Framtíðin ræðst af því sem við gerum í dag

Sigurður er stærðfræðingur að mennt með doktorspróf frá Oxford-háskóla. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins frá 2017. Áður starfaði hann lengi á fjármálamarkaði, síðast sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka. Sigurður var varaformaður framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta árið 2015 og formaður sérfræðingahóps um Leiðréttinguna árið 2013. Í byrjun árs 2020 var hann sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir atbeina undir merkjum samtakanna Indefence og framlag til íslensks atvinnulífs. (Myndir: Þjóðmál/HAG)

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), hélt því fram, um mánuði áður en Covid-19 faraldurinn skall á, að óveðursský lægju yfir íslenska hagkerfinu. Í viðtali við Þjóðmál ræðir Sigurður hvernig best er að byggja hagkerfið upp til lengri tíma, um samkeppnishæfni Íslands, mikilvægi erlendrar fjárfestingar hér á landi og hlutverk hins opinbera gagnvart atvinnulífinu. Þá ræðir hann einnig um störf sín í framkvæmdahópi um losun gjaldeyrishafta og loks fyrirhugaða sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Viðtalið birtist í vetrarútgáfu Þjóðmála en er hér birt í heild sinni.


Það væri aðeins til að æra óstöðugan að ætla að fjalla um þann efnahagslega skaða sem Covid-19 heimsfaraldurinn hefur valdið íslensku hagkerfi. Hér er þó hægt að hefja samtalið við Sigurð á orðum sem hann lét falla í samtali við ViðskiptaMoggann í febrúar 2020, um mánuði áður en veiran fór að hafa hér áhrif, þegar hann sagði að það væru óveðursský yfir Íslandi. Spurður um þessi ummæli nú og hvort þau hafi átt rétt á sér á þeim tímapunkti segir Sigurður svo vera.

„Það voru blikur á lofti áður en faraldurinn skall á og kólnun hagkerfisins var staðreynd,“ segir Sigurður.

„Það var meðal annars vegna þess að þeirri spurningu var ósvarað hvað ætti að drífa hagvöxtinn á næstu árum og áratugum. Við teljum einsýnt að hugverkaiðnaður og nýsköpun sé svarið og stjórn SI ákvað því að helga árið 2020 nýsköpun, en til þess að svo megi verða þurfa allir að leggjast á eitt og hlaupa hraðar í þá átt en gert hefur verið. Framtíðin ræðst af því sem við gerum í dag. Við getum því ekki litið þannig á að nú sé tíminn til að bregðast við Covid-19 faraldrinum og efnahagslegum afleiðingum hans og ætla síðan að hugsa um framtíðina og fara í uppbyggingu sem tekur mörg ár.“

Sigurður segir brýnt að fjölga eftirsóttum störfum, bæði til að vinna gegn atvinnuleysi sem sé meinsemd og til að auka vöxt þannig að lífsgæði landsmanna verði sem mest.

„Störfum hefur fækkað mikið í einkageiranum og atvinnuleysið er mikið á sama tíma og störfum hefur fjölgað hjá hinu opinbera. Þarna er ákveðið ójafnvægi að myndast. Aftur á móti verða ný verðmæti til í atvinnulífinu, það þarf reglulega að minna á það,“ segir Sigurður.

„Það er jafnframt hætt við því að við verðum of upptekin við að ætla að endurreisa hagkerfið í þeirri mynd sem það var fyrir faraldurinn. Framtíð okkar á ekki að ráðast af því hvað hingað koma margir ferðamenn. Stjórnvöld eiga að beina kröftum sínum að annarri uppbyggingu sem mun skila miklu meiri verðmætum í þjóðarbúið og skapa eftirsótt störf. Þetta á að vera aðaláherslan núna. Við vitum að við svona áföll verður til eitthvað nýtt, þá losna ákveðnir kraftar úr læðingi. Við eigum að taka á móti þeim og virkja þá til uppbyggingar.“

Sigurður vísar í fyrri orð sín um að spurningunni um það hvað eigi að drífa hagvöxt næstu ár og áratugi sé að vissu leyti ósvarað. Hann segir svarið þó alveg ljóst í huga síns og SI – nýsköpun og hugverkaiðnaður.

