Brautryðjandi upplýsingatækninnar: Ottó A. Michelsen – aldarminning

Ottó A. Michelsen í vélasal IBM í Skaftahlíð árið 1981 (Ljósm. Jóhannes Long).

Þegar verkskipt borgarsamfélag var í örri mótun á Íslandi 20. aldar urðu til margvíslegar þarfir sem þurfti að sinna. Meðal annars komu skrifstofuvélar til sögunnar sem stórjuku afköst við reikningshald og bréfaskrif. Lengst af var eingöngu um að ræða ritvélar og frumstæðar reiknivélar en síðar komu til sögunnar bókhaldsvélar og loks tölvur sem þróuðust svo ört að vart er til það svið mannlífsins í samtíma okkar sem ekki er tölvuvætt. Í allri þeirri sögu sem tekin hefur verið saman um upphaf og þróun upplýsingatækninnar hér á landi stendur nafn eins manns upp úr sem brautryðjanda. Það er nafn Ottós A. Michelsen, en 10. júní 2020 voru liðin 100 ár frá fæðingu hans.[1]

Ottó A. Michelsen var fæddur á Sauðárkróki árið 1920, sonur hjónanna Jörgens Franks Michelsen og Guðrúnar Pálsdóttur. Jörgen var danskur að uppruna, úrsmiður að mennt og fékkst einnig við gullsmíði. Sagt var að hann hefði smíðað nær alla trúlofunar- og giftingarhringi sem settir voru upp í Skagafirði um áratugaskeið. Ottó sagði föður sinn hafa verið sérstæðan á margan hátt: „Þótt hann væri af erlendu bergi brotinn og Dani í húð og hár hafði hann mikinn áhuga á íslenskum málefnum og ekki síst íslensku atvinnulífi. Meðal annars gerði hann ýmsar tilraunir, sem ekki hafði verið brotið upp á í Skagafirði á þeim árum. Til dæmis hafði hann svín og endur og töluverðan annan búskap, sem létti undir í lífsbaráttunni.“[2] Jörgen tók virkan þátt í athafnalífi héraðsins og var einn af hvatamönnum þess að efnt var til útgerðar síldveiðiskipsins Skagfirðings.

Systkini Ottós voru Karen Edith, Pála Elínborg iðnverkakona, Hulda Ester ljósmyndari, Franch Bertholt úrsmiður, Rósa Kristín, Georg Bernharð bakari, Paul Valdimar garðyrkjumaður, Aðalsteinn Gottfreð, lagerstjóri Skrifstofuvéla, Elsa María, Kristinn Pálmi, verslunarstjóri Skrifstofuvéla, og Aage Valtýr, sem rak verktakafyrirtæki.

Sjö ára fór Ottó til sumardvalar hjá barnlausum hjónum í Blönduhlíð. Heldur teygðist á verunni þar og svo fór að Ottó var á bænum í hálft fimmta ár. Hann sagði sjálfur svo frá að vistin hefði verið honum kvalræði en bætti við að allir hlutir „og öll reynsla manna hefur margar hliðar. Það sem er böl í einn tíma, kann að vera styrkur á öðrum tíma og æ síðan“.[3] Þar hefði hann lært að harka af sér, bjarga sér og láta hverjum degi nægja sína þjáningu, en þar sem hann sat yfir ánum á vorin las hann Íslendingasögurnar og sagði að Grettissaga hefði gert sig svo myrkfælinn að hann hefði ekki læknast af henni fyrr en hann vandist veru í myrkvuðum borgum Þýskalands stríðsáranna.

Heim kominn á Sauðárkrók eftir erfiða vist í sveitinni tók hann fullnaðarpróf eftir tvo vetur á unglingaskólanum og þar með var eiginlegri skólagöngu lokið.

Ottó varð snemma framtakssamur og smíðaði sér fótstiginn rennibekk. Löngu síðar sagði hann svo frá að bekkinn hefðu þeir bræður, hann og Franch, síðar úrsmiður, stigið grimmt hvenær sem færi gafst og rennt lappir undir dívana, stóla og borð. Framleiðsluna hefðu þeir síðan selt smiðunum á staðnum og þénað drjúgt.[4] Timbrið fengu þeir að hluta til úr vörukössum frá föður sínum og úr þeim smíðuðu þeir kassabíla þegar markaðurinn fyrir stól- og borðfætur var mettaður. Í tvo vetur smíðaði Ottó einnig skíði og fékk til þess aðstöðu í líkhúsinu á Króknum.[5] Fimmtán ára hóf hann störf í vegavinnu á Öxnadalsheiði og þar hertist hann og styrktist næstu árin í viðureigninni við grjótið.

