Óskalisti stjórnmálaflokks

Skafti Harðarson

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er haldinn á tveggja ára fresti. Laugardalshöllina þarf undir fundinn, enda fulltrúar á annað þúsund þegar vel tekst til. Fundirnir eru sérstaklega spennandi þegar tekist er á um embætti formanns og varaformanns eins og þegar Davíð Oddsson bauð sig fram gegn sitjandi formanni, Þorsteini Pálssyni. En það er sjaldnast sem slík meiriháttar átök eiga sér stað. Oftar en ekki er það málefnastarfið og félagslegi þátturinn sem mest fer fyrir; að koma sér saman um málefnin og hitta gamla og nýja skoðanabræður.

Málefnastarfið mestan tíma landsfundar og það sem virkjar flesta fulltrúa. Fyrir nokkrum árum var fyrirkomulagi málefnastarfsins breytt þannig að á landsfundi eru kosnir fulltrúar í málefnanefndir og nefndirnar eru þær hinar sömu og fastanefndir Alþingis; allsherjar- og menntamálanefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd. Sá er flest atkvæði hlýtur í kjöri til hverrar nefndar er jafnframt formaður nefndarinnar og situr í flokksráði. Eftir nokkru er því að sækjast. Þetta fyrirkomulag hefur gefist ágætlega og margar nefndirnar verið mjög starfssamar, staðið fyrir opnum fundum um tiltekin málefni, og jafnframt opnað starf nefndanna í aðdraganda Landsfundar.

Málefnanefndirnar semja drög að álykt-unum sem ræddar eru á í stærri hópum á Landsfundi þar sem landsfundafulltrúar geta valið sér sitt áhugasvið og komið með breytingatillögur. Á síðustu fundum hefur miðstjórn gert þeim sem vilja koma breytingum í gegn erfiðara fyrir með breytingum á fundarsköpum. En þrátt fyrir það taka drög málefnanefndanna miklum breytingum og á haustið 2015, voru gerðar miklar og róttækar breytingar á flestum drögunum, og til mikilla bóta frá sjónarmiði þeirra sem vilja auka frelsi einstaklingsins og minnka umsvif hins opinbera. Var það ekki síst að þakka kraftmikilli þátttöku ungra Sjálfstæðismanna sem skipulögðu vinnu sína vel í aðdraganda fundar og ekki síður meðan á fundi stóð. Ungir Sjálfstæðismenn skiluðu inn um 100 breytingartillögum við drög ályktana og fengu yfir 80 þeirra samþykktar.
Hafa þarf í huga að á landsfundi Sjálfstæðis-flokksins koma saman fulltrúar frá öllu landinu, úr öllum atvinnugreinum, á öllum aldri og með mismunandi sjónarmið. Það er því tekist á um margt þegar komast á að samkomulagi um ályktanir. Og stundum er hressilega tekist á.

Hver er tilgangurinn?

En hvaða tilgangir þjónar málefnastarf sem þetta? Fyrir leikmenn mætti oft ætla að til lítils væri að vinna. Þannig segir í lokaútgáfu ályktunar allsherjar- og menntamálanefndar á Landsfundi 2015:

„Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðli verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd.”

Og enn fastar er að orði komist í ályktun fjárlaganefndar:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur að selja eigi ákveðnar ríkiseignir s.s. eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, rekstur flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og annan verslunarrekstur Isavia sem og RÚV.”

Varla voru Landsfundafulltrúar komnir til síns heima þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins lagði til að nefskattur Ríkisútvarpsins yrði hækkaður frá því sem ætlað er í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2016 og ekki virðist nokkurra breytinga að vænta á rekstri Ríkisútvarpsins, þessa nátttrölls á fjölmiðlamarkaði, sem aðeins getur starfað í skjóli þvingaðrar áskriftar.

Ekki þarf mikla skarpskyggni til að sjá að ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru ólíklegir til að gera mikið með aðrar róttækar tillögur sem samþykktar voru. Er ekki ólíklegt að þar megi skýra að nokkru slaka útkomu flokksins í kosningum til Alþingis og í skoðanakönnunum síðustu tveggja ára. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur leiðandi afl í baráttunni fyrir frelsi einstaklingsins og minni afskiptum hins opinbera. Ungt fólk sér aðeins endurspeglast í flokknum lítt spenn-andi talsmenn miðjumoðs sem aðeins sjá lausnir í lögum og reglugerðum stjórnmála- og embættismanna.