„Það þarf að breyta gangi hagkerfisins með eflingu hugverkaiðnaðar og almennri áherslu á samkeppnishæfni sem styður við iðnað og atvinnulífið í heild sinni. Hugverkaiðnaður er fjórða stoðin sem skotið hefur rótum,“ segir Sigurður.

„Það er ekki bara hugmynd heldur er hún orðin að veruleika. Mestu vaxtarmöguleikarnir eru þarna vegna þess að hugvitið, sem við viljum virkja, er ótakmörkuð auðlind ólíkt þeim grunni sem hinar stoðirnar byggja á. Vaxtarmöguleikar þriggja helstu útflutningsstoða okkar, sem allar byggja á nýtingu náttúruauðlinda, eru takmarkaðir. Við þekkjum hvernig við stýrum auðlindum sjávar og hvað orkusækinn iðnað varðar er ekki útlit fyrir mikinn vöxt á allra næstu árum þó að spennandi vaxtarmöguleikar séu til staðar sem þarf að nýta. Vissulega hefði ferðaþjónustan möguleika til að vaxa áfram en ekkert í líkingu við vöxt hennar á liðnum árum. Þess vegna vorum við komin á þann stað að þurfa að flytja eitthvað nýtt út til að búa til ný verðmæti.“

Sigurður vísar í framhaldinu til nýlegrar umfjöllunar tímaritsins The Economist þar sem fram kom að þriðji áratugurinn gæti verið áratugur nýsköpunar á heimsvísu, meðal annars vegna Covid.

„Þá losna úr læðingi ýmsir kraftar sem leiða til nýrra lausna og þróunar. Það eru óteljandi möguleikar af því að við erum svo lítil. Þetta er svo gífurlega stór markaður að við þurfum ekki nema örlitla sneið af kökunni til að hún vegi mjög þungt hér hlutfallslega.“

Stærsta efnahagsmálið

Ef þessi spá reynist rétt, að þriðji áratugurinn verði áratugur nýsköpunar, hvernig stendur Ísland þá í þeirri samkeppni sem væntanlega fer fram á heimsvísu?

„Að mínu mati erum við vel í stakk búin til að taka þátt í þeirri samkeppni,“ segir Sigurður.

„Við getum auðvitað aldrei orðið góð í öllu en það er mjög áhugavert að fylgjast með þeirri grósku sem nú á sér stað. Það eru fyrirtæki sem eiga alla möguleika á því að taka stór stökk á næstunni og önnur hafa nýlega tekið stór skref, til dæmis Controlant, Kerecis, Nox Medical, Algalíf og fleiri. Svo eru að verða til ný fyrirtæki og margar góðar og spennandi hugmyndir. Við eigum mikil sóknarfæri í líf- og heilbrigðistækni, tölvuleikjagerð, kvikmyndaiðnaði og starfsemi gagnavera svo dæmi séu nefnd.“

Það liggur þó fyrir að það líða í flestum tilvikum 10-20 ár frá því að nýsköpunarhugmynd fæðist og þar til hún fer að skapa veruleg verðmæti. Við getum væntanlega ekki beðið svo lengi eftir því að nýsköpun hífi okkur þannig úr þeim efnahagserfiðleikum sem nú blasa við?

„Það er alveg rétt, en þær forsendur sem þú nefnir eru ekki réttar,“ segir Sigurður.

„Fjórða stoðin, hugverkaiðnaður, er raunveruleg. Við erum ekki á byrjunarreit heldur byrjaði þessi þróun fyrir rúmum áratug með hvötum stjórnvalda til nýsköpunar. Einmitt af þeirri ástæðu gæti þriðji áratugurinn verið áratugur nýsköpunar hér á landi ef rétt er á málum haldið. Það eru mörg fyrirtæki í ólíkum greinum komin það langt að þau eru vel til þess fallin að taka stór stökk á næstu árum. Efling nýsköpunar og vöxtur hugverkaiðnaðar er því stærsta efnahagsmálið.“

Sigurður segir að íslensk stjórnvöld eigi hrós skilið fyrir að bæta umgjörð þessara mála hér á landi. Þannig nefnir hann sem dæmi ýmsa jákvæða hvata, svo sem endurgreiðslur vegna rannsóknar og þróunar og kvikmyndagerðar.

„Kosturinn við slíkt kerfi er að það er markaðurinn sem velur í hverju er fjárfest, en ekki ríkið,“ segir Sigurður.