Haldið utan á óvissutímum

Það var einlægur vilji foreldra Ottós að þau systkinin helguðu krafta sína iðngreinum, enda tæpast föng til langs bóknáms í fjölmennum systkinahópi. Samt sem áður var erfitt að komast á samning sem iðnnemi í miðri heimskreppu og margir um hvert lærlingspláss. Þegar sumri hallaði 1938 var Ottó að verða úrkula vonar að komast til náms þegar tilviljun átti sér stað. Haraldur Júlíusson, kaupmaður á Sauðárkróki, sá vegavinnuflokki Ottós fyrir vistum og þar sem Haraldur var staddur í Reykjavík varð á vegi hans Egill Guttormsson heildsali, sem þá hafði meðal annars umboð fyrir þýskar ritvélar og reiknivélar. Egill sagði honum þá að sér þætti afleitt að geta ekki sinnt viðgerðaþjónustu og vildi gjarnan senda ungan mann til Þýskalands að læra viðgerðir á skrifstofuvélum. Haraldi kom þá Ottó undir eins til hugar og það varð úr að Ottó hélt utan, en fékk þó áður þýskukennslu í heilar átta klukkustundir hjá apótekaranum á Króknum. Þegar Ottó var spurður hvort það hefði ekki verið beygur í honum að halda út í hinn stóra heim svaraði hann: „Það getur vel verið, en ungur maður með markmið yfirstígur slíkt. Menn koma í heiminn til að iðja, þeir sem ekki koma til að eyðileggja; nóg framboð er því miður alltaf af þeim. En móðir mín var mjög kvíðin, því að stríðshættan á meginlandinu var orðin augljós á þessum tíma.“[6]

En þrátt fyrir að Ottó færi utan að tilstuðlan Egils Guttormssonar kostaði hann nám sitt sjálfur. Hann hafði nurlað saman fé og utan hélt hann með aðeins 34 þýsk mörk og safn frímerkja, sem voru alþjóðlegur gjaldmiðill í þá daga. Utan sigldi Ottó með Dettifossi til Hamborgar. Þaðan var haldið með lest suður til áfangastaðarins, Zella-Mehlis í Thüringen, og út um glugga lestarinnar blasti vígbúnaðurinn hvarvetna við. Þegar á áfangastað var komið hóf hann verklegt nám hjá Mercedes Büro-Maschinen Werke sem fólst í að skrúfa tæki sundur og saman, gera við ritvélar, smyrja þær og stilla klukkan átta til fimm.

Mercedes Büro-Maschinen var eitt stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum á þeim tíma. Það framleiddi ritvélar, reiknivélar og bókhaldsvélar og rak viðgerðarþjónustu. Í Zella-Mehlis var aldalöng hefð fyrir úra- og klukkusmíði. Þar var því til staðar ákjósanlegur starfskraftur í fíngert handverk og Ottó hreifst af þýskri nákvæmni og reglusemi. Hann lauk ströngu náminu með sóma vorið 1939 og hélt heim á leið. Íslendingar höfðu þar með eignast sinn fyrsta skrifstofuvélatæknimann.

Heim kominn hélt Ottó á síld norður í landi en fór aftur suður til Reykjavíkur eftir vertíðina. Þar hitti hann að máli Egil Guttormsson, sem fól honum að yfirfara ritvélar og skrifstofuvélar Verslunarskólans og var ekki vanþörf á. Og þar sem Ottó vann að þessu verki rann upp fyrir honum að hann var lítt kunnugur ýmsum gerðum ritvéla og þurfti nauðsynlega að auka þekkingu sína. Til að bæta úr því ákvað Ottó að fara aftur utan, þvert á vilja ættingja sinna og vina sem töldu hann ekki með réttu ráði í ljósi hernaðarframvindunnar á meginlandinu. En eins og Ottó orðaði það sjálfur: „… ég sat við minn keip, þetta var jú mitt líf.“

Ottó hélt til Kaupmannahafnar og fékk fljótlega vinnu í sínu fagi og í Höfn var hann enn að morgni 9. apríl 1940 þegar hann vaknaði við ærandi flugvéladyn yfir borginni. Danmörk hafði verið hernumin. Með stríðinu jókst þörf fyrir hvers kyns vinnuafl í Þýskalandi gríðarlega og úr varð að Ottó komst aftur á samning hjá fyrri vinnuveitanda sínum, Mercedes Büro-Maschinen Werke, en nú í Erfurt. Á stríðsárunum varð Ottó fullnuma í skriftvélavirkjun, sem Þjóðverjar kalla Feinmekanik.

Ottó var falið að annast viðgerðir skriftvéla vítt og breitt um Þýskaland og hann var því á stöðugu ferðalagi næstu árin. Síðla árs 1941 var hann fluttur til í starfi og var þar með staðsettur í Dresden, þar sem hann var gerður að verkstjóra yfir verkstæðum fyrirtækisins í þremur borgum. Eftir því sem seig á ógæfuhliðina í stríðsrekstri Þjóðverja varð dvölin þar æ erfiðari. Ottó sóttist eftir því að fá að flytjast til Danmerkur en þeirri beiðni var synjað. Hann ákvað því að strjúka sumarið 1944 og fór huldu höfði í Kaupmannahöfn um nokkurt skeið.

Danirnir tóku hin þýsku prófskírteini Ottós ekki gild og hann varð því að láta sér lynda að vinna næstu tvö árin sem „framhaldsnemi“ í Danmörku á lúsarlaunum en honum tókst að drýgja tekjurnar með því að kaupa notaðar skrifstofuvélar sem hann gerði upp og seldi.

Skýrsluvélarnar koma til sögunnar

Klukkur voru Ottó hugstæðar, enda sonur úrsmíðameistara. IBM framleiddi klukkur, klukkukerfi og stimpilklukkur. Fljótlega eftir að hann gerðist umboðsmaður IBM tók hann klukkuna í turni Sjómannaskólans í fóstur, en hún hafði fram að því gengið skrykkjótt. Skrifstofuvélar seldu klukkur og klukkukerfi víða, meðal annars til skóla, en frægasta og stærsta IBMklukkan er vafalítið sú sem komið var fyrir á þaki Útvegsbankans við Lækjartorg. Á ljósmyndinni má sjá hvernig Útvegsbankaklukkan gnæfði yfir miðbæinn um 1960 (Ljósm. Ólafur G. Ársælsson).

