Bjarni Benediktsson: „Við getum aftur náð fyrri styrk“ – Viðtal birt í heild sinni

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra. (Mynd: HAG)

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, segir að á meðan stjórnmálamenn brenni fyrir verkefnum sínum og þeim breytingum sem þeir vilji sjá verða sé engin ástæða til að hætta í stjórnmálum. Í viðtali við Þjóðmál fjallar Bjarni um ríkisstjórnarsamstarfið, stöðu og framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins, það hvort stjórnmálamenn gefi sér nægan tíma fyrir hugmyndafræði og margt fleira.

 

„Mér finnst samstarfið hafa farið vel af stað. Þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt, stjórnarandstaðan hefur veitt okkur aðhald í mörgum málum en það var alveg viðbúið að það yrði ákveðin brekka til að byrja með,“ segir Bjarni spurður um samstarf flokksins í ríkisstjórn við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og Framsóknarflokkinn.

„Aðalatriðið er að við erum að ná góðri niðurstöðu um stóru málin og fyrir Sjálfstæðisflokkinn hef ég ekki áhyggjur af áherslum í stjórnarsamstarfinu eða samstarfi flokkanna. Í stað þess að hafa áhyggjur af því ætti Sjálfstæðisflokkurinn að líta inn á við og fram veginn. Gæta að því að við séum, á grundvelli þeirra gilda sem flokkurinn hefur ávallt starfað eftir, að draga fram þær áherslur sem skipta mestu fyrir þá tíma sem við lifum.“

Og hverjar eru þessar áherslur helst?

„Við búum í mjög breyttu samfélagi, opnara samfélagi, og í hverjum kosningum koma inn stórir hópar af nýjum kjósendum,“ segir Bjarni.

„Það er margt að breytast og með meiri hraða en áður var. Atvinnutækifæri sem ungt fólk er spennt fyrir eru önnur en þau voru fyrir 40-50 árum og jafnvel allt önnur en þau voru fyrir tíu eða tuttugu árum. Við allt þetta fólk þurfum við að tala. Það er gríðarleg áskorun að halda úti stóru stjórnmálaafli sem stöðugt er í takt við tímann. Sagan geymir mörg dæmi þess að flokkum hafi mistekist það.“

Bjarni segir að áherslur Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum hafi verið réttar og að hann hafi alltaf haft trú á því að stuðningur við flokkinn myndi aukast þegar árangurinn af verkum hans yrði ljós.

„Mér finnst að við höfum verið ein á sviði stjórnmálanna að ræða um mikilvægi þess að lækka skatta og gera þá sanngjarnari. Það höfum við gert á sama tíma og við höfum styrkt innviðina – framlög til heilbrigðismála, almannatrygginga, samgangna og menntamála hafa vaxið,“ segir Bjarni.

„Ég fagna því að nú eru fleiri og fleiri að verða sammála okkur um mikilvægi þess að horfa meira á árangur í opinberum rekstri, að hann verði ekki bara mældur í fjárheimildum. Í fyrsta sinn í mörg ár kemur nú fram fjárlagafrumvarp þar sem viðtökurnar einkennast ekki af því að það þurfi miklu meiri útgjöld. Stefna okkar hefur miðað að því að láta samfélagið allt njóta þess árangurs sem við höfum náð í efnahagsmálum á síðustu árum. Við höfum styrkt stóru kerfin okkar en áhersla á húsnæðismálin hefur einnig skipt miklu, fyrst að koma fólki til hjálpar vegna skuldavandans en síðan að veita kaupendum fyrstu íbúða stuðning. Við höfum alltaf verið flokkur sem ber framgang og fjölbreytni atvinnulífsins fyrir brjósti og ég er ánægður með þá áherslu sem við höfum lagt á nýsköpun og þróun á undanförnum árum, á störf framtíðarinnar auk þeirra skrefa sem við erum að taka í umhverfismálum.“

Bjarni segir að við séum nú í betri stöðu en við höfum áður verið í. Þannig sé skuldastaða heimilanna gjörbreytt og það sama eigi við um fyrirtæki.

„Við stöndum á miklu sterkari og fjölbreyttari stoðum sem efnahagskerfi. Um leið er samtalið við fólk gerbreytt. En þessu samtali er aldrei lokið, við þurfum að koma árangri okkar betur á framfæri, fara yfir það á hverju árangur undanfarinna ára byggist og ekki síst hvert við stefnum,“ segir Bjarni.

„Við þurfum að vera duglegri að nýta allar þessar nýju samskiptaleiðir sem standa okkur til boða og hafa gjörbreyst á skömmum tíma. Flokkurinn þarf að laga sig að miklu meiri hraða í samskiptum en áður tíðkaðist.”