„Markaðurinn velur það sem hann hefur trú á hverju sinni. Á árinu 2019 jukust endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar úr 56 milljörðum króna í 70 milljarða. Þetta sýnir að þessir hvatar virka og skila tilætluðum árangri. Þetta er það sem stjórnvöld ættu að hafa í huga á fleiri sviðum. Það er ástæða fyrir því að þjóðirnar í kringum okkur beita jákvæðum hvötum, á meðan tilhneigingin hér hefur oft verið sú að vera með neikvæða hvata. Þannig má sem dæmi nefna aukin gjöld og skatta og flóknar reglugerðir. Jákvæðu hvatarnir skila að lokum betri árangri því þeir leiða til nýrra lausna, nýrra fjárfestinga og aukinna umsvifa.“

Aukin samhæfing eykur samkeppnishæfni

Þú talaðir um atvinnuleysi sem meinsemd hér í upphafi. Hér hefur aldrei verið viðvarandi atvinnuleysi svo heita megi, enda höfum við viðhaldið háu atvinnustigi meðal annars með því að fella gengið. Það er aftur á móti ekki að gerast núna. Á sama tíma fer tækninni fram og það má ætla að einhver störf hverfi samhliða aukinni tæknivæðingu, jafnvel hraðar nú en áður vegna faraldursins. Er atvinnuleysi mögulega komið til að vera eða hvernig horfir það við þér?

„Það eru vissulega stórar breytingar fram undan, við þurfum að horfast í augu við það,“ segir Sigurður.

„Á móti má segja að það eru líka til störf í dag sem voru ekki til fyrir 30 árum. Þá voru ekki margir að vinna við forritun, í upplýsingatækni, við tölvuleikjagerð og þannig mætti áfram telja. Það stefnir þó í að störf sem fela í sér mikla endurtekningu verði með tímanum sjálfvirknivædd. Það er erfitt að sjá þetta fyrir sér en þetta er ekki í fyrsta sinn í sögunni sem breytingar verða á störfum, sum störf detta út og ný verða til, vegna tækniþróunar. Þær hafa þó haft í för með sér frekari framþróun fyrir mannkynið fram til þessa.“

 

Aðspurður segir Sigurður að það ástand sem nú ríkir geti líka leitt til til breytinga á vinnumarkaði. Þannig verði að öllum líkindum ekki mikið svigrúm til launahækkana á næstu árum.

En er það svo ekki annað sjálfstætt vandamál, að launakostnaður fyrirtækja er of hár á Íslandi?

„Jú, og það eins og margt annað kemur inn á samkeppnishæfni landsins,“ segir Sigurður.

„Heilt yfir litið vantar þó meiri samhæfingu. Við þurfum að tryggja að það sé samhæfing á milli áherslna í menntakerfi, þeirra starfa sem í boði eru og launa. Ef stjórnmálamenn deila þessari sýn um eflingu hugverkaiðnaðar þarf stefnumörkun að taka mið af því á samræmdan hátt. Áherslur í menntamálum þurfa að styðja við þetta, þar sem það er aukin hvatning að fara í raungreina- eða tækninám og það sama á við um uppbyggingu innviða, aukna hvata til nýsköpunar og starfsumhverfi fyrirtækja. Eins snýr þetta að áherslu stjórnmálanna á tilteknar atvinnugreinar þar sem laun eru lág í stað þess að hvetja til uppbyggingar greina með eftirsóttum störfum og meiri framleiðni.“

En eru kerfin að tala saman með þessum hætti, þ.e. menntakerfið, atvinnulífið og stjórnvöld?

„Það þarf miklu meiri samhæfingu til að auka samkeppnishæfni landsins,“ segir Sigurður.

„Það eru nokkrir þættir sem skipta mestu þegar kemur að framleiðni. Menntun og mannauður eru þar á meðal, að hafa réttu hæfnina og færnina. Innviðir þurfa að vera traustir og byggja undir aðra verðmætasköpun. Nýsköpun er þáttur og það er starfsumhverfið líka sem snýr að sköttum og regluverki. Allt þarf þetta að mynda góða og trausta heild og því þarf að skerpa á því sem í daglegu tali kallast atvinnustefna.“

Hver á að móta hana?

„Stjórnvöld eiga að gera það, þau bera ábyrgð á stefnumótuninni,“ segir Sigurður.