Heimkominn frá námi árið 1946 hóf Ottó þegar að vinna í iðngrein sinni og stofnaði Skrifstofuvélar hf. með Jens Sigurðssyni, en samstarf þeirra varði þó stutt og Ottó keypti brátt hlut Jens.

Til tíðinda dró í lífi Ottós árið 1948 þegar hingað til lands kom danskur maður að nafni Viggo Troels-Smith sem sérlegur sendimaður frá hinu alþjóðlega stórfyrirtæki International Business Machines, sem var skammstafað IBM. Viggo var á höttunum eftir umboðsmanni fyrir IBM á Íslandi og leitaði til Ottós, sem sló til og hélt utan til náms í viðgerðum á gagnavinnsluvélum IBM. Námskeiðið var haldið í Stokkhólmi og tók átta mánuði. Námið var strembið, en allt fór það fram á ensku, sem Ottó varð að læra samhliða. Frá Stokkhólmi var haldið til Kaupmannahafnar, þar sem Ottó lærði á gataspjaldavélar.

Árið 1950 komu fyrstu skýrsluvélarnar til landsins, en tildrögin voru þau að Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að nota Ísland til tölfræðilegra rannsókna á berklaveiki og voru skýrsluvélar keyptar með þetta verkefni í huga. Um þær mundir var berklaveikin þó í mikilli rénun og hætt var við rannsóknina. Vélarnar voru samt komnar til landsins og áttu eftir að nýtast vel. Á þeim tíma þekktust bókhaldsvélar varla hérlendis en Ottó sá strax að auka mætti afköst við reikningaskrift stórlega með bættri tækni. Hann fór því að teikna reiknings- og skýrsluform sem hann lét prenta. Sum af þessum eyðublöðum voru notuð fram á níunda áratuginn.

Fyrstu árin starfrækti Ottó verkstæði sitt á Laugavegi 11. Örn Kaldalóns, sem seinna varð starfsmaður Ottós, kom þangað oft sem barnungur um 1950 og minnist þess hversu vel Ottó tók honum og mælti: „Nei, ertu kominn litli vinur. Fáðu þér nú sæti.“ Síðan var Erni fengin reiknivél sem hann fékk að leika sér með. Níu ára gamall var Örn orðinn sendill hjá Skrifstofuvélum og bar út litaborða í rafmagnsritvélar, sem seldust grimmt. Örlögin höguðu því síðan þannig að Örn leitaði til Ottós með vinnu eftir gagnfræðapróf sumarið 1962, þá nýinnritaður í Verslunarskólann. Ottó réð hann til vinnu og sumarstarfið gekk svo vel að Örn vann hjá Ottó upp frá því. Skólagangan mátti víkja. Örn segir Ottó hafa verið lipran í samskiptum og framsýnan: „Hann var glöggur gæðamaður, en harður í horn að taka ef á þurfti að halda.“ Erni eru minnisstæð ýmis tilsvör Ottós, eins og til að mynda ef mikið lá við: „Örn! Gerðu ráðstafanir!“[7]

Húsið á Laugavegi 11 skemmdist illa af bruna í nóvember 1963. Skömmu eftir að eldurinn braust út hringdi síminn á verkstæði Skrifstofuvéla: Útvegsbankann vantaði viðgerðarmann í hvelli og Ottó svaraði: „Það er nú því miður að brenna hjá okkur í augnablikinu, en strax og búið er að slökkva eldinn skulum við senda mann. Sælar.“ Þessi saga spurðist út um bæinn og var höfð til marks um góða þjónustu hjá Skrifstofuvélum.[8]

Á Laugavegi 11 hafði búið gömul kona, einstæðingur, sem varð heimilislaus í kjölfar brunans. Ottó tók þessa konu inn á sitt heimili, þar sem hún hafði herbergi og lítið eldhús fyrir sig og þar bjó hún í nokkur ár.[9] Ottó var greiðvikinn og skaut skjólshúsi yfir fleiri sem voru í vanda staddir.

Tölvuöld gengur í garð

Á verkstæði Skrifstofuvéla á sjötta áratugnum (Ljósm. Pétur Thomsen).

Öll gagnavinnsla þessa tíma fór fram á gataspjöldum en segja má að haustið 1964 hafi tölvuöld haldið innreið sína hér á landi þegar Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar fengu afhenta vélasamstæðu frá IBM og Háskóli Íslands sömuleiðis. Forsaga Háskólatölvunnar var sú að Ottó fékk leyfi IBM til að sýna og kynna reiknivélasamstæðu hér á landi og vakti sá atburður mikla athygli. Ottó segir svo frá að Gylfi Þ. Gíslason, mennta- og viðskiptamálaráðherra, hafi sest við vélina og strax farið að keyra hana með tiltölulega lítilli tilsögn. Hann lagði þá spurningu fyrir vélina hversu mikil tekjuaukning yrði fyrir ríkissjóð ef áfengi yrði hækkað um hálft prósent. Svarið kom á tveimur sekúndum og ekki þarf að fjölyrða um hrifningu ráðamanna. Ottó kvaðst þó ekki vita hvort áfengið hefði undir eins verið hækkað sem þessu nam, enda sjálfur bindindismaður![10]

