Fólk og framandleiki

Engir manngerðir hlutir hafa farið í sömu langferð og Voyager-könnuðirnir sem sigla nú um útgeim án nokkurrar stýringar eða tengsla við jörðina. Um borð eru gullhúðaðar koparplötur sem innihalda ljósmyndir og hljóð frá jörðinni sem lýsa lífi og menningu jarðarbúa eins og það var á áttunda áratug tuttugustu aldar. Á plötunum er að finna leiðbeiningar um hvernig þær verði spilaðar en einnig útlistun á staðsetningu jarðar í Vetrarbrautinni. Plötunum er ætlað að vera skilaboð frá jarðarbúum til hugsanlegs menningarsamfélags sem kann að leynast í óravíddum Vetrarbrautarinnar, en þar munu geimförin sigla um í milljónir ára. Ef til þess kemur geymir Voyager skilaboð til annarra lífvera sem vísa til þess að hér á jörðinni sé að mestu friðsöm menning sem ekki þurfi að óttast. Óháð því hve rétt það er þá er ólíklegt að nokkur finni skilaboð Voyager. Til viðbótar höfum við jarðarbúar reynt að vekja athygli á tilveru okkar með útvarpsbylgjum sem fara yfir miklu víðara og stærra svæði en Voyager mun nokkurn tíma gera. En hvað er það sem jarðarbúar gera sér vonir um að finna?

Einn þáttur þessara vísindarannsókna gengur út á að hlera eftir og reyna að þekkja merki um vitsmunalíf úti í geimnum, skammstafað SETI (The Search for Extra-Terrestrial Intelligence), eða leitin að vitsmunalífi utan jarðarinnar. Um einstaka þætti verkefnisins hafa verið nokkrar deilur. Þannig hafði eðlisfræðingurinn Stephen Hawking (1942–2018) miklar efasemdir um skynsemi þess að reyna að svara eða senda merki frá jörðinni í von um að komast í samband við framandi menningu í geimnum. Í viðtölum orðaði hann áhyggjur sínar, en hann óttaðist að hingað gætu komið lífverur sem myndu ræna auðlindum jarðar og stefna lífi í hættu. „Ef framandi verur koma til jarðarinnar gæti það orðið eins og þegar Kólumbus kom til Ameríku, sem reyndist ekki vel fyrir frumbyggja þar,“ sagði Stephen Hawking í samtali við Discovery Channel árið 2010 og bætti við: „Við þurfum ekki annað en að horfa á okkar eigin sögu til að sjá hvernig vitsmunalíf getur þróast út í eitthvað sem við viljum ekki hitta fyrir.“

Hawking var einhver áhrifamesti hugsuður mannkynsins síðan Albert Einstein (1879–1955) var og hét. Þó að Hawking hafi ekki verið menntaður í félagsfræðum þekkti hann sögu mannsins það vel að hann gerði sér grein fyrir þeim árekstrum sem fylgja því þegar fólki með ólíkan menningar- og félagslegan bakgrunn lýstur saman. Mannkynssagan snýst öðrum þræði um átök og landvinninga, kúgun og undirokun, yfirgang og ofbeldi. Þeir sem á þetta sögusvið horfa þurfa ekki að vera lesnir í kenningaheimi Georg Wilhelm Friedrich Hegels (1770–1831) eða arftaka hans, Karls Marx (1818–1883), til að átta sig á að rétt eins og nótt fylgir degi glímir mannkynið við innbyggð átök sem helst verða skýrð með vísun í þá staðreynd að hinn siðmenntaði maður tekst á við innri óvin sem sækir styrk sinn til hvata og hormóna sem móta lífsvilja allra manna. Þessi lífsvilji gerir manninn að því sem hann er, með kostum sínum og göllum. Þannig segir í Rómverjabréfi um lögmálið og syndina: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég. En ef ég geri það sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur sem framkvæmi það heldur syndin sem í mér býr.“ Þannig reynist það manninum regla að þó að hann vilji gera hið góða er honum hið illa tamara. Vitaskuld hefur maðurinn frjálsan vilja en þrátt fyrir það hefur honum reynst erfitt að afsanna lögmálið um erfðasyndina og er enn fær um að fremja slík níðingsverk að það hlýtur að reyna á þá sem trúa á siðalögmál fortíðarinnar og skynsemishyggju nútímans.