Áhersla á frjálslyndi og jafnréttismál

Aðspurður hvort að flokkurinn hafi lagað sig að breyttum tímum í samskiptatamálum segir Bjarni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með mesta virkni allra flokka á samfélagsmiðlum í síðustu tvennum kosningum.

„Mér finnst við hafa sett stefnu okkar vel fram, með einföldu og aðgengilegu efni. Að því leytinu til höfum við staðið okkur mjög vel. Ég tel þó að við getum almennt gert betur í að koma skilaboðum okkar áleiðis, og fá allt okkar fólk í lið með okkur,“ segir Bjarni og bætir því við að þetta eigi ekki bara við um skrifstofu flokksins og forystu hans, heldur geti hver og einn ráðherra, þing- og sveitarstjórnarmenn gert sitt.

„Það þarf að flétta þessu saman við dagleg störf stjórnmálamanna, að það verði hluti af vinnunni að segja frá því sem við erum að gera,“ segir Bjarni.

„Ég man eftir því að hafa átt samtal við erlendan þingmann fyrir um áratug, sem sagði mér að hún væri farin að nota Facebook til að vera í samskiptum við fólk. Ég hafði þá sjálfur lítið notað þann vettvang og ég man það enn að mér fannst það ákveðið skref að skuldbinda mig til þess. Ég gef mig ekki út fyrir að vera sérfræðingur hér eða virkastur stjórnmálamanna, ég er langt frá því, en á þeim tíma sem liðinn er hefur maður þó áttað sig á því að Facebook og allir þessir samskiptamiðlar eru mikilvægir en samt ófullnægjandi sem eini vettvangurinn til þess að eiga í samskiptum. Hefðbundnir fjölmiðlar og tækifærin sem í þeim felast skipta enn miklu máli.“

En hvað með skilaboðin sem flokkurinn sendir, t.d. hvað varðar jafnrétti og frjálslyndi? Nú hefur smáflokkurinn Viðreisn reynt að nota þessi hugtök óspart, en hefur sá flokkur kannski eitthvað til síns máls, t.d. hvað varðar frjálslyndi, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki í gegn mál eins og frjálsa sölu áfengis, svo tekið sé dæmi, og virðist alltaf gefa afslátt af slíkum málum þegar semja þarf um þinglok?

„Fyrst þú nefnir áfengisfrumvarpið verð ég að segja að ég fann ekki mikla löngun frá Viðreisn til að klára það mál þegar við vorum með henni í ríkisstjórn,“ segir Bjarni.

„Það verður líka að segjast eins og er að það var ekki einhugur um það mál í okkar röðum. Í víðara samhengi sýnist mér að forysta Viðreisnar og þingmenn hennar séu aðallega í því að tala um frjálslyndi en það fari minna fyrir tillögum og verkum. Svo er það spurning í hverju fólk telur frjálslyndi felast. Mér þykir það til dæmis ekki frjálslynd stefna að tala stöðugt fyrir upptöku nýs gjaldmiðils eða inngöngu í Evrópusambandið og þar með flóknara regluverki og frekara framsali fullveldis. Það hefur einfaldlega ekkert með frjálslyndi að gera. Það er líka ákveðin firra þegar rætt er um landbúnaðinn að umræðan þar snúist um að galopna fyrir niðurgreiddar landbúnaðarvörur frá öðrum löndum – að það sé gott því það sé svo mikið frjálslyndi. Það er mikil einföldun. Ég hef lagt áherslu á alvöru aðgerðir til að auka viðskiptafrelsi, eins og að fella niður tolla og vörugjöld og lækka skatta.“

Bjarni segir að hann hafi sem ungur þingmaður vanmetið þörfina fyrir að ræða hluti frá ólíkum sjónarhornum áður en þeim er hrint í framkvæmd. Umræðan hafi oft sjálfstætt og mikilvægt gildi.

„Ég hef alltaf verið árangursdrifinn og viljað mæla árangur í aðgerðum. En á þessum vettvangi skiptir öllu hvers konar samskipti þú stundar. Svo dæmi sé tekið gerði ég mér lengi vel ekki grein fyrir því hversu miklu skipti hvernig ég orðaði hlutina í jafnréttisumræðunni. Bara það að segja hreint út að ég myndi horfa til jafnrar stöðu kynjanna við myndun ríkisstjórnar, eins og ég gerði í aðdraganda kosninga 2013, hafði meiri áhrif en ég hafði gert mér grein fyrir,“ segir Bjarni.

