Smáflokkar í hræðslukasti – stóra línan gleymist

Þeir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, voru mjög samstíga í ríkisstjórnarviðræðum eftir kosningarnar í október í fyrra og allt þangað til að ríkisstjórn var mynduð í janúar á þessu ári.

Alþingi kom saman þriðjudaginn 12. september og miðvikudaginn 13. september flutti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra stefnuræðu sína. Af því tilefni var rætt við Ólaf Þ. Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, í ríkisútvarpinu. Hann sagði að ríkisstjórnin sigldi tiltölulega lygnan sjó og byggi við hagstætt efnahagsástand og orðrétt:

„Helsta áhyggjuefni [stjórnarflokkanna] er kannski helst að maður hefur séð að það hefur verið dálítill pirringur milli flokkanna og meirihlutinn er nú bara 32 sæti. Það gæti hugsanlega valdið stjórninni einhverjum erfiðleikum, en ég held nú að líkurnar á því að hún lifi að minnsta kosti eitthvað áfram séu meiri heldur en minni.“

Um stjórnarandstöðuna sagði Ólafur Þ. Harðarson:

„Hún er náttúrulega stjórnarandstaða og hún er mjög hefðbundin stjórnarandstaða, hún leggur megináherslu á að það sé ekki nægilega mikið gert við að auka þjónustu ríkisins, til dæmis í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og þar fram eftir götunum, það er allt saman frekar hefðbundið. Eins og venjulega vill stjórnin frekar vera á bremsunni en stjórnarandstaðan vill nú gjarnan spýta betur í.”

Prófessorinn sagðist ekki viss þegar hann var spurður hvort þetta yrði átakavetur í stjórnmálum, hann var varkár þegar hann sagði:

„Það verða náttúrulega eins og alltaf átök um einstök mál en ég á nú frekar von á því að það verði ekki stórfelld átök en maður veit aldrei.“

Af langri reynslu vissi Ólafur Þ. Harðarson að betra væri að slá engu endanlega föstu – „en maður veit aldrei“.

II.

Á þessari stundu hafði prófessorinn ekki frekar en aðrir hugmyndaflug til að ímynda sér að umræður um uppreist æru barnaníðings leiddu til stjórnarslita. Málið hafði verið rætt frá 15. júní 2017 þegar hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Robert Downey gæti fengið lögmannsréttindi að nýju. Hann fékk uppreist æru 16. september 2016 að lokinni hefðbundinni afgreiðslu í innanríkisráðuneytinu.

Til að gera langa sögu stutta skal vitnað til þess sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði um framvindu mála í Morgunblaðinu mánudaginn 18. september:

„Allt þar til í síðustu viku hef ég ekki séð gögn í nokkru máli er lýtur að uppreist æru og afgreidd hafa verið í ráðuneytinu fyrir mína tíð, utan frumrits tillögu til forseta Íslands í máli Róberts Downey [frá september 2016]. Ég óskaði aldrei eftir því og hafði ekki nokkurn hug á að setja mig inn í einstakar embættisfærslur forvera minna. Hinn 21. júlí var ég hins vegar upplýst um það af ráðuneytisstjóra, án þess að hafa eftir því leitað, að við skoðun eldri gagna hefði komið í ljós að meðal umsagna í einu máli sem afgreitt hafði verið sama dag og umsókn Róberts, hafi verið umsögn föður forsætisráðherra. Vikurnar á undan, í tengslum við mál Róberts Downey, höfðu verið sagðar misvísandi fréttir af því að forsætisráðherra, sem þá var fjármálaráðherra, hafi á einhvern hátt haft aðkomu að afgreiðslu málsins. Ég hafði ekki látið þær fréttir mig nokkru varða enda fyrir mína tíð í embætti. Allt að einu, í ljósi þessara fjölskyldutengsla ráðherrans við einn umsagnaraðila taldi ég rétt að ræða þetta við forsætisráðherra. Hann kom af fjöllum. Síðar var það staðfest að forsætisráðherra hafði alls ekki gegnt stöðu innanríkisráðherra við afgreiðslu málsins í september 2016. Hann sat hins vegar ríkisstjórnarfundinn sem afgreiddi málið til forseta.

Ákvörðun um uppreist æru fer frá ráðuneyti inn á borð ríkisstjórnar og þaðan til forseta. Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar geta kynnt sér þau skjöl sem búa þar að baki. Efni þeirra skjala er því ekki trúnaðarmál fyrir þeim, hvað þá forsætisráðherranum sjálfum. Þegar af þeirri ástæðu getur það aldrei verið trúnaðarbrot að ræða slík mál við forsætisráðherrann sem hafði heimild til að kynna sér öll þau gögn á sínum tíma.