„Þau senda einstaklingum og fyrirtækjum skilaboð á hverjum degi með lagabreytingum, reglugerðum, yfirlýsingum um áform og með öðrum leiðum. Það hefur auðvitað áhrif á það hvaða ákvarðanir eru teknar, meðal annars í atvinnulífinu. Með athöfnum sínum og orðum eru stjórnvöld ýmist að hvetja til einhverrar hegðunar eða letja. Þannig að það hefur allt saman áhrif. Þarna þarf meiri samhæfingu, annars náum við engum árangri og verðum hreinlega eftirbátar annarra ríkja í lífskjörum. Þess vegna hafa SI lagt ríka áherslu á aukna samkeppnishæfni og bent á fjölmargar leiðir til þess að bæta úr, enda viljum við vera uppbyggileg og jákvæð, tala um tækifærin en ekki bara benda á hið neikvæða. Þessum málflutningi hefur verið vel tekið og stjórnvöld hafa stigið mörg jákvæð skref á undanförnum árum. Það þarf þó meira til.“

Ríkið leggur steina í götu fyrirtækja

Við höfum í gegnum tíðina séð óteljandi magn yfirlýsinga, skýrslna og funda frá stjórnvöldum, hagsmunasamtökum, menntastofnunum og fleiri aðilum um ýmiss konar stefnur og strauma, t.d. í menntamálum og atvinnumálum. Síðan er allur gangur á því hvort og þá hvernig því er fylgt eftir þannig að raunverulegar breytingar eigi sér stað. Er það rétt mat?

„Það er því miður rétt, það eru oft teiknuð upp góð og gild markmið án þess að þeim sé fylgt eftir,“ segir Sigurður.

„Þessu þarf að breyta og þar þurfa allir að axla sína ábyrgð. Á næstu 12 mánuðum verða teknar ákvarðanir sem ráða miklu um það hvernig staðan verður á Íslandi næstu árin og áratugina og þar þarf að vanda vel til verka. Það fer of mikill tími í að ræða hvernig skipta eigi kökunni en minni tími í að ræða hvernig verðmætin verða til. Fram undan er í raun barátta um lífskjör okkar til framtíðar, leið vaxtar og tækifæra eða leið skattlagningar.“

Ein af þeim ákvörðunum hlýtur að vera hversu stórt ríkisvaldið á að vera, en það eru sem er engin áform uppi um að minnka völd þess og áhrif. Hvernig sérðu þetta fyrir þér?

„Umsvif hins opinbera hafa því miður aukist og opinberum starfsmönnum fjölgað,“ segir Sigurður.

„Það hefur verið sátt um það að ríkið komi að ákveðnum málum. Við viljum hafa öflugt velferðarkerfi, svo dæmi sé tekið. En það er auðvitað mjög sérstakt að ríkið telji sig líka þurfa að sinna þjónustunni sjálft. Í stað þess að leita frekar til einkaaðila þar hefur þróunin verið öfug, að ríkið hefur verið að taka verkefni til sín frá einkaaðilum. Við sjáum líka dæmi þessa með innhýsingu verkefna hjá hinu opinbera. Í stað þess að skipta við aðila á markaði og byggja upp þekkingu á markaðnum sem þá nýtist öllum er opinberum sérfræðingum fjölgað. Þetta er verulegt umhugsunarefni.“

Við gætum setið hér í allan dag og rætt um það hvernig hægt sé að búa til jákvæða hvata fyrir atvinnulífið, hvort sem er fyrir ný fyrirtæki eða eldri. Staðreyndin er þó sú að öll þessi fyrirtæki munu að öllu óbreyttu reka sig reglulega á ýmsa þröskulda ríkisins, svo sem stórar en óskilvirkar eftirlitsstofnanir. Eru ekki allar líkur á því að ríkið stækki frekar á þeirri hlið?

„Það er rétt og þetta á við um nýsköpunarfyrirtæki og ekki síður rótgróin fyrirtæki. Það eru því miður dæmi þess að hljóð og mynd fari ekki saman,“ segir Sigurður.

„Stjórnmálamenn eru með ákveðin markmið, vilja greiða götu fyrir einhverja uppbyggingu – en á sama tíma eru stofnanir ríkisins að leggja steina í götuna. Það þarf verulegar umbætur á þessu sviði. Það á ekki bara við um ríkið heldur líka sveitarfélög.“

Spurður hvort þetta sé ekki til þess fallið að skerða fyrrnefnda samkeppnishæfni tekur Sigurður undir það.