Tölva Háskólans var gríðarstór fjárfesting, andvirði fimm til sex íbúða, og því fór fjarri að skólinn hefði fjárhagslega burði til kaupanna. Ottó beitti sér því fyrir því að IBM í Bandaríkjunum gæfi eftir 60% af kaupverði tölvunnar og yrði það kallað háskólaafsláttur. Það varð úr og Framkvæmdabankinn, undir forystu dr. Benjamíns H.J. Eiríkssonar, lagði til það sem upp á vantaði. Gylfi Þ. var jafnframt formaður bankaráðs Framkvæmdabankans, en hann var mjög áhugasamur um að fá vélina til landsins, enda var hún „gömul vinkona hans“ eins og Ottó orðaði það síðar.[11]

Tölva Háskólans nýttist við úrvinnslu margvíslegra gagna. Dr. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur lagði fyrir vélina útreikninga tengda segulsviðinu og fékk úrlausnina á átta klukkustundum sem tekið hefði heilt ár að leysa með venjulegum aðferðum. Ottó sagði að einhverju sinni er hann mætti til vinnu klukkan sex að morgni hefði dr. Stefán Aðalsteinsson erfðafræðingur komið út frá vélinni líkt og ölvaður, faðmað hann og sagt: „Ó, Ottó. Nú er ég úrvinda, en svo glaður, því að ég veit að ég er búinn að inna af hendi tíu ára verk í nótt.“

Þessar nýju vélar gengu undir ýmsum nöfnum en árið 1965 kom dr. Sigurður Nordal prófessor fram með orðið tölva, sem festist í sessi.[12]

IBM á Íslandi verður til

Eftir brunann fluttu Skrifstofuvélar verkstæðið á Klapparstíg 17 en skrifstofan var þá flutt á Klapparstíg 27 og umsvifin jukust óðfluga. Þjónustu við skýrsluvélar fylgdi umstang sem óx með hverju árinu. Sífellt þurfti að flytja inn nýjar og dýrar vélar IBM sem Skrifstofuvélar leigðu út. Á þeim tíma voru verulegar takmarkanir á starfsemi erlendra fyrirtækja hér á landi, en veitt var leyfi til starfsemi útibús hins alþjóðlega stórfyrirtækis IBM sem leigði vélar og hugbúnað og veitti þjónustu á þessum búnaði. Þetta var sami háttur og IBM hafði á hvarvetna í heiminum.[13] Þetta var sérlega hentugt þar sem íslensk fyrirtæki hefðu fæst risið undir kaupum á þessum dýru vélum. Ísland gat þannig notið góðs af nýjungum í tölvutækninni þrátt fyrir að markaðurinn hér væri agnarsmár. IBM á Íslandi leit dagsins ljós og Ottó var ráðinn forstjóri þess. Það segir sitt um það álit sem Ottó naut hjá stjórnendum hins alþjóðlega fyrirtækis að Skrifstofuvélar, í hans eigu, héldu áfram umboðum fyrir skrifstofutæki frá IBM. Þetta fyrirkomulag var líklega einsdæmi hjá IBM í heiminum á þessum tíma.

Ottó var þar með orðinn forstjóri útlends stórfyrirtækis á Íslandi. Í tímaritsviðtali sagðist hann kunna því vel: „Í reynd finnst mér þetta vera mitt eigið fyrirtæki og legg áherslu á að fyrirtækið geri íslensku þjóðinni gagn. Hér fæst ég við heillandi verkefni, og þótt álagið sé oft mikið vegur starfsgleðin upp á móti því. Það er ánægjulegt að geta veitt öllum þessum starfsmönnum góða vinnu og taka þátt í daglegum viðfangsefnum þeirra og vera eins konar trúnaðarvinur þeirra.“[14]

IBM þjónaði einkum stórum fyrirtækjum í upphafi. Fyrstu viðskiptavinirnir voru Háskóli Íslands, Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar, Samband íslenskra samvinnufélaga, Reiknistofa bankanna og Loftleiðir. Á næstu árum bættust við tryggingafélögin, olíufélögin, bankar og sveitarfélög og alls fór búnaður IBM til notkunar í hátt á fjórða hundrað fyrirtækjum.[15] Þessu samfara efndi IBM til námskeiða í notkun tækjanna.

Fyrirtæki í sérflokki

Mynd frá því í desember 1963 þegar samningar voru undirritaðir um tölvu Háskóla Íslands. Ottó situr vinstra megin og gegnt honum Ármann Snævarr háskólarektor. Standandi frá vinstri: Trausti Einarsson, Magnús Magnússon og Jóhannes L.L. Helgason háskólaritari (Ljósm. Ingimundur Magnússon).

IBM á Íslandi laut ströngum reglum móðurfyrirtækisins. Reikningshald var með fastmótuðum hætti og niðurstöður þess varð að senda mánaðarlega til aðalstöðvanna í París og engu mátti skeika frá fyrirframgefnum dagsetningum. Allir starfsmenn urðu að lesa og staðfesta að þeir hefðu lesið siðareglur IBM og reglur giltu um klæðaburð. Félagið vildi tryggja starfsmönnum öryggi og þar með kjölfestu í lífi þeirra svo lengi sem þeir óskuðu þess, að því gefnu að þeir stæðu sig í starfi. Laun voru persónubundin og lögð áhersla á að hver starfsmaður hefði frelsi til að semja um sín laun. Þetta var byltingarkennd nýjung á þeim tíma þegar kjör launafólks voru njörvuð niður í kjarasamningum.