„Ég hef beitt mér fyrir þessu viðhorfi í flokksstarfinu og vil að það endurspeglist í verkum okkar. Þannig hef ég lagt áherslu á það í innra starfi flokksins. Ég hef sömuleiðis gert það þegar við skiptum ábyrgð í þingflokknum og í ríkisstjórn. Mér finnst að þetta sé meira komið í genin á okkur en áður var. Mögulega þurfum við að viðurkenna að við vorum full sein til að skipa jafnréttismálum nógu framarlega í röð áherslumála, en við höfum lengi verið jafnréttissinnaður flokkur í reynd, sem sést ágætlega á góðum málum eins og fæðingarorlofi karla sem við tryggðum á sínum tíma. Svo verð ég að segja að það gleður mig mikið að sjá hvað það er mikill kraftur í konum í flokknum.“

Sjálfstæðisflokkurinn kjölfesta á umbrotatímum

Snúum okkur nú að öðru. Í október verða liðin tíu ár frá hruni íslensku bankanna og það eru enn margir sem kenna Sjálfstæðisflokknum um hrunið. Mun flokkurinn ná sér af því fylgistapi og þeim skakkaföllum, ef þannig má að orði komast, sem hann varð fyrir þá?

„Auðvitað vildi ég að við hefðum á þessum tíma sem liðinn er tryggt okkur meira fylgi en við höfum séð í síðustu kosningum,“ segir Bjarni.

„Það verður hins vegar ekki horft framhjá því að þegar flokkunum fjölgar og atkvæðin dreifast öðruvísi hefur það áhrif á alla flokka. Hér er nærtækt að benda á að fjórir af átta flokkum á Alþingi hafa orðið til frá 2012. Þrír af þessum fjórum buðu í fyrsta sinn fram 2016 eða 2017. Þetta sýnir mikla gerjun og breytingu í samfélaginu. Tækifæri Sjálfstæðisflokksins liggur meðal annars í því að vera kjölfesta á umbrotatímum. Fyrir þessu fann ég mjög sterkt 2016 en kosningarnar 2017 voru um margt fordæmalausar. Til framtíðar er það í okkar höndum hvernig fylgið þróast. Við getum aftur náð fyrri styrk en við megum ekki gefa okkur í eina mínútu að við eigum einhvern tiltekinn stuðning vísan.”

Eru menn þá með óraunhæfar væntingar um það fylgi sem flokkurinn hafði áður?

„Mér finnst of algengt að menn leiti til gamalla slagorða eða baráttumála sem við tilteknar aðstæður voru grunnur að góðum stuðningi. Það sem ég á við er að við vinnum ekki stuðning með slagorðunum einum saman. Þetta er annað samfélag í dag og aðrir kjósendur. Maður heldur ekki þræði í samtali við kjósanda nú með því einu að rifja upp einhverja hluti sem gerðust fyrir einhverjum áratugum,“ segir Bjarni.

„Við þurfum að vera leiðandi, í umræðu og verkum, á grundvelli þeirra gilda sem við stöndum fyrir. Það er viðstöðulaust verkefni, þó svo að viðfangsefnin breytist. En maður þarf að hafa skýra framtíðarsýn og getu til að kynna hana eftir réttum leiðum. Það breytist hins vegar ekki yfir tíma að við viljum hafa hvetjandi umhverfi, trúa á einstaklinginn, framtakssemi hans. Að skattar verði að vera hóflegir, að ríkið megi ekki vera alltumlykjandi og að kraftmikið atvinnulíf sé forsenda velferðarinnar. “

Maður veltir því þó ósjálfrátt fyrir sér hvort hugmyndafræðin gleymist eða verði útundan í daglegu amstri stjórnmálanna. Gefst mönnum nægur tími til að huga að hugmyndafræði og framtíðarsýn?

„Mér finnst ég vera í stöðugum tímaskorti. Það hefur sýnt sig að til að endurnýja sig þarf maður hreinlega að taka frá tíma til að róa hugann eftir verkefni hversdagsins og skapa rými til að sinna hugmyndafræðinni,“ segir Bjarni.

„Í hvert sinn sem ég stíg aðeins út úr hinu dagsdaglega amstri, hvort sem ég fer í frí, geng á fjöll hér innanlands, fer í flug eða er í bíl á leiðinni út á land – bara aðeins út úr hringiðu ráðuneytisins, þá byrja hugmyndirnar að flæða. Það er auðvelt að kafna í stjórnsýslunni í ráðuneytinu en það er nokkuð sem allir ráðherrar verða að gæta sín á. Við berum ábyrgð á hugmyndafræðilegri þróun og því að byggja undir framtíðarsýn á þeim sviðum sem mestu máli skipta fyrir Íslandi. Oft er hugmyndafræðin auðvitað fólgin í þeim verkefnum sem við erum að sinna, en framtíðin er alltaf skammt undan með nýjum verkefnum og kröfum. Ég held að við getum sagt það um þessi stóru mál sem hefur þurft að leysa frá því að við komum aftur inn í ríkisstjórn, bæði uppgjörið við slitabúin, afnám hafta, lögin um opinber fjármál, skuldaþróunin, fjármálareglurnar – þetta eru allt dæmi um mál þar sem maður þarf að hafa framtíðarsýn til þess að geta sett verkefnið af stað. Við höfðum og höfum þá framtíðarsýn.“