„Það er oft eins og það sé ekki horft til þess hvaða áhrif of þungt regluverk hefur,“ segir Sigurður.

„Einfalt dæmi er það er innleiðing EES-reglna. Evrópusambandið setur lágmarkskröfur um það hvernig hlutirnir eiga að vera og þau ríki sem eiga aðild að EES-svæðinu gangast síðan undir þær reglur. Ríkjum er síðan frjálst að ganga lengra og einhverra hluta vegna finnst okkur það sjálfsagt mál að ganga mun lengra en gerðar eru kröfur um. Bæði stjórnmálamönnum og embættismönnum þykir stundum sjálfsagt að setja nýjar og íþyngjandi kvaðir sem hafa jafnvel ekkert að gera með upphaflega reglugerð. Um leið erum við að setja meiri kröfur á okkar fólk en gert er annars staðar og það dregur úr samkeppnishæfni. Það er erfitt að sjá hverju það á að þjóna. Það er eins og að senda íslenskan íþróttamann í alþjóðlega hlaupakeppni með 30 aukakíló á bakinu og skilja síðan ekkert í því að hann skuli ekki koma fyrstur í mark. Þarna er dæmi um það gegnumgangandi stef að heimatilbúnir fjötrar hlekkja okkur, en ljósi punkturinn er sá að það er í okkar valdi að breyta þessu.“

Þurfum að sækja erlenda fjárfestingu

Íslenska hagkerfið byggir að mestu á útflutningi og við eigum því mikið undir öflugum alþjóðaviðskiptum. Aftur á móti er ekki mikið um erlenda fjárfestingu á Íslandi og það virðast vera háir þröskuldar hér sem hamla þeirri fjárfestingu. Er það ekki vandamál?

„Jú, það er mikið vandamál,“ svarar Sigurður að bragði.

„Til að auka erlenda fjárfestingu þarf samkeppnishæfnin að vera til staðar, eins og við höfum rakið hér að framan. Það þarf líka að skapa réttu umgjörðina fyrir erlenda aðila til að fjárfesta hér og við þurfum að senda þau skilaboð að hér sé hægt að taka þátt í uppbyggingu og greiða götu hennar.“

Sigurður minnir á að utanríkisráðuneytið beri ábyrgð á samningagerð og bætir við að það megi segja utanríkisráðherra til hróss að vel hafi verið haldið á þeim málum á þessu kjörtímabili. Þannig hafi verið reynt að opna dyr fyrir nýjum samböndum og frekari viðskiptum. Það sé svo annarra ráðuneyta, sér í lagi atvinnuvegaráðuneytisins, að gera nauðsynlegar umbætur sem hvetji almennt til uppbyggingar.

„Það er þó ekki nóg að laga til hjá okkur heldur þurfum við líka að segja frá því,“ segir Sigurður.

„Það þarf því að stunda öfluga markaðssetningu og Íslandsstofa sér um það í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífsins. Þetta er það sem við köllum að sækja tækifærin, að greiða götu atvinnuuppbyggingar og hvetja til fjárfestinga með umbótum og markaðssókn. Það þarf að sækja tækifærin því þau koma ekki af sjálfu sér. Það gerist hvergi. Þetta skildu menn á sjöunda áratugnum þegar Landsvirkjun var stofnuð og álverið í Straumsvík var reist. Það verkefni var sótt. Auðvitað hefur það verið gert síðan, en það þarf miklu meiri áherslu á þetta. Við sjáum nýleg dæmi frá Danmörku og Svíþjóð. Google fjárfesti fyrir 740 milljónir evra í Danmörku í uppbyggingu gagnavera og stafrænna innviða. Í fréttatilkynningunni var tilvitnun í utanríkisráðherra Danmerkur, sem undirstrikar að stjórnvöld höfðu beina aðkomu að málinu. Í Svíþjóð er Microsoft að fjárfesta fyrir rúman milljarð dollara og þar voru stjórnvöld einnig virk í því að fá fjárfestinguna til landsins.“

Sigurður segir ekki hægt að kenna áhugaleysi stjórnvalda um skort á erlendri fjárfestingu.

