknara.
Álit Feneyjanefndarinnar frá 11. febrúar 2013 er 32 bls. að lengd og þar er farið í saumana á tillögum stjórnlagaráðsins eins og þær lágu fyrir alþingi eftir að málið var lagt fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu 20. október 2012.
Í niðurstöðunum árið 2013 fagnaði Feneyjanefndin viðleitni Íslendinga til að styrkja og bæta stjórnskipun landsins á grundvelli lýðræðislegra meginreglna, laga og verndunar grundvallarréttinda, og í samræmi við alþjóðlega samninga sem væru bindandi fyrir Ísland, sem og sögulegar, lagalegar og stjórnskipunarlegar hefðir þjóðarinnar.
Nefndin benti á að mörg ákvæði í tillögunum væru sett fram með of óljósum og víðtækum hugtökum, sem þrátt fyrir útskýringar í skýringum gætu leitt til alvarlegra erfiðleika við túlkun þeirra og beitingu, þar á meðal við samþykkt lagaframkvæmdar.
Þá væri fyrirhugað stofnanafyrirkomulag frekar flókið og skorti samræmi. Þetta varðaði bæði völd sem veitt væru helstu stjórnskipunarstofnunum, þ.e. þingi, ríkisstjórn og forseta, jafnvægið milli þeirra og tengsl milli stofnana; sem oft væru of flókin, sem og tilhögun beinnar þátttöku sem frumvarpið gerði ráð fyrir.
Feneyjanefndin taldi hættu á að tillögurnar leiddu til stjórnmálalegs þráteflis og óstöðugleika sem gæti grafið alvarlega undan góðum stjórnarháttum landsins. Þetta ætti einnig við um fyrirhugað kosningakerfi sem þarfnaðist gaumgæfilegrar athugunar.
Mannréttindaákvæðin þyrftu „að vera nákvæmari og ákveðnari varðandi gildissvið og eðli hinna vernduðu réttinda og tengdra skuldbindinga“.
Ákvæði um dómsvaldið „mættu gjarnan vera skýrari, einkum varðandi atriði eins og æviráðningu dómara og sjálfstæði saksóknara“.
Í lokagreinum álitsins, greinum 188 og 189, sagði Feneyjanefndin:
„188. Ef of erfitt reynist að koma fram með lausn á núverandi þingi, gæti verið við hæfi í núverandi breytingaferli á þessu stigi að horfa einkum til gildandi verklags við endurskoðun stjórnarskrár, sem er frekar flókið samkvæmt gildandi stjórnarskrá, og fela næsta þingi það verkefni að halda áfram endurskoðun á stjórnarskrá samkvæmt nýjum verklagsreglum, gefa sér nauðsynlegan tíma til að fara yfir athugasemdir og spurningar sem ýmsir hagsmunaaðilar hafa lagt fram, þar á meðal Feneyjanefndin, og gera úrbætur á frumvarpinu í samræmi við það. Önnur atriði, forgangsatriði fyrir þjóðina eða mál sem meiri samstaða og/eða minni ágreiningur er um, þyrftu einnig vera meðtalin.
189. Feneyjanefndin er fús til að veita íslenskum stjórnvöldum frekari aðstoð.“
Nefndin reyndist sannspá; þingið réð ekki við að leysa stjórnarskrármálið fyrir þingkosningarnar 27. apríl 2013. Tillaga þeirra Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar tók mið af ábendingu nefndarinnar um að einfalda „breytingaferli“ stjórnarskrárinnar. Var hún samþykkt og einnig á nýju þingi eftir kosningar sem bráðabirgðaákvæði við stjórnarskrána.
Samkvæmt ákvæðinu var heimilt, fram til 30. apríl 2017, að breyta stjórnarskránni með eftirfarandi hætti: Samþykki alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 2/3 hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Aldrei reyndi á ákvæðið. Um breytingar á stjórnarskránni fer nú samkvæmt 79. gr. hennar um samþykki tveggja þinga með kosningum á milli þeirra.
VII.
Hér hefur saga stjórnarskrármálsins verið rakin í stórum dráttum frá því að Jóhanna Sigurðardóttir hratt sem forsætisráðherra af stað stjórnlagaferlinu sem lauk í raun snemma árs 2013 en rís nú enn á ný eins og hver annar uppvakningur.
Einkenni við umræðurnar af hálfu þeirra sem varpa fram spurningunni: Hvar er nýja stjórnarskráin? er að þau ætlast til að aðrir veiti svarið. Þau séu í raun „stikkfrí“ í efnislegum umræðum af því að þetta hafi allt verið ákveðið í atkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Það þurfi þess vegna ekki að ræða neina efnisþætti málsins. Ferlið skipti öllu.
Þetta er ábyrgðarlaus afstaða. Hún tekur á sig ýmsar myndir. Róttækastur er boðskapur Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi sunnudaginn 25. ágúst:
„Það er tvennt sem kemur til álita [til að ná stjórnarskrármálinu frá alþingi]. Í fyrsta lagi þá gæti þingið samþykkt breytingu í stjórnarskránni um hvernig skuli breyta henni og komið því þannig fyrir að þjóðin kjósi um stjórnarskrártillögurnar í heild sinni, en ekki í alþingiskosningum því það er vonlaus aðferð. Nú, ef það gengur ekki og þjóðin er áköf um að ná til sín þessu valdi sem hún hefur eðli málsins, til þess þá verður hún að taka völdin. Það hefði kannski verið hugsanlegt eftir hrunið að fólkið hefði sent þingið og stjórnina heim og stofnað til bráðabirgðastjórnar sem hefði haft það hlutverk að búa til stjórnlagaþing og semja nýja stjórnarskrá.“
Þegar þáttarstjórnandinn, Kristján Kristjánsson, lýsti undrun sinni og sagðist vita hvað bylting væri sagði Ragnar Aðalsteinsson: „Það er valdarán, það þarf að sjálfsögðu ekki að vera neitt blóðugt.“
Kristján Kristjánsson: Þú ert sem sagt að tala um það. Hæstaréttarlögmaðurinn, talsmaður nýju stjórnarskrárinnar, neitaði því ekki.
Ógöngum þeirra sem berjast fyrir tillögum stjórnlagaráðs verður ekki betur lýst en með þessu ofstæki Ragnars Aðalsteinssonar. Við þá sem þannig hugsa næst aldrei samkomulag. Þeir vilja að valdið ráði.
—
Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.