Embættismenn móti ekki stefnuna

Án þess að gera lítið úr þeim verkefnum sem þú taldir hér upp eru öll þessi mál mjög kerfisbundin og maður veltir því fyrir sér hvort nægilega sé hugað að til að mynda skattamálum, sem nær eingöngu snúast um hugmyndafræði. Það verður þannig ekki hjá því komist hjá því að spyrja hvort það séu í raun og veru embættismenn sem móti skattastefnu landsins eins og oft er haldið fram?

„Það er ekki rétt að þeir móti stefnuna en ef þeir hafa áhuga á því geta þeir vissulega haft ákveðið vald, t.d. með því að stýra upplýsingagjöf. Það hefur stundum gefist mér mjög vel að fá utanaðkomandi til að vinna með kerfinu. Hópurinn sem vann með okkur í haftaafnáminu var þannig. Sama gildir um breytingar á innkaupastefnu okkar,“ segir Bjarni.

Bjarni bætir því við að góðir stjórnmálamenn finni leiðir til þess að láta hlutina gerast en aðrir festist í viðjum kerfisins. Þar skilji á milli.

„Ég hef séð ráðherra koma og fara sem hafa ekki skilið mikið eftir sig,“ segir Bjarni.

„Á meðan eru aðrir sem hafa einhverja sýn á hlutina, skýr skilaboð, þolinmæði sem skiptir líka máli og hæfileikann til þess að fá fólk í lið með sér. Það er til lítils að koma inn í ráðuneyti og skalla alla í framan, heldur þarf að fá fólk í lið með sér og útskýra þá hugmyndafræði sem maður vill vinna að. Það finnst mér hafa tekist í fjármálaráðuneytinu, að skapa liðsanda um tiltekin verkefni þar sem sigurinn er á endanum ekki bara ráðherrans heldur heildarinnar sem kemur að verkefninu.“

Mörgum hægrimönnum finnst þó ekki nóg gert hvað lækkun skatta varðar, kenna „kerfinu“ um og hafa gagnrýnt þig opinberlega. Finnst þér sú gagnrýni ósanngjörn?

„Kerfið hefur vissulega mikla tilhneigingu til að verja sig og er oft og tíðum mjög sjálfhverft,“ segir Bjarni.

„En við höfum lækkað skatta á bæði fólk og fyrirtæki og við höfum náð fram á skömmum tíma áratugagömlum baráttumálum okkar sjálfstæðismanna á því sviðinu. Þar er ég að vísa í vörugjöldin sérstaklega. Ég hef aldrei litið á starfsmenn ráðuneytisins sem andstæðinga mína bara af þeirri ástæðu að ég sé í stjórnmálum en þeir embættismenn. Ég lít miklu frekar á verkefni mitt, sem pólitískur ráðherra, þannig að ég þurfi að meta hvaða aðferðum ég geti beitt í ráðuneytinu til þess að fá fólk í lið með mér til þess að framkalla breytingar. Þar er skattastefnan ekki undanskilin. Ég er ósammála þeim sem telja að það sem dugi best í því sé að brjóta starfsmennina niður með hörku. Mestu skiptir að hafa skýra sýn og gera grein fyrir henni. Hvika síðan ekki frá þeirri stefnu og fá fólk með sér í að hrinda henni í framkvæmd.“

Bjarni segir að stundum þurfi einfaldlega að gefa verkefnum ákveðinn tíma til að koma þeim í framkvæmd. Afnám tolla og vörugjalda hafi verið slíkt verkefni.

„Ég sá fljótt að í ríkisfjármálalegu samhengi voru þetta viðráðanlegar fjárhæðir á tekjuhliðinni. Um leið og ég hafði áttað mig á því þetta væri gerlegt var þetta bara spurning um hvenær rétti tíminn kæmi,“ segir Bjarni.

„Við lögðum upp með það að afnema þetta allt og það þurfti að gera ráð fyrir því í langtímaáætlunum. Við sýndum því þolinmæði, enda þarf ekki allt að gerast á fyrsta ári nýrrar ríkisstjórnar. Þótt hlutirnir gerist á ári tvö eða þrjú hafa þeir sömu langtímaáhrif. Það sem skiptir máli er að hafa úthald og fylgja málum eftir til enda. “

Of mikið kynslóðabil

Bjarni ítrekar að hér á landi hafi orðið gífurlegar framfarir á liðnum árum, hér hafi verið lítil verðbólga, mikil kaupmáttaraukning, það gangi betur að reka bæði heimili og fyrirtæki og auk þess standi bæði ríkissjóður og sveitarfélögin betur en þau gerðu. Í stuttu máli hafi verið mikill uppgangur á Íslandi og á sama tíma hafi fjölbreytnin í atvinnulífinu aukist.