Erlendir sérfræðingar voru fengnir til að kenna kerfisfræði og forritun, en engin kennsla í þessum fögum fór þá fram í skólum hérlendis. Nýráðnir starfsmenn voru sendir á námskeið í skólum IBM í Svíþjóð, Belgíu, Danmörku, Bretlandi og Bandaríkjunum. Brátt hafði myndast svo mikil þekking að kerfisfræðideildin var þess umkomin að veita fullkomna fræðslu um búnað IBM fyrir íslenskan markað. Fyrirtækið tók í byrjun ekki gjald fyrir kerfisaðstoð og þjónustu við uppsetningu tækja. Allt var innifalið í leiguverði vélanna. Viðskiptavinir urðu því kröfuharðir þrátt fyrir að lengi vel væri ekki um neina samkeppni að ræða á þessum markaði hérlendis.

IBM á Íslandi yfirtók meðal annars rekstur Skýrsluvinnslu Ottós A. Michelsen sem stofnuð var 1963. Hún byggði á því að viðskiptamenn komu með gögn sín í formi skjala sem sett voru á gataspjöld til frekari úrvinnslu. Gataspjaldavélarnar voru mataðar handvirkt á þeim tíma og þetta var því mikið nákvæmnisverk. Minnsta yfirsjón gat leitt til villna í niðurstöðum. Nýir viðskiptavinir IBM byrjuðu með verkefni í þessari úrvinnsluþjónustu en leigðu síðan eða keyptu vélbúnað af IBM og hófu þá rekstur eigin tölvudeilda. Við þessa iðju starfaði sérstök stétt götunarstúlkna. Hlutverk þeirra var að gera gögn lesanleg í vélum og þannig meðfærileg í gataspjaldavélum eða tölvum. Þetta var erfitt starf í þröngu húsnæði við mikinn hávaða frá vélum. Talsverður hiti þurrkaði loftið og langar setur gátu leitt af sér ýmsa kvilla. Ein fyrrverandi götunarstúlka, Margrét Bárðardóttir, minnist þess að Ottó hafi verið áhugasamur um að þær hefðu góða stóla og bærilega loftræstingu og leituðu til sjúkraþjálfara við kvillum þannig að þeim liði eins vel við vinnuna og kostur var.[16]

Einstakur starfsandi

Starfsfólk Skrifstofuvéla og IBM ber Ottó ákaflega vel söguna. Gefum Sigríði Óskarsdóttur orðið, en hún starfaði sem einkaritari Ottós: „Það var einstaklega þægilegt og gott að vinna með Ottó hjá IBM á Íslandi. Hann hlustaði vel á starfsfólk og gaf góð ráð og hjálpaði ýmsum persónulega. Einstaklega gjafmildur maður. Hann var mjög hlýlegur, föðurlegur og góður maður. Mannvinur í raun og hjálplegur.“[17]

Elías Davíðsson var fæddur í Palestínu en settist hér að og hóf störf hjá Ottó skömmu fyrir jólin 1962. Hann vann síðan hjá IBM á Íslandi frá stofnun fram til ársins 1975. Hann segir Ottó hafa lagt mikla áherslu á framhaldsmenntun starfsmanna sinna og sjálfur hafi hann notið mjög góðs af námskeiðum erlendis á vegum IBM. Elías lét af störfum hjá IBM vegna ósættis með fyrirkomulag hins alþjóðlega stórfyrirtækis og kom þar ýmislegt til. Hann segir Ottó hafa breyst eftir að hann varð forstjóri IBM á Íslandi og orðið að fylgja fyrirmælum að utan. Grípum niður í samtal við Elías: „Hann varð að framfylgja ýmsum reglum sem honum voru ef til vill ekki að skapi. Einu sinni sagði hann mér að honum hefði verið skipað að kaupa betri bíl (BMW) til að tryggja ímynd forstjóra IBM.“ Elías segir síðan: „Ef það er eitt atriði sem ég tel marka meira en nokkuð annað þau ár sem ég starfaði hjá IBM, þá er það persónuleiki Ottós A. Michelsen. Ég tel hann til merkari persóna sem ég hef mætt á lífsleiðinni. Af honum geislaði óvenjuleg þjónustulund og kærleikur til náungans. Hann var sannkristinn maður. Hann leit aldrei niður á nokkurn mann og taldi sig bera ábyrgð á velferð starfsmanna sinna. Hann gerði sér grein fyrir takmörkunum sínum og lét hæfileika starfsmanna njóta sín.“[18]

Sverrir Ólafsson, sem stýrði skýrsluvinnslunni hjá IBM, segir Ottó hafa borið mikla umhyggju fyrir starfsfólki sínu. Hann hafi átt gott með að laða fram það besta í mönnum og starfsmenn hans lagt sig sannarlega fram. Hann hafi haft til að bera þýskan aga, en umfram allt hafi Ottó verið heiðarlegur og vandvirkur. „Einfaldlega mjög góður maður“.[19]

Ottó kynnir IBM 1620 tölvu fyrir Ásgeir Ásgeirssyni, forseta Íslands, 22. október 1963 (Ljósm. Sveinn Þormóðsson).