Sögumaðurinn

Auðvitað höfum við notið leiðsagnar í gegnum þann hugmyndaheim sem nútímamaðurinn er sprottinn upp úr og óteljandi hugsuðir reynt að leita að samhengi í sögu mannsins, hugsana og gerða hans. Heimspekingur heimspekinganna, Friedrich Wilhelm Nietzsche (1844–1900), kaus þannig að rífa niður þær rökhyggjugirðingar sem við höfðum byggt upp í kringum okkur, meðal annars til þess að skilja framgang hins skynsama manns sem sá fram á nýja tíma í lok 19. aldar þegar öll jörðin hafði verið numin og samfélag þeirra sem byggðu hana virtist vera að taka á sig rökrétta mynd. Á þeim tíma sá enginn fyrir þær hörmungar sem hinn upplýsti maður átti eftir að kalla yfir heiminn á 20. öldinni, meðal annars með tveimur heimsstyrjöldum, kjarnorkuógn og síðar loftslagsvá. Allt er þetta skýr vitnisburður um að maðurinn var að ekki aðeins fær um að tortíma sjálfum sér heldur einnig jörðinni sjálfri. Að vekja athygli á þessu vakti fyrir stjörnufræðingnum Carli Sagan (1934–1996) þegar hann lét snúa við myndavélum Voyager rétt áður en geimfarið hvarf út úr sólkerfinu og mynda jörðina sem örlítinn depil inni í miðju þess heims sem við þekkjum og minna þannig á hve öll tilvera okkar stendur veikum fótum.

Enski söguspekingurinn R.G. Collingwood (1889–1942) taldi að sagnfræðingar fengjust ekki aðeins við atburði heldur einnig hegðun. Fyrir söguna er atburðurinn sjálfur ekki markmið heldur sú hugsun sem hann lýsir og þau áhrif sem hann hefur á framvindu sögunnar. Að uppgötva þessa hugsun er að skilja atburðinn. Öll saga er því saga hugsunar og söguþróun er þróun hugsunar. Slík hughyggja er ágæt út af fyrir sig en við verðum samt að hafa smá slettu af efnishyggju Marx til að skilja að aðstæðurnar eru okkur ekki alltaf í hag. Við erum föst í kringumstæðum sem við ráðum ekki sjálf og það virðist seint ætla að breytast að við erum aðeins tveimur máltíðum frá því að breytast í frummanninn sem gerir hvað sem er til að tryggja eigið lífsviðurværi. Í tilraun sinni til að komast af hefur maðurinn reynt að mynda hópa eða samfélög. Upphaf hins vitiborna manns, Homo sapiens, verður beinlínis rakið til þess að menn ornuðu sér við sameiginlegan eld og sneru bökum saman gegn þeim óvinum sem bjuggu í myrkrinu. Geta mannsins til að vinna saman og upphefja þannig líkamlega veikleika varð lykilinn að velgengni hans. Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari segir að það sem greini mannkynið öðru fremur frá öðrum tegundum sé tungumálið og getan til að búa til sögur. Á grunni þessara sagna byggist sjálfskilningur manna um alla jörð. Á sama tíma og kenningaheimur sagnfræðinnar leggst gegn yfirlitssögu hefur Harari orðið að alþjóðlegri stjörnu fyrir það að reyna að nota breiðari pensil við skráningu sögu mannkynsins.

En tímans þunga nið fær fátt stöðvað og smám saman stækkuðu samfélög mannsins og enduðu loksins í þjóðríkinu sem reyndist eitt af afsprengjum 19. aldarinnar, þó að flest þjóðríkin yrðu í reynd ekki til fyrr en á þeirri tuttugustu, þegar fyrri heimsstyrjöldin leysti upp hið gamla skipulag í Evrópu. En um leið og þjóðríkið varð til sem stjórnsýsluleg eining var landamærum lokað í fyrsta sinn í sögunni, með þeim afleiðingum fyrir milljónir manna af ýmsu þjóðerni að þeir lokuðust inni sem minnihlutahópar í hinum nýju ríkjum. Nú rann upp tími vegabréfa og skilríkja. Það frjálsa flæði fólks sem Evrópubúar höfðu tekið sem sjálfsögðum hlut frá alda öðli var stöðvað. Flóttamenn komust hvergi. Gyðingar voru hinir landlausu förumenn sem notið höfðu nokkurs skjóls umburðarlyndis fjölþjóðaríkjanna. Nú lokuðust þeir inni sem litlir minnihlutahópar í hinum nýju stoltu þjóðríkjum og máttu þola ofsóknir sem aldrei fyrr. En ferðalög fyrri tíma í vegabréfalausum heimi voru einnig án fyrirheita, aðeins vonin um að geta skapað sér betra líf á eigin forsendum rak fólk áfram. Í nýju landi beið ekki alltumvefjandi faðmur velferðarríkis eins og flóttamenn, sérstaklega þeir sem sækja Norðurlönd nútímans, geta vænst.