„Við erum að taka á mörgum langtímaverkefnum, t.d. lífeyrissjóðsmálum og gömlum skuldbindingum sem við erum að vinna niður. Það sama gildir um önnur stór mál, þar sem við erum að sníða af ýmsa vankanta eða bæta með öðrum hætti. Við viljum í auknum mæli vera sjálfbær á sem flestum sviðum og styrkja þannig efnahagslegt sjálfstæði landsins,“ segir Bjarni.

„Við erum að gera margt framúrskarandi vel í dag, enda mælumst við reglulega fremst meðal þjóða á ýmsa lífskjaramælikvarða. Grundvöllur þess er meðal annars það að við höfum tamið okkur að fara fram af varfærni og á grundvelli langtímahugsunar. Kannski við höfum lært það af umgengni við fiskistofnana hve miklu það skiptir. Í það minnsta er þetta orðið inngróið á flest svið í dag.“

Bjarni segir að þrátt fyrir þetta sé merkilega mikil neikvæðni áberandi í umræðu um starf stjórnvalda.

„Sumt af því finnst mér koma frá eldri kynslóðinni, sem á köflum virðast telja að hér sé margt að fara aftur á bak. Að allt hafi verið svo miklu betra hér áður fyrr,“ segir Bjarni.

„Ég vil þó taka fram að við eigum eldri kynslóðum þessa lands mikið að þakka, fólkinu sem byggði upp landið. Kynslóðirnar sem á undan komu skiluðu af sér mun betra samfélagi en þær tóku við. Það er sá grunnur sem við stöndum á. Án framlags eldri kynslóðarinnar og þeirrar sem þar kom á undan til stjórnmálalegs- og efnahagslegs sjálfstæðis værum við enn eflaust meðal fátækustu ríkja Evrópu. En ég er hér til dæmis að vísa til þess að stundum tala menn með miklum stóryrðum um að ríkisstjórnin hafi engan skilning á gangverki vinnumarkaðsins og stjórnmálamenn nútímans viti ekki hvað þarf til, til þess að ná saman við vinnumarkaðinn. En bíðum nú við, hvernig gengu samskiptin á milli ríkisvaldsins og vinnumarkaðarins frá 1970 fram til 1990? Verðbólgan þá var að jafnaði vel yfir 20% á hverju ári. Á því tímabili og reyndar síðar voru gefin út lífeyrisréttindi sem í ljós kom að engin innistæða var fyrir.“

Þannig segir Bjarni að ófjármagnaðar lífeyris- skuldbindingar fortíðar séu reikningur á þá sem nú eru á vinnumarkaði og framtíðarkynslóðir þessa lands.

„Við höfum varið milljarðatugum á undanförnum árum til að auka stuðning við þá sem ekki náðu að byggja upp fullnægjandi lífeyrisrétt á starfsævinni. Mér finnst við geta verið stolt af því. Við erum líka að gera ráðstafanir til að geta staðið við eldri ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar,“ segir Bjarni.

„Tvennt stendur upp úr í því. A-deild LSR sem við teljum okkur nú hafa fullfjármagnað, síðast með á annað hundrað milljarða innborgun á skuldbindinguna. B-deildin er hins vegar miklu stærra vandamál og verður ekki leyst í bráð. Við greiðum nú sjö milljarða á ári inn á það rúmlega tæplega 700 milljarða gat sem er í fjármögnun á skuldbindingum sjóðsins og munum þurfa að gera það í það minnsta kosti 40 ár í viðbót. Ófullnægjandi lífeyrir veldur miklum þrýstingi á stjórnmálamenn dagsins í dag. Um þetta snýst umræðan um stöðu eldri borgara. Of stórir hópar eiga erfitt með að ná endum saman. En við höfum gert mikið á skömmum tíma og við viljum gera enn betur. Þetta stóra samhengi hlutanna finnst mér stundum gleymast. Það er stundum eins og ákveðið kynslóðabil valdi því að við sjáum hlutina ekki í sama ljósi. Við sem erum í dag á vinnumarkaði erum ekki að velta þessum vanda á undan okkur. Ætlumst ekki til að framtíðarkynslóðir standi undir réttindum okkar. Í dag rekum við hallalausan ríkissjóð, leggjum til hliðar fyrir framtíðarskuldbindingum, verðbólga hefur verið í lágmarki og skuldabyrði ríkissjóðs er orðin viðráðanleg. Kaupmáttur hefur vaxið um 25% á fjórum árum. Þetta hefði maður haldið að hjálpaði til við að auka nokkuð bjartsýni og jákvæðni í samfélaginu.“

Þurfum að meta gæði heilbrigðis- og menntakerfisins

Í framhaldi af því sem þú segir hér, er þá ekki hægt að spyrja hvernig við ætlum að meðhöndla yngri kynslóðir sem alast upp við allt aðra velmegun en þær eldri og telja jafnvel að ýmis atriði eigi að vera bæði sjálfsögð og ókeypis, svo sem menntun?