Hjá IBM var notast við afkastahvetjandi kerfi, menn gátu notið kaupauka og var boðið upp á veglegar utanlandsferðir ef tilteknum árangri var náð. Þetta var algjör nýlunda hér á landi. Fyrirtækinu vegnaði vel, veitti um eitt hundrað manns vinnu þegar mest lét og var einn hæsti skattgreiðandi í höfuðborginni. Það var í samræmi við stefnu IBM að vera hvarvetna „góður borgari“. Fyrirtækið skyldi greiða skatta þar sem starfsemin átti sér stað.[20] Sverrir Ólafsson, sem stýrði skýrsluvinnslu IBM, orðar þetta svo: „Engar ívilnanir fékk fyrirtækið til að hefja rekstur hérlendis og kærði sig ekkert um þær. Reksturinn skyldi vera á jafnræðisgrundvelli. Það er auðvelt að ímynda sér að þetta var allt mjög í anda Ottós A. Michelsen. Nú hafa stjórnmálamenn og fjármálaséni nútímans snúið þessu öllu á haus. Skattar erlendra stórfyrirtækja eru greiddir þar sem þeir eru lægstir og arðurinn fluttur óskattaður úr landi, lítið er gefið fyrir að vera góður þjóðfélagsþegn; þykir í besta fall svolítið hallærislegt og erlend fyrirtæki fá hinar og þessar ívilnanir ef þau vilja vera svo vinsamleg að hefja starfsemi hérlendis. Jafnvel er fullveldi landsins hugsanlega falt fyrir rétt verð.“[21] IBM veitti ríkulega fé til menningar- og menntamála og var „íslenskara“ en mörg fyrirtæki ef svo má segja, þrátt fyrir að vera útibú alþjóðlegs stórfyrirtækis.

Ottó hafði sem ungur maður strengt þess heit að hann skyldi umfram allt gera kröfur til sjálfs sín fremur en að gera kröfur til annarra, en sem yfirmaður gerði hann vitaskuld ríka kröfu um iðni og starfshæfni. Ekkert kæmi af sjálfu sér – vinna yrði fyrir öllu. Í tímaritsviðtali árið 1981 lagði hann svo út af þessum hugrenningum: „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að í vinnunni ætti að felast gleði, en þessa afstöðu finnst mér verið að rífa niður hin síðari ár. Ég tel, það mestu dásemd, sem hægt að er að hugsa sér, að vera frískur og geta unnið, – lagt eitthvað af mörkum til þjóðarbúsins.“ Hann taldi brýnt að skapa meiri samstöðu launþega og atvinnurekenda og vinna gegn þeim áróðri að vinnan gæti ekki verið gleðigjafi, því slíkar fullyrðingar væru beinlínis rangar.[22]

Íslenska stafrófið

Í árdaga íslenskrar skýrslutækni blasti við augljós vandi: Vélbúnaðurinn var gerður fyrir enskumælandi markað þar sem bókstafir eru 26 en þeir eru 10 til viðbótar í íslensku. Fyrstu afurðir gagnavinnslunnar voru rafmagnsreikningar, skattframtöl og önnur plögg frá hinu opinbera. Margir urðu þar að sætta sig við afbökun á nafni sínu, þar sem íslenska stafi vantaði og upphaflega var eingöngu notast við hástafi. IBM sá eðlilega á því ýmsa meinbugi að laga vélbúnað að íslenskum stöfum, þar sem vélarnar yrðu aðeins seldar hér á landi í fáeinum eintökum.

Þegar vinnsla og geymsla gagna losnaði úr viðjum gataspjaldsins varð sú aðferð almenn að tákna tölvustafi með tiltekinni samsetningu bita í talnakerfi með grunntöluna 16. Til varð sjö bita stafatafla með ótal afbrigðum, þar á meðal íslensku. Tíu sæti í þessari töflu voru notuð til að uppfylla sérstafi einstakra tungumála. Röðun íslensks texta var þó flókin og gera varð breytingar á öllum prenturum og skjám sem komu til landsins. Brátt varð ljóst að taka yrði upp átta bita stafatöflu.

Ottó ræktaði sambönd við fjölmarga útlendinga. Meðal þeirra var Þjóðverjinn Wilhelm F. Bohn, sem starfaði hjá IBM í Þýskalandi og hafði umsjón með gerð stafataflna. Bohn kom hingað til lands 1977 og var starfsmönnum IBM til ráðgjafar í málum er varðaði íslenska stafrófið.[23] Ottó gat komið því til leiðar gagnvart Bohn og yfirmönnum IBM að íslensku stafirnir yrðu hafðir með í nýrri alþjóðlegri stafatöflu. Sverrir Ólafsson, rekstrarstjóri skýrsluvinnslunnar hjá IBM, telur að hér hafi persónutöfrar og þýskukunnátta Ottós skipt sköpum. Þetta hafi verið Ottó mikið kappsmál enda hafði hann metnað fyrir hönd lands og þjóðar. Íslendingar hafi náð forskoti í þessum efnum á miklu stærri málsvæði, til að mynda það tyrkneska.[24]

Íslendingar standa í mikilli þakkarskuld við Wilhelm F. Bohn og forseti Íslands sæmdi hann riddarakrossi fálkaorðunnar árið 1993.