Þar fyrir utan verða fagráðherrar að geta rætt við forsætisráðherra í trúnaði og án takmarkana. Annað væri fásinna. Forsætisráðherra er þá bundinn sama trúnaði og fagráðherrann í málinu. Allur áburður um trúnaðarbrot af minni hálfu stenst ekki skoðun.“

Daginn eftir að hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn um Robert Downey eða 16. júní 2017 sá fréttastofa ríkisútvarpsins ástæðu til að gera frétt um afgreiðslu umsóknar hans um uppreist æru frá september 2016. Í fréttinni var rætt við Bjarna Benediktsson á þeirri forsendu að hann hefði verið starfandi innanríkisráðherra septemberdagana 2016. Það var ekki fyrr en 2. ágúst 2017 sem upplýst var að Bjarni átti enga aðild að málinu. Vegna framgöngu fréttamanns sjónvarpsins gekk Bjarni í vatnið og lét taka við sig viðtal 16. júní 2017 á þeirri forsendu að hann hefði átt hlut að máli. Hann tók orð fréttamannsins trúanleg án þess að kanna eða láta kanna á sjálfstæðan hátt hvort hann hefði rétt fyrir sér.

Af hálfu fréttastofunnar hefur ekki verið upplýst hvers vegna gengið var að forsætisráðherra á röngum forsendum. Hver var heimildarmaðurinn? Var þetta aðeins hugdetta? Fréttastofan hefur ekki beðist afsökunar á mistökum sínum en það er til þessara atvika sem dómsmálaráðherra vitnaði í grein sinni 18. september 2017. Bjarni hafði að ósekju verið á milli tannanna á fólki.

III.

Mánudaginn 11. september 2017 birtist niðurstaða úrskurðarnefndar upplýsingamála þess efnis að dómsmálaráðuneytinu bæri að afhenda fjölmiðlum gögn að baki ákvörðunum um uppreist æru. Ráðuneytið hafði hafnað beiðni fréttastofu ríkisútvarpsins um þessi gögn og leitaði hún þá til nefndarinnar eins og lögmælt er. Ráðuneytið kaus að þessi leið yrði farin til að heimildir þess til gagnaafhendingar væru skýrar enda um viðkvæm persónulega greinanleg mál að ræða.

Þennan sama mánudag skýrði Bjarni Benediktsson formönnum samstarfsflokka sinna í ríkisstjórn, Benedikt Jóhannessyni og Óttari Proppé, frá því að faðir sinn hefði ritað bréf sem tengdist ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um uppreisn æru.

Fimmtudaginn 14. september birti Benedikt Sveinsson, faðir forsætisráðherra, eftirfarandi yfirlýsingu:

„Í ljósi alls þess sem fram hefur komið að undanförnu vil ég biðja þá sem um sárt eiga að binda vegna máls Hjalta Sigurjóns Haukssonar, afsökunar á því að hafa ljáð honum atbeina við umsókn um uppreist æru.

Hjalti Sigurjón Hauksson var um tíma tengdur kunningjafólki okkar hjóna frá skólaárum. Hann hefur í nokkur skipti leitað aðstoðar hjá mér, fyrst og fremst vegna fjárhagsmála eða í tengslum við atvinnuleit. Engin önnur tengsl hafa verið á milli okkar.

Á síðasta ári leitaði Hjalti til mín um meðmæli vegna uppreistar æru. Hann kom til mín með bréf, tilbúið til undirritunar. Ég skrifaði undir bréfið og hef ekki vitað af málinu síðan, fyrr en það kom til opinberrar umfjöllunar nú í sumar. Ég ræddi ekki meðmælabréfið við nokkurn mann, hvorki í stjórnkerfinu né annars staðar, og hef aldrei verið spurður frekar út í málið. Allur aðdragandi og umbúnaður málsins var sá að verið væri að ganga frá formsatriði fyrir umsókn til stjórnsýslunnar.

Ég hef aldrei litið svo á að uppreist æru væri annað en lagalegt úrræði fyrir dæmda brotamenn til að öðlast að nýju tiltekin borgaraleg réttindi. Sá hugur bjó ekki að baki að rétta stöðu Hjalta gagnvart fórnarlambi hans. Hjalta hef ég sagt að horfast í augu við gjörðir sínar og iðrast þeirra. Það sem átti hér að vera lítið góðverk við dæmdan mann hefur snúist upp í framhald harmleiks brotaþola. Á því biðst ég enn og aftur afsökunar.“

IV.