Villidýr tuttugustu aldarinnar

Tuttugasta öldin færði mannkyninu nýja þekkingu á svo miklum hraða að það lenti í erfiðleikum með að meðtaka hana. Að sumu leyti voru hin nýlegu þjóðríki jarðarinnar ekki tilbúin að takast á við tækniþekkingu sem lagði nýjar áskoranir á valdheftingu samfélagsins. Þrígreining valdsins er marklaus í einræðisríkjum og lýðræði brothætt og fágætt. Þannig háttaði til með keisaraveldi Japans, sem skyndilega stóð meðal fremstu þjóða heims í tækni og framleiðslu, en bjó enn við fornfálegt lénsveldi, sem studdi við yfirgangssama útþenslustefnu gagnvart nágrannaríkjunum, stefnu sem meðal annars byggðist á sannfæringu um yfirburði japanska kynþáttarins. Í fornum menningarríkjum Evrópu varð á líkum tíma til hugmyndafræðileg nauðhyggja sem bjó til ólýðræðislegar helstefnur sem gerðu tilraun til að svipta ákveðna hluta mannkyns mennsku sinni. Í landi Goethe, Schuberts, Bach, Haydn, Beethovens og Kants risu allt í einu útrýmingarbúðir þar sem þeir sem einu sinni voru nágrannar murkuðu lífið hver úr öðrum. Nokkrum árum síðar orðaði heimspekingurinn Jean-Paul Sartre (1905–1980) þetta einkar vel: „Helvíti, það er annað fólk.“

Á milli heimsstyrjaldanna tveggja lagðist sálkönnuðurinn Sigmund Freud (1856–1939) í mikinn óvissuleiðangur í þeim tilgangi að bæta við kenningar sínar um hvað knýr manninn áfram. Freud hafði umbylt skilningi okkar á því, en hann taldi kynhvötina stuðla að sameiningu einstaklinga og viðhaldi lífs en fannst að það dygði ekki til að skilja manninn að öllu leyti. Því taldi Freud nauðsynlegt að draga fram það sem hann kallaði dauðahvatir eða dauðahneigð, en þær taldi hann stuðla að upplausn og eyðingu. Hugsanlega ekki eins frumleg hugmynd og hann taldi sjálfur, enda má segja að hún birtist að nokkru leyti í hinum fornu hugtökunum yin og yang, sem eru tákngervingar andstæðra eiginleika. Tvíhyggja sem mannkynið hefur dregið með sér frá örófi alda. Freud gróf hins vegar í sálarlíf mannsins og kom upp með þá skýringu að tjáning dauðahvatarinnar í daglegu lífi mannsins birtist í tilhneigingu hans til árásar, grimmdar, fjandskapar, samkeppni og óvildar. En eins öfugsnúið og það er taldi Freud allar þessar hvatir vera í þjónustu siðmenningarinnar. Kenningaheimur sálkönnuða í árdaga þeirrar fræðigreinar dvaldi eðlilega mikið við það hvað fengi í raun manninn til að gera þá skelfilegu hluti sem hann hafði orðið uppvís að undir oki siðmenningarinnar.

Hugmyndafræðilegir átakafletir í dag virðast snúast um mjög afmarkaða skilgreiningu á manninum, nánast sjálfinu og hvernig hver og einn skilgreinir sig og staðsetur í samfélaginu. Um leið er verið að endurmeta getu samfélagsins til að sinna þörfum hvers og eins. Fjárlög hins nútímalega velferðarríkis verða þannig stöðugt flóknari og viðameiri en um leið sértækari, eftir því sem fleiri verða komnir upp á velferð ríkisins sem enn hefur ekki fundið aðrar leiðir til að fjármagna sig en með skattlagningu á þá sem eru taldir aflögufærir. Hugsanlega fyrir utan tímabundna seðlaprentun, sem byggist á því að taka lán frá komandi kynslóðum. Í hinum þróuðu lýðræðisríkjum er helst tekist á um hve stórt ríkisvaldið á að vera og þá um leið velferðarkerfið. Þarfirnar eru endalausar og ekkert velferðarkerfi getur uppfyllt þær allar. Hagsmunabaráttan verður því enn skefjalausari en áður með aðstoð samfélagsmiðla nútímans. Engilsaxnesk hugmyndafræði styður einstaklingshyggju en hughyggja meginlandsins hefur stækkað hinn samvaxna mann, samfélagsveruna, sem stundum hættir að gera greinarmun á sér og ríkinu. Rétturinn til að þiggja tekur nú öðru fram og ef nútímamaðurinn vill ekki vinna er það í lagi vegna þess að samfélagið skuldar honum framfærslu óháð getu eða framlagi. Þetta birtist kannski skýrast í hugmyndinni um borgaralaun, þar sem gert er ráð fyrir að greiða fólki úr sameiginlegum sjóðum fyrir það eitt að vera til. Rökin fyrir slíkri aðgerð hafa reyndar tekið breytingum og nú telja ýmsir stuðningsmenn hennar að þannig sé hægt að tryggja framfærslu hinnar ómenntuðu lágstéttar í gervigreindarheimi framtíðarinnar.