„Já, það er hluti af mannlegu eðli að vera reiðubúinn að taka við hlutum sem koma fljótandi til þín án þess að þurfa að leggja mikið á sig eða vinna fyrir þeim,“ segir Bjarni.

„Þetta er samt ekkert nýtt, viðmiðin hafa bara breyst. Aðalatriði er að við sem samfélag getum gert meira í dag en við gátum áður og við eigum að nýta það betur en við gerum. Það er til að mynda stórkostleg staðreynd að við getum tryggt jafnt aðgengi að menntakerfinu og beitt skólakerfinu á öllum stigum til þess að jafna aðstöðumun í samfélaginu. Við eigum að líta á menntakerfið okkar sem eitt af þeim tólum sem við höfum úr að spila til að tryggja jöfn tækifæri í lífinu, alveg óháð því hvaðan fólk kemur og hvert það stefnir. Það að við getum haldið úti slíku kerfi sem samfélag, að tryggja öllum jöfn tækifæri óháð bakgrunni og efnahag, tel ég vera hluta af kjarnastefnu Sjálfstæðisflokksins.“

Bjarni segir að hið sama eigi að gilda um heilbrigðiskerfið. Allir séu sammála um að hér sé rekið öflugt heilbrigðiskerfi þar sem fólk eigi aðgang að allri grunnheilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

„Það á að vera fjármagnað af sameiginlegum sjóðum og við sköpum slík verðmæti í þessu landi að við getum gert kröfu um að heilbrigðisþjónustan sé fyrsta flokks. Fyrir alla. Það breytir því þó ekki að við verðum að gera kröfu til þess að fjármögnun þessara kerfa, hvort sem er heilbrigðis- eða menntakerfið, sé með þeim hætti að við fáum hámarksárangur fyrir lágmarksfjármagn,“ segir Bjarni.

„Við setjum ekki meira inn í kerfið en nauðsynlegt er til að ná þeim markmiðum sem við höfum ætlað okkur. Að sama skapi tökum við ekki sjálfsaflafé af fólki í meiri mæli en nauðsynlegt er til að ná þessum markmiðum. Í þessu held ég að munurinn á áherslum flokkanna felist, því við viljum öll halda úti þessum kerfum. Ég verð líka að segja eins og er að mér finnst við hafa spólað lengi í sama umræðufarinu bæði í menntakerfinu og eins í heilbrigðiskerfinu.“

Að hvaða leyti höfum við gert það?

„Í menntakerfinu gengur okkur illa að leiða fram sameiginlega sýn um fjölbreytni rekstrarforma og frelsi og tækifæri nemenda til að fara ólíkar leiðir á menntabrautinni. Auðvitað munu flokkarnir ekki hafa sameiginlega sýn á þetta en við þurfum að komast eitthvað úr sporunum því árangurinn virðist standa á sér. Mér finnst við ekki hafa gert iðnnámi nógu hátt undir höfði og hefðum átt, í samvinnu við atvinnulífið, að gera meira til að breyta viðhorfi samfélagsins til slíkrar menntunar,“ segir Bjarni.

„Ég þekki þetta ágætlega þar sem dóttir mín hafði reynt að fara á hnefanum í gegnum háskólanám. Einn daginn kom hún til mín og sagði að sér fyndist námið svo leiðinlegt að hún sæi ekki tilganginn í því að klára það. Hún skipti því yfir í matreiðslunám, sem var það sem hana hafði alltaf langað. Ef hún hefði hlustað á hjartað hefði hún getað hafið það nám löngu fyrr. Ég er viss um að umhverfið hefur haft áhrif á hana um fyrsta valkost.“

Bjarni segir líka að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af því að árangur út úr skyldunámi hér á landi sé ekki að koma nógu vel út í alþjóðlegum samanburði.

„Það er ekki nóg að hafa áhyggjur af því rétt á meðan fréttir eru sagðar af síðustu prófum, við þurfum að skoða gagngert hvað veldur og hvernig við getum breytt því,“ segir Bjarni.