Þegar þetta lá fyrir varð mikið uppnám í fjölmiðlum og meðal stjórnmálamanna. Boðað var til óformlegs stjórnarfundar í Bjartri framtíð á heimili flokksformannsins, Óttars Proppé, að kvöldi fimmtudags 14. september. Um 50 manns sóttu þennan fund að sögn forráðamanna flokksins við Morgunblaðið (laugardag 16. september). Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, sagði að eindregin afstaða hefði komið fram í máli fundarmanna.

Í Morgunblaðinu sagði Guðlaug:

„Fundirnir okkar eru þannig að fólk situr saman í hring og svo er gengið á hringinn og fólk talar í mínútu eða eina og hálfa. Það var gert og tók einn og hálfan tíma. Fólki fannst mikilvægt að fá skýra afstöðu stjórnarinnar fljótt og vel.

Því ákváðum við í framkvæmdastjórninni, sem var öll á staðnum, að hafa rafræna kosningu. Niðurstaðan var afgerandi og 87% af þeim sem tóku afstöðu vildu slíta stjórnarsamstarfinu. Þetta er sá háttur sem við höfum haft á við atkvæðagreiðslur. Þetta er fjölbreyttur hópur sem dreifður er úti um allt og mikilvægt að allir getið tekið þátt í atkvæðagreiðslum.“

Þarna voru örlög ríkisstjórnarinnar ráðin. Föstudaginn 15. september komu þingflokkar stjórnmálaflokkanna saman og varð ljóst að þeir töldu eðlilegast, allir nema Píratar, að þing yrði rofið og gengið til kosninga.

V.

Bjarni Benediktsson sagði ekkert opinberlega um afstöðu sína fyrr en á blaðamannafundi í Valhöll klukkan 16.30 föstudaginn 15. september þar sem hann gerði grein fyrir gangi mála frá sínum sjónarhóli. Hann sagði (reist á frásögn Morgunblaðsins laugardaginn 16. september):

„Þegar ég stóð í þessum sporum [að dómsmálaráðherra hafði skýrt honum frá bréfi föður hans] var mér sem sagt mest umhugað um að þetta mál fengi enga sérmeðferð og þyrfti að lúta sömu lögum og reglum og öll önnur sambærileg mál. Ég hef aldrei á nokkrum tímapunkti beitt mér fyrir því að málinu yrði stungið undir stól, að því yrði haldið frá mönnum eða með einhverjum hætti yrði reynt að hylma yfir málsmeðferðina. En það er nú að miklu leyti það sem umræða vikunnar hefur jú snúist um.

Mér varð það síðan ljóst fyrir nokkrum dögum, vegna þess að fjölmiðlar höfðu lagt fram fyrirspurnir sem gáfu til kynna að þeir hefðu þá þegar upplýsingar um þetta viðkomandi umsagnarbréf föður míns, …að það stefndi í opinbera umfjöllun um það mál, alveg óháð niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Á þeim tímapunkti tók ég ákvörðun um að greina formönnum hinna stjórnarflokkanna beggja frá því að þess mætti vænta að málið kæmi fram í opinbera umræðu. Og ég lét þess um leið getið að þarna væri um að ræða mál sem mér hefði verið ókunnugt um meðan það var til málsmeðferðar… Þetta gaf ekki tilefni til mikillar umræðu milli mín og formanna hinna stjórnarflokkanna á þeim fundi sem við sátum á.

Það kom mér þess vegna algerlega í opna skjöldu þegar ég fékk þau tíðindi í gær [fimmtudaginn 14. september] að menn segðu að þeir vildu ganga út úr stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn vegna alvarlegs trúnaðarbrests sem hefði orðið í þessu máli. Þau rök finnst mér ekki standast neina skoðun. Í fyrsta lagi bendi ég á að mér var að lögum óheimilt að deila upplýsingum um þetta mál. Í öðru lagi greip ég fyrsta tækifæri sem ég hafði til þess að deila með samstarfsmönnum mínum upplýsingunum, sem þóttu jú þetta viðkvæmar. Og í þriðja lagi finnst mér… þegar menn eru að velta fyrir sér hvort hér sé eitthvert óhreint mjöl í pokahorninu hvað varðar mína aðkomu að málinu, eða stjórnsýslulega meðferð málsins, að þá hljóti að ráða úrslitum hvort málið hafi fengið sérmeðferð eða hvort maður hafi með einhverjum hætti haft puttana í málinu. Það hefði ég haldið að væri kjarni máls. En ekkert af þessu átti við.“

VI.

