Bækurnar um heimsmeistaraeinvígið í skák 1972 eru víst orðnar um 150 talsins og von að menn spyrji hvort nokkru sé að bæta við allan þann fróðleik. Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur veltir þessu sama upp í bók sinni Einvígi allra tíma sem kom út núna á haustdögum. Hann kveðst hafa heitið því fyrir löngu að skrifa ekki bók um þennan viðburð en loks ákveðið að láta tilleiðast.
Heimsmeistaraeinvígið í Reykjavík hefur af mörgum verið talið einn merkasti atburður síðustu aldar — alltént á þetta einvígi engan sinn líka í skáksögunni: Einvígið sem löngum var nefnt einvígi aldarinnar. Guðmundur G. Þórarinsson var á þeim tíma forseti Skáksambands Íslands og fannst þetta tal orðum aukið — allt að því ómerkileg auglýsingamennska. Eftir því sem tímar liðu komst hann hins vegar á þá skoðun að einvígi þeirra Robert Fischer og Boris Spassky í Reykjavík 1972 ætti sér enga hliðstæðu og myndi vart eiga sér hliðstæðu á komandi tímum. Þar réðu meðal annars þær aðstæður sem uppi voru í heimsmálunum á þessum árum — í miðju köldu stríði risaveldanna.
Það er þakkarvert að Guðmundur skyldi hafa ráðist í að rita þessa stórfróðlegu bók. Þar greinir hann frá mörgu sem gerðist að tjaldabaki í aðdraganda og meðan á einvíginu stóð. Eftir stendur sú hugsun lesandans: Hvernig var þetta eiginlegt hægt? Telja má með hreinum ólíkindum að yfir höfuð hafi tekist að halda einvígið — sem batt enda á stanslausa sigurgöngu Sovétríkjanna sem höfðu gert skákina að þjóðaríþrótt.
Í fyrri hluta bókarinnar rekur Guðmundur sögu skáklistarinnar og heimsmeistaraeinvígisins og er mikill fengur að þeirri frásögn allri. Örlögin léku ýmsa fyrri heimsmeistara grátt og er ekki að undra að mörgum komi til hugar hin fræga smásaga Stefan Zweig, Schachnovelle, eða Manntafl eins og hún heitir í íslenskri þýðingu.
Síðari hluti bókarinnar greinir frá örlögum þeirra Fischers og Spasskys og er öll sú saga með slíkum undrum að hún tekur ævintýralegum skáldsögum fram. Grimmileg örlög þeirra beggja kallast á við æviþætti fyrri heimsmeistara sem raktir eru í fyrri hluta bókarinnar. Báðir urðu þeir landflótta og hópur íslenskra vina Fischers fékk hann leystan úr japönsku fangelsi svo sem kunnugt er. Öll sú saga er rakin skilmerkilega í bókinni.
Guðmundur skrifar einkar læsilegan texta. Bókin hefði þó þurft ofurlitla ritstjórn og betri yfirlestur, til dæmis svo forðast mætti endurtekningar, en það kemur þó lítt að sök. Öll hönnun er afar smekklega unnin af Ragnari Helga Ólafssyni.
Bók sem lætur engan ósnortinn.
Höfundur er doktorsnemi í lögfræði og sagnfræði.
—
Greinin birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.