Hið nýja landnám

Um miðja 20. öldina má segja að landfræðileg einangrun Íslands hafi verið rofin, landið varð hluti af umheiminum og á parti úr mannsaldri hafa Íslendingar orðið að takast á við hugmyndir sína um þjóð, þjóðerni og hvað gerir yfir höfuð nokkurn mann að Íslendingi. Samkvæmt Íslendingabók Ara fróða tók það 60 ár að fullnema landið, hvað svo sem fólst í því. Dugðu 60 til 70 þúsund manns til þess? Það er hins vegar nokkuð nálægt þeim fjölda nýrra Íslendinga sem streymt hefur til okkar undanfarna tvo áratugi eða svo. Getum við talað um hið nýja landnám? Nú kemur fólk ekki upp úr bátum heldur með farkostum þotualdarinnar. Nýtt fólk hefur bankað upp á með nýjum tækifærum og nýjum áskorunum. Erlendum ríkisborgurum á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mjög undanfarin ár. Hlutfall erlends vinnuafls fór úr tæplega 4% árið 2006 í rúmlega 13% árið 2017. Allt síðan 2015 hefur hælisleitendum eða fólki í leit að alþjóðlegri vernd fjölgað mjög. Fólk sem á engin tengsl við þá sem hér hafa búið mann fram af manni á nú, að því er virðist, rétt í því velferðarkerfi sem síðustu kynslóðir Íslendinga hafa reynt að búa til. Það er auðvitað athyglisverð hugsun því velferðarkerfi eins og þekkjast á Íslandi og í nágrannalöndunum eru fátíð og lúta ströngum skilyrðum um réttindaávinning hjá þeim sem búa þar fyrir. Hefur þarna verið klippt á sambandið milli réttinda og skyldu? Gengur það upp?

Allt þetta mótar hugmyndaheim Íslendinga í dag. Við bergjum úr brunnum kennismiða og látum pólitíska stefnuvita, innanlands sem utan, lýsa okkur veginn, stundum undir leiðsögn fræðimanna sem dags daglega glíma við að finna eigin hugsunum og tilfinningum fræðilegan sess þannig að það gangi upp í heimi tilvitnana og heimilda. Vei þeim sem verður vís að því að taka ekki fróðleik sinn úr hinum megindlega og eigindlega fræðaheimi akademíunnar sem hamast við að skilgreina samfélagið og borgara þess í því tvístraða ástandi sem fjölhyggja nútímans skapar. Öll afmörkun er fyrir bí, hver kýs sér kyn, trú, stefnu og lífsmarkmið eftir eigin forsendum og hentugleika. Til verða nýir fræðaheimar sem smíða hugtök og skilgreiningar sem ætlað er að fást við þennan nýja heim. Getur verið að mannkynið sé loksins að losna úr viðjum þeirra heftandi hugmynda sem röðuðu fólki upp í gömul hólf til þess eins að smíða ný?

Hið breytta samfélag sem við lifum í í dag kallar stöðugt á nýja fræðilega nálgun og greiningu á þjóðfélaginu. Það er ekki einfalt mál. Við blasir að samfélagið verður sífellt flóknara, sem meðal annars stafar af þeirri einföldu staðreynd að í því lifa stöðugt fleiri manneskjur, í margslungnara og þéttara sambýli og með ólíkari bakgrunn og uppruna. Hið að mörgu leyti einsleita íslenska þjóðfélag tekur hröðum breytingum. Við getum glaðst yfir fjölbreytileikanum en um leið reynt að skilja hvaða áhrif það hefur á okkur. Það er líka mikilvægt að átta sig á því að það er ekkert líffræðilegt sem aðgreinir mannkynið, það er allt ein blendingstegund sem sækir uppruna sinn til fólks sem flutti sig frá sigdalnum í Austur-Afríku fyrir svo sem 70 þúsund árum. Við erum einnig komin út af öðrum tegundum manna sem fyrir bjuggu í Evrópu og Asíu og æxluðust við þessa fornu nýbúa frá Afríku. Því er ekki svo að hjá Homo sapiens séu neinar deilitegundir eða undirtegundir og hið ofnotaða hugtak „kynþáttur“ á ekki við um skiptingu erfðabreytileikans meðal manna. Menn eru ólíkir og breytilegir en sá munur ræðst einfaldlega af erfðaþáttum einstaklinga. Í fámenni fyrri tíma voru Íslendingar duglegir að leitast eftir sérkennum fólks sem ýmist lögðust í ættir eða voru landshlutaskipt. Þetta var misalvarleg umræða en var þó ekki græskulaus með öllu. Í fámenninu heyrðu mannaferðir til tíðinda og gátu ýmist fært mönnum ánægju eða ógn.