„Ég held að vandamálið sé að hluta til það að enginn einn ber ábyrgð á þessu í kerfinu. Þetta er á ábyrgð nokkurra ráðuneyta, sem eykur hættuna á því að málið falli milli skips og bryggju. Það kunna að vera ýmsar aðrar skýringar, en ég held að þetta skipti töluverðu máli,“ segir Sigurður.

Reynslan úr Icesave baráttunni nýttist í samningum við kröfuhafana

Þá að öðru. Sigurður sat í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta á árinu 2015. Þar sátu einnig Benedikt Gíslason og Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, nú bankastjóri og aðstoðarbankastjóri Arion banka, og gegndu þar veigamiklu hlutverki auk þess sem aðrir störfuðu með hópnum. Í bókinni Afnám haftanna – Samningar aldarinnar? eftir Sigurð Má Jónsson blaðamann, sem kom út sumarið 2020, er vinna framkvæmdahópsins rakin og greint frá ýmsu sem gerðist á bak við tjöldin sem ekki hefur komið fram áður. Þar má til dæmis nefna vanhæfni þáverandi stjórnenda Seðlabankans til að ljúka viðræðum við kröfuhafa og losa um höftin, enda þurfti að leita út fyrir stjórnkerfið til þess.

Það er óumdeilt að til viðbótar við almennt skynsama hagstjórn síðustu ára hefur hið svokallaða stöðugleikaframlag skipt sköpum fyrir íslenska hagkerfið í Covid-19 faraldrinum. Framlagið var um 600 milljarðar króna, sem er sambærilegt því tjóni sem faraldurinn hefur valdið. Af þeirri ástæðu er ríkissjóður í stakk búinn til að styðja við hagkerfið og halda á sama tíma uppi þjónustu.

Það væri hægt að fjalla vel og lengi um starf hópsins og sjálfsagt eru ýmis atriði sem enn á eftir að greina frá. Hér gefst ekki pláss til þess en þó eru nokkrir þættir sem vert er að huga að. Hér gefst tilefni til að spyrja Sigurð um ástæður þess að hann og fleiri tóku að sér verkefni sem margir töldu að væri ekki hægt að leysa með þeim hætti sem þeir síðan gerðu.

„Það skipti öllu máli að það lá fyrir skýr sýn og hópur sem stóð fast á því að það væri hægt að gera hlutina öðruvísi en allir héldu. Því var síðan haldið til streitu, með þeim árangri að það munaði mörg hundruð milljörðum,“ segir Sigurður.

„Þá verður líka að horfa til þess að reynslan frá því að hafa tekið þátt í baráttunni gegn Icesave-samningunum nýttist vel. Það gaf okkur sjálfstraust til að fara í þetta mál með þessum hætti. Loks var þetta mögulegt af því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn höfðu náð sterkri stöðu eftir kosningarnar 2013. Nálgun þeirra á verkefnið var allt öðruvísi en ríkisstjórnarinnar þar á undan og þetta hefði ekki tekist án pólitískrar forystu og af því að formenn flokkanna voru samstíga um nálgun.“

Sigurður rifjar upp að þeir Benedikt höfðu unnið að þessum málum frá árinu 2009 og voru þannig búnir að skoða ýmsar hliðar á þeim verkefnum sem lágu fyrir. Þeir komu því ekki kaldir að borðinu.

„Að baki lá áralöng vinna. Hagsmunir okkar fólust í því að vilja búa á Íslandi og að hér yrði hagsæld til lengri tíma,“ segir Sigurður.

„Hagsmunir erlendra ráðgjafa eru ekki þeir sömu; þeirra hagsmunir liggja í því að fá ný verkefni og þá er síður leitað óhefðbundinna lausna. Við vorum hins vegar sannfærðir um þá leið sem við síðan fórum og það tókst að sannfæra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um þá leið.“

Þegar Sigurður er spurður hvort hann hafi aldrei óttast að leið þeirra myndi mistakast eða valda frekara tjóni er hann snöggur til svara; „Nei.“

Þú tókst þátt í baráttunni gegn Icesave-samningunum og síðar í þessu umrædda verkefni. Það má því ætla að þú takir slagi fyrir þann málstað sem þú er sannfærður um að sé réttur. Það liggur því beinast við að spyrja, langar þig ekkert að taka þátt í stjórnmálum?