Á efri árum

Ottó lét af störfum sem forstjóri IBM árið 1982 og á þeim tíma unnu á bilinu 60 til 70 manns hjá IBM. Starfsmenn Skrifstofuvéla voru þá milli 40 og 50. IBM hafði fyrst verið til húsa á Klapparstíg 27 þar sem Skrifstofuvélar höfðu haft aðsetur. Brátt var þröngt um starfsemina og árið 1978 fluttist IBM í Skaftahlíð 27. Árið 1992 fór fram róttæk endurskipulagning á fyrirtækinu og til varð öflugt íslenskt hlutafélag, Nýherji, sem nú ber nafnið Origo.

Ottó seldi rekstur Skrifstofuvéla árið 1987 og eftir það einbeitti hann sér að margvíslegum hugðarefnum, þar á meðal sögu skýrslutækninnar, en hann safnaði ritvélum, reiknivélum, gataspjaldsvélum og fleiri skrifstofutækjum sem um skeið voru til sýnis á minjasafni Rafmagnsveitu Reykjavíkur en voru fluttar í geymslu eftir að því safni var lokað.

Fjölskyldumaðurinn

Ottó með konu sinni, Gyðu Jónsdóttur, á síðari hluta sjötta áratugarins.

Kona Ottós var Gyða Jónsdóttir, fædd 1924, dóttir Geirlaugar Jóhannesdóttur og Jóns Þ. Björnssonar frá Veðramóti sem var skólastjóri á Sauðárkróki í 44 ár. Gyða var heimilisiðnaðarkennari og hafði numið við listaskóla í Noregi og Finnlandi. Þau Ottó og Gyða vissu hvort af öðru heima á Sauðárkróki en þau kynntust ekki fyrr en á Laugaveginum í febrúar 1955 og höfðu þá ekki sést í tæpa tvo áratugi. Gyða var manni sínum stoð og stytta upp frá því. Þau hófu búskap í Auðarstræti 9 en fluttust fljótt í Litlagerði 12. Börnin urðu fjögur. Elstir eru tvíburarnir Kjartan, sem var prófessor í Ósló, en hann lést 2010, og Óttar kerfisfræðingur. Þá kom Helga Ragnheiður hjúkrunarfræðingur og yngst í systkinahópnum er Geirlaug grunnskólakennari. Fyrir átti Ottó Helgu Ursulu Ehlers, blaðamann í Köln, og Theodór Kristin, sem er viðskiptafræðingur.

Helga segir að faðir sinn hafi verið strangur en hlýr. Honum hafi verið mikið í mun um að börnin lærðu dönsku og hún minnist þess vel þegar hún var send til Danmerkur, rétt orðin níu ára gömul, í því skyni.[25] Eðlilega vann Ottó mikið en gaf sér engu að síður tíma til að sinna börnunum og fór með þeim í útreiðartúra. Hann þurfti reglulega að taka á móti erlendum gestum og notaði þá tækifærið og hafði börnin með í ferðum með gestina út úr bænum. Geirlaug minnist þess vel þegar Tom Watson, forstjóri IBM, kom hingað til lands. Þá slóst hún í för með föður sínum og Watson austur fyrir fjall og Ottó hafði útbúið nesti fyrir gestinn: Rúgbrauð með kæfu og kakó sem snætt var í krækiberjalyngi. Síðan var haldið með einkaflugvél Watsons til Vestmannaeyja, þar sem spæld voru egg á nýrunnu hrauninu.[26]

Ottó var flesta daga mættur í sundlaugarnar klukkan sjö að morgni og Geirlaug minnist þess með hlýju þegar faðir hennar hafði til morgunverð handa henni og þá var alltaf það sama á matseðlinum: Rúgbrauð með miklu smjöri og heitt kakó.

Starf í þágu kirkjunnar

Ottó A. Michelsen árið 1981 (Ljósm. Jóhannes Long).

Óhætt er að segja að Ottó hafi verið einn dyggasti þjónn kirkjunnar í leikmannastétt. Hann sat í stjórn Hjálparstofnunar kirkjunnar frá stofnun til ársins 1984, þar af sem formaður síðustu fjögur árin. Þá var hann formaður kirkjubyggingasjóðs Reykjavíkurborgar. Mestu störfin í þágu kirkjunnar vann hann þó í sinni sókn.

Ottó og Gyða fluttu með fjölskylduna í Bústaðahverfið 1960 og sóttu þá messur í Réttarholtsskóla. Ottó lét sig kirkjubyggingu hins nýja safnaðar varða og gerði tillögu að staðsetningu sem varð ofan á. Bygging kirkjunnar hófst 1966 og henni lauk 1971 og Ottó var formaður bygginganefndar. Um svipað leyti höfðu þau hjónin fengið úthlutað lóð fyrir stórt einbýlishús en hættu við smíði þess og ákváðu að helga krafta sína kirkjubyggingunni. Um skeið vann Ottó sjálfur við framkvæmdina öll kvöld, enda með eindæmum ósérhlífinn. Gyða lét heldur ekki sitt eftir liggja við byggingu kirkjunnar.

Ottó kemst svo að orði í endurminningum sínum: „Það er sannfæring mín að ekkert er þjóð okkar jafn nauðsynlegt og kærleiksboðskapur kristninnar. Ef henni auðnast að tileinka sér kristilegt siðgæði, þá mun henni vel farnast. Annars ekki.“[27]

Eftir að Ottó lét af störfum sem forstjóri gafst honum enn betra tóm til að sinna líknarmálum. Árið 1982 skipulagði hann söfnunarátak Krabbameinsfélagsins, sem gafst einstaklega vel, og árið eftir efndi hann til söfnunar fyrir hjartveika telpu sem þurfti á hjartaígræðslu að halda. Sú fjármögnun tókst einnig vel og ígræðslan heppnaðist sömuleiðis.