Það er líklega tímanna tákn að nú eru íslenskir fræðimenn farnir að fjalla nokkuð reglulega um kynþáttafordóma. Er þá í senn reynt að fjalla um og greina umræðuna eins og hún birtist í dag og um leið leitað fordæma og samhengis í sögunni. Að sumu leyti er þetta veruleiki sem lendir á borðum þeirra fræðimanna sem eru að störfum í dag en um leið er þetta rökrétt niðurstaða af breytingum í fræðaheimi sem afbyggingarsinnar eins og Jacques Derrida (1930–2004), Michel Foucault (1926–1984) og Richard Rorty (1931–2007) bera helst ábyrgð á þó að þeir standi að sumu leyti á öxlum Nietzsche og Freud. Afbyggingarsinnarnir réðust að skynsemishyggjunni, sem var hvort sem er í tætlum eftir seinni heimsstyrjöldina. Með réttu beina þeir sjónum sínum að valdbeitingu samfélagsins, kúgun minnihlutahópa og því sem getur unnið gegn fjölbreytileika. Þeir hlusta á öskur sögunnar, raddir hinna kúguðu, en eiga um leið í erfiðleikum með sannleikann því þeir trúa því ekki að hann sé yfir höfuð til eins og á við um þá sem bergja af brunni sjónarhornshyggju Nietzsche, sem sagði að það væru ekki til neinar staðreyndir heldur einungis túlkanir. Sá hann fyrir áhrif samfélagsmiðla nútímans og upplýsingaóreiðuna sem hefur orðið fylgifiskur þeirra?

Nýtt fólk og nýir átakafletir

Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, sendi í lok árs 2020 frá sér ritið Kynþáttafordómar í stuttu máli. Markmið bókarinnar er sagt tvíþætt. Annars vegar að gefa greinargóða skýringu á kynþáttafordómum í ljósi nýlegrar fræðilegrar umræðu og hins vegar að sýna hvernig kynþáttahugmyndir hafa birst í íslenskri umræðu í ýmsum myndum, bæði í fortíð og samtíð. Þessi umræða er tímanna tákn. Íslendingum af erlendu bergi brotnum fjölgar hratt, breyttur og vaxandi flóttamannavandi í heiminum hefur áhrif hér á landi sem annars staðar og áhugi fræðaheimsins vaknar í kjölfarið. Nýir átakafletir kalla á nýja umræðu en um leið er mikilvægt að takast á við þær hugmyndafræðilegu áskoranir sem fylgja bók sem þessari. Að sama skapi er nauðsynlegt að rýna í aðferðafræðilega nálgun hennar.

Það vita allir sem ræða málefni útlendinga og hælisleitenda að það er vandasöm og viðkvæm umræða. Enginn sem vill láta taka sig alvarlega vill vera staðinn að kynþáttafordómum og enginn vill ýta undir slíkt. Hvernig á þá að ræða málefni sem leggja talsverðar áskoranir á samfélagsgerðina og virðast oft vekja heitar tilfinningar meðal þeirra sem taka þátt í umræðunni? Svo mjög að reynt hefur verið að draga línu í sandinn og búa til heldur matskenndan mælikvarða eins og birtist í löggjöf um hatursumræðu, sem óumdeilanlega víkur til hliðar hinu borgaralega tjáningarfrelsi sem var hornsteinn mannréttindabaráttu síðustu tveggja alda. Það á að kalla ábyrgð yfir þá sem hvetja til ofbeldis en augljóslega vinnur slík löggjöf gegn tjáningarfrelsinu og hefur meðal annars í för með sér að færri skoðanir heyrast. Þarna á milli geta verið óljós mörk. Eins og hefur verið vikið að hér að framan verða yfirleitt einhvers konar árekstrar þegar fólk flytur milli staða og nýtt fólk með nýja siði sest að í eldri samfélögum. Það er tæpast réttnefni að kalla þessar breytingar sem við höfum séð í Vestur-Evrópu undanfarin ár þjóðflutninga þó að vissulega séu þeir umtalsverðir. Þessar breytingar hafa þó haft veruleg áhrif á þjóðfélagsumræðuna og í sumum löndum skapað nýjar áherslur í stjórnmálum og jafnvel nýja flokka. Nú virðist svo komið að allir flokkar eða stjórnmálahreyfingar telja nauðsynlegt að hafa einhverja skoðun eða afstöðu þegar kemur að málefnum hælisleitenda eða útlendinga. Hér er því hápólitískt umræðuefni sem getur haft áhrif á löggjöf og mótun samfélagsins.

Kristín fjallar mikið um nýlendustefnuna og þrælahald í riti sínu. Að baki býr væntanlega sú hugsun að þar sjáist skýrt forsendur þeirra átakaflata sem móta samskipti kynþátta í dag. Það eru örlög slíkrar umræðu að hún byggist á einföldunum, enda er öll mannkynssagan undir. En þó að það blasi við að landvinningastríð og yfirgangssemi kom með nýlenduveldunum er nánast öll saga mannsins vörðuð af slíkum atburðum, sem ýmist fólust í þjóðflutningum eða útrásarstríðum. Styrjaldarekstur Alexanders mikla breytti hinum þekkta menningarheimi á þeim tíma og kom slíku róti á þjóðir þeirra landa sem hann fór um að einstætt verður að telja. Sama má segja um ferðalög innrásarherja Mongóla sem streymdu yfir sléttur Asíu inn í Austur-Evrópu og komu hreyfingu á þjóðflokka sem þar voru fyrir. Nánast öll lönd heims eiga slíka sögu. Í hinni vestrænu sögu eru tveir atburðir öðrum fremur taldir hafa markað þau tímamót að kveða burtu miðaldirnar og kalla okkur inn í nýöld. Annars vegar var það fundur Kristófers Kólumbusar (1451–1506) á Ameríku árið 1492 og hins vegar þegar Marteinn Lúther (1483–1546) tók sig til og negldi táknrænt skjal á dyr kirkjunnar í Wittenberg árið 1517 og breytti siðum kirkjunnar og klauf hana í leiðinni. Fundur Ameríku kallaði nánast útrýmingu yfir þá sem höfðu búið þar og bjó til nýjan markað fyrir þrælahald. Gamli heimurinn kenndi þessa tíma við endurreisn og taldi sig hafa endurnýjað samband sitt við fyrri gullöld.