Bjarni Benediktsson gekk á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands á Bessastöðum laugardaginn 16. september. Eftir fundinn sendi forseti frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Fyrr í morgun gekk forsætisráðherra á fund minn vegna þeirra tíðinda að ráðuneyti hans nýtur ekki lengur meirihlutastuðnings á Alþingi. Forsætisráðherra baðst því lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Ég samþykkti þá lausnarbeiðni en fól forsætisráðherra og ráðuneytinu að sitja áfram uns ný ríkisstjórn hefur verið mynduð í samræmi við stjórnskipun landsins. Á fundi okkar ræddum við einnig þá eindregnu ósk allra þingflokka að þing verði rofið og gengið til kosninga innan fárra vikna.

Eftir hádegi mun ég kalla leiðtoga annarra stjórnmálaflokka á Alþingi á minn fund og fá staðfest sjónarmið þeirra um þingrof og kosningar. Að því loknu má vænta frekari tíðinda í þeim efnum. Eftir helgi mun forsætisráðherra ganga á minn fund á ný.“

Forseti Íslands kannaði í samtölum við leiðtoga stjórnmálaflokkanna hvort vilji væri til að mynda annars konar ríkisstjórn en þá sem sat og splundraðist.

Alþingi kom saman til fundar mánudaginn 18. september og var eitt mál á dagskrá, tilkynning forsætisráðherra um þingrof og alþingiskosningar Bjarni Benediktsson sagði:

Forseti Íslands hefur ritað svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt, samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með vísan til 24. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, eins og henni var breytt með 5. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 56/1991, samanber 21. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, er ákveðið að þing verði rofið 28. október 2017 og að almennar kosningar til Alþingis fari fram sama dag. […] Virðulegi forseti. Við þekkjum öll aðdraganda þess að ég hef í dag lagt fyrir forseta það bréf sem ég hef hér lesið upp, en það formsatriði er hér með uppfyllt að bréfið sé tilkynnt á Alþingi til að það taki þar með gildi.“

Innan við viku eftir að Ólafur Þ. Harðarson spáði því að í hönd færi frekar tíðindalítill stjórnmálavetur var ríkisstjórnin sprungin, þing hafði verið rofið og boðað var til nýrra kosninga.

VII.

Hér hefur verið lýst sögulegu ferli og leitast við að skýra það með orðum þeirra sem mest á mæddi. Þar er hlutur Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Á. Andersen stærstur. Þau koma bæði heil frá orrustunni.

Bjarni er orðinn þjálfaður í átökum þar sem ráðist er hann af óbilgirni vegna athafna annarra. Hann lét árásirnar nú ekki hagga sér heldur hélt á málinu af festu og leiddi það í réttan farveg með því að leggja það í dóm kjósenda. Hann sýndi frumkvæði forystumanns á örlagastundu. Forystumenn hinna stjórnarflokkanna urðu að engu. Engu var líkara en þeir gerðu sér ekki grein fyrir afleiðingum stjórnarslitanna.

Innan Viðreisnar brást ráðgjafaráð við á þann veg að krefjast afsagnar Bjarna og Sigríðar á meðan rannsókn málsins færi fram: Afsagnar ráðherra sem höfðu beðist lausnar! Þá lét Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í veðri vaka að ef til vill sætu hann og samflokksmenn hans ekki í starfsstjórninni.

Sigríður lét ekki slá sig út af laginu heldur lagði spilin á borðið af einurð og hreinskilni. Hún hafði skýr rök fyrir hverju skrefi sem hún steig. Eftir að engum duldist að hún hefði tekið á málum vegna uppreistar æru á annan veg en forverar hennar á ráðherrastóli héldu andstæðingar hennar dauðahaldi í kenninguna um að samtal hennar við Bjarna Benediktsson væri hluti af einhverju samsæri sem þyrfti að upplýsa.