„Það þarf að horfast í augu við það að alþjóðlegar mælingar hafa sýnt ófullnægjandi árangur og það er áhyggjuefni fyrir framtíðina, fyrir samkeppnishæfni landsins og stöðu framtíðarkynslóða. Hið sama mætti segja um heilbrigðiskerfið og aðra innviði í landinu. Það skiptir máli að við fáum framleiðni og árangur út úr þessum kerfum og það þarf meira til en einungis hærri fjárheimildir. Við þurfum að meta gæði heilbrigðisþjónustunnar og gæði menntakerfisins.”

Oflækningar leiða til sóunar

Fyrst að hér var minnst á heilbrigðiskerfið er ekki úr vegi að spyrja Bjarna út í stöðu þess. Það er talsvert deilt um heilbrigðiskerfið, fjármögnun þess, gæði og loks það hvort og þá hversu mikið einkaframtakið á að fá að njóta sín í kerfinu. Það má búast við því að um þetta verði talsverð umræða og vitað er að margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru ósáttir við stefnu núverandi heilbrigðisráðherra í málaflokknum.

„Hvað varðar einkaframtakið tel ég að það gegni lykilhlutverki við að tryggja sveigjanleika, öryggi og gæði í heilbrigðiskerfinu. Ég er algerlega sannfærður um að við fáum mest út úr heilbrigðiskerfinu með samspili opinberra heilbrigðisstofnana og einkarekinnar þjónustu,“ segir Bjarni.

„Hugmyndir um að banna arðgreiðslur eða að þrengja að hlutverki sérfræðilækna munu að endingu valda tvöföldu kerfi. Læknar utan samninga taka fullt gjald og þeir sem hafa efni á því fá góða þjónustu. Aðrir lenda á biðlistum hjá læknum á samningi. Það er enginn valkostur annar en að þróa heilbrigðiskerfið áfram á þeim grunni sem við höfum haft til þessa. En það fyrirkomulag sem við höfum til skamms tíma haft á þætti einkaframtaksins er alls ekki hafið yfir gagnrýni. Alls ekki.“

Bjarni segir þó að hér þurfi dýpri umræðu um þá galla sem verið hafi á hlutverki einkaframtaksins í heilbrigðiskerfinu til að komast lengra.

„Það eru merki um það að einkarekstur hafi í ákveðnum tilfellum verið nánast með sjálfsafgreiðslu. Það virðist hafa framkallað oflækningar ef horft er á samanburðartölur við önnur lönd,“ segir Bjarni.

„Oflækningar leiða til sóunar og við eigum að berjast gegn sóun hvar sem við sjáum hana. Það er hluti af umræðu um hlutverk einkaframtaksins að koma með svör við þessu. Þetta kann að kalla á ákveðna miðstýringu varðandi það hvað við viljum fá frá heilbrigðiskerfinu. Í heilbrigðiskerfi sem er rekið fyrir opinber framlög er erfitt að réttlæta að kerfið hafi margar ólíkar skoðanir á því hvort það eigi að fara í tilteknar dýrari aðgerðir, svo dæmi sé tekið. Á einkareknum stofum erum við með skýr dæmi um að einn og sami aðilinn greini, taki ákvörðun um aðgerð og framkvæmi aðgerð. Þegar greitt er samkvæmt einingakerfi, eru augljóslega hættur þarna sem við þurfum að geta rætt án þess að menn upplifi það þannig að verið sé að grafa undan einkaframtakinu. Í langflestum tilfellum er þetta ekki vandamál en sterkara eftirlit, sérstaklega með dýrum aðgerðum, getur komið í veg fyrir að við séum að borga fyrir meiri þjónustu en þörf er á.“

Nú ertu kominn út í tæknilega útfærslu á því hvernig einkageirinn á að starfa, breytir það hugmyndinni um fjölbreytt rekstrarform í heilbrigðiskerfinu?

„Dæmin sem ég nefndi eru þó ekkert út úr kortinu. Við höfum til dæmis verið að framkvæma mun fleiri hálskirtlatökur en aðrar þjóðir, svo tekið sé dæmi. Ég ætla svo sem ekki að fella neinn dóm eða úttala mig um hluti sem ég hef ekki heildarsýn yfir, en það veldur engu að síður tortryggni í garð einkaframtaksins þegar svona hlutir eru óútskýrðir,“ segir Bjarni.