„Ég brenn fyrir umbótum og þegar maður sér að hlutirnir eru ekki í lagi tekur maður ákvörðun um að beita sér eftir fremsta megni þar sem það á við,“ segir Sigurður.

„Ég hef lítið velt fyrir mér þátttöku í stjórnmálum en aðalmálið í mínum huga er að vinna samfélaginu gagn. Ég er ánægður á þeim vettvangi sem ég er á í dag. Þar eru möguleikar á því að hafa áhrif og gera gagn, vinna að umbótum í samstarfi við félagsmenn SI, stjórnvöld og aðra hagaðila. Umbótum sem gagnast íslensku samfélagi til lengri tíma.“

Engin óskastaða að ríkið eignaðist Íslandsbanka

Nú stendur til að selja brot af hluta ríkisins í Íslandsbanka og hefur það vakið nokkra umræðu í þjóðfélaginu. Sigurður þekkir vel hvernig Íslandsbanki komst í eigu ríkisins, eftir að hafa setið í fyrrnefndum framkvæmdahóp um losun fjármagnshafta. Þá er Sigurður í dag stjórnarformaður Kviku banka, hvar hann starfaði um árabil áður en hann tók við núverandi starfi. Það verður ekki hjá því komist að spyrja Sigurð nánar út í hugsanlega sölu á Íslandsbanka og framtíðarhorfur á bankamarkaði.

„Það var aldrei ætlunin að ríkið héldi á hlut sínum í Íslandsbanka til lengri tíma,“ segir Sigurður.

„Þegar ríkið eignaðist þann hlut var það til að leysa ákveðin vandamál sem tengdust losun hafta. Það var engin stefna af hálfu ríkisins að eignast banka í viðskiptalegum tilgangi eða auka hlut sinn á fjármálamarkaði. Þvert á móti var lögð áhersla á að Glitnir ætti áfram hlutinn og kröfuhafar kæmu honum í verð. Gögn sem birtust í tengslum við kynningarfundinn 8. júní 2015 þegar áætlun um losun hafta var kynnt sýna þetta en svo breyttist staðan þegar leið á árið. Það var í raun engin óskastaða fyrir ríkið að eignast bankann, heldur var það sem fyrr segir hluti af því að losa höftin.“

Spurður nánar út í þá umræðu sem nú hefur skapast segir Sigurður að hafa þurfi í huga að regluverk og öll umgjörð fjármálamarkaðarins hafi gjörbreyst frá árinu 2008, hér á landi og alþjóðlega.

„Eftirlit er miklu meira en það var og sameining Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins hefur styrkt eftirlit til muna, það eru gerðar miklu meiri kröfur til stjórnenda og eigenda fjármálastofnana en áður var, bankar eru mun betur fjármagnaðir en áður og eiginfjárhlutfall þeirra er mun hærra. Þetta er gjörbreytt landslag,“ segir Sigurður.

„Ríkið þarf því ekki að vera eigandi eignarhlutar til að hafa áhrif á markaðinn, það gerir það bæði í gegnum regluverkið og eftirlit. Mér finnst það skipta miklu máli í þessari umræðu.“

Hér fjallar Sigurður um þær breytingar sem hafa átt sér stað á regluverki og öðrum þáttum sem snúa að bankastarfsemi á liðnum árum. Samhliða því hafa fjártæknifyrirtæki rutt sér til rúms og þannig breytt hinni hefðbundnu viðskiptabankaþjónustu – sem á sama tíma hefur tekið stökkbreytingum með nýrri tækni og aukinni rafrænni þjónustu. Spurður um þetta segir Sigurður að bankar verði þó áfram í því hlutverki að miðla fjármagni, þ.e. taka við innlánum og veita lán.

„Þeir munu þó gera það meira í gegnum tæknina og hlutverk þeirra breytist að því leyti,“ segir Sigurður.

„Þeir munu þó áfram gegna mikilvægu hlutverki á sviði sérhæfðari þjónustu eins og ráðgjafar, eignastýringar og markaðsviðskipta. Það má heldur ekki gleyma hlutverki bankanna í því að styðja við atvinnulífið, veita lán og ráðgjöf. Það er ekki hlaupið að því að gera það sjálfvirkt í gegnum tölvu þegar taka þarf tillit til margra ólíkra og flókinna þátta.“

Viðtalið birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 1. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.