Þau hjónin ferðuðust mikið um heiminn, meðal annars alla leið austur til Japan og vestur til Bahamaeyja, þar sem þau læstust eitt sinni inni í lyftu með Harry Belafonte. Þá fór Ottó á efri árum einn í ferðalag til Gambíu í Vestur-Afríku. Þegar aldurinn færðist yfir endurnýjuðu þau hjónin tengsl við æskustöðvarnar og keyptu sér hús á Sauðárkróki. Þá voru Nafirnar ofan við bæinn örfoka melur, en Ottó beitti sér fyrir því að þær yrðu græddar upp og varði miklum tíma og fjármunum í það verk, að sá fræjum og planta trjám. Nú er þar allt gróið.[28]

Þrátt fyrir ferðalög vítt og breitt um heiminn undi Ottó sér hvergi jafn vel og í Skagafirði, en sjálfur komst hann svo að orði um æskustöðvarnar: „Það er svo undarlegt að þó ég sé búinn að ferðast víða um heiminn þá hef ég aldrei nokkurs staðar orðið eins gagntekinn af fegurð eins og í Skagafirði. Ég hef aldrei getað slitið þær taugar sem ég á til Skagafjarðar og alltaf langar mig norður og alltaf fæ ég endurnæringu af því einu að koma og vera fyrir norðan og hitta þar alla mína tryggu vini, sem ég hef átt frá barnæsku.“[29]

Ottó lést 11. júní árið 2000.

 

Höfundur er doktorsnemi í lögfræði og sagnfræði.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 2. tbl. 2020. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

 

Tilvísanir:

[1] Ég þakka viðmælendum mínum fyrir margvíslegan fróðleik um Ottó og sögu upplýsingatækninnar á Íslandi. Þar ber fyrst að nefna dætur Ottós, þær Helgu Ragnheiði hjúkrunarfræðing og Geirlaugu grunnskólakennara; og eiginmenn þeirra, þá Stefán S. Guðjónssyni forstjóra og Grím Guðmundsson rafeindavirkja. Sömuleiðis vil ég þakka Björgvin Schram, fyrrv. kerfisfræðingi hjá IBM; Páli Braga Kristjónssyni, fyrrv. sölumanni hjá IBM og síðar forstjóra Skrifstofuvéla; Sigríði Óskarsdóttur, fyrrv. einkaritara Ottós; Sverri Ólafssyni, fyrrv. framkvæmdastjóra skýrsluvinnslu IBM, og Erni Kaldalóns, fyrrv. kerfisfræðingi hjá IBM.
[2] „Athafnaþráin sigraði myrkfælnina í líkhúsinu“, Heima er bezt, 9. tbl. 1981, bls. 278.
[3] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það. Ottó A. Michelsen rekur minningar sínar, Akranesi 1997, bls. 42.
[4] Sama heimild, bls. 47.
[5] „Athafnaþráin sigraði myrkfælnina í líkhúsinu“, Heima er bezt, 9. tbl. 1981, bls. 277.
[6] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það, bls. 59.
[7] Örn Kaldalóns, viðtal 28. maí 2020.
[8] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það, bls. 140.
[9] Helga Ottósdóttir, viðtal 29. apríl 2020.
[10] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það, bls. 149.
[11] Sama heimild, bls. 150.
[12] „1. hluti: 1964–1974 – upphafið,“ sky.is/sagautaislandi.
[13] Sverrir Ólafsson: Í vist hjá IBM, Reykjavík 2008, bls. 25.
[14] „Athafnaþráin sigraði myrkfælnina í líkhúsinu“, Heima er bezt, 9. tbl. 1981, bls. 283.
[15] Sverrir Ólafsson: Í vist hjá IBM, bls. 44.
[16] Sama heimild, bls. 55.
[17] Sigríður Óskarsdóttir, tölvuskeyti til höfundar, dags. 10. maí 2020.
[18] Elías Davíðsson: „Minningar“, Í vist hjá IBM, bls. 166–167.
[19] Sverrir Ólafsson, viðtal 27. apríl 2020.
[20] Sama heimild.
[21] Sverrir Ólafsson, erindi flutt í Bústaðakirkju 10. júní 2020 á aldarafmæli Ottós A. Michelsen.
[22] „Athafnaþráin sigraði myrkfælnina í líkhúsinu“, Heima er bezt, 9. tbl. 1981, bls. 280.
[23] Jóhann Gunnarsson: „Tölvutækni og stafrófsgerð,“ Í vist hjá IBM, bls. 179.
[24] Sverrir Ólafsson, viðtal 27. apríl 2020.
[25] Helga Ottósdóttir, viðtal 29. apríl 2020.
[26] Geirlaug Ottósdóttir, viðtal 29. apríl 2020.
[27] Jóhannes Helgi: Ottó. Með seiglunni hefst það, bls. 168–169.
[28] Geirlaug Ottósdóttir, viðtal 29. apríl 2020.
[29] „Athafnaþráin sigraði myrkfælnina í líkhúsinu“, Heima er bezt, 9. tbl. 1981, bls. 284.