Ályktanir skipta miklu máli

En ályktanir landsfundar skipta miklu máli. Innihald þeirra er hin formlega afstaða Sjálfstæðisflokksins til þeirra mála sem um er fjallað. Þannig geta að sjálfsögðu kjörnir fulltrúar flokksins, hvort sem er í sveitastjórnum eða á þingi, verið þeim ósammála og fylgt frekar samvisku sinni – það er þeirra réttur. En á grundvelli þessara ályktana getum við mælt hversu samstíga þessir fulltrúar flokksins eru grasrót hans. Og það þarf að virkja grasrótina til að taka afstöðu til fulltrúa sinna á grundvelli sannfæringar þeirra, en ekki á grundvelli þess hversu þekktir þeir eru í fjölmiðlum, ekki hversu lengi þeir hafa setið á þingi eða í sveitastjórn, ekki hvaða starfi þeir hafa áður gegnt eða hvort í hlut á karl eða kona, ungur eða gamall.

Það er vel þekkt erlendis að ýmis samtök halda því til haga hver afstaða þingmanna er til einstakra mála og síðan mælt hvernig það samrýmist málefnum viðkomandi samtaka. Það væri áhugavert ef ungir Sjálfstæðismenn héldu svipaða skrá um afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili til einstakra mála og legðu síðan mat á hvort kosið væri með frelsi eða helsi, hærri eða lægri útgjöldum, hærri eða lægri sköttum, fleiri eða færri reglugerðum o.s.frv. Mæli-kvarðarnir eru á stundum erfiðir, en ályktanir landsfundar koma sér hér vel. Þær eru sá mælikvarði sem eðlilegt er að miða við.

Sum mál eru einföld. Þannig tók landsfundur skýra afstöðu til að:

– staðgöngumæðrum skal leyfð
– í öllum tilvikum skal hæfni ráða för við ráðningu í opinber störf (kynjakvótum hafnað)
– stöðva ber birtingu nafngreinanlegra upplýsinga úr skattframtölum með framlagningu álagningaskrár
– ríkið á ekki að standa í útgáfu námsefnis
– listamenn skuli ekki vera á launaskrá hjá ríkinu
– þeir sem heimsæki ferðamannastaði greiði fyrir uppbyggingu þeirra
– verslun með áfengi verði gefin frjáls
– einfalda ber allt regluverk
– lækka ber skatt og fækka skattþrepum

Ekki sannfærandi og vont fordæmi

Hér er aðeins getið örfárra atriða, en flokkur sem ályktar, án athugasemda eða mót-atkvæða, um lækkun útgjalda hins opinbera úr 45% af landsframleiðslu í 35% á næstu tíu árum, er ekki sannfærandi þegar ríkisútgjöld hækka verulega umfram verðbólgu frá ári til árs undir hans forystu. Fulltrúar flokksins í sveitastjórnum kvarta sáran undan „tekjuvanda” og ekkert fer fyrir niðurskurði útgjalda og lækkun skulda. Hið opinbera gengur á undan með slæmu fordæmi í eftirgjöf í kjara-samningum til hálaunahópa og ætlast síðan til að aðrir sýni gott fordæmi. Þannig ráðslag kallar ekki á tiltrú kjósenda og grefur undan vilja stuðningsmanna til að tala máli flokksins út á við.

Góð frammistaða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Árborg, undir forystu Eyþórs Arnalds, kjörtímabilið 2010–2014, ætti hins vegar að tala öðru máli. Tekið var á fjármálum sveitar-félagsins af myndugleika, skorið niður og sparað, enda skuldastaðan ekki sjálfbær. Þrátt fyrir hrakspár þá hélt Sjálfstæðisflokkurinn hreinum meirihluta og bætti aðeins stöðu sína. Hræðsla við að standa við stóru orðin skilar engu þegar upp er staðið. Kjósendur eru fullfærir um að greina á milli orða og efnda.