Dómsmálaráðherra sat opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis þriðjudaginn 19. september og svaraði greiðlega. Það lýsir vel vinnubrögðum Pírata að Jón Þór Ólafsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmenn flokksins, sögðu í lok fundarins að mörgum spurningum væri enn ósvarað. Þar mætti til að mynda nefna spurninguna hvort starfsmanni ráðuneytisins hefði verið heimilt að upplýsa ráðherrann um aðkomu föður forsætisráðherra, sagði í frásögn fréttastofu ríkisútvarpsins. Augljóst er að Píratar eru alltaf við sama heygarðshornið – þeir telja sig aldrei fá fullnægjandi svör og geta því aldrei tekið afstöðu til mála. Stjórnmálamenn af þessu tagi dæma sig úr leik, enginn vill starfa með þeim.

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, tók að sögn fréttastofunnar í sama streng og Píratar sem sýnir á hvaða leið 101-armur VG er í aðdraganda kosninganna. Taldi Svandís fá svör hafa verið gefin við spurningum sem hefðu kviknað í tengslum við stjórnarslitin!

Varla hefur þingflokksformaður VG í raun vænst þess að dómsmálaráðherra gæti sett sig í spor þeirra sem hittust heima hjá Óttari Proppé að kvöldi 14. september og afgreiddu í hring, hver á innan við 90 sekúndum, að þeir ættu að slíta stjórnarsamstarfinu vegna máls sem var í raun órætt og ókannað.

Á vefsíðu Bjartrar framtíðar var þessi texti birtur föstudaginn 15. september:

„Stjórn Bjartrar framtíðar hefur ákveðið að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ástæða slitanna er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar.“

Styttra gat það ekki verið og getur hver ráðið í textann að vild.

Ráðgjafaráð Viðreisnar ályktaði hins vegar sunnudaginn 17. september á þann veg að ráðherrar flokksins ættu að sitja í starfsstjórninni og sagði ráðið einnig:

„Jafnframt ítrekar ráðið að nauðsynlegt sé að embættisfærsla ráðherra í málum sem leiddu til stjórnarslitanna verði rannsökuð og að niðurstaða liggi fyrir áður en gengið verður til kosninga.“

Þessi málflutningur dugar flokkunum ekki nema í nokkra daga.

VIII.

Sigurður I. Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, kannaði föstudaginn 15. september hvort vilji væri til að reyna að koma á fót „einhvers konar minnihlutastjórn“. Ekki hefði verið „vilji til þess að verja hana“ sagði hann við mbl.is miðvikudaginn 20. september. Hann hefði einkum horft til stjórnar VG, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Síðan hefði hann þriðjudaginn 19. september heyrt um „einhverjar þreifingar um fimm flokka stjórn sem ég fékk þó ekki skilið því það væri þá fyrst og fremst verið að tala um ríkisstjórn fyrir næstu sex vikurnar,“ sagði formaður Framsóknarflokksins.

Þetta minnir á að erfitt verður að mynda ríkisstjórn eftir kosningar fái sjö eða átta flokkar menn kjörna á þing. Stóra línan í stjórnmálum er á milli Sjálfstæðisflokks og VG. Það má bæði líta á hana sem markalínu eða línu sem þarf að stytta svo að flokkarnir geti starfað saman.

Á flokksráðsfundi VG 19. ágúst 2017 sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG:

„Vaxandi misskipting gæðanna sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi og nú er svo komið að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því.“

Hvað felst í þessum orðum? Hvaða efnahagskerfi vill flokksformaðurinn? Kerfið í Venezúela? Þar er skýrasta dæmið um örlög þjóðar sem lýtur stjórn manna sem risu gegn „því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi“.

Bjarni Benediktsson bauð Katrínu lykilinn að fjármálaráðuneytinu, vildi hún ganga til ríkisstjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Katrín sagði „bakland“ sitt ekki vilja slíkt samstarf. Það er fólkið að baki Svandísi Svavarsdóttur í VG-101. Treysta Sjálfstæðismenn VG-mönnum sem vilja kollvarpa efnahagskerfinu?

Eftir að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, lagði fram fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2018 þótti mörgum Sjálfstæðismönnum nóg um skatta- og útgjaldahækkanirnar og skortinn á uppstokkun í ríkiskerfinu. Varla yrði það betra með VG við stjórn ríkisfjármála.

Smíði samsæriskenninga og gerð krafna um rannsókn á einhverju sem hefur verið upplýst má ekki verða til þess að stóra línan gleymist. Línan sem ræður hvort hér er samfélag þar sem framtak og dugnaður einstaklinga fær að njóta sín eða þjóðfélagskerfi þar sem allir keppast við að tryggja eigin hag með kröfum á hendur ríkinu.

Af vettvangi stjórnmálanna birtist í hausthefti Þjóðmála, 3. tbl. 2017.