En víkjum aftur að umfjöllun um kynþáttahyggju á Íslandi í dag eins og hún birtist í bók Kristínar. Eitt þeirra atriða sem hún beitir fyrir sig vísar í afmörkun sem byggist á ytri einkennum fólks, svo sem húðlit, og telur Kristín sig sjá þar teikn um vaxandi kynþáttafordóma. Er þá vitnað til ummæla eða skrifa sem hafa fallið við mismunandi tilefni og margir litlir lækir verða þannig að fljóti kynþáttahyggju. En það er ekki nýtt að mönnum séu gefnar slíkar lýsingar og eru Íslendingasögurnar líklega skýrasta dæmið um það. Í Gerplu tekur Halldór Laxness (1902–1998)  gamlar hetjulýsingar Íslendingasagnanna til kostanna og skrifar: „Í þann tíð vóru flestir karlmenn á Íslandi lágir vexti og bjúgfættir, beinaberir og liðasollnir, knýttir og kreptir af kveisu, bláir í litarafti og skorpnir, var og land óblítt,…“ Þarna vildi Halldór reka löndum sínum löðrung og ná þeim niður á jörðina eftir heldur upphafna umræðu fyrri tíma um forfeður okkar. Halldór taldi sig reyndar standa á vísindalegum grunni: „Nýlegar rannsóknir á beinagrindum frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa sýnt, að nauðsyn ber til að endurskoða ýmsar hugmyndir, sprottnar af gagnrýnislausum hetjusagnalestri, um að „fornmenn“ hafi verið bæði stórir og sterkir. Þessar rannsóknir virðast benda til að fornmenn hafi verið mun smærri og veilli líkamlega en Íslendingar nútímans og er það reyndar síst að undra, ef borin eru saman lífskjör þeirra og vor.“ Seinni tíma bókmenntir Íslendinga mótuðust af þessu og voru mannlýsingar taldar hluti eðlilegrar frásagnar. Var þá allt tínt til sem gat auðkennt fólk, ætterni, líferni og útlit. Meira að segja úr hvaða sveit viðkomandi kom. Íslendingar töldu sig þurfa að þola mikla niðurlægingu þegar þeim var stillt á bás með öðrum nýlendum Dana á heimssýningunni í París árið 1900. Þá sýndu vestrænar menningarþjóðir sínar frumstæðu nýlendur við góðar undirtektir. Fimm árum síðar hélt danska heimilisiðnaðarfélagið í Kaupmannahöfn aðra nýlendusýningu, í fjáröflunarskyni, „Skrælingjasýninguna“ sem íslenskir Hafnarstúdentar nefndu svo. Undirbúningur sýningarinnar hleypti öllu í bál og brand hjá íslenskum Hafnarstúdentum. Niðurlæging Íslendinga var alger, við vorum á pari við Grænlendinga.

Þegar þetta er haft í huga má segja að það sé ákveðin einföldun hjá Kristínu að setja umræðu um fordóma upp á þann hátt að hún beinist eingöngu að kynþáttum. Það eru ótalmargir þættir sem geta stuðlað að fordómum en í grunninn tengjast þeir líklega vanþekkingu og skilningsleysi á því sem mætti kalla „framandleiki“ og eru andstæða gagnrýnnar hugsunar. Í bók Kristínar er vísað til rannsókna sem nemendur við Háskóla Íslands hafa framkvæmt, oft byggðum á eigin upplifunum að því er séð verður. Það er ekki að efa að skynjun eða upplifun er sönn (rannsakandinn er í raun sjálfur að segja frá eigin reynslu) og atvikslýsingar réttar. En eru almennar ályktanir um að þar standi kynþáttarfordómar að baki með öllu réttmætar? Eins og áður er vikið eru fordómar ekki bundnir við kynþætti. Um það má finna ótal dæmi. Nýleg rannsókn á samskiptum Suðurnesjamanna við herinn á Miðnesheiði hefur dregið fram þá víðtæku fordóma sem heimamenn bjuggu við. Þannig voru Suðurnesjamenn gjarnan taldir latir og þjófóttir af öðrum landsmönnum og af því sagðar margar sögur. Herinn var alla tíð viðkvæmt málefni bæði af pólitískum ástæðum og menningarlegum og því var umræðan um hann á neikvæðum nótum og þessi neikvæða umræða færðist yfir á Suðurnesjamenn sem höfðu dagleg samskipti við herinn. Þeir máttu sannarlega þola fordóma sem ekki byggðust á kynþætti.