Sá samstillti hópur ungs fólks sem stóð fyrir miklum og góðum breytingum á ályktun-um landsfundar þarf nú að fylgja því eftir með því að vinna þeim fylgi meðal kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í sveitastjórnum og á þingi. Og styðja vel við þá frambjóðendur í prófkjörum næstu ára sem enduróma viðhorf frjálslyndis – ekki frjálslyndis á annarra manna fé, heldur á frelsi til orðs, athafna og ráðstöfunar eigin aflafjár. Og líka víðsýni; að sjá ekki stétt, ekki kyn, ekki litarhátt, ekki trúarbrögð – heldur aðeins einstaklinga – alla ólíka með mismunandi langanir, þrár og væntingar og ólíkar leiðir til að nálgast markmið sín í lífinu. Einstaklingar fá ótrúlega miklu áorkað án „heildarskipulags”, án niðurgreiðslu eða sérréttinda, án allrar íhlutunar hins opinbera. Það þarf að veita stjórnmála-mönnum brautargengi sem hafa þessa lífssýn og bein í nefinu til að fylgja þeim eftir.

Ofurtrú á mátt hins opinbera

Við ramman reip er að draga því trúin á sjálfsprottið skipulag samfélagsins, frjáls samskipti einstaklinga og samtaka þeirra á markaði, virðist á stundum ekki rista djúpt, jafnvel hjá grasrótinni í Sjálfstæðisflokknum. Það glittir í þá ofurtrú á mátt hins opinbera sem gegnsýrir allt íslenskt samfélag. Þannig ályktar landsfundur undir formerkjum umhverfis- og samgöngunefndar:

„Reynslan hefur sýnt að skynsamleg og hafkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands er að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila. Nýting þarf að vera innan sjálfbærra þolmarka. Upplifun ferðamanna af villtri og óspilltri náttúru er mikilvæg auðlind í ferðaþjónustu, stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnuvegi þjóðarinnar.”

Allt er þetta með ágætum, en svo lýkur málsgreininni á þessari setningu:

„Þetta ber að hafa í huga við heildarskipulag ferða-þjónustu og annarra atvinnuvega.”

Heildarskipulag atvinnuvega? Atvinnuvegir eru ekki „skipulagðir”, þeir eru sjálfsprottnir í umhverfi stofnana sem annað tveggja hafa þróast í tímans rás eða með afskiptum löggjafans eða annars yfirvalds. Minni afskipti hins opinbera, skýr og vel varinn eignarréttur, frelsi einstaklingsins og frjálsir markaðir er það sem best hefur gefist til að byggja upp atvinnuvegi, og þar með betri lífskjör. Velmegun er ekki sköpuð með regluverki eða „samfélagsverkfræði”. Heildarskipulag atvinnuvega viðgengst líklega aðeins í Norður-Kóreu.

En trúin á ríkisvaldið og mátt þess til að gera vel er ótrúlega sterk í íslensku samfélagi, einnig hjá þeim sem kenna sig við hægrimenn. Þannig var í upphaflegum drögum að landsfundarályktun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þessi setning:

„Í stjórnarskránni ætti að vera ákvæði um að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, séu ævarandi eign íslensku þjóðarinnar sem nýttar skuli með sjálfbærni og hagmuni allra að leiðarljósi.”

Þessi setninga var felld út úr ályktuninni, en ekki fyrr en við lokaafgreiðslu. Þetta er lagt til þrátt fyrir að sagan segi okkur að auðlindir eru best komnar í dreifðri eign einstaklinga og samtaka þeirra. Ríkiseign auðlinda er uppskrift að örbirgð og fátækt. Auk þess er sú auðlind sem mestu máli skipir hvorki fiskur né fallvötn heldur fólk. Og sem betur fer eru þau fá samfélögin sem hefur tekist að ríkisvæða að fullu þá auðlind.

Og helsta auðlind Sjálfstæðisflokksins er auðvitað það unga fólk sem „tók völdin” á landsfundinum haustið 2015. Það verður verðugt verkefni þeirra að gera orð að
athöfnum og fylgja því eftir að fulltrúar flokksins á þingi og í sveitarstjórnum fylgi eftir óskalista grasrótarinnar. Og í því verkefni eiga þau sér fleiri fylgismenn með grátt í vöngum en þau grunar.

Skafti Harðarson er formaður
Samtaka skattgreiðenda.