„Við höfum verið talsmenn einkaframtaksins á heilbrigðissviðinu. En kannski höfum við á köflum verið það miklir talsmenn einkaframtaksins að við höfum ekki viljað taka fullan þátt í umræðu um galla þess fyrirkomulags sem við höfum búið við í samskiptum við Sjúkratryggingar. Það er hins vegar nauðsynlegur hluti umræðunnar, að viðurkenna að fyrirkomulagið hefur ekki verið fullkomið. Ég held að það hafi skemmt mikið fyrir einkaframtaki á heilbrigðissviðinu að kerfið hefur upp að vissu marki verið lekt.“

Bjarni nefnir þó að fyrra bragði að þó svo að hér hafi einungis verið fjallað um einkareksturinn og þó að hann telji að þar megi gera betur eigi það svo sannarlega við um opinbera hluta kerfisins. Sú þjónusta þurfi að vera í stöðugri endurskoðun til að tryggja að saman fari þarfir sjúklinga og skynsamleg ráðstöfun almannafjár.

„Númer eitt, tvö og þrjú eru hinir sjúkratryggðu, sjúklingarnir og notendur kerfisins sem eiga að vera í brennidepli en ekki kerfið sjálft, hvort sem það er á vegum hins opinbera eða einkaaðila. Og svo verður skipulagið að tryggja að ungt fólk sem vill hasla sér völl á sviði heilbrigðisþjónustu, hvort heldur er sem læknar, hjúkrunarfræðingar eða aðrir sérfræðingar, eigi úr fleiri möguleikum að velja en því að gerast ríkisstarfsmenn,“ segir Bjarni.

Tilveran er hverful í stjórnmálum

Bjarni hefur nú setið á þingi í 15 ár og verið formaður Sjálfstæðisflokksins í rúm níu ár.

„Ég get sagt að ég hef verið mun lengur en ég sá fyrir en ég hef líka lært að tilveran er mjög hverful í stjórnmálum,“ svarar Bjarni og glottir við þegar hann er spurður hversu lengi hann sjái fyrir sér að starfa í stjórnmálum.

„Þegar ég gekk inn í forsætisráðuneytið í byrjun síðasta árs var tekið vel á móti mér. Ég þakkaði starfsfólkinu fyrir móttökurnar og sagði því að ég vildi að það vissi að ég tæki því aldrei sem sjálfsögðum hlut að fá að vera þarna. Ég væri mjög meðvitaður um það að flestir sem hefðu komið inn í ráðuneytið á undanförnum árum hefðu þurft að fara áður en þeir voru tilbúnir til þess. Nú er liðið eitt ár frá því að síðasta ríkisstjórn féll og þótt okkur finnist ganga vel og allt sé með kyrrum kjörum er nauðsynlegt að muna að breytingar gera sjaldnast boð á undan sér. Það er gott að hafa áætlun, en svo þarf maður að vera tilbúinn að bregðast við aðstæðum sem skapast skyndilega.“

Bjarni bætir því við að hann hafi lært margt á stjórnmálaferli sínum og það hafi skipt máli að fá tíma til að þroskast í stjórnmálunum.

„Ég áttaði mig á því, daginn sem ég steig hér inn í fjármálaráðuneytið, hversu mikil blessun það hafði verið fyrir mig að lenda ekki í þeirri stöðu fyrr að verða ráðherra. Ég gerði kröfu til þess eftir kosningarnar 2007, þá 37 ára, að verða ráðherra og hafði mikinn metnað til þess. En ég veit að ég var líklega ekki tilbúinn þá. Í það minnsta alls ekki jafn tilbúinn og 2013,“ segir Bjarni.

„Það er nauðsynlegt að hafa ákveðna auðmýkt fyrir verkefninu og gangast við því að metnaðurinn einn dugir ekki til að gegna svona mikilvægu starfi. Þegar stundin rann upp fann ég að ég hafði það sem til þurfti og vissi hvað ég var að gera. Það er góð tilfinning. Þú spyrð hversu lengi ég ætli að vera og við þeirri spurningu er svarið að meðan maður brennur fyrir verkefnum sínum og þeim breytingum sem maður vill sjá verða er engin ástæða til að hætta. Ég fékk góða kosningu á síðasta landsfundi og ég hef haft þá reglu að setja verkefni mín á hverjum tíma í forgang og hleypa ekki hugsunum um annað að. Ég held að um leið og ég færi að velta því fyrir mér hversu lengi ég ætlaði að vera eða hvort ég ætti að fara að hætta og fara að gera eitthvað annað, þá fjaraði krafturinn út í öllu því sem ég er að gera í dag. Það er enn margt sem mig langar til að koma í framkvæmd og ég ætla því að geyma mér allar vangaveltur um það hversu lengi ég held áfram,“ segir Bjarni að lokum.

 

Viðtalið við Bjarna Benediksson birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2018. Hægt er að gerast áskrifandi að Þjóðmálum með því að senda póst á askrift@thjodmal.is eða senda okkur skilaboð á facebook síðu blaðsins. Blaðið fæst einnig í lausasölu í verslunum Pennans/Eymundsson.