Það er því ekkert nýtt í íslensku samfélagi að framandleiki aðgreini fólk og var enn þekktara áður en samgöngur urðu jafn auðveldar og þær eru í dag. Hér gæti verið freistandi að vitna til sagna sem greinarhöfundur sjálfur hefur kynnst. Það er þekkt að fólkið á norðanverðu Snæfellsnesi taldi sig oft eiga óuppgerðar sakir hvort við annað, sem einkum braust fram þegar áfengi var haft um hönd, til dæmis á dansleikjum. Þá slógust Sandarar við Ólsara og Grundfirðingar við Hólmara og svo voru mörg tilbrigði af þessu. Í raun vissi enginn almennilega af hverju, stundum töldu menn sig þurfa að gera upp kvennamál með þessum hætti en einhvers konar framandleiki eða ættbálkastemmning ríkti. Þetta ástand hvarf með betri og greiðari samgöngum en þó kannski ekki síst þegar sveitarfélögin voru sameinuð og íbúar þeirra neyddust til að hafa dagleg samskipti. Úti um allt land þekkjast líkar sögur.

Fjölmenning eða fjölþjóðleg menning

Þessi framandleiki sem hér er fjallað um getur haft margar hliðar og stundum getur hann skýrt það sem gerist innan flóknari og stærri þjóðfélaga en við sjáum í okkar til þess að gera einfalda samfélagi. Hugmyndin um fjölmenningarlegt samfélag er stór hluti af stefnu margra þjóða þegar kemur að málefnum innflytjenda og hælisleitenda, sé yfir höfuð til stefna. Að það geti orðið blöndun og samlögun með friðsömum hætti sem smám saman dragi úr árekstrum sem ella fylgja því þegar fólk af ólíkum uppruna og með ólíka siði þarf að búa hlið við hlið. Oft er réttara að tala um fjölþjóðasamfélag en fjölmenningarsamfélag. Þjóðir hafa lifað hlið við hlið og hin menningarlega skörun verið mjög misjöfn frá einum tíma til annars. Líklega verður að tengja þessar hugmyndir við upprisu borgarsamfélaga og ber saga þjóðanna við Miðjarðarhafið keim af þessari eilífu blöndu þar sem kristnir, múslimar og gyðingar hafa þurft að finna sér takt í nábýli þröngra stræta. Saga þessa svæðis segir okkur einnig að með reglulegu millibili verður fjandinn laus og hjaðningavíg hefjast og blóðið flýtur um þessi sömu stræti. Mannkynssagan færir okkur ótal dæmi þar sem nágrannar snúast hver gegn öðrum, við Evrópumenn erum enn að jafna okkur á því sem gerðist í ríkjum fyrrum Júgóslavíu. Það er hins vegar Afríka sem færir okkur nýjasta og sérkennilegasta dæmið um slíkt morðæði, en í Rúanda var hátt í einni milljón manna, flestum af Tútsí-ættbálki en einnig af Hútu-ættbálki, slátrað af trylltum lýð, reknum áfram af öfgamönnum Hútúa. Þetta gerðist á rétt um 100 daga tímabili árið 1994. Enn vefst fyrir mönnum að skilja undirrót þessarar sturlunar því ættbálkarnir höfðu lifað hlið við hlið um langan tíma, ekki endilega alltaf í sátt og samlyndi en þó án teljandi átaka. Undirtónninn var framandleiki og þó að bæði gerendur og þolendur væru sannarlega af afrískum kynstofnum upplifðu menn sig allt í einu nógu ólíka nágrönnum sínum til að brytja þá niður með sveðjum. Í skáldsögunni Litla land eftir Gael Faye, sem lifði átökin, virðist hann muna það helst að stórt nef Tútsa hafi aðgreint ættbálkana!

Nýr kenningaheimur

En víkjum aftur að bók Kristínar. Að sumu leyti má segja að ályktanir hennar séu byggðar á umdeilanlegum forsendum, oft er eins og skýringunum sé ætlað að falla að kenningunum. Við erum komin með nýjan hóp rannsakenda, nýjan kenningaheim, og fáum þar af leiðandi nýjar niðurstöður. Þetta er hluti af stærra vandamáli samfélagsumræðunnar og verður líklega ekki skilið án tengingar við greiningu Foucault á drottnun, eða því sem mætti skilgreina sem nokkurs konar orðræðuvald sem birtist sem vald yfir hugtakanotkun og dagskrármálum innan tiltekinna umræðuhefða, í gervi myndaðra, óvefengjanlegra sanninda. Þetta birtist að hluta til í rétti ofurborgaranna til að móðgast í sínum eigin orðræðuheimi og skilja útskýringuna og afsökunina eftir á borði „gerendanna“, hvaða nafni sem þeir nefnast. Því þarf hinn upplýsti maður dagsins í dag að takast á við hópmenningu nútímans sem birtist í grátmenningu, afturköllunarfári og samsemdarstjórnmálunum sem allt leiðir til útskúfunaráráttu. Lykilþáttur í þessu er að stýra fjölmiðlaumræðunni og skapa hávaða á samfélagsmiðlum.

