Ísland í 14. sæti frelsisvísitölunnar – neðst Norðurlandanna

Danmörk, Svíþjóð og Noregur raða sér í þrjú efstu sætin yfir mesta frelsi einstaklinga samkvæmt frelsisvísitölu þriggja hugveitna. Ísland er í sjöunda sæti. Efnahagslegt frelsi er hins vegar talið mest í Hong Kong, Singapore og á Nýja-Sjálandi. Finnland er efst Norðurlandanna í tíunda sæti en Ísland er neðst í 37. sæti.

Í heild er Ísland í 14. sæti frelsisvísitölunnar en efst trjóna Hong Kong, Sviss og Finnland.
Það eru þrjár hugveitur sem standa að umfangsmikilli rannsókn á ýmsum þáttum einstaklings- og efnahagslegs frelsis í 152 löndum heimsins – Cato stofnunin í Bandaríkjunum, Fraser stofnunin í Kanada og Friedrich Naumann frelsisstofnunin í Þýskalandi. Að baki frelsisvísitölunni eru 76 þættir er mæla mannréttindi, einstaklingsfrelsi og efnahagslegt frelsi. Þar með talið öryggi borgaranna, ferðafrelsi, trúfrelsi, félagafrelsi, tjáningafrelsi og rétturinn til að koma saman, stærð hins opinbera, lagaumhverfi og vernd eignaréttarins, frelsi til alþjóðlegra viðskipta, aðgangur að traustum gjaldmiðli, og regluverk fjármálamarkaðar, vinnumarkaðar og viðskipta.

Það kemur ekki á óvart að frelsi skuli vera mest í Norður-Evrópu, Norður-Ameríku (Bandaríkin og Kanada) og í Vestur-Evrópu. Minnst er frelsið samkvæmt frelsisvísitölunni í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku, löndunum sunnan Sahara og í Suður-Asíu.

Kína er í 132. sæti listans og Rússland í 111. sæti. Bæði löndin langt undir meðaltali.

Þau lönd sem búa við mest frelsi njóta einnig mestrar velmegunar en beint samhengi er á milli frelsis og landsframleiðslu á mann. Að meðaltali er landsframleiðsla á mann um 30 þúsund dollarar í löndunum sem raða sér í efsta fjórðung frelsis en landsframleiðsla ríkja sem eru í neðsta fjórðungi frelsisvísitölunnar er aðeins rúmir 2.600 dollara á íbúa.Frelsisvísitala_edited-1