Slík umræða hefur þann galla að vera nánast ófær um að leysa vandamál dagsins, sem þurfa á heiðarlegri og opinskárri umræðu að halda þar sem tekist er á við skyldur og ábyrgð í velferðarkerfi nútímans. Þar erum við kannski komin að kjarna málsins. Þegar talað er um réttindi er hugtakið skylda skammt undan, hvort sem um er að ræða skyldu gagnvart rétthafanum svo að hann geti öðlast þau réttindi sem sóst er eftir eða hvort rétthafinn hafi sjálfur skyldum að gegna, eigi hann að njóta ákveðinna réttinda. Heimspekingurinn Onora O‘Neill hefur fjallað mikið um þetta hugtakapar og telur mikilvægt að byrjað sé á að skoða skyldur og hver eigi að bera þær, áður en hægt sé að tala af skynsemi um réttindi. Af skrifum hennar má ráða að ef ekki sé fyrst hugað að skyldunum verði hugmyndin um réttindi, sem einhver eigi að eiga tilkall til og ekki verði dregin í efa, oft orðin tóm.

Bók Kristínar á skilið umræðu og umfjöllun. Það versta sem fyrir hana gæti komið væri að festast í einhverjum bergmálshelli þröngrar akademískrar umræðu. Þess vegna er þessi pistill tekinn saman. Ekki endilega af löngun til þess að kýta við þessa sömu akademíu heldur til þess að opna nokkra glugga sem geta lýst upp umræðu um jafn mikilvægt mál og kynþáttahyggju og hvort og hvernig hún birtist sem áhrifaþáttur í þróun samfélaga og samfélagsumræðunni í dag. Augljóslega er hér verið að benda á að margt í sögu mannkynsins (og okkar Íslendinga) skýrist með öðrum og flóknari hætti en að það falli undir kynþáttahyggju. Með því er ekki verið að gera lítið úr henni. Flestir tengjast tveimur heimum; heimi fortíðar með einsleitni og ákveðinn þjóðlegan arf og heimi nútímans með sinni fjölhyggju og oft á tíðum óskilgreindum hugtökum og ágengri þjóðfélagsumræðu. Á öllum tímum er viðleitni til að einfalda umræðuna í von um að merking hennar verði skýrari. Það er skiljanlegt en er líklega óskhyggja.

Höfundur er blaðamaður.

Greinin birtist í sumarhefti Þjóðmála, 3. tbl. 2021. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda tölvupóst á askrift@thjodmal.is eða skilaboð á facebook síðu ritsins. Ritið færst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.

 

Heimildir:
  • Bára Huld Beck, Orðræða notuð til að stilla minnihlutahópum upp sem ógn gegn „hvíta kynstofninum“, kjarninn.is, 22. desember 2019.
  • Dagný Maggý Gísladóttir og Eyþór Sæmundsson, „Góðar sögur“ hlaðvarp.
  • Dagný Maggý Gísladóttir, Lífið á vellinum, Reykjavík 2020.
  • Eyrún Eyþórsdóttir, Kristín Loftsdóttir, „Grýta þetta pakk“: Haturstjáning í íslensku samhengi. Stjórnmál og stjórnsýsla, árg. 15, nr. 2 (2019).
  • Eyrún Eyþórsdóttir og Kristín Loftsdóttir, „Grýta þetta pakk“: Haturstjáning í íslensku samhengi. Stjórnmál og stjórnsýsla, árg. 15, nr. 2 (2019).
  • Gael Faye, Litla land, Reykjavík 2019.
  • Ólafur Ísleifsson, Hver er réttur hælisleitenda, vísir.is, 14. mars 2021.
  • Klemenz Hrafn Kristjánsson, Margrét Sigrún Sigurðardóttir, Valgerður Anna Jóhannsdóttir, Umfjöllun um erlent vinnuafl í íslenskum fjölmiðlum – spegla fjölmiðlar raunverulega þróun? www.thjodfelagid.is, 10. janúar 2020.
  • Kristín Loftsdóttir, Kynþáttafordómar í stuttu máli, Reykjavík 2020.
  • Paul Rincon, Stephen Hawking’s warnings: What he predicted for the future, bbc.com, 15. mars 2018.
  • Sigurður Már Jónsson, „Þetta voru bestu tímar og hinir verstu.“ mbl.is, 19. desember 2019.
  • Sigurður Már Jónsson, Mín vísindi eru betri en þín! mbl.is, 5. október 2019.
  • Sigmund Freud, Undir oki siðmenningar, Reykjavík, 1997.